Lausaganga - eða vörsluskylda - búfjár

Sigvaldi Ásgeirsson
  • Heimilisfang: Vilmundarstöðum í Reykholtsdal
  • Skráð: 03.05.2011 09:43

Til Stjórnalagaráðs.

Frá Sigvalda Ásgeirssyni, skógarbónda, Vilmundarstöðum í Reykholtsdal.

Efni: Stuðningur við sjónarmið, sem Þorvaldur Gylfason viðraði í Fréttablaðsgrein 28. apríl sl. um lausagöngu - eða vörsluskyldu - búfjár.

Virðulega Stjórnlagaráð!

Þann 28. apríl sl. ritaði Þorvaldur Gylfason, prófessor við HÍ, grein í Fréttablaðið um nauðsyn þess, að sett verði ákvæði í stjórnarskrá, sem tryggi, að komið verði á vörsluskyldu alls búfjár. Erindi mitt er að láta virðulegt Stjórnlagaráð vita af því, hvernig staðan er í þeim málum í Reykholtsdal og Hálsasveit í Borgarbyggð.

Í Hálsasveit: Á 12 jörðum er ekkert sauðfé, á 4 jörðum eru aðeins kindur fyrir heimilið. Á 4 jörðum er sauðfjárbúskapur stundaður sem atvinnugrein. Fé af síðastnefndum fjórum jörðum gengur talsvert í heimalöndum nágrannajarða, við mismikinn fögnuð eigenda þeirra. Þannig munu hafa heimtst nær 300 kindur í landi Húsafells sl. haust, en enginn sauðfjárbúskapur er stundaður þar á bæ og í raun er þessi sauðfjárbeit eigendum og ábúendum Húsafells þyrnir í augum.

Í Reykholtsdalshreppi hinum forna: Á 20 jörðum er ekkert sauðfé, á 4 jörðum er fé til heimilisnota, á 11 jörðum í Reykholtsdal/Flókadal er sauðfjárrækt stunduð sem atvinnugrein. Þ.a. hafa 5 fjáreigendur girt sig af og gengur fé þeirra að mestu á landi eigenda sinna. Á 6 jörðum er beitt misjafnlega grimmt á lönd nágranna að þeim forspurðum.

Í þessum tveimur fyrrum hreppum eru sumsé samtals 55 jarðir. Þar af er stunduð sauðfjárrækt sem atvinnugrein á 15 jörðum (í nær öllum tilvikum vinna menn á þessum búum þó einnig að öðru til tekjuöflunar fyrir heimilið). Á þriðjungi þessara sauðfjárjarða eru heimalönd þegar afgirt. Aðeins á 10 af 55 jörðum í hreppunum tveimur er sauðfjárrækt stunduð með þeim hætti að beita lönd nágranna að þeim forspurðum, en í mjög mismiklum mæli þó. Sumir þessara bænda gera hvað þeir geta til að halda fé til haga í eigin heimalöndum, en á hinum vængnum eru þeir, sem leggja sig fram um að halda fé sínu til haga í löndum sveitunga sinna – að þeim forspurðum.

Á 36 af 55 jörðum í hreppunum tveimur er stunduð skógrækt eða skjólbeltarækt – í misríkum mæli. Á öllum þessum jörðum verða menn að girða slíka ræktun af, svo hún fái frið fyrir aðkomufé. Allar vegagirðingar eru til komnar vegna sauðfjárræktar, samtals nokkur þúsund km á landinu öllu. Vert er að geta þess, að í Borgarbyggð er lausaganga stórgripa bönnuð. Hins vegar er þar ekki bann við lausagöngu sauðfjár og geita. Síðastnefnda tegundin er sérlega skeinuhætt trjágróðri, en virðist u.þ.b. að komast í hóp helgra dýra, sem ekki megi amast við, staða sem sauðkindin hefur notið í marga áratugi og mun lengur en breyttir búskaparhættir verðskulda. Kveður svo rammt að dýrkun þessara heilögu kúa okkar Íslendinga, að sauðkindin á sérstakan talsmann á fréttastofu RÚV.

Ég hygg, að þær sveitir, sem ég nefni til sögunnar, séu ekkert einsdæmi á Íslandi. Miklu frekar séu þær dæmigerðar. Þótt mér þyki kindakjöt gott, finnst mér ótækt, að ekki aðeins sé þeirri kjötframleiðslugrein hyglað umfram aðrar með beingreiðslum, heldur sé drjúgur hluti kostnaðar við framleiðslu kindakjöts borinn uppi af nágrönnum framleiðendanna, sem njóta þó í engu tekna af framleiðslunni. Þegar tekin var upp gæðastýring í sauðfjárrækt, fylgdi með sá vilji löggjafans, að landnýting sauðfjárbænda, sem væru viðurkenndir í gæðastýringu, væri forsvaranleg. Allir þeir bændur í Reykholtsdal og Hálsasveit, sem þar stunda sauðfjárrækt sem atvinnugrein, njóta gæðastýringar. Gildir þá einu, hvort þeir sýna þá mannasiði að halda fé sínu til haga á eigin landi, en leigja land til beitar, dugi þeirra eigin land ekki – eða stunda rányrkju á jörðum nágranna sinna. Margt væri hægt að segja fleira um gæðastýringuna, en læt ég nægja að benda á, að Bændasamtökin kynntu beitarþátt hennar þannig, að menn gætu bent á beitilönd á nágrannajörðum, án þess að fá til þess heimild frá eigendum viðkomandi jarða. Þessi háttur BÍ er svo einkennilegur, að sýslumaðurinn í Borgarnesi trúði mér engan veginn, þegar ég sagði honum frá þessum undrum. Ekki aðeins Vegagerðin og þar með skattgreiðendur, heldur líka skógræktendur, sumarbústaðaeigendur, garðyrkjubændur, kornræktarbændur og fjárlausir kúabændur, sem og aðrir fjárlausir bændur og allir þéttbýlisstaðir þurfa að girða lönd sín af, vilji þeir geta stundað ræktun á þeim. Fjárlausum bændum er gert að greiða niður kostnað við smölun ágangsfjár á eigin jörðum, raunar smala því algjörlega á eigin kostnað, en niðurgreiða kostnað við smölun afréttarlanda.

Virðingarleysið gagnvart eignarréttinum og atvinnufrelsi jaðrar við óskammfeilni og myndi seint flokkast sem háttvísi. Hvað myndi hvert kg af lambakjöti kosta, ef allur kostnaður við framleiðslu þess væri lagður á kjötverðið?

Fullreynt er, að Alþingi hafi burði til þess að koma þessum mannréttindamálum í lag. Alþingi hefur þegar selt sveitarfélögunum sjálfdæmi í þessum málum, án þess að það hafi leitt til almennra réttarbóta til handa þeim, sem verða fyrir arðráni sumra sauðfjárbænda. Mál er að linni.

Vilmundarstöðum 2. maí 2011,

Sigvaldi Ásgeirsson

 

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.