Lýðræði þjóðar eða sérhagsmunahópanna

Örn Leó Guðmundsson
  • Heimilisfang: Langahlíð 9
  • Skráð: 20.05.2011 11:34

Til hamingju, öll sömul, með ykkar merka hlutverk að fá að fjalla um sjálfa umgjörð lýðræðis okkar Íslendinga, og hvernig það skuli verða útfært í framtíðinni. Vonandi þannig að þjóðin geti verið sátt en ekki fáeinir hagsmuna- og forréttindahópar.

Það hefur verið ráðist á grunnstoðir okkar, sjálft efnahagslífið, og við rænd innan frá svo að við lá endanlegu hruni og gjaldþro ti til framtíðar.Hvað getið þið gert til að hafa áhrif á að slíkt gerist aldrei aftur ætti að vera ein af þeim spurningum sem þið þurfið að spyrja ykkur. Þið hafið tækifæri til að loka spillingardyrunum í fjármálaheiminum á Íslandi svo og á Alþingi Íslendinga með því að breyta sjálfu regluverkinu eftir því sem stjórnarskráin gefur svigrúm til. M.a. með því að eftirlitskerfin hafi rýmri heimildir og áhrif og ábyrgð verði skilgreind með skýrari hætti þannig að gjörðum fylgja afleiðingar og jafnvel t.d með viðurlögum refsingum eða sektum og stöðumissi. Það á að vera hægt að reka á skilvirkan hátt spillta og brotlega embættismenn og ráðamenn og þingmenn og dæma þá eins og aðra þegna þessa lands. Það duga ekki yfirborðstillögur ykkar gagnvart þingmönnum sem voru kynntar í fjölmiðlum.

Vonandi ber ykkur gæfa til að styðja það að forseti Íslands hafi áfram málskotsrétt skv. 26 gr. stjórnarskrárinnar fyrir hönd þjóðarinnar ef það myndast gjá milli þess sem þingheimur vill og þess sem er þjóðarvilji. Það þarf að gera þetta ákvæði enn skýrara og óumdeilt. Núverandi forseti hefur unnið þjóðinni meira gagn en flestir ef ekki allir ráðamenn síðustu aldar og fram til okkar daga. Sá sem gegnir þessu embætti á hverjum tíma er hinn eini raunverulegi vörður lýðræðis á Íslandi. Nú búum við við þá undarlegu stöðu að fyrir aðeins nokkrum vikum síðan naut þingheimur eins og hann lagði sig aðeins 11% stuðnings þjóðarinnar, 89% íslensku þjóðarinnar vantreysti bæði ríkisstjórn og stjórnarandstöðu. Þetta er fólkið sem á síðan að ráða ferð þegar kemur að endanlegri gerð stjórnarskrárinnar. Er þetta eðlilegt?

Vonandi ber ykkur líka gæfa til að leggja til afdráttarlaust að allar auðlindir þjóðarinnar, sjávarútvegurinn, orkan, drykkjarvatnið og fl. verði endanlega og óumdeilanlega og óbreytanlega til framtíðar eign íslensku þjóðarinnar. Það getur skipt sköpum um það hvort við eða börnin okkar og barnabörn verðum áfram sjálfstætt fólk eða þrælar.

Að lokum, á tyllidögum er því gjarnan slegið fram að fjölskyldan sé hornsteinn þjóðfélagsins, en hvernig þjóðfélag erum við? Við höfum verið kristin þjóð í yfir þúsund ár. Í dag eru fámennir hópar sem úthrópa kristna trú og fara gegn henni með miklum fordómum. Í stað þess að horfa til sögunnar og fólks sem er breyskt þegar við dæmum um kristna trú og réttmæti hennar ættum við þá ekki frekar að horfa til sjálfs höfundar hennar, Jesúm Krists, og boðskapar hans? Vonandi er á meðal ykkar fólk sem hefur djörfung og þor til að standa upp fyrir Krist og verja það að kristin trú eigi áfram að eiga þann sess í stjórnarskrá sem henni ber. Við ættum frekar að auka við en draga úr.

Það er líka von mín að ykkar tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslur verði skýrar og aðgengilegar og til stuðnings við lýðræðið á Íslandi. Við þurfum sambland af beinu lýðræði og fulltrúalýðræði næstu áratugina. Af hverju horfið þið ekki til Sviss og kynnið ykkur persónukjör eins og það er stundað þar og hvernig þeir útfæra lýðræði?

Gangi ykkur öllum sem best og ég treysti því að ykkar tillögum verði vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Virðingarfyllst,

Örn Leó Guðmundsson.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.