Leið að eflingu lýðræðissamfélags

Guðmundur Ágúst Sæmundsson
 • Heimilisfang: Bólstaðarhlíð 64, 105 Reykjavík
 • Skráð: 11.05.2011 22:43

Erindi þetta er skrifað með vísan til erindis sem ég sendi á Stjórnlaganefnd og Stjórnlagaþing 5. nóvember 2010. Þá var formlega séð ekki farið að taka við erindum frá almenningi og því sendi ég þetta aftur núna með formlegum hætti á Stjórnlagaráð. Frá þessum tíma hefur nafn hópsins sem vinnur að endurskoðun stjórnarskrárinnar breyst og staða hans e.t.v. aðeins líka. Ég sé þó ekki ástæðu til að endurskrifa erindið og læt það fylgja sem viðhengi, ásamt þeim fylgiskjölum sem því fylgdu. Það sem helst þarf að skoða í öðru ljósi núna er í hve góðri stöðu ráðið er til að setja pressu á Alþingi til að samþykkja tiltekna breytingu sem ég tel hafa meiri þýðingu en allar aðrar breytingar samanlagt. Sú breyting snýst um að koma stjórnarskránni undir bein yfirráð almennings. Þar á hún heima og hvergi annars staðar. Andinn í Stjórnlagaráðshópnum eins og hann birtist mér lofar góðu um að ná megi heildarniðurstöðu sem rík samstaða verður um. Það breytir þó ekki því að erfiðleikar geta komið upp og ef svo fer þá er samt til mikils unnið ef aðeins þetta tiltekna atriði kæmist vel útfært í gegn.

Hér fyrir neðan er listi yfir helstu ábendingar sem fram koma í meðfylgjandi erindi. Þær byggja á og bæta við þá sýn sem ég setti fram í BA ritgerð í HHS (Heimspeki Hagfræði og Stjórnmálafræði) við Háskólann á Bifröst árið 2007 undir heitinu "Leið að eflingu lýðræðissamfélags - Hvernig bæta má stjórnkerfi Íslands og virkja almenning til ábyrgrar og stöðugrar þátttöku í stjórn landsins." Nánari rökstuðningur og útskýringar er að finna í erindinu og fylgigögnum:

 1. Stjórnarskrá verður að vera undir beinni lýðræðislegri stjórn almennings en ekki undir stjórn ríkjandi valdahafa eða annarra fulltrúa í því kerfi sem stjórnarskráin skilgreinir. Það er mjög raunhæft að útfæra þetta með skynsömum hætti sem tekur inn öll helstu sjónarmið eins og stöðugleika í stjórnskipun, verndun minnihlutahópa og fleira.
 2. Dagskrárvald almennings. Almenningur hafi rétt til að leggja fram lagafrumvörp og önnur þingmál á Alþingi í krafti tiltekinnar samstöðu.
 3. Þingmenn rökstyðji persónulega öll greidd og ógreidd atkvæði skriflega á vefsíðu Alþingis.
 4. Nýtt kosningafyrirkomulag - Rökrétt tengsl stjórnvaldsstefnu og niðurstaðna kosninga
  1. Kosið með beinum hætti um stefnu - milli stefnuskráa sem almenningur setur saman
  2. Alþingismenn kosnir með persónukjöri
  3. Alþingi taki þá stefnuskrá sem mest samstaða er um og nýti sem ramma um eigin störf auk þess að vinna úr henni nákvæmari stefnu fyrir ríkisstjórn til að vinna innan
  4. Forseti leiði saman (utanþings-)ríkisstjórn með hliðsjón af ábendingum frá almenningi
  5. Ríkisstjórn samþykkt formlega á Alþingi
  6. Þjóðkjörinn forseti gegni mögulega hlutverki forseta Alþingis (það gæti verið vandasamt að d og f liðir fari vel saman, en ekki útilokað með hliðsjón af e lið)
   1. Taki við innsendum þingmálum frá almenningi og komi á dagskrá Alþingis
   2. Hefur jafnar skyldur gagnvart öllum þingmönnum, enda skipting í stjórn og stjórnarandstöðu til óþurftar
 5. Kjördæmaskipting - Persónur bjóða sig fram á landsvísu en að hluta til tekið tillit til kjördæma við talningu atkvæða
 6. Samstaða á Alþingi - Í upphafi hvers þings sé Alþingi skipt með handahófsvali í þrjá hópa sem geta afgreitt þingmál með breiðri samstöðu. Náist ekki samstaða, eða ef einhver þingmaður óskar sérstaklega eftir, þá fer málið til afgreiðslu alls þingsins.

 

Til þess að sjá sum af þessum atriðum fyrir sér virka, og átta sig á hvert gildi þeirra getur í raun verið, er betra að skoða þau í samhengi við vefhugbúnað sem ég hef lagt til og kallað "Hugveitan" og er hugsaður sem þingsalur þjóðarinnar á Internetinu og sameiginleg nefndavinnuaðstaða fyrir almenning og stjórnvöld (sjá, http://www.hugveitan.is).

Erindi til stjórnlaganefndar og stjórnlagaþings (PDF)

Hugveitan ritgerð (PDF)

Hugveitan, kynning (PDF)

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
 1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
 2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
 3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
 4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
 5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.