Friðarmál

Menningar- og friðarsamtökin MFÍK
  • Heimilisfang: box 279
  • Skráð: 10.05.2011 22:57

Til Stjórnlagaráðs

Á stjórnarfundi menningar- og friðarsamtakanna MFÍK 10. maí 2011 var samþykkt að senda Stjórnlagaráði tillögu um að eftirfarandi ákvæði verði bundin í endurskoðaða stjórnarskrá Íslands:

• Að Ísland sé herlaust land og fari aldrei með ófriði á hendur öðrum þjóðum.

• Að herskylda verði aldrei í lög leidd á Íslandi.

• Að Ísland, land- og lofthelgi þess, verði lýst kjarnorkuvopnalaust svæði.

• Að Ísland taki sér stöðu með þeim þjóðum sem kjósa að standa utan hernaðarbandalaga.

Á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í desember 2010 var Ísland meðal þeirra ríkja sem studdu nýja ályktun um kjarnavopn (A/C.1/62/L.18/Rev.1). Yfirgnæfandi samstaða í þessari atkvæðagreiðslu (148 með, 30 sátu hjá og 4 á móti) ber vott um áhyggjur alþjóðasamfélagsins af afleiðingum notkunar geislavirkra málma, ekki einungis á stríðstímum heldur einnig að stríði loknu. Full ástæða er til að vara við áhrifum þess að geyma geislavirk efni í jörð.

Nýlegur árekstur kjarnorkukafbáta í Norður-Atlantshafi sýnir einnig svo ekki verður um villst að nú ríður á að koma í veg fyrir umferð slíkra háskafleytna í lögsögu landsins til að forða frá hörmulegum slysum og óafturkræfum afleiðingum þeirra.

Kannanir meðal almennings, sem og afdráttarlaus viðbrögð hagsmunaaðila í sjávarútvegi, bera því ljóst vitni að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar vill lýsa Ísland kjarnorkuvopnalaust svæði. Nú þegar hafa 74 af 79 íslenskum sveitarfélögum lýst sig kjarnorkuvopnalaus. Við fögnum afstöðu Íslands á Allsherjarþingi SÞ og teljum stjórnarskrárbindingu hennar rökrétt framhald af þeirri ákvörðun.

Utan hernaðarbandalaga geta komandi kynslóðir Íslendinga borið höfuðið hátt í hópi þjóða sem vilja efla bræðralag manna og leysa ágreiningsmál annars staðar en á blóðvellinum.

Styrjaldir eru glæpsamleg sóun á mannslífum. Stríð eru tilræði við líf, heilsu, hamingju og framtíðarvonir saklauss fólks. Fjármunum til hernaðar og vígvæðingar væri margfalt betur varið í baráttu við sjúkdóma, til menntunar og til uppbyggingar í kjölfar náttúruhamfara.

Sex áratuga þátttaka Íslands í hernaðarbandalagi hefur einungis rýrt trúverðugleika okkar sem friðelskandi þjóðar og auðveldað ótraustverðu yfirvaldi að taka þátt í ólöglegum hernaði gegn fólki sem Íslendingar áttu ekkert sökótt við. Sú saga mun án efa endurtaka sig nema við gerum ráðstafanir til þess að við verðum aldrei bendluð við slík óhæfuverk að okkur forspurðum og höfnum því að vera í gíslingu hernaðarafla heimsins.

Stjórn MFÍK

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.