Tryggjum öllum jöfn réttindi óháð kynþætti

Jórunn Edda Helgadóttir
  • Heimilisfang: Hjarðarhagi 60
  • Skráð: 19.06.2011 03:18

Ég man ekki eftir því að samfélagslegt vandamál hafi horfið við það eitt að hætta að tala um það eða umræða væri þögguð niður. Ég hélt reyndar að það væri lærdómur sem við hefðum sameinast um að ótvírætt mætti draga af hruninu, þ.e. að veruleikinn verði ekki annar þótt við fækkum orðunum sem lýsa honum.

Fordómar og mismunun byggð á kynþáttahyggju eru staðreynd, á Íslandi eins og annars staðar, sama hvað vísindin segja um réttmæti slíkrar hyggju eða raunveruleika kynþáttanna. Einhverjir hafa reynt að leita gensins sem veldur samkynhneigð en enginn spyr að því hvort „samkynhneigðar-genið“ sé til í samhengi þess að velta fyrir sér hvort samkynhneigðir séu minnihlutahópur eða verði fyrir fordómum. Né heldur þegar því er velt upp hvort þeir eigi að fá að vera með í upptalningu þeirra hópa sem taka þarf sérstaklega fram að eigi að vera jafnréttháir öðrum.

Aldagamlir fordómar byggðir á sögulegu hugtaki sem greiptir eru í huga fólks og hegðun, tungumálið og bæði innlenda lagabálka sem alþjóðlega samninga verða ekki strokaðir út með því að þurrka orðið út á einum þeirra fáu staða sem það virkilega á heima - í upptalningu þeirra sem eiga að vera jafnir öðrum að réttindum sínum. Förum ekki í sömu gömlu hjólförin í því að reyna að þagga vandamálin og samfélagsmeinin í burtu. Sjáum til þess að fólki verði veitt jöfn réttindi óháð kynþætti og það verður ekki gert nema með því að tala um það fyrst.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.