Forsetaræði/aðskilnaður löggjafar- og framkvæmdarvalds. Breytingar á kosningarkerfi, Alþingi tvær deildir.

Einar Örn Ólason
  • Heimilisfang: Mumsenstrasse 18, 22767 Hamburg, Þýskalandi
  • Skráð: 27.04.2011 09:41

 

Kæru stjórnlagaþingsfulltrúar.

Það er gaman að sjá að þið hafið ákveðið að gera almenningi auðvelt að senda inn erindi til þingsins. Ég vona að erindin sem berast nýtist ykkur vel við það mikla verk sem er fyrir höndum.

Mig langar til að nota þennan vettvang til að viðra nokkrar hugmyndir sem ég hef um það hvernig bæta mætti íslenska stjórnskipan; sér í lagi um aðskilnað löggjafar- og framkvæmdarvalds og um skipun Alþingis. Þessar hugmyndir gera í raun ráð fyrir talsverðri umbyltingu á stjórnskipuninni, en þær eru þó ekki byltingarkenndari en svo að svipað fyrirkomulag má, a.m.k. að hluta til, finna í Bandaríkjunum, Frakklandi, Finnlandi og eflaust víðar.

Í fyrsta lagi tel ég nauðsynlegt að skilja að framkvæmdar- og löggjafarvald. Þetta er gjarnan gert með því að fela forseta og ríkisstjórn hans framkvæmdarvaldið og þingi löggjafarvaldið. Ríksstjórnin er þá skipuð af forsetanum, mögulega með samþykki þingsins. Mér sýnist að fyrirkomulag af þessu tagi sé best til þess fallið að auka völd þingsins gangvart framkvæmdarvaldinu, sérstaklega ef þing- og forsetakosningar eru haldnar á víxl. Forsetinn væri þá t.d. kosinn til fjögurra ára og að tveim árum liðnum væri kosið til þings til fjögurra ára. Einnig mætti hugsa sér að lengja kjörtímabilið í sex ár. Í slíku fyrirkomulagi er eðlilegt að takmarka setu forseta og ráðherra (t.d. við tvö kjörtímabil), en ekki endilega þingmanna.

Í öðru lagi stöndum við frammi fyrir mjög mismunandi kröfum og hugmyndum um kosningafyrirkomulag til Alþingis. Uppi eru kröfur um að landið sé eitt kjördæmi og að vægi persónukjörs sé aukið. Á sama tíma óttast fólk að vægi landsbyggðarinnar minnki um of og að persónukjör verði til þess að þjóðþekktir einstaklingar og efnameiri eigi greiða leið á þing á kostnað þeirra sem eru minna þekktir og hafa ekki ráð á að halda úti kostnaðarsamri kosningabaráttu.

Sem ráð við þessum vandræðum vil ég leggja til að Alþingi verði skipt í tvær deildir. Í aðra deildina verði kosið með hlutfallskosningu á svipaðan hátt og nú og landið verði þá eitt kjördæmi. Í hina deildina verði kosið persónukjöri í einmenningskjördæmum. Það mætti hugsa sér að í síðarnefndu deildina væri kosið samhliða sveitarstjórnakosningum en í þá fyrri samhliða forsetakosningum.

Kostirnir við þetta fyrirkomulag eru meðal annars þeir að í fyrri deildina geta kosist fleiri flokkar en tveir, en reynslan sýnir að í flokkakerfi og með einmenningskjördæmum verða gjarnan til tveir sterkir flokkar sem ráða lögum og lofum í öllum stjórnmálum. Það er mjög óheppilegt að mínu mati. Einmenningskjördæmi hafa þó sína kosti og með því að kjósa þannig í seinni deildina má t.d. auka vægi landsbyggðarþingmanna og auka nálægð þingmanna við kjósendur. Í einmenningskjördæmum er kostnaður við kosningabaráttu líka umtalsvert minni. Að lokum getur tvískipt þing aukið sjálfstæði þingmanna því þar sem þeir eru ekki allir kosnir á sama tíma er líklega erfiðara að þröngva lögum í gegnum þingið án viðunandi umræðu. Slíkt fyrirkomulag myndi að öllum líkindum hægja á afgreiðslum þingsins, en vonandi líka opna og auka umræðu á þingi.

Þessar hugmyndir eru alls ekki fullmótaðar og nákvæm útfærsla krefst talsvert meiri vinnu. Ég ætla hins vegar að láta nægja að leggja þetta svona fyrir ykkur og vona að það verði lesið með opnum hug og nýtist að einhverju leyti.

Gangi ykkur allt í haginn,

Einar Örn Ólason

 

 

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.