Takmarkanir við myndun ríkisstjórnar

Hannes Richardsson
  • Heimilisfang: Valhúsabraut 17
  • Skráð: 19.05.2011 21:14

Takmörkun heimilda stjórnmálamanna (flokka) við myndun ríkisstjórna.

Svo lengi sem ég man hefur verið almenn óánægja varðandi það ferli sem á sér stað eftir kosningar. Skiptir þá litlu máli hvaða flokki menn telja sig tilheyra.

Það hefur sært réttlætiskennd margra að fylgjast með því í gegnum áratugina hvernig stjórnmálamenn hafa raðað saman ráðherraembættum með, að því er virðist, algerlega frjálsar hendur varðandi skiptingu embætta eða túlkun á niðurstöðu kosninga. Svo fremi sem hægt sé að mynda meirihluta þá virðist sem menn séu frjálsir að því að gera hvað sem er. Þetta hefur gert það að verkum að tilfinning almennings er sú að litlu máli skipti hvað gert sé í kjörklefanum því á eftir fari af stað allskonar hrossakaup og útkoman komi oft niðurstöðu kosninganna lítið við.

Þessu þarf að breyta og ég held reyndar að margir stjórnmálamenn myndu fagna því að verða lausir við þennan kaleik því eins og staðan er í dag þá eru þeir nánast nauðbeygðir að taka þátt í hrossakaupunum eða enda áhrifalausir ella. Einnig eykur þetta hættu á lægra getustigi þeirra sem veljast í áhrifamikil embætti.

Í ljósi reynslunnar þyrfti því að setja skýrar reglur varðandi samsetningu ríkisstjórna með tilliti til kosningaúrslita hverju sinni. Reglur sem segja að við myndun nýrrar ríkisstjórnar verði að líta mjög nákvæmlega til úrslita síðustu þingkosninga og hin nýja ríkisstjórn eigi að endurspegla þann vilja á svipaðan hátt og alþingi gerir.

Ég legg því til að einhvers konar ákvæði í líkingu við eftirfarandi verði bætt inn í stjórnarskrána:

• Ríkisstjórn hverju sinni skal endurspegla vilja þjóðarinnar og þingstyrk og skal því hver flokkur eða aðili ríkisstjórnar hafa sama hlutfall ráðherra og hann hefur alþingismenn á Alþingi. Enn fremur er skylt að stærsti flokkurinn í ríkisstjórnarsamstarfi (þá einnig miðað við þingstyrk) verði í forsæti ríkisstjórnarinnar. Óheimilt er að víkja frá þessum reglum.

Með þessari einföldu breytingu væri búið að koma í veg fyrir stóran hluta þeirra hrossakaupa sem nú eiga sér stað við ríkisstjórnarmyndanir. Þetta myndi auka verulega á gæði málefnavinnu við stjórnarmyndunarviðræður og minnka hættuna á misnotkun aðstöðu hjá litlum flokkum í oddastöðu.

Auðvitað þarf að passa að áfram sé möguleiki að mynda óþingkjörna ríkisstjórn við ákveðnar aðstæður og/eða hafa óþingkjörna ráðherra.

 

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.