2. liður stjórnarskrárinnar

Sesselja María Mortensen
  • Hagsmunaaðilar: Q - Félag hinsegin stúdenta
  • Skráð: 16.06.2011 10:24


Q - Félag hinsegin stúdenta vill hér með leggja til tillögu til breytingar á
2. lið stjórnarskrárinnar.



„2. Allir eru jafnir fyrir lögum og skulu njóta mannréttinda án nokkurs
manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu,
efnahags, fötlunar, kynhneigðar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla,
trúarbragða, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti."

Við leggjum til að orðinu kynvitund verði bætt í þennan lið.


Kynvitund

(gender identity), vísar til þess á hvern hátt einstaklingar skynja sig
sem karl, konu eða sem ákveðna samsetningu karls og konu.
Kynvitund er sá innri rammi sem gerir einstaklingi kleift að byggja upp
sjálfsmynd og eiga félagsleg samskipti við aðra út frá hans eða hennar
upplifun á sínu kynferði og kyngervi. Kynvitund ákvarðar á hvern máta
einstaklingur upplifir sitt kynferði og stuðlar að tilfinningu um að vera
einstakur/einstök, að heyra til og samsömun.
Mikilvægt er að átta sig á því að kynvitund hefur ekkert með kynhneigð að
gera heldur segir kynvitund aðeins til um hvaða kyni/kyngervi þér finnst
þú tilheyra.

Nú þegar er talað um kynferði í stjórnarskrá en kynferði vísar aðeins til
líffræðilegs kyns á meðan kynvitund vísar til þess hvernig einstaklingar
upplifa kyn sitt, óháð líffræðilegum þáttum.

Með því að bæta inn orðinu kynvitund stuðlum við að auknu jafnrétti kynjanna
til frjálsrar tjáningar á sínu kynferði og setjum það í lög að ekki megi
mismuna fólki byggt á kynvitund. Þetta er sérstaklega mikilvæg barátta
fyrir hinsegin fólk og þá einkum trans fólk. Víða vantar upp á að réttindi
trans fólks og hverra þeirra sem falla utan hinna hefðbundnu skilgreininga
á kynferði séu virt og tryggð.


Sesselja María Mortensen

Fyrir hönd Q - Félags hinsegin stúdenta

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.