Eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar m.t.t. upptöku ólögmæts ávinnings. Viðauki meðfylgjandi.

Arnar Jensson
  • Skráð: 26.05.2011 11:06

Til Stjórnlagaráðs.

Erindi þetta sendi ég sem einstaklingur en ekki sem fulltrúi yfirvalda eða annarra aðila.

Ég starfa sem tengifulltrúi Íslands hjá Europol og er auk þess að ljúka við MA-ritgerð í alþjóðasamskiptum við HÍ. Umfjöllunarefni ritgerðarinnar er alþjóðleg þróun, þróun innan ESB og samanburður á úrræðum yfirvalda til að ná til baka ólögmætum ávinningi (e. Assets Recovery eða Proceeds of Crime Recovery) á Írlandi, í Noregi og á Íslandi. Ég hef því rannsakað ítarlega alþjóðlega þróun, þróun í Evrópu og stöðuna á Írlandi, í Noregi og á Íslandi.

Á sl. ári kom ég til Íslands ásamt tveimur sérfræðingum á þessu sama sviði m.a. til að taka þátt í opnum fundi hjá lagadeild HÍ þann 26. maí 2010 um lagaúrræði sem hefur verið að ryðja sér til rúms á undanförnum árum - „non-conviction based confiscation“ sem beita má innan einkamálaréttarfars þar sem sönnunarþröskuldur er lægri en innan sakamálaréttarfarsins. Þetta lagaúrræði hafa m.a. SÞ, ESB og Evrópuráðið, auk Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, mælt með að aðildarlöndin tækju upp til að ná til baka fjármunum og eignum sem aflað hefur verið með ólögmætum hætti og skila þeim til réttra eigenda.

Á fyrrgreindum fundi í HÍ dró Róbert Spanó, lagaprófessor, í efa að íslensk lagasetning sem heimiluðu þetta úrræði mundu standast eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar vegna þess að eignaréttur nyti meiri lagaverndar á Íslandi en í flestum öðrum löndum (!). Taldi hann líklegt að þrátt fyrir að Alþingi mundi samþykkja slík lög mundi Hæstiréttur komast að þeirri niðurstöðu að þau stæðust ekki eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar vegna sérstöðu þessa ákvæðis þar. (Sjá umfjöllun um þennan fund t.d. í Morgunblaðinu 27. maí 2010 á bls. 14, þar sem þessi skoðun R.S. kemur einmitt fram).

Í ljósi þess að allar fyrrgreindar alþjóðastofnanir hafa mælt með þessu lagaúrræði og ekki síður vegna þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur í nokkur skipti komist að þeirri niðurstöðu að lög af þessu tagi brjóti ekki í bága við eignaréttarákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu – skýtur þetta óneitanlega dálítið skökku við (þess má geta að norsk yfirvöld eru að skoða hvort taka eigi upp þetta lagaúrræði, einmitt til að auðvelda yfirvöldum að ná til ólögmæts hagnaðar af brotastarfsemi, sem reynst hefur afar erfitt fram að þessu, þar eins og annars staðar, vegna krafna um tengsl við sakfellingar þeirra sem náðu til sínum hinum ætlaða ólögmæta ávinningi).

Að mínu áliti, svo og ýmissa annarra sem ég hef rætt þetta við (bæði Íslendinga og erlendra sérfræðinga) er bráðnauðsynlegt að skoða þetta gaumgæfilega til að stjórnarskráin standi ekki í vegi fyrir að hægt sé að setja í lög á Íslandi alþjóðlega viðurkennd úrræði sem auðveldi yfirvöldum að ná til baka ólögmætum ávinningi af brotastarfsemi. Sé ofangreind skoðun Róberts Spanó rétt, mætti halda því fram með sterkum rökum að stjórnarskráin verndi þá sem ná til sín ávinningi og eignum með ólögmætum hætti og standi jafnframt í vegi fyrir því að yfirvöld geti náð ólögmætum ávinningi til baka og skilað honum til réttra eigenda.

Hvers vegna ætti íslenskur eignaréttur að njóta meiri verndar en annars staðar?
Hvers vegna ætti ólögmætur ávinningur að njóta verndar stjórnarskrárinnar?

Ég kem því þessu erindi á framfæri við Stjórnlagaráð með þeirri beiðni að farið verði yfir eignaréttarákvæðið í ljósi ofangreinds og það tryggt að stjórnarskráin hindri ekki að hægt verði að setja þessi eða sambærileg alþjóðlega viðurkenndu úrræði í lög á Íslandi.

Frekari upplýsingum, gögnum og heimildum get ég að sjálfögðu komið á framfæri verði eftir því óskað.

Virðingarfyllst,
Arnar Jensson.

 

Sjá einnig viðauka í meðfylgjandi skjali.

Viðauki við fyrra erindi (PDF)

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.