Hæfi alþingismanna

Finnbjörn Gíslason
  • Heimilisfang: Álftahólum 2, íb. 1B
  • Hagsmunaaðilar: Alls óháður
  • Skráð: 10.06.2011 09:43

Hæfi alþingismanna.

Það er nokkuð ljóst að stjórnmálaflokkarnir, einstakir alþingismenn og/eða frambjóðendur til þings þiggja háar upphæðir í styrki frá ýmsum fyrirtækjum, hagsmunaaðilum og einstaklingum bæði í kosningabaráttu og eins meðan setið er á Alþingi. Eins geta alþingismenn haft eigna- eða önnur tengsl, s.s. stjórnarsetu, við einn eða fleiri hagsmunaaðila.

Þetta hlýtur óhjákvæmilega að leiða til þess að þingmenn, annaðhvort beint eða í gegnum sinn flokk, verða háðir þeim er veitt hafa styrki til flokksins og/eða einstaklingsins. Aftur leiðir þetta af sér að þessir sömu aðilar leitast frekar við að þjóna hagsmunum styrkveitenda og/eða þeim sem þeir kunna að vera í öðrum tengslum við fremur en hagsmunum þjóðarinnar sem þeir eru kosnir til að þjóna.

Þetta er ótækt! Vitað er að þetta hefur viðgengist á Alþingi áratugum saman. Má þar t.d. nefna eignatengsl Halldórs Ásgrímssonar við sjávarútvegsfyrirtæki, tengsl Bjarna Benediktssonar við N1, styrki banka og fjármálafyrirtækja til frambjóðenda og flokka og tregðu bæði stjórnmálaflokka, einstaklinga og alþingismanna við að gera grein fyrir styrkveitingum sem þeir hafa þegið. Án þess að dæma um sekt eða sakleysi má benda á nýlegar ásakanir eins þingmanns um mútuþægni Guðlaugs Þórs. Enn fremur má benda á að í nýafstöðnum eldhúsdagsumræðum talaði Birgitta, Hreyfingunni, um spillingu meðal alþingismanna. Hvað átti hún við þarna? Var það vegna hagsmunagæslu einstakra þingmanna og/eða flokka vegna einhverra umbjóðenda þeirra? Hvað höfum við ekki séð í tengslum við nýgerða kjarasamninga þar sem þingmenn hafa leynt og ljóst gengið erinda t.d. sjávarútvegsins sem veitir háa styrki til flokka og einstaklinga og reyndi með beinum þvingunum að hafa áhrif á stjórn landsins?

Það er vel ljóst öllum sem skoða vilja að hvorki Alþingi né flestir þingmanna hafa traust þjóðarinnar og er það afar sorglegt að svo sé. Alþingi verður að vinna aftur traust þjóðarinnar sem getur aldrei gerst meðan bæði þingflokkarnir og einstakir þingmenn þjóna augljóslega fremur öðrum umbjóðendum en þjóðinni.

Ný stjórnarskrá þarf að taka skýlaust á þessum málum og eins því hver viðurlög skuli vera bregðist þingmenn eða ráðherrar sannanlega þessu trausti.

Sem hluti af lausn þessa máls dettur mér í hug að stofnaður verði sjóður í vörslu Alþingis þar sem allar styrkveitingar vegna framboða eða annarra mála er varða alþingismenn skulu veittar. Úr þessum sjóði skal síðan veitt með jöfnuði þannig að hvorki flokkar né einstakir þingmenn verði háðir ákveðnum umbjóðendum.

Kær kveðja með ósk um gott gengi Stjórnlagaráðs,

Finnbjörn Gíslason,
fyrrverandi frambjóðandi til Stjórnlagaþings.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.