Formleg hagsmunaskráning fulltrúa. Lýðræðislegur farvegur frumvarps.

Kristbjörg Þórisdóttir
  • Heimilisfang: Hulduhlíð 9, 202
  • Skráð: 13.04.2011 00:23

Mosfellsbær, 13.4.2011

Ágætu stjórnlagaráðsfulltrúar.

Um leið og ég óska ykkur til hamingju með kjörið og óska ykkur velfarnaðar í þeirri mikilvægu vegferð sem þið eruð að leggja í vil ég koma með tvær ábendingar.

Sú fyrri lýtur að formlegri hagsmunaskráningu og sú síðari lýtur að lýðræðislegum farvegi fyrir drög að nýrri stjórnarskrá.

Þið eruð einstaklingar sem hafið boðið fram krafta ykkar til þess að taka þátt í sögulegri endurskoðun stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Starf ykkar á sér því enga hliðstæðu og ábyrgð ykkar er mjög mikil. Hluta þeirra orsaka sem ollu því að hérlendis hrundi efnahagslífið má rekja til kunningjasamfélagsins, ógagnsæis, ófaglegra vinnubragða og skorts á formfestu. Um þetta er fjallað meðal annars í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndar Alþingis. Til þess að Stjórnlagaráð og fulltrúar þess geti notið þess trausts sem nauðsynlegt er til þess að fylkja þjóðinni á bakvið sig og drög að nýrri stjórnarskrá tel ég grundvallaratriði að ferlið sé eins gagnsætt og kostur er og endurspegli góð og fagleg vinnubrögð.

Það er lykilatriði að stjórnlagaráðsfulltrúar geri grein fyrir hagsmunatengslum sínum með formlegum hætti. Þar horfi ég til þess fordæmis sem Alþingi Íslendinga hefur nú þegar skapað. Skrifstofa Alþingis heldur skrá og birtir opinberlega með formlegum hætti upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni alþingismanna og trúnaðarstörf þeirra utan þings en finna má reglurnar á þessari vefslóð:http://www.althingi.is/vefur/hagsmunaskraning_reglur.html.

Ég tel mjög mikilvægt að Stjórnlagaráð birti með sama hætti opinberlega upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni og trúnaðarstörf fulltrúa sinna og hvet alla stjórnlagaráðsfulltrúa að gera það hið allra fyrsta. Með því að sýna gagnsæi í verki er mun líklegra að þið byggið upp traust á ykkur og störfum ykkar hjá þjóðinni.

Einnig tel ég grundvallaratriði að þau drög sem Stjórnlagaráð leggur fram verði send í lýðræðislegan farveg með dómi þjóðarinnar þar sem greidd verði atkvæði um einstaka kafla og/eða greinar áður en Alþingi fær þau til afgreiðslu. Það tel ég vera besta lýðræðislega farveginn á vinnu ykkar og að sama skapi auka líkur á því að þjóðin fylki sér á bakvið nýja stjórnarskrá áður en einstakir þingmenn fá tækifæri til þess að gera breytingar á drögunum.

Með virðingu og vinsemd,
Kristbjörg Þórisdóttir.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.