Sáttartillaga um bætt trúfrelsi

Ingólfur Harri Hermannsson
  • Skráð: 14.06.2011 07:36

 

Kæri ráðsfulltrúi,

Ég vil byrja á því að þakka fyrir starf ykkar í ráðinu. Það er öllum ljóst sem fylgst hafa með starfi ykkar að verkið er gríðarlega umfangsmikið og að ykkur er öllum verulega umhugað að standa vel að tillögum að nýrri stjórnarskrá.

Ég fylgdist spenntur með umræðu ykkar um trúfrelsi og stöðu þjóðkirkjunnar en verð að viðurkenna að ég varð fyrir ákveðnum vonbrigðum.

Mér virðist sem margir fulltrúar vilji forðast í lengstu lög að taka á þessu máli og sumir ganga jafnvel svo langt að halda því fram að ráðið hafi ekki umboð til þess að taka ákvörðun um þessi mál.

Þess vegna langar mig til þess að minna ykkur á að þetta málefni var eitt af þeim sem var töluvert rætt um í aðdraganda kosninga til stjórnlagaþings. Flest ykkar upplýstuð kjósendur um afstöðu ykkar til þessara mála og hluti kjósenda lét afstöðu ykkar í þessu máli ráða miklu við endanlegt val fulltrúa á kjörseðilinn sinn.

Fyrir vikið var lítill munur á afstöðu fulltrúa ráðsins og afstöðu þjóðarinnar í þessu máli.

Ég skil vel ótta ykkar um að tillögur ykkar í þessu máli geti verið umdeildar, en það yrði ekki síður umdeilt ef þið reynduð að sópa þessu máli út af borðinu.

Galdurinn er að finna lausn sem að sem víðtækust sátt næst um.

Til þess að finna lykilinn að sáttinni er réttast að greina vandamálið.

Ákveðinn hluti þjóðarinnar telur að núverandi fyrirkomulag brjóti á rétti þess til trúfrelsis. Oft er deilt um hversu stór hluti þjóðarinnar þetta er en sú umræða skilar sjaldnast niðurstöðu auk þess að þegar kemur að mannréttindum er venjulega viðurkennt að mannréttindi eigi að vera fyrir alla en ekki forréttindi fjöldans.

Þessi brot á trúfrelsi eru margs konar en meðal þeirra eru:

  • Hærri ríkisframlög til þjóðkirkjunnar en annarra trúfélaga
  • Þeir sem standa utan trúfélaga þurfa samt sem áður að standa undir rekstri þeirra með skattfé sínu
  • Sjálfkrafa skráning í trúfélög viðheldur stærð þjóðkirkjunnar. Fæstir meðlima hennar hafa sjálfir skráð sig í hana.
  • Furðulegur samningur ríkisins um greiðslu launa presta
    • Ríkið skuldbindur sig til að greiða prestum laun um alla framtíð
    • Ólíklegt að jarðir sem runnu til ríkisins fyrir meira en hundrað árum standi undir háum árlegum launakostnaði presta
    • Umdeilanlegt að safnaðarmeðlimir þjóðkirkjunnar 2011 hafi meira tilkall til jarðanna en aðrir Íslendingar þegar litið er til þess að ekki ríkti trúfrelsi þegar kirkjan á að hafa eignast jarðirnar
    • Óvíst hvort þjóðkirkjan gæti fært sönnur á eignarhald sitt ef sömu kröfur yrðu gerðar og gerðar voru til landeigenda vegna þjóðlendna
  • Raunverulegt trúboð í sífellt auknum mæli í opinberum skólum og leikskólum
    • Starfsmenn þjóðkirkjunnar virðast hafa sérstakan aðgang að íslenskum börnum í gegnum opinbera leik- og grunnskóla.

Þessi mannréttindabrot bitna á mörgum ólíkum hópum, s.s. kristnum trúfélögum öðrum en Þjóðkirkjunni, öðrum trúfélögum, lífsskoðunarfélögum, fólki utan trúfélaga, venjulegum Íslendingum og jafnvel börnum.

Nýlega sýndi Þjóðarpúls Gallup að aðeins um 70% Íslendinga trúa á guð eða önnur æðri máttarvöld. Kristni hópurinn sem vill raunverulega tilheyra trúfélaginu Þjóðkirkjan er væntanlega minni og því má sjá að þetta misrétti snertir líklega eitthvað á annað hundrað þúsund Íslendinga.

Á móti kemur að þjóðkirkjan sinnir vissulega öflugu starfi s.s. sálusorg og ráðgjöf, barna- og æskulýðsstarfi, tónlistarstarfi, aðstoð við fátæka og hún þjónustar allt landið.

En hvernig er hægt að koma í veg fyrir misrétti í trúmálum en samt tryggja rekstrargrundvöll þjóðkirkjunnar?

Tillaga:

  • Fjarlægja sérákvæði um þjóðkirkju úr stjórnarskrá
  • Ríkið greiði áfram sömu heildarupphæð til þjóðkirkjunnar í formi sóknargjalda og hún fær í dag í formi sóknargjalda, álags á sóknargjöld og launagreiðslna til presta
  • Sóknargjöld til annarra trúfélaga og lífsskoðunarfélaga hækki til jafns við sóknargjöld þjóðkirkjunnar, enda fá þau sömu stöðu og þjóðkirkjan.
    • Fleiri trú- og lífsskoðunarfélög verða fær um að veita þá þjónustu sem þjóðkirkjan veitir í dag.
      • Íslendingar fá því að velja á hvaða forsendum þjónustan sem þeir nýta sér er veitt
  • Í stað þess að skattar þeirra sem standa utan trúfélaga lækki sem nemur sóknargjöldum geta þeir ánafnað sóknargjöldum sínum til viðurkennds góðgerðarfélags að eigin vali
    • Enginn fjárhagslegur ávinningur að skrá sig utan trúfélaga
  • Hætta sjálfkrafa skráningu í trúfélög en gera skráningu auðvelda, t.d. í skattframtali
    • Ekki verði með almennum hætti hróflað við skráningu allra þeirra sem hingað til hafa verið skráðir sjálfkrafa í trúfélög
    • Trúfélög verða ekki vör við breytinguna fyrr en eftir 16 ár.

Þetta færi að sjálfsögðu ekki allt inn í stjórnarská, en Stjórnlagaráðið getur lagt til að þetta verði útfært svona í lögum til þess að tryggja sátt um þessa skipan.

Kveðja,
Ingólfur Harri Hermannsson

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.