Skorður í stjórnarskrá

Guðmundur Ármannsson
  • Heimilisfang: Vað, Skriðdal
  • Skráð: 23.06.2011 22:06

Skorður í stjórnarskrá

 

Nú stendur yfir Stjórnlagaráð þar sem náttúruvernd, og eignarhald þjóðarinnar og nýting auðlinda, verði tryggð sem þjóðareign. Þetta virðist eiga að vera í fyrirrúmi við breytingu á stjórnarskránni.

Nú eru afstaðnar mestu framkvæmdir Íslandssögunnar á Austurlandi með stíflu í Jökulsá á Dal við Innri Kárahnjúk. Var stóru griðlandi gróðurs og dýra sökkt og Jökulsá veitt í göngum austur í Lagarfljót með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir það vatnasvið. Með stíflunni var aurburður til sjávar stöðvaður og hófst þar með söfnun á föstu efni í lónið sem er framburður úr Brúarjökli blandaður moldarskriði úr bökkum lónsins sem er á köflum 1-2 metrar á þykkt. Það segir sig sjálft að í tímans rás mun vatnsmiðlun lónsins minnka og lónið á endanum fyllast, því allt sem hefur upphaf hefur líka endi. Með stíflunni við Innri Kárahnjúk var sett á stað atburðarás sem enginn getur gert sér grein fyrir til hvers leiða kann, enda höfðu hvorki framkvæmdaaðili né löggjafinn áhuga á að leiða hugann að slíku, enda hugrenningar af því tagi ekki til vinsælda fallnar. Því voru einu svörin sem gefin voru, að það væri svo langur tími í slíkt vandamál að lausn yrði þá fyrir hendi, eða svörin voru á þá leið að þetta væri vandamál komandi kynslóða að leysa. Þetta sýnir að Alþingi Íslendinga gerði sig sekt um algjöran dómgreindar- og siðferðisbrest þegar það gaf heimild til þessara framkvæmda.

Því skora ég á Stjórnlagaráð að setja skorður í stjórnarskrá við framkvæmdum á borð við Kárahnjúkavirkjun sem ekki sýna hvernig jafnvægi í umhverfinu getur náðst í framtíðinni. Enda er höfuðskylda hverrar kynslóðar að skila landinu til næstu kynslóða í því ástandi að þær hafi líka val. Sú skylda brást við harmleikinn við Innri Kárahnjúk. Það er óhugsandi annað en að einhvers konar öryggisventill verði settur í stjórnarskrá sem kemur í veg fyrir að slíkar ákvarðanir verði teknar jafn auðveldlega og raun bar vitni.

 

Kveðja og þakklæti fyrir góða vinnu.

 

Guðmundur Ármannsson, bóndi á Vaði


Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.