Mörg trú- og lífsskoðunarfélög geti verið „þjóðkirkjur“

Sigurður Viktor Úlfarsson
  • Heimilisfang: Miklabraut 70
  • Skráð: 29.05.2011 23:10

Til Stjórnlagaráðs.

Takk öll sömul fyrir að leggja á ykkur þetta merkilega verkefni samfélaginu til heilla.

Stjórnarskráin er ekki trúarrit en stjórnarskráin er hins vegar samfélagssáttmáli sem leggur grunn að því samfélagi sem við viljum lifa í. Trúmál og trúfélög eru staðreynd í íslensku samfélagi sem og í flestum samfélögum víðs vegar um heiminn. Víða hafa þau grundvallaráhrif á samfélagsgerðina ýmist til góðs eða ills. Að láta eins og þau séu ekki til, að þau hafi engin áhrif á það samfélag sem við lifum í eða að okkur sé alveg sama er að vissu leyti að stinga hausnum í sandinn.

Í stjórnarskránni á auðvitað að vera ákvæði um trúfrelsi einstaklinga, á því er enginn vafi og er að ég held að mestu óumdeilt. Á hinn bóginn er ekkert því til fyrirstöðu að hún leggi áherslu á tiltekin grunngildi í trúmálum sem hafa skipt sköpum í þróun íslensks samfélags til langs tíma.

Það er ekkert því til fyrirstöðu að MÖRG TRÚ- OG LÍFSSKOÐUNARFÉLÖG GETI VERIÐ „ÞJÓÐKIRKJUR“ (má heita eitthvað annað) svo lengi sem þau, af fúsum og frjálsum vilja, óska eftir því. Þau nytu þá hugsanlega meiri stuðnings í samfélaginu en þau trú- og lífsskoðunarfélög sem ekki væru tilbúin að axla þessa samfélagslegu ábyrgð.

TILLAGA MÍN

Ég mæli með því að hvaða trú- og lífsskoðunarfélag sem er geti óskað eftir því að kalla sig „þjóðkirkju“ (eða eitthvað annað orð) svo lengi sem þau uppfylli eftirfarandi grunngildi (eða eitthvað svipað sem Stjórnlagaráðið og þjóðin samþykkti):

Að viðkomandi trú- og lífsskoðunarfélag ...

- leggi í sínu starfi áherslu á umburðalyndi og gagnkvæma virðingu gagnvart öðrum trúfélögum og trúarbrögðum,

- taki virkan þátt í samræðum og samskiptum milli trúfélaga með gagnkvæma virðingu og viðurkenningu að leiðarljósi,

- stuðli að friði og jafnræði í samfélaginu,

- sé opið öllum, jafnt til trúariðkunar, sáluhjálpar og aðstoðar ýmiss konar,

...og jafnvel ef þjóðkirkjunafnbótinni fylgja opinberir styrkir... - að viðkomandi trú- og lífskoðunarfélag sé tilbúið að leyfa öðrum félögum að nýta húsnæði sitt, (til dæmis úti á landi þar sem ekki öll félög geta haldið úti starfsemi).

Með þessu værum við að leggja til grundvallar tiltekin gildi hófsemdar (sem andstæða öfga) og gagnkvæmrar virðingar milli trúfélaga í íslensku samfélagi. Núverandi þjóðkirkja hefur verið tiltölulega hófsöm sem hefur lagt grundvöllinn að trúarlífi þjóðarinnar.

Með þessu væri ekki verið að einskorða sig við TILEKIÐ TRÚFÉLAG heldur tiltekin gildi. Óski trúfélög EKKI eftir því að verða „þjóðkirkja“ hafa þau auðvitað fullt leyfi til þess á grundvelli trúfrelsis.

Núverandi þjóðkirkja er tiltölulega hófsamt og klárlega leiðandi afl í trúmálum þjóðarinnar, líklega að einhverju leyti á grundvelli stöðu sinnar sem þjóðkirkju. Sé það rétt hljóta rökin einnig að virka í hina áttina, að vægi hennar muni minnka til lengri tíma verði þjóðkirkjuhugtakið lagt af. Það þýðir að vægi annarra mun aukast.

Það er hlutverk samfélagsins, með stjórnarskrána í broddi fylkingar, að leggja til grundvallar þau gildi sem samfélagið vill sjá þróast á þessum vettvangi eins og t.d. á sviði mannréttinda. Ég tel að ofangreind tillaga styðji bæði við trúfrelsi og þann samfélagssáttmála sem er svo mikilvægur í íslensku samfélagi. Í mannkynssögunni hafa þessi mál þróast í ýmsar áttir og það væri að stinga hausnum í sandinn að hundsa þann lærdóm og láta vaða.

Gangi ykkur vel í ykkar vandasama starfi.

Kær kveðja,
Sigurður Viktor Úlfarsson

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.