Störf Alþingis - fjárlaganefnd

G. Valdimar Valdemarsson
  • Heimilisfang: Sunnubraut 38
  • Skráð: 12.05.2011 14:30

Hlutverk fjárlaganefndar er að fjalla um tekjuöflun ríkisins og ráðstöfun tekna.

Á hverju ári verðum við vitni að því að tekist er á um útgjöld ríkissjóðs og síðan er gatinu lokað á síðustu stundu til þess að þingmenn komist í jólafrí og þá oft með vanhugsuðum álögum í stað niðurskurðar.
Væri ekki rétt að setja í stjórnarskrá að tekjuhlið fjárlaga skuli afgreidd áður en gjaldahliðin er tekin til umfjöllunar? Þá væri tekjuhliðin afgreidd á vorþingi og góður tími gæfist til þess að gera viðeigandi kerfisbreytingar ef innheimtu skatta er breytt.
Síðan tækju menn gjaldahliðina fyrir á haustþingi og þá væri útgjaldaramminn þegar ákveðinn og markaðist af samþykktum tekjustofnum.

Annað atriði sem er þess virði að skoða er hvort það sé í samræmi við stjórnarskrá og lög að Alþingi samþykki útgjaldaskiptingu og framselji síðan fjármálaráðuneyti og öðrum ráðuneytum allan pottinn og þar sé síðan tekið til við að færa fjármuni milli liða eftir hentugleika þegar líða tekur á fjárlagaárið.

Þarna er vilji Alþingis sniðgenginn eftir hentugleika og agaleysið fær að vaða uppi þegar kemur að því að ráðstafa skattpeningum þjóðarinnar. Væri ekki nær að Alþingi/fjárlaganefnd úthlutaði þessum peningum á þar til gerða reikninga sem forstöðumenn stofnana eða umsjónarmenn verkefna fái síðan aðgang að og beri ábyrgð á?

Klárist fjármunir í miðju verkefni eða á miðju fjárlagaári er það Alþingis að taka ákvörðun um viðbrögð, en ekki fjármálaráðherra að fara fram úr heimildum og koma síðan mánuðum og jafnvel árum seinna með fjáraukalög og ríkisreikning sem er ekki í samræmi við ákvörðun og vilja Alþingis.

Í hnotskurn
Fjárlagafrumvörp verði tvö á ári, Tekjufrumvarp og Gjaldafrumvarp
Alþingi úthlutar fjármunum og ber ábyrgð á að fylgjast með framkvæmd fjárlaga.
Ríkisendurskoðun eða sambærileg stofnun heyrir undir Alþingi og fjárlaganefnd og hefur eftirlit með að ráðstöfun fjár sé í samræmi við vilja löggjafans.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.