Hvers vegna varaforseta?

Guðmundur Guðbjarnason
  • Heimilisfang: Kristnibraut 89 113 Reykjavík
  • Skráð: 24.05.2011 22:20

Í þremur greinum sem birst hafa í Fréttatímanum, helgarnar 1.–3. apríl, 18.–20. apríl og 25.–27. apríl sl. hafa komið fram athyglisverðar upplýsingar um hlutverk og verkefni handhafa forseta Íslands. Þetta handhafavald er eitthvert það skrýtnasta fyrirbrigði í stjórnskipuninni sem virðist ekki eiga neins staðar fyrirmynd og er full ástæða til að taka til skoðunar í tengslum við fyrirhugaða endurskoðun stjórnarskrár Íslands. Handhöfn forsetavalds er falin æðstu handhöfum hinna þriggja greina ríkisvaldsins, forsætisráðherra, forseta Hæstaréttar og forseta Alþingis, sem stjórna á fundum þeirra. Þar bregður svo við að í allri þeirri umræðu í ræðu sem riti eru engar hugmyndir settar fram um breytingu á þessum bastarði eins og ég vil kalla þetta fyrirbrigði. Í stuttu máli kemur fram í þessum greinum að eina hlutverk þeirra þegar þeir fara með vald forseta Íslands sé annars vegar að fylgja honum til Keflavíkurflugvallar og taka á móti honum við heimkomu, a.m.k. ef um opinberar ferðir er að ræða, og staðfesta lög frá Alþingi. Þeir koma aldrei fram við opinberar móttökur og halda ræður í því tilefni, opna hinar og þessar ráðstefnur eða sýningar, en koma þeir saman til formlegs fundar til að undirrita lög sem Alþingi hefur samþykkt eða eru þau undirrituð heima hjá hverjum og einum?

Í Skýrslu stjórnlaganefndar 2011, 2. bindi bls. 271, kemur fram að nokkuð hafi verið rætt um mögulegar breytingar á ákvæði 8. gr. stjórnarskrárinnar um handhafa forsetavalds og hafi meðal annars komið fram hugmyndir um að kosinn verði varaforseti eða að forseti, ýmist Alþingis eða Hæstaréttar, verði falið að gegna slíku embætti. Mun þetta hafa verið rætt í stjórnarskrárnefnd Gunnars Thoroddsen heitins, þótt engar breytingar hafi verið lagðar til í frumvarpinu sem Gunnar lagði fram í kjölfar nefndarstarfsins. Vissulega má ætla að menn hafi ekki verið mjög fjáðir í að búa til enn eina silkihúfuna á stjórnskipulagið. Hver ættu verkefni og dagleg störf varaforseta að vera? Að tengja það embætti forseta Alþingis eða Hæstaréttar var og er fráleitt.

Að fenginni reynslu af beitingu forsetaembættisins af málskotsrétti samkvæmt 26. gr. og þátttöku þjóðarinnar í þeim þjóðaratkvæðagreiðslum í kjölfarið verður það að teljast eðlilegt að forsetinn hafi áfram vald til að vísa lögum til þjóðaratkvæðis. En taka má undir það sjónarmið að skýra þá heimild og reglur um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu. Í skýrslunni kemur fram að ákvæðið „sé einn hornsteina embættis forseta Íslands og leiki grundvallarhlutverk í dreifingu valds og aðhaldi forseta gagnvart Alþingi“. Það er því ótrúleg þversögn að forsætisráðherra sem ber ábyrgð á stjórnarfrumvörpum og forseti Alþingis sem ber ábyrgð á framgangi frumvarpa á Alþingi og forseti Hæstaréttar sem þarf síðar að taka afstöðu í deilumáli sem upp kann að koma vegna þeirra laga séu að fara með vald forseta til staðfestingar á lögum. Hvenær myndu þeir beita ákvæði 26. gr.? Hvar er þá allur varnagli greinarinnar? Geti einhver af handhöfum forsetavalds ekki sinnt starfanum gegna varamenn þeirra handhafavaldinu, t.d. sá ráðherra sem er staðgengill fjarstadds forsætisráðherra, varaforseti Hæstaréttar og síðast en ekki síst 6. varaforseti Alþingis vegna fjarveru hinna varaforsetanna. Hann er að öllum líkindum stjórnarandstæðingur, kann að hafa greitt atkvæði gegn lögunum en verður nú sem handhafavald að taka afstöðu til að staðfesta lögin. Það eru samtals 19 nöfn sem koma til greina sem handhafi forsetavalds hverju sinni. Þá má einnig benda á heimild handhafavalds til útgáfu bráðabirgðalaga.

Úr því ég er að rita þess grein hef ég lausn. Það kom upp í huga mínum við þessa greinalesningu Fréttatímans að fyrir rúmlega 30 árum voru fjórar valinkunnar persónur í forsetaframboði. Sá sem fékk næstflest atkvæði, nokkru minna en kjörinn forseti, gegndi starfi sáttasemjara ríkisins og var hann vinsæll og virtur af þjóðinni í því starfi eins og reyndar öðrum störfum sem hann gegndi á lífsleiðinni. Því ekki að kjósa varaforseta sem hefði það að daglegu starfi að gegna starfi sáttasemjara? Þetta er mikilvægt og virðingarvert starf eins og þeir hafa sýnt sem hafa gegnt því embætti frá upphafi að leiða menn til sátta. Verkefni varaforseta þyrftu ekki að taka svo mikinn tíma frá sáttasemjarastarfinu að ekki mætti tvinna það saman. Eins mætti takmarka valdsvið varaforseta við t.d. athafnir sem ekki þola bið, t.d. að staðfesta aðeins lög þar sem frestur til þess er að renna út í fjarveru forseta (og þá jafnvel í samráði við fjarstaddan forseta), en hann gæti gegnt opinberum athöfnum í fjarveru hans eða jafnvel komið fram fyrir hönd hans sem fulltrúi forsetaembættisins ef forseti er upptekinn við önnur brýn skyldustörf.
Ýmis vandamál fylgja þessum hugmyndum sem þarf að skoða nánar, t.d. á varaforseti að vera í framboði ásamt tilteknum forsetaframbjóðanda og þar með helsti trúnaðarmaður hans þegar forseti skreppur af bæ eða vera með sjálfstætt framboð? Ef varaforseti forfallast, hver á þá að hlaupa í skarðið? Þessar vangaveltur læt ég liggja á milli hluta meðan menn velta hugmyndinni fyrir sér með mér og öðrum.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.