Endurskoðun á trúmálakafla

Hjalti Hugason
  • Heimilisfang: Laugarnesvegi 94, 105 Reykjavík
  • Skráð: 15.04.2011 14:21

Lagt til að 62.-64. og eftir atvikum 2. málsgr. 79. gr. stjónarskrárinnar verði sameinaðar. Þá er lagt til að hin sameinaða grein verði færð yfir í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Virðist eðlilegt að endurskoðuð trúfrelsisgrein komi á eftir greinum sem fjalla um almennt skoðunar-, tjáningar-, og félagafrelsi. (þ.e. eftir núv. 74. gr.).

Hin endurskoðaða grein gæti hljóðað á eftirfarandi hátt:

Allir eiga rétt á að iðka trú eða lífsskoðun í samræmi við sannfæringu sína og að stofna um það félög. Öllum er frjálst að standa utan slíkra félaga. Enginn má skorast undan almennri þegnskyldu vegna trúar- eða lífsskoðana. Enginn er skyldur til að greiða persónuleg gjöld til trú- eða lífsskoðunarfélags sem hann á ekki aðild að.

Ríkisvaldið skal styðja og vernda öll skráð trú- og lífsskoðunarfélög.

Evangelíska lúterska kirkjan er þjóðkirkja á Íslandi. Breyta má þessu með lögum. Slík lög skal bera undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar í leynilegri atkvæðagreiðslu.[1]

Greinargerð:

Íslenska samfélagið stendur á þröskuldi fjölmenningar. Að öllum líkindum mun það þróast í sömu átt og samfélög annars staðar í Evrópu þar sem fólk af mismunandi þjóðerni, kynþáttum og trúarbrögðum lifir hlið við hlið. Það kallar á að í stjórnarskrá sé skapaður rammi um hvernig fólk sem hingað leitar fær aðlagast íslensku samfélagi (t. d. með ákvæðum um ríkisborgararétt o. fl.) en jafnframt haldið sérkennum sínum þar á meðal trúarlegum sérkennum innan eðlilegra marka. Trú og trúariðkun skipar oft veigamikinn sess í félagslegri og einstaklingsbundinni sjálfsmynd þess. Útfærð trúfrelsisákvæði  eru því ekki síst nauðsynleg til að verja mannréttindi fólks sem hefur flust hingað búferlum og myndar trúarlega minnihlutahópa. Eins þarf trúfrelsi að tryggja stöðu þeirra sem standa vilja utan allra trúfélaga og/eða hafna trú. Meirihlutinn - hér á landi evangelísk-lútherska kirkjan - þarf   síður á víðtæku trúfrelsisákvæði að halda vegna þeirrar stöðu sem meirihluti hlýtur ávalt að hafa.

Jafnræðisregla stjórnarskrárinnar (núv. 65. gr.) er mikilvæg grundvallarregla þegar um trúfrelsi er að ræða. Hún ein og sér nægir þó tæpast til að skilgreina og afmarka trúfrelsi. Á það ekki síst við þegar ætla má að trúarlegum minnihlutahópum sem víkja í veigamiklum atriðum frá því sem hefur verið viðtekið og þekkt hér á landi á að öllum líkindum eftir að fjölga og þeir að öðlast meiri ítök í samfélaginu.  Því er mikilvægt að í stjórnarskránni verði áfram sérstakt ákvæði um trúfrelsi þrátt fyrir að ýmsar breytingar á núgildandi trúmálabálki séu æskilegar.

Við breytingar á trúfrelsisákvæðum stjórnarskrárinnar virðast eðlileg markmið vera að 1) tryggja jafnræði fólks óháð trúar- og lífsskoðunum, 2) tryggja rétt fólks til að tjá trúar- og lífsskoðanir sínar og iðka þær í einrúmi eða með öðrum, 3) tryggja rétt fólks til að hafna slíkum skoðunum og 4) jafna stöðu trúfélaga eftir því sem eðlilegt má telja með tilliti til stöðu þeirra í samfélaginu sem og jafna stöðu trú- og lífsskoðunarfélaga.

Í anda þessara markmiða er framangreind tillaga send Stjórnlagaráði. Tillagan gengur út frá því að byggt verði á grunni núgildandi trúfrelsisákvæða stjórnarskrárinnar enda var orðalag þeirra í veigamiklu atriði fært til nútímahorfs í lok 20. aldar. Þó skal mælt með að gengið sé afdráttarlausar út frá rétti einstaklinga en nú er gert.

Hinu breytta trúfrelsisákvæði er ætlað að að taka af tvímæli um skoðana-, tjáningar- og félagafrelsi á hinu trúarlega sviði. Þá er því ætlað að standa vörð um rétt þeirra sem standa vilja utan allra trúfélaga og trúariðkunar.

Jafnræðisreglan (65. gr. stjskr.) virðist kveða á fullnægjandi hátt á um að ekki megi skerða rétt fólks vegna trúar eða lífsskoðana. Af þeim sökum virðist óhætt að fella brott sértækt ákvæði um að enginn megi „neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna" eins og segir í núv. 64. gr. stjórnarskrárinnar. Aftur á móti er ljóst að setja þarf trúfrelsinu útmörk og undirstrika að fólk, til dæmis einhver trúarlegur minnihluti, geti ekki með skírskotun til trúar skorast undan „almennri þegnskyldu" eins og segir í sömu grein. Þó má líta svo á að núverandi 64. gr. sem kveður bæði á um réttindi og skyldur í þessu efni búi yfir jafnvægi sem vert sé að halda í. Hér skal því sjónarmiði ekki mótmælt. Svo virðist samt að tilvísun til almennrar þegnskyldu nægi til að draga útmörk trúfrelsisins en í henni hlýtur meðal annars að felast að óheimilt sé að brjóta gegn lögum lýðveldisins af trúarástæðum eða með tilvísun til trúar en það er merking síðari liðar núv. 63. gr. stjórnarskrárinnar þar sem vísað er til „góðs siðferðis" og „allsherjarreglu". Hugsanlega þykir einhverjum eftirsjá af þessu hátíðlega orðfæri frá 19. öld. Í það má að ósekju halda þó merking þess sé óljós.[2]

Sú tillaga sem hér er gerð felur í sér „strúktúrbreytingu" í þá veru að trúmálabálkur stjórnarskrárinnar er felldur brott og efni hans sameinað mannréttindakaflanum. Þá er einstaklingurinn og réttur hans færður fram fyrir trúfélögin og stöðu þeirra og þar með tekið tillit til aukinnar einstaklingshyggju í samfélaginu í trúarlegum efnum. Þá er hlutur ýmiss utanþjóðkirkjufólks og þeirra sem standa utan trúfélaga bættur með því að leggja trú- og lífsskoðunarfélög að jöfnu. Loks er öllum trú- og lífsskoðunarfélögum gert jafnhátt undir höfði þar sem kveðið er á um almennan stuðning og vernd öllum þeim trú- og lífsskoðunarfélögum til handa sem sækjast eftir skráningu á grundvelli laga þar að lútandi.

Á 19. öld mátti líta svo á að þjóðkirkjuskipan væri ein af forsendum trúfrelsis þar sem henni var ætlað að binda enda á það fyrirkomulag að ríkisvaldið væri trúarlega skilgreint og ríki og kirkja mynduðu samhæfða heild. Því var ekki óeðlilegt að kirkjuskipan kæmi á undan trúfrelsisákvæðum í stjórnarskránni frá 1874. Nú á dögum virðist sú niðurskipan óheppileg og að æskilegra sé að þá fyrst sé vikið að sérstöðu meirihlutakirkjunnar er kveðið hefur verið á um trúfrelsi einstaklinga og stuðning og vernd öllum trú- og lífsskoðunarfélögum til handa. Í þeirrri kirkjuskipan sem hér er lögð til er aðeins sagt að sú kirkja sem meirihluti þjóðarinnar kýs að tilheyra skuli hafa nokkra sérstöðu sem frekar sé skýrð í lögum þar til löggjafa og þjóð kemur saman um að breyta ákvæðinu. Fær kirkjuskipanin þar með hlutlausari stöðu en nú er raunin og kveður fyrst og fremst á um táknræna sérstöðu vegna yfirburðastærðar, hlutverks og sögu lúthersku kirkjunnar í landinu.

Öll rök hníga að því að kirkjuskipaninni í upphaflegri 3. (núv. 4.) gr. dönsku stjórnarskrárinnar frá 1849 og í upphaflegri 45. (núv. 62.) gr. íslensku stjórnarskrárinnar frá 1874 hafi einvörðungu verið ætlað lýsandi hlutverk. Í því felst að ríkisvaldinu hafi verið ætlað að styðja við trúarhefð alls þorra fólks í löndunum tveimur. Af þeim sökum virðist ljóst að breyta beri orðalagi núverandi kirkjuskipanar til lýsandi horfs og svifta hana þeim stefnumótandi (normerandi) undirtónum sem hún kann að hafa í eyrum margra í núverandi mynd. Þá virðist heppilegt að færa ákvæði 2. málsgr. 79. gr. stjórnarskrár  (um staðfestingu þjóðarinnar á lögum um breytingar á núv. 62. gr.) inn í kirkjuskipanina sjálfa og kveða þannig á um hana á einum stað. Síðarnefnda atriðið er þó ekki stórvægilegt og má eins fjalla um það í tengslum við stjórnarskrárbreytingar líkt og nú er þó kostir þess séu ekki augljósir.

Með þeim breytingum sem hér voru kynntar er leitast við að leggja almennan grunn að trúarpólitískri stefnu í landinu sem rúmar meiri jöfnuð en nú er kveðið á um í stjórnarskránni. Hin nýja stjórnarskrárgrein ætlar löggjafanum líkt og núverandi kirkjukipan gerir að ákveða hvaða styrk og vernd hann veitir einstökum trú- og lífsskoðunarfélögum, hvort hann veitir þeim öllum sama styrk að breyttu breytanda eða hvort þjóðkirkjan njóti áfram einhverrar sérstöðu í þessu efni, sem og hvort öll slík félög verða styrkt eða styrkurinn bundinn við skráningu. Styrkurinn og verndin gæti að verulegu leyti byggst á gagnkvæmum samningum milli ríkisins og einstakra trú- og lífsskoðunarfélaga sem veittu hinu opinbera aukna innsýn í starf sitt, tækju á sig áveðin hlutverk en hlytu í staðinn tiltekinn styrk. Núverandi ákvæði um sérstakan styrk þjóðkirkjunni til handa þarf þó vissulega ekki að koma í veg fyrir að svipuðum markmiðum yrði náð ef stjórnvöld kepptu eftir því til dæmis með fjárveitingum til annarra trú- og lífsskoðunarfélaga.

Einar og sér mundu breytingar á borð við þær sem hér eru lagðar til tæpast valda nokkurri byltingu. Ákvæði hennar þyrfti svo að útfæra meðal annars í lögum um skráð trú- og lífsskoðunarfélög, hugsanlegum sérlögum um þjóðkirkjuna er þó væru einfaldari en núgildandi þjóðkirkjulög og hugsanlega fleiri lögum líkt og nú er gert. Gildi hinnar endurskoðuðu trúfrelsisgreinar felst einkum í því hve víðan ramma hún myndar fyrir iðkun trúar og lífsskoðana í landinu og hversu mikið jafnræði hún rúmar. Hún samræmist því vaxandi einstaklings- og fjölhyggju betur en núgildandi trúmálabálkur.  


[1] Hér er einu efnislegu atriði úr 64. gr. núgildandi stjskr. sleppt án skýringar í meginmáli, þ.e. ákvæði um gjöld þeirra er standa utan trúfélaga til HÍ. Ástæðan er sú að 2009 var nýtt heimild greinarinnar um að breyta megi ákv. með lögum. Gjaldið rennur nú beint í ríkissjóð. Um þetta atriði sjá annars fylgiskjal 2 með tillögunni bls. 22 nmgr 81. Greinin kann að þykja of löng í þeirri mynd sem hún er kynnt hér. Þá má skipta henni í tvennt þannig að fyrri greinin fjalli um rétt einstaklinga en hin síðari um stuðning og vernd við trú- og lífsskoðunarfélög og um þjóðkirkjuna.

[2] Sé tekið tillit þess þess sem hér hefur verið nefnt gæti greinin hljóðað svo: Allir eiga rétt á að iðka trú eða lífsskoðun í samræmi við sannfæringu sína og að stofna um það félög. Þó má ekki kenna eða fremja neitt sem er gagnstætt góðu siðferði eða allsherjarreglu. Öllum er frjálst að standa utan slíkra félaga. Enginn má neins í missa af borgaralegum og þjóðlegum réttindum fyrir sakir trúarbragða sinna, né heldur má nokkur fyrir þá sök skorast undan almennri þegnskyldu. Enginn er skyldur til að greiða persónuleg gjöld til trú- eða lífsskoðunarfélags sem hann á ekki aðild að.

Ríkisvaldið skal styðja og vernda öll skráð trú- og lífsskoðunarfélög.

Evangelíska lúterska kirkjan er þjóðkirkja á Íslandi. Breyta má þessu með lögum. Slík lög skal bera undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar í leynilegri atkvæðagreiðslu.

 

 

 

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.