Hver á sök sem vill

Þorbergur Þórsson
  • Heimilisfang: Hringbraut 115
  • Skráð: 14.06.2011 21:07

 

Ágæta Stjórnlagaráð.

Í drögum að frumvarpi til nýrrar stjórnarskrár er fjallað um náttúruauðlindir og um náttúruna sjálfa. Þar kemur fram að náttúruauðlindir Íslands séu sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar og að náttúra Íslands sé friðhelg. Þá kemur fram að löggjafarvald og framkvæmdarvald eigi að vernda auðlindirnar, og að öllum skuli með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi , fersku vatni og óspilltri náttúru til lands, lofts og sjávar þar sem líffræðilegri fjölbreytni verði viðhaldið.

Mér sýnist Stjórnlagaráð leggja traust sitt á að löggjafinn muni setja góð og skynsamleg lög um náttúruauðlindir og náttúruna að öðru leyti. Þá muni framkvæmdarvaldið sinna af kostgæfni því hlutverki sínu að framfylgja hinum skynsamlegu lögum sem gilda um þessi mál.

Ég legg til að Stjórnlagaráð íhugi hvort ekki sé rétt að nýta einnig athyglisgáfu almennings og áhuga hans á náttúru og umhverfi í þessu skyni. Almenningur sem hefur áhuga á að nýta sér náttúru landsins til útivistar hefur gjarna mikinn áhuga á aðstæðum á viðkomandi stöðum. Fólk fer í ferðalög um landið, bæði gangandi og á farartækjum. Yfir sumartímann ferðast Íslendingar víða um land sitt og á hverjum degi á þeim árstíma má búast við að sjá fjölmarga þeirra koma við á stöðum sem þekktir eru fyrir sakir fegurðar eða vegna sögunnar.

Starfsmenn ríkisins sem hafa það hlutverk að fylgja því eftir að farið sé að lögum um náttúruvernd hafa margir hverjir ágæta vinnuaðstöðu í Reykjavík og sumir hverjir víða annars staðar á landinu. Og þegar eitthvað fer úrskeiðis í umgengni manna við náttúruna frétta þessir ríkisstarfsmenn oft, eða að minnsta kosti stundum, af því og grípa þá til viðeigandi ráðstafana. Þá hafa aðrir ríkisstarfsmenn ýmsu hlutverki að gegna hvað varðar varðveislu menningararfs okkar.

Með því að kveða svo á í stjórnarskrá að um brot gegn lögum um þjóðareignir, um náttúruvernd og náttúruauðlindir eigi hver sá sök sem vill, þ.e. að allir landsmenn geti hver fyrir sig talist „eiga aðild" að stjórnsýslumáli um slík brot, mætti sennilega bæta mjög eftirlit með því að umgengni við slík verðmæti þjóðarinnar verði sem allra best.

Ég vil því leggja til við Stjórnlagaráð að það íhugi hvort ekki sé rétt að hafa ákvæði í því frumvarpi sem ráðið semur um að hver eigi sök sem vill í málum sem varða brot á slíkum lögum. Ugglaust þarf að afmarka nánar í lögum í hverju tilviki fyrir sig, að hvaða marki brot gegn lögunum séu þess eðlis að allir Íslendingar geti átt aðild að slíku máli.

Reykjavík, 14. júní 2011.
Þorbergur Þórsson

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.