Forsetinn, þjóðhöfðinginn og valdið

Gunnar Þór Tómasson
  • Heimilisfang: Dynsalir 4, 201 Kópavogur
  • Skráð: 04.05.2011 22:18

Til Stjórnlagaráðs.

Meðfylgjandi erindi sendi ég ykkur vegna áhuga míns á forsetaembættinu.

Vona að stjórnlagaráðsfulltrúar hafi eitthvert gagn af hugmyndum mínum, hið minnsta til skemmtunar.

 

Forsetinn, þjóðhöfðinginn og valdið.

 

Þrískiptingu valdsins tel ég af hinu góða. Vald spillir og algjört vald spillir algjörlega og allt það. Vald þarf því að vera háð takmörkunum. Tel ég því hollast að framkvæmdarvaldi, löggjafarvaldi og dómsvaldi verði skipt þannig að sami aðili geti ekki tilheyrt fleiru en einu valdi ef svo er hægt að segja. Skýrasta dæmið væri að banna aðila að vera bæði ráðherra og alþingismaður á sama tíma.

Alþingi færi með löggjafarvaldið, dómendur með dómsvaldið og ráðherrar með framkvæmdarvaldið. Spurningin verður þá hvert sé hlutverk forsetans í þessari skipun mála, ef það er þá eitthvað.

Í einfaldri mynd kemur valdið frá einstaklingnum, sem tilheyrir „fólkinu“, sem setur ríkinu stjórnarskrá. Ýmis ákvæði stjórnarskrárinnar þarf að framkvæma en þar kemur forsetinn til skjalanna. Forsetinn kemur stjórnarskránni í framkvæmd.

Ráðherrar og forsetinn hafa framkvæmdarvald. Ráðherrar og ríkisstjórnir munu framkvæma lög Alþingis en forsetinn framkvæmir þau ákvæði sem stjórnarskráin setur honum beint. Þarna er munurinn.

Fólkið velur sér því einstakling sem sér um að koma stjórnarskránni í framkvæmd. Stjórnarskrá sem fólkið sjálft hefur sett ríkinu. Forsetinn framkvæmir aðeins ákvæði stjórnarskrárinnar. Alþingi getur ekki sett lög um forsetann (forsetaembættið) sem takmarka eða auka vald forsetans.

Forsetinn verður hálfgerður blendingur meðal hinnar hefðbundnu þrískiptingu valdsins. Vald hans og hlutverk er þó einskorðað við það sem kemur fram í stjórnarskránni, en það setur valdi hans miklar skorður.

Hlutverk forsetans, skv. stjórnarskránni myndi vera:

 

• „Framkvæmdastjóri“ stjórnarskrárinnar.

Sbr. hér að ofan.

• Sameiningartákn þjóðarinnar, þjóðhöfðinginn.

Eins og hefur verið. Forsetinn yrði kosinn beint af öllum kosningabærum einstaklingum á landinu, landið sem eitt kjördæmi.

• Ráðningarstjóri ríkisins.

Skipar/ræður í allar stöður innan ríkisins. Getur deilt þessu valdi til annarra innan ríkisins (t.d. ráðherra og þeir deilt því áfram niður valdastigann). Þar sem forsetinn fellur ekki undir neina af valdaskiptingunni (löggj., framkv., dómsv.) þá er hann vel til þess fallinn að ráða í stöður innan hvers valds. Forsetinn er óháður.

o Æðstu stöður dóms- og framkvæmdarvaldsins (hæstaréttardómarar og ráðherrar) eru ráðnir af forsetanum en með samþykki Alþingis.

o Það gæti verið ráðlegt að Alþingi setji á stofn „tilnefningarnefnd“ sem kemur með tilnefningar í stöður æðstu valdhafanna. Forseti gæti þá ráðið einhvern af þeim sem Alþingi hefur tilnefnt sem hæfa. Samþykki Alþingis þarf ef forseti ákveður að skipa aðila sem nefndin hefur ekki tilnefnt.


• Aðal diplómat þjóðarinnar gagnvart erlendum ríkjum.

Gerir samninga við erlend ríki í samráði við Alþingi.

• Löggjafarvald

Þegar Alþingi er ekki að störfum getur forseti sett bráðabirgðalög sem Alþingi þarf svo að samþykkja til að þau haldi gildi. Þetta er í samræmi við núverandi ákvæði stjórnarskrárinnar. Gefur forseta heimild, sem ætti að nota í brýnni nauðsyn, þegar lög þarf að setja og Alþingi er ekki að störfum.

• Staðfesting (synjun) laga.

Staðfesting forsetans þarfnast tímamarka, t.d. 14 daga frá því að lög eru lögð fyrir hann til staðfestingar. Ef forseti hefur ekki skrifað undir né synjað lögunum eftir 14 daga, þá taka þau gildi.

• Heimild til að senda óstaðfest lög til Hæstaréttar til að komast að því hvort þau samrýmist stjórnarskránni.

• Þingsetning.

Forseti setur þing. Forseti stjórnar kosningu þingmanna á forseta Alþingis. Eftir það víkur forseti af þingi. Í dag stjórnar aldursforseti meðal þingmanna umræðum þar til forseti Alþingis hefur verið kjörinn. Tel það hluta af þingsetningunni að forseti stýri kjörinu á forseta Alþingis.

• Þingrof.

 

Með þessu fær forsetinn aukinn tilgang í stjórnsýslunni en án þess að gera forsetann mikið sterkari en hann er í dag.

 

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.