Hlutverk forseta

Gísli Baldvinsson
  • Heimilisfang: Álfatúni 31 200 Kóp
  • Skráð: 01.05.2011 10:48

Stjórnarskrá - stjórnskipan

Hlutverk forseta

Frá sögulegu sjónarhorni er forseti arfleifð frá danska konungssambandinu og ef rýnt er í stjórnaskrána 1918 og hún borin saman við stjórnarskrá lýðveldisins er ljóst að ríkisstjóri, síðar forseti, tekur að mestu við hlutverki konungs.

Forseti Íslands er þjóðhöfðingi og æðsti embættismaður Íslands. Embættið er einnig hið eina sem kosið er til með beinni kosningu. Það var stofnað um leið og Ísland varð lýðveldi þann 17. júní 1944 með gildistöku lýðveldisstjórnarskrárinnar en um embættið er fjallað í öðrum kafla hennar. Fimm einstaklingar hafa gegnt embættinu frá stofnun þess, núverandi forseti er Ólafur Ragnar Grímsson. Forseti hefur aðsetur á Bessastöðum.

Forsetinn telst samkvæmt stjórnarskrá handhafi framkvæmdarvaldsins og einnig handhafi löggjafarvaldsins ásamt Alþingi. Hann lætur þó ráðherra framkvæma vald sitt og er ábyrgðarlaus á stjórnarathöfnum. [Wikipedia]

Hlutverk forseta

• Þingsetning
• Staðfesting laga
• Nýársávarp
• Orðuveiting
• Móttaka og opinberar heimsóknir til erlendra þjóðhöfðingja
• Stjórnarmyndun (ef þingflokkar ná ekki saman um myndun ríkisstjórnar)

Ímynd forseta

• Sameiningartákn þjóðarinnar
• „Öryggisventill" gagnvart Alþingi og framkvæmdarvaldinu
• Verndari íslenskrar menningar
• „Landkynning"

Það er ljóst að núverandi forseti hefur breytt eðli og valdsviði forsetaembættisins án þess að um það hafi myndast þjóðarsátt eða stjórnarskrá verið breytt. Forsetinn hefur virkjað 26. grein stjórnarskrár og um leið breytt hefðbundnum túlkunum fræðimanna. [sjá Ólafur Jóhannesson, Bjarni Benediktsson og Gunnar Thoroddsen]

Eins og staðan er í dag þá er embætti forsetans þannig orðið pólitískara og um leið umdeildara. Forsetinn telst ekki lengur sameiningartákn þjóðarinnar. Það má því segja að brýnt sé að skilgreina betur hlutverk og stöðu forsetans innan stjórnkerfisins. Ganga margir svo langt að skilgreina stjórnskipunina á ný og nefnt forsetaræði.

Tveir kostir

Tveir kostir eru í þessari stöðu:

  1. Hrófla lítið sem ekkert við hlutverki forsetans nema skilningur á hlutverki forsetans sé skerpt og viðurkenndur sá skilningur og virkjun sem forsetinn hefur gert á 26. greininni. Með gagnályktun mætti því skerpa á 24. greininni hvað varðar ráðherra og þingrof. Þannig er undirstrikað valdsvið forsetans og þar með stjórnskipan breytt í átt að hefðbundnu forsetaræði líkt og tíðkast í Bandaríkjunum og Frakklandi.
  2. Embætti forsetans fellt niður og sameinað störfum forseta Alþingis. Sá reginmunur er á stöðu forseta þjóðarinnar og þingsins að sá fyrrnefndi situr sem þjóðkjörinn en hinn síðari í skjóli meirihluta Alþingis.

Ef seinni kosturinn er valinn þyrfti að íhuga það vel hvort forseti Alþingis verði ekki þjóðkjörinn og kosinn hlutfallskosningu samhliða alþingiskosningum. Sá forseti hefði ekki atkvæðisrétt á Alþingi en tæki við þeim stjórnarathöfnum sem forseti lýðveldisins hafði áður.

Órætt er og óútfært með hvaða hætti forsætisráðherra og forseti Alþingis myndu skipta með sér þátttöku í opinberum athöfnum, en hér er ekki gert ráð fyrir handhöfum forsetavalds. Nútímatækni sér um slíkt.

Ekki er gert ráð fyrir kostnaðaraukningu af þessum breytingum og jafnvel hugsanlegt að einhver sparnaður hljótist af - sem þó er ekki aðalatriðið.

Nánar

Annar töluliður felur í sér verulega breytingu á þrískiptingu valdsins. Þetta felur í sér einnig að ráðherrar sinni ekki jafnframt þingstörfum á meðan hann situr sem ráðherra.

Undirrituðum hugnast betur kostur 2 enda myndi það leiða til straumlínu- og nútímalegri stjórnsýslu.

Gísli Baldvinsson

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.