Fjármál stjórnmálaflokka

Kristinn Már Ársælsson
 • Hagsmunaaðilar: Lýðræðisfélagið Alda
 • Skráð: 29.04.2011 15:27

Ágæta stjórnlagaráð,

Meðfylgjandi eru tillögur Lýðræðisfélagsins Öldu að breytingum á stjórnarskránni. Félagið óskar þess að tillögur félagsins fái efnislega meðferð ráðsins. Tillögurnar voru unnar af félagsmönnum á opnum fundum (allir fundir félagsins eru opnir) á síðastliðnum mánuðum. Starfinu stýrðu Íris Ellenberger og undirritaður. Óski ráðið frekari upplýsinga eða skýringa á tillögum félagsins eru félagsmenn tilbúnir til þess að veita þær með glöðu geði.

Nánari upplýsingar um félagið má finna á www.lydraedi.wordpress.com, m.a. um stefnu þess, starfsemi og stjórn.

Fyrir hönd Lýðræðisfélagsins Öldu,
Kristinn Már Ársælsson
stjórnarmaður

[Hjá Stjórnlagaráði hefur tillögum þessum verið skipt upp í 12 erindi, sem birtast sjálfstætt á vef ráðsins. Eitt þeirra fer hér á eftir.]

Fjármál stjórnmálaflokka

 1. Stjórnmálasamtök, sem beint eða óbeint bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna, mega taka við fjárhagslegum stuðningi frá öðrum en lögaðilum og félagasamtökum upp að tiltekinni heildarfjárhæð. Stuðningur hins opinbera skal felast í öðru en beinum fjárframlögum.
 2. Frambjóðendum í alþingiskosningum og í kosningum til sveitarstjórna skal heimilt að taka við fjárhagslegum stuðningi frá öðrum en lögaðilum og félagasamtökum. Þeim skal heimilt að eyða tiltekinni hámarksfjárhæð í kosningabaráttu.
 3. Fjárframlög til stjórnmálasamtaka og frambjóðenda í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna skulu ávallt opin almenningi til skoðunar og háð opinberu eftirliti.

Greinargerð

 1. Ákvæðið felur í sér að stjórnmálasamtök geti aðeins þegið fjárhagslegan stuðning frá einstaklingum og hinu opinbera. Með því að taka fram að átt sé við stjórnmálasamtök sem beint eða óbeint bjóða fram í kosningum, er reynt að tryggja að ekki verði skilið á milli tiltekinna stjórnmálasamtaka og framboðs eða framboða á þeirra vegum. Stuðningur hins opinbera með öðru en fé felur í sér að hið opinbera getur samt sem áður búið stjórnmálasamtökum aðstöðu til að sinna lýðræðislegu hlutverki sínu. Ætla má að slíkur stuðningur geti fremur orðið til þess að jafna aðstöðu flokka en beinn fjárhagslegur stuðningur. Ákvæðið skýrir sig að öðru leyti sjálft. Með því að tiltaka heildarfjárhæð eru settar hömlur á fjárstreymi til stjórnmálasamtaka og jafnframt þarf löggjafinn að svara því hvað þarf til þess að heyja lýðræðislega kosningabaráttu. Eðlilegt er að takmarka það fé sem hverjum einstökum stuðningsmanni er leyft að leggja stjórnmálasamtökum til, þannig að þau geti ekki talist á vegum eins eða fárra fjársterkra einstaklinga.
 2. Ákvæðinu er ætlað að hemja fjárþörf frambjóðenda og hindra að þeir verði háðir tilteknum fyrirtækjum eða félagasamtökum.
 3. Ákvæðið felur í sér að almenningur geti fengið upplýsingar um fjárframlög til frambjóðenda og stjórnmálasamtaka hvenær sem þess er óskað.

Almennar forsendur

Í leiðbeiningum svokallaðrar Feneyjanefndar Evrópuráðsins (The European Commission for Democracy through Law, eða The Venice Commission) segir, að ástæða geti verið til að banna fjárframlög til stjórnmálaflokka frá fyrirtækjum í viðskiptum og atvinnulífi. Ætla verður að Ísland sé meðal þeirra landa sem þurfi að huga einmitt að slíkum ráðstöfunum.

Áttunda bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis ber heitið Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008. Í kafla II. 3, Samskipti stjórnmála og efnahagslífs, segir: „Eitt augljósasta tæki viðskiptalífsins til að hafa áhrif á stjórnmálamenn eru bein fjárframlög, bæði til stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna." Í niðurlagi kaflans, þar sem ályktað er um þá lærdóma sem draga þurfi af ógöngum landsins, segir ennfremur: „Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins."

Dagana 8.-15. september 2010 kannaði Capacent Gallup afstöðu almennings til styrkja frá fyrirtækjum og einstaklingum til stjórnmálamanna og stjórnmálasamtaka. Afgerandi meirihluti, eða 68%, sagðist andvígur því að íslenskum stjórnmálamönnum og stjórnmálasamtökum sé heimilt að taka við fjárframlögum frá fyrirtækjum. Þá sögðust 79% þjóðarinnar andvíg því að stjórnmálamönnum og stjórnmálasamtökum sé heimilt að taka við fjárframlögum frá einstaklingum án þess að nafn þess einstaklings sem veitir styrkinn sé gefið upp.

Íslenskum stjórnmálaflokkum hefur verið lýst sem „tómum skeljum". Meiningin er sú að þeim sé stjórnað af tiltölulega fámennum hópi fólks og að lýðræðislegt starf innan flokkanna sé bágborið. Ýtt er undir slíkt ástand með því að stjórnmálaflokkarnir hafa lítið orðið til almennra félaga að sækja. Flokkarnir, þeir gamalgrónu, eru orðnir sjálfum sér nægir eftir að hafa tryggt sér fé úr sjóðum almennings og fjársterkra aðila í viðskiptalífi.

Ráðandi stjórnmálasamtök hverju sinni eru, eðli máls samkvæmt, óheppileg og vanhæf til þess að setja grundvallarreglur sem ofangreind ákvæði fela í sér.

Af áðurnefndum ástæðum er brýn nauðsyn að setja í grundvallarlög skýr ákvæði sem tryggja að Alþingi setji lýðræðislega löggjöf um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda í almennum kosningum.

Fordæmi

Tvö meginsjónarmið eru uppi um fjármögnun stjórnmálaflokka í Evrópu. Annars vegar er litið svo á að flokkarnir séu eins og hver önnur frjáls félagasamtök. Þeir eigi því að stóla á framlag almennra félaga til þess að reka sig frá degi til dags, en hið opinbera aðstoði þá við að heyja lýðræðislega kosningabaráttu.

Hitt sjónarmiðið er að flokkarnir gegni svo mikilvægu hlutverki í samfélaginu að þeir eigi í raun að vera á framfæri hins opinbera. Sú tilhögun er algeng í mörgum helstu ríkjum Evrópu, en það er alls ekki einhlítt. Þannig bannaði Frakkland styrki frá fyrirtækjum til stjórnmálaflokka árið 1995, eftir að það fyrirkomulag tók að vekja úlfúð og tortryggni almennings.

Síðarnefnda sjónarmiðið er ríkjandi á Íslandi, og hefur síst orðið til heilla fyrir land og þjóð, eins og skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis vitnar um. Flokkarnir hafa orðið sífellt frekari til opinbera fjárins en samt sótt ótæpilega í fé fyrirtækja og annarra lögaðila.

Stjórnmálaflokkarnir virðast jafnframt líta orðið á sjálfa sig sem hluta af stjórnskipan landsins. Þannig þykir ekki, svo dæmi sé tekið, tiltökumál að setja lög sem mæla fyrir um að Alþingi greiði 50% álag á þingfararkaup tiltekinna þingmanna, af því að þeir gegni formennsku í stjórnmálaflokki. Hæpið er að það komi Alþingi beinlínis við hvaða embætti þingmaður kýs að gegna í stjórnmálasamtökum sem hann sjálfur hefur kosið að ganga til liðs við.

Taka þarf mið af aðstæðum á Íslandi og fenginni reynslu, svo sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis mælist til að sé gert. Bregðast þarf við hömlulausri fjárþörf stjórnmálaflokkanna með róttækum hætti, og ýta um leið almennt undir lýðræðislega starfshætti þeirra. Aðeins þannig munu þeir geta gegnt sínu lýðræðislega hlutverki.

 

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
 1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
 2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
 3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
 4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
 5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.