Stjórnarskrárhugmyndir

Jakob Björnsson
  • Skráð: 29.06.2011 15:56

Stjórnarskrárhugmyndir

Nokkrar hugmyndir um nauðsynlegar og æskilegar stjórnarskrárbreytingar:

1. Aðgreining valdsins. Löggjafarvald, framkvæmdarvald og dómsvald skulu vera eins vel aðgreind og frekast verður við komið.

Alþingi fer með löggjafarvaldið, forseti Íslands með framkvæmdarvaldið og Hæstiréttur með dómsvaldið.

(Þessi hugmynd um aðskilnað valdsins mun vera arfur frá frönsku stjórnarbyltingunni 1789)

Lög frá Alþingi öðlast gildi þegar forseti Alþingis hefur undirritað þau (Sams konar regla mun nú vera í gildi í Svíþjóð).

Forseti Íslands skipar ráðherra (sú regla gildir nú þegar). Ef alþingismaður er skipaður ráðherra tekur varamaður hans sæti á Alþingi. Ráðherrar sitja ekki á Alþingi nema til kallaðir og þá án atkvæðisréttar.

Alþingismaður getur beðist undan að vera skipaður ráðherra. Skal forseti verða við beiðni um það.

Hæstaréttardómara skipar sérstakt þar til valið Öldungaráð (senat) sem Alþingi skipar. Í því eiga sæti fimm menn. Þeir mega hvorki hafa verið alþingismenn né ráðherrar né hæstaréttardómarar á síðustu fimm árum áður er þeir voru skipaðir í Öldungaráðið.

Öldungaráðsmaður má ekki gegna öðru embætti jafnframt.

(Löggjafarvald Alþingis felur í sér valdið til að setja fjárlög hvers árs. Það felur í sér vald til að hafa veruleg áhrif á framkvæmdarvaldið undir yfirstjórn forseta. Þetta m.a. gerir það óheppilegt að handhafar framkvæmdarvaldsins, ráðherrar, sitji á Alþingi. Þetta eru veigamikil rök fyrir því að ráðherrar sitji ekki á Alþingi. Löggjafarvald og framkvæmdarvald eiga að vera kirfilega aðskilin).

(Fjárveitingar Alþingis hafa einnig áhrif, en verulega minni, á dómsvaldið í höndum hæstaréttardómara. Þetta skýrir að fullkomin aðgreining valdtegunda er ekki framkvæmanleg í nútímaþjóðfélögum. Engu að síður ber að hafa hana í heiðri eftir því sem frekast er unnt.)

2. Vald almennra kjósenda. (Hugmynd að nýrri stjórnarskrárgrein). Þegar eitt ár er liðið frá síðustu alþingiskosningum geta 66,67% alþingiskjósenda, eða fleiri, með undirskriftasöfnun, sem má vera á netinu, krafist þingrofs og nýrra kosninga. Hæstiréttur skipar menn til að fara yfir undirskriftirnar og skera úr um hvort tilskilinn fjöldi undirskrifenda hefur kosningarétt. Reynist svo vera skal forseti Alþingis rjúfa þingið og efna til nýrra kosninga innan 3 mánaða. (Til greina kemur að 50% nægi í þessu skyni í stað 66,67%)

(Þetta er hugsað sem aðhald að Alþingi. Hlutfallið sem krafist er er það hátt að nægilega margir kjósendur myndu aðeins setja fram kröfuna þegar mikið þætti við liggja.)

Með sama hætti gæti sama hlutfall kjósenda krafist afsagnar forseta Íslands þegar hann hefur setið ár eða meira í embætti og að nýr forseti verði kosinn. (Ákvæðið er líka hugsað sem aðhald að forseta í embætti).

Sama hlutfall kjósenda getur krafist breytinga á stjórnarskránni. Skal þá kosið um þær samhliða næstu alþingiskosningum á eftir. Breytingarnar skulu gerðar ef 50% kjósenda eða fleiri samþykkja þær.

Kjósanda er skylt að mæta til alþingis- og sveitarstjórnarkosninga nema lögleg forföll, svo sem veikindi, fjarvera af landinu eða sambærilegar ástæður banni. Viðurlög við að vanrækja þessa skyldu er missir kosningaréttar við jafnmargar kosningar í framtíðinni og vanræktar voru. Að skila auðum seðli felur í sér þátttöku í kosningu.

(Þetta ákvæði er hugsað út frá því grundvallarsjónarmiði að réttindum skuli ávallt fylgja skyldur. Auk þess er vanræksla kosninga móðgun við minningu þeirra manna og kvenna víða um lönd sem fórnuðu lífi sínu í baráttunni fyrir almennum kosningarétti).

3. Hlutverk forseta Íslands er að vera æðsti handhafi framkvæmdarvaldsins og að koma fram fyrir Íslands hönd gagnvart þjóðhöfðingjum annarra landa. Hann skipar ráðherra (eins og hann gerir í dag). Hann er ekki bundinn við að skipa mann sem Alþingi hefur gert tillögu um. Hann getur líka veitt ráðherra lausn úr embætti, án afskipta Alþingis, og skipað annan í hans stað. (Þetta ákvæði er hugsað til að taka af allan vafa um hlutverk forseta og skerpa á aðgreiningu valdheimilda).

(Ákvæði núverandi stjórnarskrár er arfur frá sams konar ákvæði í fyrri stjórnarskrá um undirskrift konungs undir lög. Slík ákvæði munu vera í stjórnarskrám konungsríkja Evrópu, nema Svíþjóðar. Ákvæðið er í reynd hreint formsatriði, leyfar af alveldi konunga sem erfðu vald sitt á öldum áður og töldu sig hafa það frá Guði. Því er leyft að standa áfram af kurteisi við vinsæla þjóðhöfðingja. Það mun vera dæmalaust síðustu 150 árin eða svo að konungur eða ríkjandi drottning hafi neitað að undirrita lög sem samþykkt voru af þjóðþinginu.

Undirritun forseta, æðsta handhafa framkvæmdarvaldsins, er óæskileg og óþörf samanblöndun valdtegunda).

Jakob Björnsson

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.