Réttindi barna, breytingartillaga

Bergsteinn Jónsson
  • Hagsmunaaðilar: Unicef
  • Skráð: 08.05.2011 12:25

Ágætu fulltrúar Stjórnlagaráðs.

Okkur hjá UNICEF á Íslandi líst mjög vel á þá tillögu sem fram kemur í mannréttindakafla áfangaskjals Stjórnlagaráðs að gera ákvæðið sem snýr sérstaklega að börnum ítarlegra.

Okkur langar einnig til að vekja athygli ykkar á tveimur köflum í skýrslum frá UNICEF sem snúa að réttindum barna í stjórnarskrám.

Í 3. kafla í riti sem Innocent, rannsóknarmiðstöð UNICEF, gaf út 2008, Law reform and the implementation of the Convention on the Rights of the Child (kaflinn ber heitið „Constitutional recognition of child rights", bls. 13-16), er að finna stutta umfjöllun og dæmi um hvernig réttindum barna bregður fyrir í nýlega endurskoðuðum stjórnarskrám. Ritið má nálgast á þessari krækju: http://www.unicef-irc.org/publications/493/.

Einnig er í 3. kafla handbókar UNICEF frá 2008, Handbook of Legislative Reform (kaflinn ber heitið „Constitutional reforms in favour of children" bls. 108-167), fjallað m.a. um sérstök stjórnarskrárákvæði í þágu barna. Handbókina má nálgast á þessari krækju: http://www.unrol.org/files/Handbook%20on%20Legislative%20Reform.pdf

Báða þessa kafla getum við einnig sent útprentaða ef þess er óskað.

Varðandi tillöguna um ákvæðið sem snýr að börnum í áfangaskjalinu viljum við koma á framfæri uppástungu að breytingu á málfari sem rökstudd er hér að neðan:

----------

Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst, þar á meðal réttur til fjölskyldulífs.

Við veltum fyrir okkur af hverju sé talað sérstaklega um rétt til fjölskyldulífs. Ef eitthvað er hefur friðhelgi fjölskyldunnar á tíðum verið oftúlkuð á liðnum árum og oft ekki gripið inn í aðstæður sem eru skaðlegar börnum friðhelginnar vegna. Ákvæðið stendur ágætlega eins og það er, með mjög breiða vísun, byggt á 2. ákvæði 3. gr. Barnasáttmálans. Ef einhverju ætti að bæta við væri sterkt að taka líka inn 1. ákvæði 3. greinar Barnasáttmálans um að allar ákvarðanir eða ráðstafanir er varða börn skulu byggðar á því sem er barninu fyrir bestu.


3. gr.

1. Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar félagsmálastofnanir á vegum hins opinbera eða einkaaðila, dómstólar, stjórnvöld eða löggjafarstofnanir gera ráðstafanir sem varða börn.

2. Með hliðsjón af réttindum og skyldum foreldra eða lögráðamanna, eða annarra sem bera ábyrgð að lögum á börnum, skuldbinda aðildarríki sig til að tryggja börnum þá vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst, og skulu þau í því skyni gera allar nauðsynlegar ráðstafanir á sviði löggjafar og stjórnsýslu.

3. Aðildarríki skulu sjá til þess að stofnanir þar sem börnum skal veitt umönnun og vernd starfi í samræmi við reglur sem þar til bær stjórnvöld hafa sett, einkum um öryggi, heilsuvernd og fjölda og hæfni starfsmanna, svo og um tilhlýðilega yfirumsjón.

Tillaga: Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst. Allar ráðstafanir yfirvalda er varða börn skulu taka mið af því sem barninu er fyrir bestu.

----------
Börn eiga rétt til samráðs um ákvarðanir um eigin málefni í samræmi við aldur þeirra og þroska.

„Eigin málefni" þrengir nokkuð þetta löngu tímabæra og þarfa ákvæði sem ætti heldur að sýna fram á mikilvægi þess að börn fái að tjá sig um málefni samfélagsins í heild sem snerta þeirra tilveru. „Mál sem þau varða" sbr. 1. ákvæði 12 gr. Barnasáttmálans finnst okkur betra að nota í þessu samhengi.

12. gr.

1. Aðildarríki skulu tryggja barni sem myndað getur eigin skoðanir rétt til að láta þær frjálslega í ljós í öllum málum sem það varða, og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þess í samræmi við aldur þess og þroska.

2. Vegna þessa skal barni einkum veitt tækifæri til að tjá sig við hverja þá málsmeðferð fyrir dómi eða stjórnvaldi sem barnið varðar, annaðhvort beint eða fyrir milligöngu talsmanns eða viðeigandi stofnunar, á þann hátt sem samræmist reglum í lögum um málsmeðferð.

Tillaga: Börn eiga rétt til að láta skoðanir sínar í ljós í öllum málum sem þau varða og skal tekið réttmætt tillit til skoðana þeirra í samræmi við aldur þeirra og þroska.

Við óskum ykkur öllum gæfu og gengis í ykkar góða starfi og vonum að þetta innlegg nýtist ykkur á einhvern hátt.

Með vinsemd og virðingu,

f.h. UNICEF á Íslandi

Bergsteinn Jónsson


Ólga og átök í Líbíu ógna lífi og velferð þúsunda barna. Börn eru sérstaklega berskjölduð á neyðarsvæðum. Hjálpaðu okkur að hjálpa líbískum börnum og styrktu neyðarsöfnunina!

Bergsteinn Jónsson
Fjáröflunarfulltrúi
Verkefnisstjóri skóla- og ungmennastarfs/
Fundraising officer
Education for Development Officer
UNICEF Ísland / UNICEF Iceland
Laugavegur 42, 101 Reykjavík
phone: +354 5526306
mobile: +615 4049

 

 

 

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.