Auðlindir og þjóðareign

Jóhannes Laxdal
  • Heimilisfang: Laufásvegur 22
  • Skráð: 29.05.2011 02:54

Ágætu ráðsfulltrúar!

Mér finnst gæta ónákvæmni og misskilnings í umræðunni um þjóðareign á fiskstofnum sem auðlindar. Í mínum huga verður að gera greinarmun á auðlind annars vegar og hlunnindum hins vegar. Villt dýr, fiskar og spendýr eru hlunnindi. Olía í jörð sem og málmar eru auðlindir. Eins er um skilgreiningu á orkunni. Hvort er hún auðlind eða hlunnindi? Þessi umræða hefur ekki farið fram og þessi skilgreining er forsenda auðlindakafla stjórnarskrárinnar. Þjóð getur aðeins gert tilkall til að eiga land. Land, hvort sem er á láði eða legi, eru efnisleg gæði og því er hægt að lýsa yfir eignarrétti. Sama er að segja um það sem er undir yfirborðinu enda eru jarðefni hvers konar, hluti af landinu. Allt annað ber að líta á sem hlunnindi sem þjóðin hafi nýtingarrétt á. Nýtingarréttur á þessum hlunnindum getur verið með margs konar hætti. Í höndum opinberra aðila, ríkis eða einstaklinga. Einkaeign er hægt að þjóðnýta eða taka eignarnámi enda komi bætur fyrir. Ríkiseignir má líka selja og veðsetja. En nýtingarréttur er í eðli sínu leiguréttur og því ekki hægt að selja eða veðsetja. Þetta er kjarni málsins og óþarfi að flækja umræðuna með marklausu tali um þjóðareign á fiskiauðlindinni í sjónum og ólöglegri veðsetningu þessara hlunninda.

Stjórnlagaráð þarf að taka þetta aftur upp. Fiskinn í sjónum má ekki og á ekki að skilgreina sem auðlind. Fiskstofnar eru hlunnindi sem við getum gert tilkall til að nýta á meðan þeir eru innan okkar efnahagslögsögu en lengra nær réttur okkar ekki. Ef við búum til ákvæði og setjum í okkar stjórnarskrá um að fiskstofnar séu auðlind í þjóðareign þá hljótum við að viðurkenna rétt annarra þjóða til hins sama. Þar með væru okkur óheimilar veiðar úr hvalastofninum, selastofninum og öllum öðrum flökkustofnum sem hingað synda. En verðmæti afla úr þessum stofnum nema hundruðum milljarða og fer vaxandi.

Á einfaldan hátt má orða þetta svona í stjórnarskrá:

Nýtingarrétt á hlunnindum, hvort sem er á landi eða í sjó og fellur undir efnahagslögsögu Íslands hverju sinni, má aldrei selja eða veðsetja.

Greinargerð með erindi

Öll kvótasetning er í eðli sínu ólögleg enda brýtur hún á mannréttindum og jafnræði þegnanna sem eru æðstu réttindi sem ber að vernda. Það er hægt að réttlæta ígrip í nytjar á hlunnindum á grundvelli neyðarréttar enda sé um almannahagsmuni að ræða. En neyðarlög mega aðeins gilda í afmarkaðan tíma. Eftir að tilgangi þeirra hefur verið náð þá ber að afnema þau. Það ber að afnema kvótakerfi í sjávarútvegi strax. Tilgangurinn var ekki að byggja upp fiskstofna. Tilgangurinn var aðeins að draga úr sókn og minnka fjárfestingu í sjávarútvegi. Þau markmið náðust fyrir 10 árum og vel það. Ef menn skoða þessa röksemdafærslu, hljóta menn að sjá hversu fjarlægt og óraunhæft það er að tala um fiskstofna sem auðlind sem hægt er að skilgreina sem þjóðareign. Því það er líka falin ákveðin hætta í slíkum fyrirætlunum. Með því ranglega að búa til eignarréttindi þá má fara að versla með þau. Ef við göngum í ESB þá er stór hætta á að ESB geti boðið út kvóta á frjálsum markaði úr fiskstofnunum okkar. Ég get ekki séð hvernig við getum varist því ef við framseljum fullveldi okkar til Brussel. Hins vegar þá getum við á meðan við höldum sjálfstæði okkar alltaf ráðið því einhliða hverjir fá að veiða í okkar efnahagslögsögu. Líka úr þeim flökkustofnum sem hingað flækjast, eins og síld, makríl og loðnu. Að ég tali ekki um veiðar á hval og sel. Menn skulu hafa það alveg á tæru að veiðar á hval og sel eru bannaðar í ESB. Og það eru sterkir þrýstihópar sem vinna að því að banna allar veiðar með botnvörpu. (Mest af okkar þorsk, ýsu og ufsa er veitt í botnvörpu). Ætla menn virkilega að hætta á að það gerist og að eins fari fyrir okkur og íbúum Nýfundnalands og Labrador?! Ég vona svo sannarlega ekki og því er það krafa mín að Stjórnlagaráð taki auðlindakaflann upp aftur og breyti honum þannig að fiskstofnar séu ekki skilgreindir sem auðlind. Skilgreining á hugtakinu þjóðareign, sem fram kemur í lögunum um þjóðgarðinn á Þingvöllum er nefnilega fín og verðmæti í jörðu er sjálfsagt að skilgreina sem þjóðarauðlindir. En undir það eiga ekki að falla villt dýr, hvorki fiskar né spendýr eða vatnsréttindi og gufa. Hins vegar er hægt að þjóðnýta land þar sem vatn eða gufa er virkjuð eins og áður sagði. En það er bara allt önnur Ella

Virðingarfyllst, Jóhannes Laxdal
http://johanneslaxdal.blog.is/blog/johanneslaxdal/

 

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.