Ráðherrar og þingmennska

Tryggvi Þór Tryggvason
  • Heimilisfang: Kleifarseli 13, 109 Reykjavík
  • Skráð: 12.05.2011 16:34

Ég vil koma á framfæri eftirfarandi ábendingu til fulltrúa Stjórnlagaráðs.

Kæru fulltrúar.

Sú hugmynd sem nú er uppi að ráðherrar segi af sér þingmennsku en hafi jafnframt aðgang að ræðustól Alþingis tel ég mjög varhugaverða. Þrátt fyrir að þessi aðgerð hafi vissulega göfugt markmið, að takmarka völd ráðherra gagnvart þinginu, þá eru miklar líkur á að niðurstaðan yrði þveröfug.

Völd þingmeirihlutans og þar með ráðherranna gætu aukist gríðarlega. Litlu máli skiptir hvort varamenn yrðu kallaðir á þing í stað ráðherranna.
Ráðherrarnir yrðu enn þá skipaðir af valda- og áhrifamestu einstaklingunum innan hvers flokks. Fyrir því er löng hefð í íslenskum stjórnmálum.

Völd ráðherra munu ekkert minnka við þessa ráðstöfun nema að forminu til.
Þeir verða enn þá skipaðir af sterkustu og reyndustu meðlimum flokksins, þeir hafa enn þá allt embættismannakerfið í ráðuneytinu til að vinna fyrir sig frumvörp, þeir hafa enn þá launaða aðstoðarmenn og þeir munu enn þá hafa aðgang að ræðustól Alþingis.

Ekki má vanmeta það sterka tæki sem ræðustóll Alþingis er. Hann er besta leið þingmanna/ráðherra til að koma sjálfum sér á framfæri í fjölmiðlum.
Ráðherrarnir yrðu áfram fyrirferðarmiklir í sölum Alþingis.

Einnig er líklegt að varaþingmennirnir sem yrðu kallaðir inn fyrir ráðherrana myndu einfaldlega lúta vilja ráðherranna í einu og öllu. Þeir væru reynsluminnstir og með minnsta fylgið á bakvið sig. Auk þess gæti meirihlutinn losað sig við þá af þingi ef þeir væru ósáttir við stefnu stjórnarinnar. Það væri gert með breyttri ráðherraskipan.

Í lok hvers kjörtímabils hefði svo starfandi meirihluti á að skipa mun fleiri reyndum þingliðum en stjórnarandstaðan.

Þrátt fyrir að markmiðið sé göfugt, að minnka völd ráðherra gagnvart þinginu, tillagan hljómi vel í eyrum margra, þá er það mitt álit að þessi breyting gæti haft gagnstæð áhrif og aukið liðstyrk stjórnarliðsins sem nemur fjölda ráðherra hverju sinni.

Þessi hugmynd getur ef til vill gengið í þroskuðum þingræðisríkjum Skandinavíu þar sem einnig er hefð fyrir minnihlutastjórnum og ákvarðanatöku með víðtækri sátt allra flokka. Á meðan íslensk þingræðishefð hefur ekki náð viðlíka þroska tel ég ekki ráðlegt að ráðherrar verði látnir víkja sæti.

 Með þökk fyrir göfugt og gott starf allra fulltrúa ráðsins,

Tryggvi Þór Tryggvason, Kleifarseli 13, 109 Reykjavík.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.