Þjóðaratkvæðagreiðslur og ráðgefandi þing

Þorbergur Þórsson
  • Heimilisfang: Hringbraut 115
  • Skráð: 07.06.2011 21:26

Ágæta Stjórnlagaráð.

Ég vil leyfa mér að gera eina tillögu til ráðsins er varðar þjóðaratkvæðagreiðslur. Ég vona að í frumvarpi Stjórnlagaráðs til nýrra stjórnskipunarlaga verði ákvæði um að tiltekið hlutfall atkvæðabærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslna um mál af nánar tilteknum gerðum (etv. ekki um skattlagningarmál, svo dæmi sé tekið, en um marga aðra málaflokka). Verði niðurstaðan sú að til dæmis fjórðungur eða fimmtungur atkvæðabærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu, vaknar hins vegar spurning um hvað gera skuli við kröfu til dæmis eins af hverjum sex eða eins af hverjum sjö eða átta atkvæðabærum mönnum. Þegar til dæmis einn af hverjum sex atkvæðabærum mönnum krefst þjóðaratkvæðagreiðslu um mikið álitamál, virðist vera óhætt að segja að ekki ríki mjög almenn sátt um málið. Þó að fylgismenn kröfunnar um þjóðaratkvæðagreiðslur séu ekki nægilega margir til að ná því marki, sem stjórnlagaráð kann að hafa sett sem skilyrði fyrir þjóðaratkvæðagreiðslum, virðist harkalegt að þar með verði sjónarmið þessa hóps að engu höfð. Ég legg því til að stjórnlagaráð íhugi hvort ekki sé rétt að hafa ákvæði í frumvarpinu um að við slík tækifæri beri að kalla til ráðgefandi þing, sem hafi stuttan starfstíma. Þetta ráðgefandi þing þyrfti að senda frá sér ályktun um málið við þinglok. Sú ályktun kynni að setja niður þær deilur, sem urðu tilefni til kröfunnar um þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég vil leyfa mér að vitna beint í grein, sem ég skrifaði um þetta efni, og birtist í Fréttablaðinu fimmtudaginn 2. júní sl. á bls. 22:

„...Það má hugsa sér að stjórnvöld þurfi að halda þjóðaratkvæðagreiðslur um málefni af nánar afmörkuðum toga ef 20% atkvæðabærra manna óska eftir því. Þá mætti hugsa sér að ef ekki fást alveg nógu margir til að óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslu - ef til dæmis aðeins 10 - 15% atkvæðabærra manna hafa skrifað undir slíka ósk - þyrftu stjórnvöld að setja á fót ráðgefandi þing um málið. Ráðgefandi þing yrði einskonar millileið sem hefði mjög stuttan starfstíma. Á þingið yrði valið með vönduðu slembiúrtaki, til dæmis 50 einstaklingar til að starfa í til dæmis 3 til 5 daga. Þetta ráðgefandi þing - eins konar kviðdómur eða kviðstefna - myndi fá vönduð gögn um málið frá stjórnvöldum auk þeirra gagna sem hin opinbera umræða hlýtur ævinlega að skila. Og þingið þyrfti að senda frá sér niðurstöðu um málið, helst rökstudda.

Það má búast við að slík ráðstefna gæti kostað svolítið fé. Það er allt í lagi. Það hefur nefnilega marga kosti í för með sér að kalla til slíkrar ráðstefnu. Undirbúningur ráðstefnunnar krefst þess að stjórnvöld hafi tekið saman almennileg gögn um kost og löst á fyrirhugaðri ákvörðun, því ekki vilja stjórnvöld hætta á að áætlanir þeirra fái neikvæða umsögn hjá ráðstefnunni. Mig grunar að þetta eitt og sér gæti verið mjög mikið framfaraskref í stjórnsýslunni í landinu okkar. Hið opinbera álit sem ráðstefnan sendi frá sér myndi auk þess verða aðhald fyrir stjórnsýsluna og löggjafann. Og síðast en ekki síst myndi þátttaka í ráðstefnunni vera til þess fallin að mennta þátttakendur og efla með þeim borgaralegar dygðir."

Með erindi þessu vil ég ekki leggja fram neina nákvæma tillögu um hlutfallstölu sem eigi að duga fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu annars vegar eða ráðgefandi þing hins vegar. Vera má að Stjórnlagaráð geti notað þessa hugmynd í frumvarpi sínu til nýrrar stjórnarskrár.

Reykjavík, 7. júní 2011
Þorbergur Þórsson

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.