Erindi til Stjórnlagaráðs varðandi eignarréttarákvæði

Andrea J. Ólafsdóttir
  • Heimilisfang: Skipholt 50B
  • Hagsmunaaðilar: Hagsmunasamtök heimilanna
  • Skráð: 28.04.2011 09:57

Ágætu stjórnlagaráðsfulltrúar.
Með erindi þessu vilja Hagsmunasamtök heimilanna koma þeirri ósk á framfæri við Stjórnlagaráð að það setji á dagskrá umræðu um 72. gr. stjórnarskrárinnar um eignarrétt. Þess er óskað að erindinu verði vísað til þeirrrar nefndar sem Stjórnlagaráð telur að sé best til þess fallin að fjalla um það.

Heimiliseign hlýtur að teljast til sjálfsagðra mannréttinda og grunnþarfa þótt eflaust megi takast á um ágæti séreignafyrirkomulagsins á húsnæði á Íslandi. Reyndin er að flestir eiga húsnæði sitt og skulda jafnframt í þeim. Þau áhættusömu viðskipti sem almenningi er gert að taka þátt í með því að koma sér upp heimili eru umhugsunarverð.

Í fasteignaviðskiptum er ekki óalgengt að kaupandi leggi til hluta af kaupverði fasteignar en fjármagni afganginn með láni. Lánið er jafnan veitt gegn veði í eign ásamt sjálfskuldarábyrgð lántaka. Vegna þeirra laga sem gilda um verðtryggingu fjárskuldbindinga sitja lánveitandi og lántakandi ekki við sama borð.  Verðtrygging ver eign lánveitanda fyrir áhrifum verðbólgu á meðan eign lántakanda er óvarin fyrir sömu áhrifum. 

Nú segir í  72. grein stjórnarskrár lýðveldisins Íslands:
„Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.“ Getur Stjórnlagaráð í sínum störfum tryggt að maður sem tekur lán standi jafnfætis þeim sem lánið veitir með hliðsjón af eignarrétti beggja?

Það er mat Hagsmunasamtaka heimilanna að Stjórnlagaráð ætti að taka til athugunar að bæta við eignarréttarákvæði í stjórnarskrá um mannréttindavarðan eignarrétt vegna heimilis og að veð í eigin húsnæði takmarkist við veðandlag. Heimili er eitt af því sem skilgreint er sem grunnþörf í mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna og ætti því réttur ábúenda heimilisins að hafa forgang, fram yfir fjármálastofnun.

72.grein stjórnarskrárinnar mætti túlka sem svo að eignarréttur að hlutaeign í heimili ætti ekki að krefja neinn að láta sinn hluta af hendi nema almenningsþörf krefji og ef til nauðungarsölu kæmi, ætti hlutur heimiliseiganda að vera varinn (t.d. skilgreindur sem hlutfallseign frá upphafi, við undirritun kaupsamnings) og ætti hann að fá að fullu greitt fyrir sinn hlut, þrátt fyrir að geta ekki staðið í skilum með lán sín gagnvart lánastofnun. 

Ein hugmynd sem hefur komið upp er að um eignarrétt ríki forgangsröðun þ.e. eignarréttur einstaklings sé rétthærri eignarrétti lögaðila eins og hlutafélags. Hlutafélag er í eðli sínu áhættufjárfesting en heimili einstaklings hefur oftast lykilvægi fyrir líf einstaklings eða fjölskyldu. Þarna koma inn atriði eins og sönnunarbyrði o.fl. varðandi deilur um eignarrétt. Slíkt má útfæra nánar í almennum lögum en það er mikilvægt að skýringartextar Stjórnlagaráðs innihaldi leiðsögn um hvað er meint með eignarréttinum, þ.e. hver tilgangur hans er og fyrir hvern hann er fyrst og fremst. Þetta hefur eitthvað skolast til og eignarréttur er nú í reynd notaður sem einskonar innheimturéttur fjármálastofnana en það var kannski ekki upphaflega hugsunin á bak við hann.

Í þessu sambandi er ekki úr vegi að geta þess að 14. grein þýsku stjórnarskrárinnar kveður ekki eingöngu á um eignarrétt heldur líka ákveðnar skyldur, í almannaþágu, sem nýtingu hans fylgir:
 „(1) Property and the right of inheritance shall be guaranteed. Their content and limits shall be defined by the laws. (2) Property entails obligations.  Its use shall also serve the public good. (3) Expropriation shall only be permissible for the public good. It may only be ordered by or pursuant to a law that determines the nature and extent of compensation.  Such compensation shall be determined by establishing an equitable balance between the public interest and the interests of those affected. In case of dispute concerning the amount of compensation, recourse may be had to the ordinary courts.”
https://www.btg-bestellservice.de/pdf/80201000.pdf

Hagsmunasamtök heimilanna vilja jafnframt benda á þörfina til að skilgreina mismunandi tegundir af eignarrétti, t.d. er mannréttindavarinn eignarréttur heimilis með öðrum hætti en það sem kalla má þjóðareign - þ.e.a.s. auðlindir þjóðarinnar ættu að skilgreinast með sértækum hætti út frá almannahagsmunum í stjórnarskrá lýðveldisins.


Virðingarfyllst,
fyrir hönd Hagsmunasamtaka heimilanna
Andrea J. Ólafsdóttir
formaður stjórnar

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.