Stjórnarskráin og peningastefna á Íslandi

Loftur Altice Þorsteinsson
  • Skráð: 01.06.2011 18:11

Þar sem einhver áhugi virðist hjá fulltrúum í Stjórnlagaráði að fá hugmyndir frá almenningi, sendi ég inn grein sem ég skrifaði og birtist í Morgunblaðinu„2. desember 2010, undir nafninu „Stjórnarskráin og peningastefna á Íslandi“.

http://altice.blogcentral.is/blog/2010/12/2/stjornarskrain-og-peningastefna-a-islandi/

Ég er tilbúinn að útskýra málið betur, ef óskað er.

Kveðja.

Loftur Altice Þorsteinsson

________________________________________

Morgunblaðið

Fimmtudaginn 2.desember, 2010 - Umræðan

Loftur Altice Þorsteinsson

Stjórnarskráin og peningastefna á Íslandi

Grundvallaratriði í öllum viðskiptum fólks á milli, er að þeir peningar sem eru í notkun haldi verðgildi sínu. Verðbólga er tæki valdastéttarinnar til að ræna almenning og á slíkri rányrkju hafa Íslendingar fengið að kenna áratugum saman. Með setningu nýrrar stjórnarskrár opnast tækifæri til að stöðva þennan þjófnað og siðvæða samfélag okkar. Er ekki ástæða til að taka mark á mönnum eins og Fritz Leutwyler, fyrrverandi seðlabankastjóra í Svisslandi? Hann sagði:

Um stórþjófnaðinn sem framinn er í skjóli verðbólgu:

»Verðbólga hefur þá sérstöðu, að vera mikilvirkasta tæki hinna fáu ríku til að verða ríkari og hinna mörgu fátæku til að verða fátækari. Ef við ætlum að viðhalda lýðræðinu er okkar fyrsta verkefni að koma á stöðugum gjaldmiðli«.

Hefur nokkur orðið var við, að íslenskir ráðherrar sæju nokkuð rangt við að ræna ævisparnaði almennings, með kerfisbundinni verðbólgu? Nú er tækifæri til að hindra þennan ósóma, með ákvæðum í nýrri stjórnarskrá um að gjaldmiðill landsins verði »alvöru peningur«. Sá gjaldmiðill sem við notumst við núna er »sýndarpeningur« sem heldur hvorki vatni né vindi.

Valdaaðallinn hrópar auðvitað hátt, að krónuna verði að vera hægt að fella - eða láta síga, til að aðlaga gengi hennar efnahagslegum raunveruleika. Um hagsmuni hverra er verið að standa vörð, með svona blekkingum? Gengisfall og efnahagshrun er ekkert náttúrulögmál, heldur yfirvegaður þjófnaður. Fritz Leutwyler var ekki að ýkja, þegar hann fordæmdi þessa glæpastarfsemi. Raunveruleikinn er sá að peningar hafa skilgreindan tilgang, sem jafnvel krónan ætti að vera skyldug að uppfylla.

Hægt er að skipta tilgangi peninga í eftirfarandi þrjá hluta:

1. Miðlun verðmæta (exchange of value). Efnahagsleg samskipti væru nær útilokuð, ef menn þyrftu að bera verðmæti með sér til að geta notað þau. Peningar eru því handhægur milliliður, sem ekki er hægt að vera án í
samfélögum nútímans.

2. Varðveisla verðmæta (store of value). Mikilvægt er að verðmæti haldist og það sem samið er um standi. Peningar eru ávísun á verðmæti og ekki er það peningakerfi gæfulegt, sem stöðugt rýrir verðmæti ávísananna.
Nauðsynleg trygging er fólgin í fullkomnu aðgengi að alþjóðlegum gjaldmiðli. Því útbreiddari sem stoðmyntin er, þeim mun betur er tryggt að innlendi gjaldmiðillinn standi undir væntingum.

3. Samanburður verðmæta (comparison of value). Okkur finnst sjálfsagt að geta borið saman verð ólíkra vörutegunda og það er gert á einfaldan hátt með notkun peninga. Án peninga væru matarinnkaup óhugsandi og útilokað væri að gera áætlanir um efnahag. Bókhald væri til dæmis ómögulegt án þess samanburðar-mats á verðmætum, sem peningar gera mögulegt.


»Alvöru peningar« hafa verið í notkun í meira en 70 löndum og því er fullkomlega vitað hvernig fyrirkomulag útgáfunnar þarf að vera. Setja þarf ákvæði í stjórnarskrána sem tryggja að ekki verði hróflað við peningaútgáfunni, nema að vel ígrunduðu mati og með samþykki fullveldishafans - almennings. Þetta fyrirkomulag peningamála er kennt við »myntráð«.

Myntráð hefur með höndum eftirfarandi verkefni:
a) Gefa út og viðhalda innlendum gjaldmiðli, sem hægt er að nefna krónu ef menn vilja.

b) Sjá um að ávaxta varasjóð Myntráðsins í erlendum gjaldmiðlun, svo nefndum stoðmyntum.

c) Sjá um skipti á erlendri stoðmynt fyrir innlenda gjaldmiðilinn og öfugt.

Spurningin er þá hvaða varnagla þarf að setja í Stjórnarskrána, til að stjórnmálamönnum takist ekki að eyðileggja peningakerfið við fyrsta tækifæri. Nauðsynlegt er að vanda undirbúning nýrrar peningastefnu.

Mikilvæg atriði sem binda verður í Stjórnarskránni:

• Verkefni Myntráðs er að gefa út innlendan gjaldmiðil (IGM) og viðhalda honum með föstu gengi gagnvart stoðmyntunum USD og EUR.

• Skiptihlutfall innlenda gjaldmiðilsins (IGM) skal vera:1,0 IGM = 0,5 USD + 0,5 EUR.

• Innlendi gjaldmiðillinn skal vera lögeyrir á Íslandi og sömuleiðis stoðmyntirnar báðar.

• Myntráðið heldur gjaldeyrissjóð sem hverju sinni nemur 115% af útgefnum IGM. Skal sjóðurinn vera til helminga í USD og EUR.

• Gjaldmiðlaskipti skulu undanþegin öllum sköttum og vera viðskiptavinum að kostnaðarlausu.

• Myntráðið skal hafa lögheimili í Svisslandi.

• Stjórn Myntráðsins skal að meirihluta skipuð erlendum mönnum.

Stjórnlagaþingið þarf dirfsku til að koma fram með tillögu um að »alvöru peningakerfi« verði fest í stjórnarskrána. Samt er einungis verið að leggja til, að útgefnar ávísanir í formi peninga uppfylli sjálfsagðar kröfur um eðli »alvöru peninga«. Innlendi gjaldmiðillinn þarf að vera fær um að miðla verðmætum, að varðveita verðmæti og gera samanburð verðmæta mögulegan. Þessi markmið nást með reglubundinni peningastefnu undir stjórn Myntráðs. Þessu peningakerfi fylgja þeir kostir, að verðbólga verður lág, vextir lækka, eignabruni stöðvast og vísitölutrygging verður óþörf.

»Verðbólga hefur þá sérstöðu, að vera mikilvirkasta tæki hinna fáu ríku til að verða ríkari og hinna mörgu fátæku til að verða fátækari.«

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.