Val á ráðherrum

Hafsteinn Sigurbjörnsson
 • Heimilisfang: Höfðagrund 14 300 Akranes
 • Hagsmunaaðilar: Eldri borgari
 • Skráð: 25.05.2011 21:13

Um skipun ráðherra.

Það þrískipta vald, löggjafar-, dóms- og framkvæmdarvald, sem hér átti að vera er ekki virkt lengur. Framkvæmdarvaldið hefur náð tökum á löggjafanum og það sem verra er einnig dómsvaldinu.

Tillaga mín til breytinga á þessu er eftirfarandi:

 1. Allir íslenskir ríkisborgarar 40 ára og eldri með hreint sakarvottorð eru kjörgengir til ráðherradóms að undanskildum starfandi dómurum og alþingismönnum.
 2. 36 frambjóðendur eru tilnefndir af Alþingi með úrtaki úr öllum þeim frambjóðendum, sem gáfu kost á sér til starfsins.
 3. Tilnefningarnar til Alþingis skulu framkvæmdar með hlutfallskosningu milli stjórnmálasamtaka er sitja á Alþingi.
 4. Kjósa skal 9 aðila til ráðherra í almennum kosningum samhliða alþingiskosningum.

Greinargerð

Fyrsti liður skýrir sig sjálfur. Þar er 40 ára aldursmarkið sett til að frambjóðendur hafi nokkra lífsreynslu. Einnig tel ég að alþingismenn, sem eru að ljúka kjörtímabili sínu, séu ekki í kjöri til ráðherra.

Annar liður er auðskilinn. Kjósendur geta valið úr 36 manna hópi einn aðila í hvert ráðuneyti þ.e. einn í forsætisráðuneytið, einn í fjármála- og einn aðila í hin 7, samtals 9 aðila, og þannig myndað sína óskaríkisstjórn.
Þetta á við ef tilnefningar Alþingis eru ekki bundnar við hvert ráðuneyti, 4 til forsætisráðuneytis 4 til fjármála- o.s.frv. Þannig er val kjósenda þrengt og hann hefur aðeins val um 4 í kjöri í hvert ráðuneyti.

Kjörseðillinn þarf ekki að vera flókinn. Í fyrra tilfellinu 36 nöfn í töluröð og fyrir neðan nöfn ráðuneyta hvert við hliðina á öðru í afmörkuðum reit, sem kjósandi skrifar í nafn eða númer þess manns, sem hann vill að gegni því ráðherraembætti.

Í seinna tilfellinu yrði kjörseðillinn eins með nöfnum ráðuneytanna hvert við hliðina á öðru í afmörkuðum reit, en 4 nöfn í hverjum reit, eins og Alþingi tilnefndi aðila til kjörs.

Þriðji liður er til þess að Alþingi geti valið úr þeim fjölda frambjóðenda og takmarkað hann (nokkurs konar sía á frambjóðendahópinn) og með því haft nokkurt áhrifavald hverjir veljast úr hópi frambjóðenda í þann 36 manna hóp, sem kosið verður um til ráðherradóms.

Fjórði liður er einna mikilvægastur í þessari hugmynd og nauðsynlegur til að Alþingi geti ekki í krafti lítils meirihluta tilnefnt alla 36 aðilana úr sínum stjórnmálasamtökum. Það er hægt að gera með hlutfallskosningum eins og viðhafðar eru á Alþingi við kosningar í nefndir og tryggja að allir stjórnmálaflokkar á Alþingi myndu fá (mismargar eftir stærð) tilnefningar á þeim 36 aðilum sem þjóðin fengi að kjósa um.

Í lögum um þingsköp Alþingis grein nr. 68., kennd við d´Hondt (listakosningar) eru skýringar á hlutfallskosningum.
Ef við tökum dæmi, sem væri svona.
Sjálfstæðisflokkur væri með 24 þingmenn, Samf. með 16, Fram. með 9 VG með11 og aðrir með 3. Þá myndi tilnefnig frá þeim vera eftirfarandi:
Sjálf. fengi 1-, 3,- 6,- 8,- 11,- 13,- 16,- 20,- 23,- 24,-28,-30,-31,-35,og36 = 15 menn tilnefnda.
Samf. ------ 2,- 7,- 10,-14,- 17,- 22,- 25, 29,- 34 = 9 menn tilnefnda.
VG ----------- 4,- 9,- 15,- 21,- 27,- og 32 = 6 menn tilnefnda.
Fram.-------- 5,- 12,- 19,- 26,og 33 = 5 menn tilnefnda.
Aðrir fengu 18 = 1 mann tilnefndan.

Þetta er tilbúið dæmi ekki langt frá því hvernig hlutföll flokka gæti verið á Alþingi, sem sýnir að hvora aðferðina sem notuð yrði hjá Alþingi við tilnefningarnar getur engin meirihlutasamstaða flokka á þingi útilokað minnihluta frá því að tilnefna menn í kosningar.

Önnur hugmynd, sem ég veit að Alþingi myndi hugnast betur, væri sú að Alþingi mundi kjósa með hlutfallskosningu (eins og það gerir með skipan allra annarra nefnda) eina nefndina enn, þá alstærstu þ.e. ráðherranefnd öðru nafni, ríkisstjórn Íslands.

Hafsteinn Sigurbjörnsson.

 

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
 1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
 2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
 3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
 4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
 5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.