Stofnun dómstólaráðs/skipun dómara.

Hafsteinn Sigurbjörnsson
  • Skráð: 26.04.2011 08:35

Erindi til stjórnlagaráðs.

Það sem örugglega verður að lagfæra við samning nýrrar stjórnarskrár eru gleggri skil á milli helstu valdastofnana þjóðarinnar þ.e. löggjafarvalds, framkvæmdravalds og dómsvalds.
Algerlega sjálfstætt dómsvald frá löggjafarvaldi og sérstaklega framkvæmdarvaldi er forsenda þess að dómstólar njóti trausts og virðingar þ.e. að hér starfi hlutlaust og heiðarlegt réttarríki.

Hugmynd mín að svo geti orðið er eftirfarandi:
Kjósa skal til dómstólaráðs 9 aðila í almennum kosningum.
Alþingi tilnefnir eða kýs í hlutfallskosningu milli þingflokka, 45 aðila úr hópi frambjóðenda til almennra kosninga í dómstólaráð.

Alþingi skal gæta jafnræðis milli kynja  við tilnefningu til kjörs í dómstólaráð.
Séu frambjóðendur til dómstólaráðs færri en 45 eru þeir allir í kjöri án aðkomu Alþingis.
Allir íslenskir ríkisborgarar, með hreint sakarvottorð, 50 ára og eldri, eru kjörgengir til dómstólaráðs, að undanskildum starfandi dómurum, alþingismönnum og ráðherrum.
Hver frambjóðandi til dómstólaráðs skal leggja fram með framboði sínu undirskrifaða staðfestingu 50 meðmælenda 18 ára og eldri á framboði sínu.

Verkefni dómstólaráðs

  1. Skipun allra dómara við alla dómstóla Íslands.
  2. Verði ekki einróma samstaða í ráðinu um skipun dómara, skal meirihluti í kosningu hjá því ráða skipun dómarans.
  3. Dómstólaráð skal koma saman til starfa að kröfu forseta Alþingis og tekur laun samkvæmt ákvörðun þess.

 Greinargerð.

Á bak við þessa hugmynd eru aðallega 4 meginþættir. Það fyrsta er, að þjóðin sjálf kýs sér aðila til að skipa alla dómara landsins.
Annað Alþingi hefur íhlutunarrétt um frambjóðendur til almennra kosninga í ráðið og má gera áhrif þess meiri með því að fækka  tilnefningu til kosninganna,
úr 45, en þó aldrei meir en í 27 þannig að þjóðin hafi minnst þrefaldan rétt á móti Alþingi, þ.e. 9 eru kosnir, 27 í kjöri, sem gefur kjósendum þrefalt val.
Ef ekki næst samkomulag á Alþingi um tilnefningu þeirra frambjóðenda sem fara eiga fram til almennra kosninga skal kjósa með hlutfallskosningu milli flokka um þá 27 frambjóðendur, sem að lágmarki skulu fara í almenna kosningu hjá þjóðinni til dómstólaráðs.

Ég tel að aðkoma Alþingis að framboði aðila til þessa ráðs geti verið sía og með því nokkru ráðið um hæfni, menntunnarstig og aðra  þá eiginleika, sem Alþingi telur aðila þurfa að hafa, sem til setu verða kjörnir í dómstólaráð.
Í þriðja lagi. Takmörkun Alþingis á fjölda þeirra sem eru í kjöri gera almennar kosningarnar ekki of flóknar fyrir kjósendur eins og varð þegar kosið var til stjórnlagaþings.
Og í fjórða lagi, þá verða áhrif  framkvæmdarvaldsins lítil eða engin um val aðila í dómstólaráðið.
Rök mín fyrir 50 ára aldurstakmarki eru: almenn lífsreynsla og áunnið orðspor.
Að sjálfsögðu er þetta aðeins hugmynd, sem er ekki fullmótuð, en meiginþáttur hennar er: Að þjóðin eigi síðasta orðið, Alþingi íhlutunarrétt og sjálfstæði dómsmálanna verða óháð framkvæmdarvaldinu.

Hafsteinn Sigurbjörnsson

                          

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.