Á Íslandi er kristin þjóð

Einar G. Jónasson
  • Heimilisfang: Garðsstöðum 30
  • Skráð: 26.05.2011 23:28

Ágætu fulltrúar Stjórnlagaráðs.

Ein er sú grein í stjórnarskrá lýðveldisins sem Stjórnlagaráðið mun ræða en það er 62. greinin sem fjallar um að á Íslandi skuli vera þjóðkirkja.

Fámennur, en hávær, hópur fólks hefur haft þessa grein á hornum sér og sér henni allt til foráttu. Ef greinin er skoðuð er erfitt að sjá rök gegn því að hér skuli vera þjóðkirkja og enn síður hví það skuli ekki vera hin evangeliska lúterska kirkja, þar sem stór meirihluti þjóðarinnar tilheyrir henni. Það að ríkisvaldið skuli styðja hana og vernda er kannski eitthvað sem auðveldara er að setja út á við fyrstu sýn.

Hér þarf þó að skoða málið í samhengi. Það að í landinu skuli vera þjóðkirkja sem ríkisvaldið styður er fullkomlega eðlilegt, þar sem kristin trú hefur fylgt þjóðinni í ríflega þúsund ár og haft afgerandi áhrif á menningu, menntun og siðferði þjóðarinnar. Ef skilið verður á milli þjóðar og kirkju þarf að endurskoða frá grunni allar kirkjulegar athafnir, sem eru þó sterkur hluti af menningu þjóðarinnar, s.s. skírnir, ferming, brúðkaup og jarðarfarir. Auk þess sinnir þjóðkirkjan fjölmörgum öðrum þjóðþrifaverkum s.s. forvarnarstarfi ungmenna, stuðningi við bágstadda, aðkomu að áföllum o.s.frv. Verði greinin numin úr gildi er í raun verið að kasta fyrir róða íslenskri menningu.

Ég vil í bréfi þessu hvetja fulltrúa Stjórnlagaráðs til að skoða þetta mál í enn víðara samhengi. Í mínum huga eru sterk rök fyrir því að tengja þjóðtrú Íslendinga við stjórnarskrána og bæta við í hana að Ísland sé kristin þjóð, sem leggi áherslu á „umburðarlyndi og kærleika, kristna arfleifð íslenskrar menningar, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi og virðingu fyrir manngildi“ svo ég nýti mér lög um starfshætti grunnskóla (lög nr. 91, 2008). Ekki þarf að fara lengra en skoða þjóðfána okkar, skjaldarmerki og þjóðsöng til að sjá að Ísland er kristin þjóð, því vantar bara að það sé skráð í stjórnarskrána.

Þegar þar er skrifað „kristna arfleifð íslenskrar menningar“ er í raun verið að tala um siðferði þjóðarinnar. Í mínum huga er mikilvægt að taka sterkar til orða og skilgreina það siðferði sem við viljum að þjóðin miði sig við. Óskilgreint siðferði opnar allar gáttir, á sama tíma og við vitum að það er kristin trú sem hefur mótað siðferði þjóðarinnar og líklega aldrei meir en á síðustu hundrað árum eftir að menntun þjóðarinnar jókst. Við eigum ekki að vera feimin við að viðurkenna hver við erum.

Í lýðræðisríki sem Ísland er, er mikilvægt að þessi atriði séu í hávegum höfð. Á sama tíma og ég segi að í stjórnarskrá Íslands skuli koma klausa sem segir að Ísland sé kristin þjóð, er mikilvægt að brjóta ekki á rétti þeirra sem ekki aðhyllast kristna trú. Ég tel að þorri Íslendinga vilji trúfrelsi í landinu, en trúfrelsi er réttur til trúar, sem og réttur til trúleysis.

Í hugum sumra virðist hugtakið trúfrelsi þýða að trú skuli vera ósýnileg og aðeins iðka í einrúmi og alls ekki í opinberum rýmum s.s. skólum. Í 18. grein Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna segir: „Allir skulu frjálsir hugsana sinna, samvisku og trúar. Felur sá réttur í sér frelsi til að skipta um trú eða sannfæringu, og enn fremur frelsi til að rækja trú sína eða sannfæringu einslega eða með öðrum, opinberlega eða í einrúmi, með boðun, breytni, tilbeiðslu, og helgihaldi." Ég bendi auk þess á 9. grein Mannréttindasáttmála Evrópu sem fjallar um sömu hluti.

Það er mikilvægt að Stjórnlagaráð fjalli um þetta mál. Nýverið gerði meirihluti Mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar atlögu að trúfrelsi í landinu í skjóli mannréttinda. Þegar ferli tillögunnar er skoðað kemur í ljós að um pólítískt bitbein er að ræða. Það gengur náttúrulega ekki að fámenn nefnd geti tekið sér allsherjarvald og valtað þannig yfir og útilokað trúfrelsi þegnanna.

Ég hvet fulltrúa Stjórnlagaráðs til að skoða þetta mál gaumgæfilega í sínu víðasta samhengi og vera óhræddir að feta nýjar brautir, þjóðinni til heilla.

Með kveðju,
Einar G. Jónasson
Garðsstöðum 30

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.