Mengun og önnur ytri áhrif

Jón Þór Ólafsson
  • Heimilisfang: Njálsgata 32
  • Skráð: 07.05.2011 11:47

Mannréttindaákvæði.

„Allar manneskjur eiga rétt á því að verða ekki fyrir ósamþykktum skaða á líkama sínum og eigum vegna aðgerða annarra. Ólögleg eru viðskipti sem valda skaða á líkama eða eigum manneskja sem ekki komu að viðskiptunum.“

Þetta grunnákvæði í stjórnarskrá er eitthvað sem flestir geta samþykkt á siðferðilegum forsendum. Svo veltir fólk fyrir sér praktíkinni. Hvað með mengun bíla og álvera? En er ekki hægt að koma í veg fyrir að bílar mengi loftið á heimilinu þínu? Geta eigendur álvera ekki komið í veg fyrir skaðlega mengun eða keypt jarðir sem þeir ætla að menga? Eru ekki til framleiðsluferli fyrir gæði nútímasamfélags sem skaða ekki líkama og eigur annarra? Jú, en þau kosta meira svo gefa þarf aðlögunartíma til að innleiða þau.

Ákvæðið þyrfti að hafa ára eða áratuga virkjunarklausu sem gæti verið í áföngum. Nýir bílar sem í dag eru í landinu úreltast flestir á áratug svo hægt væri að banna bíla með útblástursmengun fyrir 2025, svo dæmi sé tekið. Fróðara fólk getur ákveðið hæfilegan aðlögunartíma fyrir álver, annan iðnað og framleiðslu.

Ef okkur líkar við grunnákvæðið á siðferðilegum forsendum, sem flestir gera, þá er spurningin: „Er það í lagi að valda fólki skaða, sem það hefur ekki samþykkt að verða fyrir, ef það sparar mikla peninga fyrir skaðvaldinn og lækkar verðið á hans vörum?“ Engum löggjafa í neinu ríki hefur tekist að koma í veg fyrir slíkt. Eigum við að samþykkja þetta með þögninni eða eigum við að setja ákvæði í stjórnarskrá sem segir að: „Allar manneskjur eiga rétt á því að verða ekki fyrir ósamþykktum skaða á líkama sínum og eigum?“ Hvort búum við til manneskjulegra, réttlátara og sjálfbærara samfélag með eða án slíks ákvæðis?

Stundum getum við ekki verið bæði siðuð og praktísk. En hér er praktískt til lengdar að vera siðuð.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.