Tillögur að bættum mannréttindakafla

Svavar Kjarrval Lúthersson
  • Heimilisfang: Kríuás 19, Hafnarfjörður
  • Skráð: 24.06.2011 10:53

Tillögur að bættum mannréttindakafla

 

Í anda samstarfs óska ég eftir því að gera eftirfarandi tillögur í tengslum við mannréttinda­kaflann eins og hann var eftir 13. ráðsfund:

2. gr.

Við þessa grein vil ég færa fram þá athugasemd að fyrst 2. efnisgreinin hnykkir á um að kynin skulu njóta jafns réttar væri við hæfi að færa upptalninguna á kynferði í 1. efnisgrein í sinn rétta stað í stafrófsröðinni.

3. gr.

Greinin hljómar svo að allir skuli m.a. njóta verndar gegn hvers kyns ofbeldi. Í núverandi lagaumhverfi er litið á að lögreglan hafi heimild til að beita ofbeldi þegar aðstæður krefjast þess. Sé þessi grein túlkuð vítt væri hægt að líta svo á að slík valdbeiting lögreglu sé óheimil skv. þessari grein. Tel ég að frekari umræða þyrfti að eiga sér stað og nánar útskýrt í greinargerð endanlegs frumvarps hversu langt verndin eigi að ganga.

Síðan vil ég gagnrýna upptalningu kynferðisofbeldis í greininni. Orðið ‚kynferðisofbeldi‛ felur í sér að orsök ofbeldisins eigi sér stað vegna kynferðis geranda eða þolanda. Ofbeldisfullir einstaklingar geta alveg fengið útrás með ofbeldi án tillits til kynferðis annarra aðila á sama heimili. Mæli ég með því að upptalningunni sé sleppt, enda getur greinin á um að vernda skuli gegn ‚hvers kyns‛ ofbeldi.

4. gr.

Við yfirferð þessarar greinar stakk mig að heimila megi leit „með sérstakri lagaheimild“. Hér er um að ræða ákvæði sem er mikil hætta á að verði misnotað. Mæli ég með því að þetta verði rætt frekar í ráðinu og reynt að girða fyrir hvers kyns misbeitingu sem ákvæðið gæti haft í för með sér. Eðlilega væri betra að fjarlægja ákvæðið og láta dómsúrskurð nægja. Í það minnsta ætti að tiltaka takmarkanir sem slík heimild þarf að uppfylla.

Einnig var frétt árið 2010 sem gat þess að Hæstiréttur hafnaði því að ógilda húsleit, sem héraðsdómur samþykkti, þar sem húsleitin hafði þegar farið fram. Þeir sem leitað er hjá hafa því enga vörn fyrir dómstólum eftir að húsleitin hefur verið framkvæmd. Því óska ég eftir því að Stjórnlagaráð íhugi að kveða á um rétt fólks til að reyna á húsleitir (og aðrar leitir) fyrir dómi eftir að hún hefur verið framkvæmd. Sé leitin dæmd ólögleg skulu þau sönnunargögn sem aflað var ekki tekin til greina í sakamáli gegn þeim sem brotið var á. Þó skal íhuga sönnunargögn sem hefði verið hægt að afla með öðrum lögmætum aðferðum. Þetta ætti að vera í samræmi við dómaframkvæmd í Bandaríkjunum.

Við þessa grein mæli ég með takmörkunum sem finna má í 4. stjórnarskrárviðbót Bandaríkjanna. Gæti 2. efnisgreinin hljóðað svo:

„Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, eða taka hluti eignarnámi án brýnna og réttmætra ástæðna og ávallt að undangengnum dómsúrskurði. Leitarheimildir skulu ávallt studdar sönnunargögnum sem réttlæta leitina og skulu eigi ganga lengra en nauðsyn krefur.“

Í þessari tillögu var bætt sérstaklega við eignarnámi en merkingin þar er að ríkisvaldið geti ekki tekið af manni eignir án réttmætrar og brýnnar ástæðu. Ákvæðið er í samræmi við eignarréttarákvæðið sem Stjórnlagaráðið leggur til en hefur þann tilgang að vernda hinn almenna borgara gegn því að lögreglan taki eignir eignarnámi í þágu rannsóknarhagsmuna nema þess sé getið í leitarheimild að hún hafi heimild til þess. Síðasti liðurinn hefur þann tilgang að vernda borgara gegn því að dómarar veiti of víðar leitarheimildir.

6. gr.

Í upptalningu í 3. efnisgrein er getið um að takmarka megi tjáningarfrelsi til að vernda mannorð annarra. Taka ætti sérstaklega fram í greinargerð frumvarpsins (eða í lagagreininni sjálfri) að ekki megi setja tálmanir á tjáningarfrelsið í þeim tilvikum sem mannorð annarra gæti skemmst vegna sannra ummæla. Því miður hafa fallið dómar hér á landi þar sem einstaklingar hafa verið dæmdir til greiðslu bóta fyrir að skemma mannorð annarra af þeim ástæðum.

7. gr.

Þessi grein er frábær og styð ég hana heils hugar. Þó myndi varla saka að bæta við ákvæði að gögn sem stjórnvöld skapa skuli ekki háð höfundarétti eða aðgengið háð ósanngjörnum skilyrðum. Einnig myndi ég vilja bæta við nýmæli en það er réttur fólks til aðgangs að óritskoðuðu Interneti. Viðbótin gæti hljómað svo:

„Allir skulu hafa rétt til að óritskoðaðra samskipta, hvort sem þau eru persónuleg eða gegnum tækjabúnað.“

8. gr.

Með því að heimila rof á nafnleynd við meðferð sakamáls er verið að letja fólk frá því að ljóstra upp um ólöglegt athæfi innan ríkisins þar sem lögreglan sæi örugglega um slík mál. Þætti mér við hæfi að setja frekari skilyrði um rof á nafnleynd svo greinin verði ekki túlkuð á þann veg.

10. gr.

Mæli með því að 3. efnisgreinin falli brott. Í hverju fælist þessi vernd þessara skráðu trúfélaga og lífsskoðunarfélaga? Einnig opnar það fyrir það að ríkið gæti hert skilyrði þess að slík félög geti öðlast skráningu þannig að valin félög njóti ákveðinna forréttinda gagnvart öðrum slíkum félögum. Jafnvel þótt ríkið geri það ekki er verið að krefja slík félög um að skrá sig til að njóta slíkrar verndar. Betra væri að sleppa þessari sérstöku vernd.

11. gr.

Mæli með því að ákvæðið falli brott þar sem upphafning ákveðinnar kirkju sem þjóðkirkju. Enda myndi slíkt vera gegn 2. gr. eins og hún stendur nú þar sem m.a. er lagt bann um mismunun vegna trúarbragða.

12. gr.

Vil koma á framfæri athugasemd um 2. efnisgreinina þar sem getið er um lögbundna skylduaðild að ákveðnum félagi. Það stendur ekki að það megi skylda fólk til að vera aðili að ákveðinni tegund félaga, heldur gefur orðalagið til kynna að skylduaðildin gæti náð til ákveðins félags. Gallinn við það er að stjórn félags sem slík skylduaðild á við gæti starfað í óþökk meðlima þess og jafnvel unnið gegn félögum sínum til að auka sinn eiginn hag. Félagarnir gætu því ekki farið úr félaginu þar sem aðild að því væri skylduð með lögum. Þetta er þar að auki málefni sem hið opinbera ætti ekki að skipta sér að. Fólk ætti að vera frjálst að skipta um félög, m.a. verkalýðsfélög, eða stofna sín eigin, ef það telur réttindum sínum betur borgið þar.

13. gr.

Hvað er almenn samkoma? Gæti lögreglan t.d. krafist þess að vera viðstödd fundi hjá félögum á lokuðum félagsfundum?

15. gr.

Í seinustu efnisgrein væri gott að taka fram að þeir sem sviptir hafa verið frelsi að ósekju eigi einnig rétt á gjafsókn þurfi þeir að hefja dómsmál til að fá skaðabæturnar greiddar.

16. gr.

Hér vil ég leggja til auka efnisgrein sem kennd er við „double jeopardy“ hugtakið. Í því felst að ekki skuli réttað tvisvar yfir sama einstaklingnum vegna sömu ætlaðra brota. Legg ég til að hún verði aðlöguð svona:

„Enginn skal sæta lögsókn né refsingu að nýju í dómsmáli fyrir brot sem hann hefur verið sýknaður af eða sakfelldur um með lokadómi samkvæmt lögum. Þó skal heimilt að taka mál upp að nýju á lokadómsstigi ef lokadómurinn var falsaður.“

Fyrri málsgreinin er aðlöguð úr 4. gr. 7. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu með þeirri mikilvægu breytingu að ákvæðið eigi ekki bara við um sakamál, heldur líka einkamál. Seinni málsgreinin sækir fyrirmynd sína í franska refsiréttarlöggjöf. Gert er ráð fyrir, sbr. framkvæmd ákvæðisins í öðrum löndum, að bannið taki gildi þegar dómur hefur fallið á lokadómsstiginu sem hægt er að sækja málið í. Einnig gerir ákvæðið ráð fyrir því að ef aðstæður verði svo að taka þurfi upp málið aftur sé það á forræði þess sem var lögsóttur upprunalega hvort hann vilji hnekkja dómnum eður ei.

21. gr.

Við 2. efnisgreinina vil ég leggja til að allir skuli eiga rétt á leikskólamenntun án endurgjalds. Vera barna á leikskóla er talin mikilvæg fyrir þroska þess og skiptir miklu máli fyrir foreldra og forráðamenn að börn stundi leikskóla.

24. gr.

Við 1. efnisgrein legg ég til að bætt verði við lið sem bannar ríkinu að afhenda eignirnar þriðja aðila. Í Bandaríkjunum hefur það gerst að eignir hafa verið teknar eignarnámi og síðan afhentar þriðja aðila og réttlætt svo að afhendingin myndi bæta efnahaginn á svæðinu. Með því að girða fyrir það er eignarnámið takmarkað við eignir sem ríkið sjálft mun þurfa á að halda.

---

Einnig vil ég leggja til fleiri ákvæði sem ég vona að stjórnlagaráð íhugi að setja inn í mannréttindakaflann. Sumt á rætur að rekja til viðbóta við stjórnarskrá Bandaríkjanna.

„Í öllum sakamálum skal sakborningur hafa rétt á að gagnspyrja vitni sem bera vitni gegn honum, að kveða til vitna í hans þágu og njóta aðstoðar lögmanns honum til varnar.“

- Í núverandi stjórnarskrá er alls ekki gert ráð fyrir að þessum réttindum handa sakborningum og væri rétt að tiltaka þau í stjórnarskrá.

„Enginn skal neyddur til að bera vitni gegn sjálfum sér [eða nátilkomnum aðila].“

- Byggt á 5. stjórnarskrárviðbót bandarísku stjórnarskrárinnar.

„Tryggja skal með lögum að hver sem telur að ríkið hafi brotið gegn stjórnarskrárvörðum mannréttindum hans hafi rétt til að sækja mál gegn því fyrir dómstólum. Bætur vegna slíkra brota skulu vera sanngjarnar og bæta allan þann skaða og miska sem varð vegna brotsins ásamt þeim tilkostnaði sem varð vegna lögsóknarinnar.“

- Hér er lagt til að ríkið skuli tryggja rétt allra til að sækja mál gegn ríkinu ef ríkið er staðið að því að brjóta stjórnarskrárvarin mannréttindi. Einnig er tryggt að bætur skuli vera greiddar, bæði skaðabætur og miskabætur, og að þær skuli vera sanngjarnar. Jafnframt skal ríkið bæta fyrir kostnaðinn sem varð að fara í vegna lögsóknarinnar.

„Allir skulu eiga rétt á að verja líf sitt og muni gegn hvers kyns brotum á stjórnarskrárvörðum réttindum þeirra.

Starfsfólki ríkisins er það skylt, án þess að því sé refsað fyrir atvikið, að neita að framkvæma fyrirmæli sem fela í sér ótvíræð brot á stjórnarskrá þessari. Sama gildir um að veita slík fyrirmæli. Framkvæmi það eða veiti fyrirmælin samt sem áður skulu þeir starfsmenn vera persónulega ábyrgir fyrir tjóni því sem framkvæmd fyrirmælanna olli. Ríkið skal ábyrgjast greiðslu bótanna.“

- Fyrsta málsgreinin er byggð á ákvæði sem má finna í þýsku stjórnarskránni en það gefur til kynna að engum má refsa fyrir að verja sig gegn brotum á stjórnarskránni.

Önnur efnisgreinin tekur á íslensku réttarkerfi og réttarframkvæmd en það hefur undanfarið byggst alltof mikið á því að fólk (í valdastöðum) getur framkvæmt hvað sem það vill og ríkið bæti síðan tjónið í þeim fáu tilvikum sem fólk nennir að fara í dómsmál vegna þeirra. Þar að auki hefur dómsframkvæmd verið á þann máta að bæturnar séu það lágar að fólk telur það ekki þess virði miðað við fyrirhöfnina sem slíkt mál orsakar. Með því að velta ábyrgðinni á starfsfólk, þegar um er að ræða ótvíræð brot, mun það örugglega hugsa sig tvisvar um hvort það ætti að framkvæma þau fyrirmæli sem þau fá eða ekki.

---

Vona ég að þessar tillögur hljóti hljómgrunn hjá Stjórnlagaráði. Fleiri tillögur og athugasemdir gætu borist af minni hálfu vegna þessa kafla eða annarra eftir þörfum.

Undirritað,

Svavar Kjarrval Lúthersson

 

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.