Tillögur að bættum kafla um kosningar til Alþingis og alþingismenn

Svavar Kjarrval Lúthersson
  • Heimilisfang: Kríuás 19, Hafnarfjörður
  • Skráð: 04.07.2011 10:40

Tillögur að bættum kafla um kosningar til Alþingis og alþingismenn

Í anda samstarfs óska ég eftir því að gera eftirfarandi tillögur í tengslum við kaflann um kosningar til Alþingis og alþingismenn eins og hann var eftir 15. ráðsfund:

1. gr.
Að mínu mati er kaflinn að einhverju leyti óljós því ákvæðin stangast á hvort eingöngu sé heimilt að hafa eitt kjördæmi eða hvort þau megi vera fleiri. Í annarri efnisgrein er nefnt að atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vegi jafnt en í þeirri fjórðu er nefnt að kjördæmin skuli fæst vera eitt en mest átta. Þrátt fyrir stærðfræðilegar aðferðir sem hafa verið í framkvæmd er ekki hægt að tryggja að atkvæði verði jöfn milli kjördæma nema fjöldi þeirra sem greiða atkvæði í hverju þeirra sé því sem næst hnífjafn. Þar sem fjöldi þeirra sem greiða atkvæði er aldrei sá sami er eingöngu hægt að nýta lærdóminn af ójöfnuði í seinustu kosningu í þeirri von að sú næsta verði jafnari. Það breytir því alls ekki að kosningin sem var að líða var ójöfn og gegn atkvæðavægisákvæði stjórnarskrár.

Einnig hef ég áhyggjur af heimildinni í 6. efnisgrein sem kveður á um að heimila framboðum að tryggja að kynjahlutfall þeirra sem ná kjöri sé sem jafnast. Skilningur minn er sá að hér er um að ræða heimild fyrir framboð til að skipta út frambjóðendum eftir að úrslit liggja fyrir. Þá er komin heimild fyrir pólítískum útskiptingum ef kynjahlutfallið er ekki „sem jafnast“ en það er líklegt til að gerast í flestum ef ekki öllum kosningum. Er hér verið að svíkja kjósendur sem kusu ákveðna einstaklinga inn á þing sem þurfa síðan að hverfa vegna slíks ákvæðis. Síðan þarf að hugsa út í áhrifin ef einstaklingur í ákveðnu framboði komst inn vegna þess að hann var valinn þvert á lista en ekki í fyrirfram ákveðnum pakka af frambjóðendum.

3. gr.
Af hverju er skilyrði að eiga lögheimili á Íslandi þegar kosning fer fram? Fólk getur flust til útlanda en samt verið ríkisborgarar með öllum þeim skyldum og kvöðum sem fylgja því, t.d. þegar kemur að sköttum. Íslendingar í útlöndum ættu að hafa jafnan rétt á við aðra íslenska ríkisborgara að hafa áhrif á þá sem stjórna Íslandi í þeirra umboði.

4. gr.
Hvað er óflekkað mannorð? Þetta er í núverandi stjórnarskrá en ég held að þetta sé óljóst matsatriði og tekið á því í hvert sinn sem svona mál kemur upp. Af hverju má fólk ekki fá að kjósa um alla þá sem vilja bjóða sig fram? Kjósendur ættu að dæma um það hvort hann nái á þing eða ekki þrátt fyrir fortíð hans.

Einnig vil ég minna á þann galla að forseti Íslands getur boðið sig fram til Alþingis skv. þessu ákvæði.

5. gr.
Þriðja efnisgreinin er nokkuð ruglandi og virðist ekki þjóna miklum tilgangi. Hana mætti útskýra nánar í greinargerð eða breyta svo hún verði skýrari.

Að auki legg ég til eftirfarandi viðbót við kaflann:
„Alþingismönnum er óheimilt að hafa með höndum önnur launuð störf á vegum framkvæmdarvalds eða dómsvalds á meðan þeir gegna embættinu. Sama gildir um störf í þágu einkafyrirtækja þó ólaunuð séu.“

Undirritað,
Svavar Kjarrval Lúthersson

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.