Dómsvald - Hópur C

Friðrik Ólafsson
  • Heimilisfang: Reykjafold 14
  • Skráð: 03.05.2011 21:56

Dómsvald

Við lestur nefndar C á kafla um dómsvald vildi ég að eftirfarandi yrði skoðað í sambandi við greinar D2, D3, D4 og D5:

Tillaga nefndar að D2 - Sjálfstæði dómstóla:
Sjálfstæði dómstóla skal tryggt með lögum. Dómstólar mega hvorki sinna störfum sem samkvæmt venju eða eðli sínu heyra undir aðra valdþætti ríkisins né má fela þeim slíkt með lögum.

Tillaga D2 orðist þannig:
Sjálfstæði dómstóla skal tryggt með lögum. Dómstólar mega ekki sinna störfum sem heyra undir aðra valdþætti ríkisins né má fela þeim slíkt með lögum.

Athugasemd FÓ:
Hér er verið að leggja til einföldun á texta og taka út allt mat og tilfinningar aðila máls.

Tillaga nefndar að D3 - Lögsaga:
Dómstólar skera endanlega úr um réttindi og skyldur að einkarétti, svo og um sök um refsiverða háttsemi og ákveða viðurlög við henni.

Dómstólar leysa úr stjórnskipulegu gildi laga að því marki sem á það reynir í dómsmáli.

Dómstólar skera úr um hvort stjórnvöld hafi farið að lögum. Hjá ákvörðun stjórnvalds verður ekki komist í bráð með því að bera lögmæti hennar undir dóm.

Tillaga D3 orðist þannig:
Dómstólar skera endanlega úr um réttindi og skyldur að einkarétti, svo og um sök um refsiverða háttsemi og ákveða viðurlög við henni.

Dómstólar leysa úr stjórnskipulegu gildi laga að því marki sem á það reynir í dómsmáli.

Dómstólar skera úr um hvort stjórnvöld hafi farið að lögum. Hjá ákvörðun stjórnvalds verður ekki komist á meðan lögmæti hennar er borið undir dóm.

Athugasemd FÓ:
Tillaga nefndar C skilst, en gæti orðið skýrari með nýju orðalagi? En spurning er hvort ekki þurfi að endurskoða þessa grein, þar sem hér gætu stjórnvöld verið að ofbjóða lítilmagnanum (einstaklingum), sem ekki gæti haft efni eða tíma til að bera hönd fyrir höfuð sér. Mætti skorða þetta við sakamál en ekki skattamál eða við lögaðila eða ekki einstaklinga?

Tillaga nefndar að D4 - Hæstiréttur Íslands:
Hæstiréttur Íslands er æðsti dómstóll ríkisins og hefur hann endanlegt vald til að leysa úr öllum málum sem lögð eru fyrir dómstóla. Með lögum má undanskilja lögsögu hans mál sem sæta úrlausn sérdómstóla á einu dómstigi.

Tillaga D4 orðist þannig:
Hæstiréttur Íslands er æðsti dómstóll ríkisins og hefur hann endanlegt vald til að leysa úr öllum málum sem lögð eru fyrir dómstóla.

Athugasemd FÓ:
Af hverju er verið að takmarka og flækja mál? Hægt á að vera að áfrýja öllum málum til æðsta dómstigs – og fá endanlegan úrskurð! Af hverju á löggjafarvaldið að geta takmarkað lögsögu Hæstaréttar eða aðila máls á að fá endanlega dóm í máli?! Það á að ríkja einfaldleiki í meðferð dómsmála en ekki vera hægt að flækja mál á grundvelli sérhagsmuna eða tilfinninga eftir því hver á hlut að máli.

Tillaga nefndar að D5 - Skipun dómara:
Dómarar eru þeir sem skipaðir hafa verið ótímabundið í embætti eða settir til að gegna því um tiltekinn tíma. Til dómstarfa geta dómstólar ráðið eða kvatt aðra eftir því sem mælt er fyrir í lögum.
Forseti Íslands skipar dómara eða setur í embætti og veitir þeim lausn án tillögu ráðherra. Tryggt skal að hæfni og málefnaleg sjónarmið ráði við veitingu embætta dómara. Lögskipuð nefnd skal meta hæfi umsækjenda. Velji forseti ekki í embætti dómara einn þeirra sem nefndin telur hæfasta er skipun háð samþykki Alþingis.

Dómara verður ekki vikið úr embætti nema hann hafi glatað skilyrði til að gegna því eða sinni ekki skyldum sem starfanum tengjast þannig að varðað geti embættismissi að lögum.
Frávikning dómara verður aðeins ákveðin með dómi.

Tillaga D5 orðist þannig:
Forseti Íslands skipar dómara eða setur í embætti og veitir þeim lausn. Tryggt skal að hæfni og málefnaleg sjónarmið ráði við veitingu embætta dómara. Lögskipuð nefnd skal meta hæfi umsækjenda. Velji forseti ekki í embætti dómara einn þeirra sem nefndin telur hæfasta er skipun háð samþykki Alþingis. Dómarar skulu ráðnir til fjögurra ára í senn en aldrei oftar en tvisvar.

Dómara verður ekki vikið úr embætti nema hann hafi glatað skilyrði til að gegna því eða sinni ekki skyldum sem starfanum tengjast þannig að varðað geti embættismissi að lögum.

Frávikning dómara verður aðeins ákveðin með dómi.

Athugasemd FÓ:
Fyrsta grein er óþörf. Það sem stendur í annarri grein segir það sem segja þarf.

Það er óþarfi að vera að vitna til ráðherra í sambandi við skipan eða rekstur dómara, því ráðherrar eiga ekkert með þessi mál að hafa að segja. Ráðherrar eru í öðru stjórnvaldi og eiga ekkert með þennan málaflokk að gera eða segja, samanber D2: dómstólar mega ekki sinna öðrum stjórnvaldsþáttum (fekar en löggjafarvald, framkvæmdarvald, forseti)!

Það að vera hæstaréttardómari á ekki að vera ævistarf! Það þarf reglubundið að skipta um dómara til að auka víðsýni manna er þar starfa og velja úr úrvali hæfustu manna á hverjum tíma til að sinna þessu starfi eins og annars staðar í þjóðfélaginu. Menn geta orðið færir í starfi, eins geta menn staðnað í starfi, eins geta verið hæfari menn úti í samfélaginu en þeir sem fyrir eru í starfi.

Friðrik Ólafsson.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.