Raunhæf og réttlát leið til að leggja mál sitt fyrir dóm

Helgi Jóhann Hauksson
  • Heimilisfang: Sæviðarsundi 15
  • Skráð: 23.06.2011 16:55

Raunhæf og réttlát leið til að leggja mál sitt fyrir dóm

 

Eins og stjórnarskrá okkar nú er, er það ekki talið brot á mannréttindum að svipta aðila að dómsmálum, hvort sem er stefndu eða stefnendur, öllum möguleikum til að reka mál sitt fyrir dómi ef hann getur ekki mætt sjálfur, nema þann einn að ráða lögmann, sem er fjarri því að allir geti.

 

Þ.e. enginn ættingi, vinur eða velunnari aðilans má mæta í umboði hans til að t.d. að óska frests eða leggja fram gögn og greinargerð eða tala máli hans í hans stað.

 

Þetta virðist hafa verið lögfest í þágu lögmannastéttarinnar og mögulega dómstólanna sjálfra, án þess að leggja aðilum sem slíkt bitnar á svo sem fötluðum, öldruðum, sjúkum, öryrkjum, uppburðarlitlum og efnalausum til nein úrræði eða bjargir aðrar í staðinn, svo sem opinbera lögfræðiaðstoð.

 

Rétt er að hafa í huga að í langflestum málum sem koma til kasta dómstóla kemur ekki til álita að fólk eigi rétt á „gjafsókn“ eða „gjafvörn“, og þá oft í örlagaríkustu málum þegar fólk er svipt heimilum sínum og eignum með útburðarmálum og innheimtumálum. Þess utan þykja skilyrði til gjafsóknar og gjafvarnar afar ströng og tekjumörk t.d. þannig að öryrki sem ekkert hefur nema örorkubætur er þegar með of miklar tekjur til að eiga rétt á aðstoð við málflutning sem gæti hæglega kostað árslaun öryrkjans, auk þess sem lögmenn innheimta jafnan talsvert hærri upphæð en dómur úrskurðar þeim og þar með talsvert hærri upphæð en gjafsókn eða gjafvörn leggur til. — Og svo til að sækja um gjafsókn þarf aðilinn fyrst að ráða sér lögmann til að leggja málið upp fyrir „gjafsóknarnefnd“.

 

- Ef ríkið telur málefnaleg rök fyrir því að banna aðilum að njóta aðstoðar fjölskyldumeðlima og vina til að reka mál sitt verður það að tryggja að allir njóti lögfræðiaðstoðar — ef ríkið hins vegar telur sér það ekki fært verður stjórnarskrá okkar að tryggja að ríkisvaldið geti ekki synjað veikburða aðilum dómsmáls að njóta þó þeirrar aðstoðar sem þeir eiga kost á frá sínum nánustu.

 

Ég sakna því þess að tryggt verði að allir eigi annaðhvort kost á opinberri aðstoð lögmanna eða geti þegið hvaða aðstoð sem er til að flytja mál sitt fyrir dómi.

Lögmenn hafa einkarétt með lögum á að mæta fyrir dómi í nafni stefnda eða stefnanda. Hagur lögmanna [og mögulega dómstólanna] er treystur á kostnað efnaminni aðila sem þurfa að sækja eða verja mál sitt fyrir dómi án þess að þeim sé lagt neitt til í staðinn.

 

Þannig t.d. að ef stefndi í innheimtu- eða útburðarmáli er aldraður, fatlaður, öryrki, sjúklingur eða forfallaður af öðrum ástæðum og vill biðja um frest eða vill leggja fram eigin greinargerð og gögn, þá getur enginn ættingi, vinur, maki eða foreldri mætt fyrir dóminn í umboði stefnda til að tala máli stefnda, biðja um frest eða til að leggja fram gögn nema lögmaður eða stefndi sjálfur.

 

Efnalítill og umburðarlaus má heldur ekki hafa sér við hlið foreldri sitt, maka, systkin, velunnara eða vin ef hann hefur ekki efni á lögmanni og enginn má tala máli hans fyrir dóminum nema lögmaður.

 

— ÞETTA ER AÐ MÍNU MATI MANNRÉTTINDABROT sem ætti að taka fyrir í stjórnarskrá.

 

Ef ríkið ætlar hins vegar áfram að svipta bjargalítið fólk þeim rétti að njóta þeirrar aðstoðar sem það þó á kost á frá sínum nánustu fyrir dómi og það er gert dómstólum til einföldunar eða hagræðingar eða af einhverjum öðrum skilgreindum og málefnalegum ástæðum í þágu annarra en stefnda — þá verður ríkið að leggja öllum til raunhæfa og trausta lögfræðiaðstoð sem ekki hafa efni á henni, — eða ef ekki að leyfa öllum að njóta þeirra bjarga sem þeir þó hafa, þar með aðstoðar vina og velunnara og fjölskyldu til að reka erindi fyrir dómnum eða bera fram málstað aðila sem treystir sér ekki sjálfur.

 

Ríkið verður annaðhvort að leyfa fólki að njóta þeirrar aðstoðar sem það á kost á og þeirra sem það kýs sjálft til að reka sitt mál — eða tryggja að allir hafi í öllum dómsmálum aðgang að lögfræðiaðstoð með raunhæfum og réttlátum hætti.

 

Það stenst ekki að reglur um dómstóla verji hag lögmanna á kostnað raunhæfra möguleika aðila til réttlátrar málsmeðferðar. — Dómstólarnir og lögmenn starfa í þágu aðila og mála þeirra en ekki öfugt.

 

Mannréttindasáttmálar leggja mikla áherlsu á „raunhæf úrræði“ — séu úrræði ekki raunhæf teljast þau ekki með. Sé þeim hópi sem ég nefni að ofan; öldruðum, sjúkum, fötluðum, uppburðarlitlir og efnalausir ekki með raunhæfum hætti kleift að reka mál sitt fyrir dómi þurfi þeir einhverja aðstoð eða geti ekki mætt sjálfir eru þeir því í raun sviptir aðgangi að dómstólum og þeim rétti að leggja mál sitt fyrir réttlátt og óvilhalt dómsvald.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.