Lýðræðisleg þátttaka almennings

Þórður Björn Sigurðsson
  • Heimilisfang: Rauðumýri 1 – 106
  • Skráð: 01.07.2011 11:34

Lýðræðisleg þátttaka almennings


Í áfangaskjali að stjórnarskrá (14. ráðsfundur) segir eftirfarandi í kafla um lýðræðislega þátttöku almennings:

„2. Þingmál að frumkvæði kjósenda
Tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi.
Fimmtán af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi. Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. Hafi frumvarp kjósenda ekki verið dregið til baka skal bera það undir þjóðaratkvæði svo og frumvarp Alþingis komi það fram. Alþingi ákveður hvort þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi eða ráðgefandi.
Atkvæðagreiðsla um frumvarp að tillögu kjósenda skal fara fram innan tveggja ára frá því málið hefur verið afhent Alþingi.“

Hér með er þess farið á leit við ráðið að ofangreindur texti verði endurskoðaður með það að leiðarljósi að uppspretta valds er hjá kjósendum. Sú ráðstöfun að Alþingi ákveði hvort þjóðaratkvæðagreiðsla um frumvarp kjósenda skuli vera bindandi eða ráðgefandi virðist ekki þjóna neinum öðrum tilgangi en að þingmenn geti stöðvað framgang þeirra mála sem þingmenn kunna að vilja stöðva þar sem Alþingi er ekki skylt að fara eftir niðurstöðu í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Auk þess getur það varla talist lýðræðislega frambærilegt að kjósendum verði gert að bíða í tvö ár eftir óbindandi niðurstöðu í slíkum tilfellum.

Hægt væri að kveða á um það í textanum að þjóðaratkvæðagreiðslan væri bindandi eða að kjósendur taki þá ákvörðun. Verði það ofan á að kjósendum verði látið það eftir að taka ákvörðunina er hægt að útfæra það á mismunandi vegu. Hægt væri að tilgreina það í frumvarpinu hvort vilji kjósenda standi til þess að fram fari ráðgefandi eða bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla um frumvarpið. Eins væri hægt að láta kjósendur staðfesta í kjörklefa hvort um sé að ræða ráðgefandi eða bindandi atkvæði.
Þá væri hægt að leggja upp með aðra nálgun þegar kemur að frumkvæði kjósenda. Hægt væri að hugsa sér að tiltekið hlutfall kjósenda gæti lagt fram lagafrumvarp og færi þá fram bindandi þjóðaratkvæðagreiðsla um frumvarpið svo fljótt sem auðið er.

Virðingarfyllst,
Þórður Björn Sigurðsson

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.