Umsögn um fram komnar tillögur Stjórnlagaráðs

Kristinn Már Ársælsson
  • Hagsmunaaðilar: Lýðræðisfélagið Aldan
  • Skráð: 30.05.2011 10:13

Lýðræðisfélagið Alda óskar þess að eftirfarandi sé komið á framfæri við fulltrúa Stjórnlagaráðs.

Umsögn frá Lýðræðisfélaginu Öldu um framkomnar tillögur Stjórnlag aráðs

Félagið vill koma eftirfarandi á framfæri við Stjórnlagaráð.

1. Tillaga Stjórnlagaráðs, gr. 5 um Dómsvald, um að forseti Íslands skipi dómara að fenginni tillögu eða mati nefndar sem Alþingi skipar (lögskipaðrar) samræmist ekki sjónarmiði um lýðræðisumbætur. Staða forseta Íslands er arfur frá eldri samfélagsgerð, konungsveldinu, þar sem einn maður fór með völdin. Tilfærsla á valdi til forseta er afturför en ekki framför í átt að auknu lýðræði. Þar fyrir utan er um veigalitla breytingu að ræða þar sem forsetinn er hluti af löggjafarvaldinu í dag og í raun aðeins um tilfærslu á valdi til skipunar dómara innan löggjafarvaldsins. Tillaga Stjórnlagaráðs nær því ekki markmiðum um lágmarksdreifingu valds sem felast í þrískiptingu ríkisvalds. Nauðsynlegt er að dómarar séu skipaðir af öðrum en framkvæmdar- og löggjafarvaldi. Lýðræðisfélagið Alda hefur sent Stjórnlagaráði tillögu um skipan dómara og ítrekar hana. Tillagan grundvallast fyrst og fremst á því að hlutlæg sjónarmið liggi til grundvallar skipan dómara, þar sem nauðsynlegt sé að almenningur geti treyst því að dómarar hafi að leiðarljósi mannréttindi og heildarhag.
Til þess að draga sem mest úr hættunni á því að óeðlileg sjónarmið ráði för og að óeðlileg tengsl verði milli annarra valdastofnana og dómara leggur félagið til að dómarar séu, að undangengnu hlutlægu hæfnismati, valdir með slembivali.

2. Tillaga Stjórnlagaráðs, gr. 28 um Störf Alþingis, um að Alþingi kjósi forsætisráðherra sem svo hafi frjálsar hendur við val á öðrum ráðherrum samræmist ekki sjónarmiði um lýðræðisumbætur og erfitt að sjá að í henni felist nokkur breyting. Í dag er málum þannig háttað að þingmeirihlutinn skipar forsætisráðherrann og aðra ráðherra með óformlegum hætti (það er án formlegrar opinberrar kosningar). Eina breytingin hér er sú að þingmeirihlutinn kemur saman í þingsal og kýs forsætisráðherrann sem svo skipar aðra ráðherra. Eftir sem áður er það þingmeirihlutinn og þar með löggjafarvaldið sem skipar framkvæmdarvaldið. Tillaga Stjórnlagaráðs nær því ekki markmiðum um lágmarksdreifingu valds sem felast í þrískiptingu ríkisvalds.
Nauðsynlegt er að framkvæmdarvaldið sé skipað af öðrum en löggjafar- og dómsvaldi. Lýðræðisfélagið Alda hefur sent Stjórnlagaráði tillögu um að ráðherrar skuli kosnir beint að undangengnu lýðræðislegu forvali. Sú leið tryggir þrískiptingu ríkisvalds og færir ákvarðanavaldið í hendur almennings.

3. Tillaga Stjórnlagaráðs, gr. 24 um Störf Alþingis, um að fundir Alþingis og nefnda þess geti verið lokaðir almenningi felur í sér áframhaldandi brot á lýðræðislegum rétti almennings til þess að fylgjast með störfum fulltrúa sinna. Tillaga Stjórnlagaráðs er í raun engin breyting frá því sem verið hefur, þ.e. að valdhöfum er í sjálfsvald sett hversu opnir fundir þeirra eru. Lýðræðisfélagið Alda hefur sent Stjórnlagaráði tillögu um að allir fundir þar sem fulltrúar almennings taka opinberar ákvarðanir skuli vera opnir, að öðrum kosti séu þeir ólöglegir. Einnig skulu allar upplýsingar um ákvarðanatöku vera opinberar og aðgengilegar almenningi, s.s. fundargerðir, skjöl og annað tengt ákvarðanatöku.

Einnig telur félagið rétt að minna Stjórnlagaráð á að ráðið starfar í umboði almennings en ekki stjórnmálaflokka eða þeirra sem sömdu núverandi stjórnarskrá. Þá er vert að minna á háværa kröfu almennings, t.d. úr búsáhaldabyltingunni, um nýja stjórnarskrá og raunverulegar lýðræðisumbætur. Félagið ætlast til þess að Stjórnlagaráð verði við þeim kröfum.

Tillögur Lýðræðisfélagsins Öldu til Stjórnlagaráðs:
http://lydraedi.wordpress.com/2011/04/06/tillogur-til-stjornlagarads/

Vefsvæði félagsins:
http://lydraedi.wordpress.com/


_ _ _ _ _

Fyrir hönd Lýðræðisfélagsins Öldu,
Kristinn Már Ársælsson
stjórnarmaður í Lýðræðisfélaginu Öldu

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.