Sjálfstæði íslenskra stjórnvalda og þjóðarinnar

Finnbjörn Gíslason
  • Heimilisfang: Álftahólar 2
  • Hagsmunaaðilar: Alls óháður
  • Skráð: 04.07.2011 12:42

Reykjavík, 4. júlí 2011.

Innsent til Stjórnlagaráðs varðandi sjálfstæði íslenskra stjórnvalda og þjóðarinnar.

Sjálfstæði íslenskra stjórnvalda og þjóðarinnar

Það er kannski við hæfi að byrja þetta erindi til Stjórnlagaráðs nú á þjóðhátíðardegi BNA með tilvitnun í Thomas Jefferson, sem var þriðji forseti Bandaríkjanna 1801-1809 og aðalhöfundur sjálfstæðisyfirlýsingar nýstofnaðra Bandaríkja Norður-Ameríku 1776. Tilvitnunin sem er frá 1802, þ.e. fyrir rúmum 200 árum, er enn í fullu gildi í dag. Ég kýs að hafa tilvitnunina á frummálinu svo ekki misfarist eitthvað í þýðingu minni. Ég bið Stjórnlagaráð og aðra sem kunna að lesa þetta að virða það við mig.

„I believe that banking institutions are more dangerous to our liberties than standing armies. If the American people ever allow private banks to control the issue of their currency, first by inflation, then by deflation, the banks and corporations that will grow up around the banks will deprive the people of all property - until their children wake-up homeless on the continent their fathers conquered."

Ég fæ ekki betur séð en að þetta sé einmitt það sem hefur gerst hér á mörgum undanförnum árum. Bankar, fjármálastofnanir, lífeyrissjóðir, hagsmunasamtök og stórfyrirtæki bæði innlend og fjölþjóðleg hafa svipt íslensk réttkjörin stjórnvöld ákvörðunarrétti sínum með ýmsum þvingunaraðferðum s.s. með beinum hótunum, margs konar aðgerðum til að fá fram sinn vilja eða hreinlega með krafti fjármagns sem stjórnvöld hafa ekki ráðið við. Verður þá líka að nefna beinan og óbeinan fjárstuðning til stjórnmálamanna eða stjórnmálasamtaka með það að markmiði að hafa áhrif á niðurstöðu ákvarðana þeirra.

Það er vitað að stjórnmálaflokkarnir, einstakir alþingismenn og/eða frambjóðendur til þings þiggja háar upphæðir í styrki frá ýmsum fyrirtækjum, hagsmunaaðilum og einstaklingum bæði í kosningabaráttu og eins meðan setið er á Alþingi. Eins geta alþingismenn haft eigna- eða önnur tengsl, s.s. stjórnarsetu, við einn eða fleiri hagsmunaaðila. Árum saman hafa þessir aðilar verið ófúsir til að gera grein fyrir þessum „styrkjum" og hagsmunatengslum og alls ekki víst að enn sé búið að ráða bót á þessu. Vissulega má með vissum rökum kalla þetta form af mútum! Fjölmörg dæmi um allt þetta höfum við öll séð í fréttum nú síðustu mánuði án þess að ég tíundi það hér í þessu erindi og ætti þar að nægja að benda á fjármálastofnanir, LÍÚ, SA og lífeyrissjóði. Leyfi ég mér að líkja þessu við landráð.

Ef ég skipti út orðunum „American people" (þýð: amerísk þjóð) í tilvitnuninni hér að framan með orðunum „íslensk þjóð" þá á þetta að öllu leyti við það sem nú hefur gerst hér á landi. Stór hluti íslensku þjóðarinnar situr nú eignalítil eða -laus eftir aðför og þvinganir framannefndra aðila án þess að stjórnvöld hafi hreyft við því að sporna við eignaupptöku þessari og öðrum þvingunum hvers konar til að beygja íslenska þjóð undir sinn vilja.

Sjálfstæði íslenskrar þjóðar er undir því komið að réttkjörin stjórnvöld séu fullkomlega fær um sjálfstæðar ákvarðanir í samræmi við samvisku þjóðarinnar sem kaus þau til valda og án íhlutunar einhverra hagsmunaaðila hvort sem þeir eru innlendir eða erlendir s.s. fjármálastofnana, LÍÚ, SA, fjölþjóðasamsteypa s.s. áliðnaðar eða annarra þjóðríkja.

Ný stjórnarskrá íslenska lýðveldisins þarf að tryggja að réttkjörnir þingmenn og valdhafar hlýði á og fari að vilja meirihluta íslensku þjóðarinnar sem kaus þá til valda. Því þarf ný stjórnarskrá að taka skýlaust á þessum málum og eins því hver viðurlög skuli vera bregðist þingmenn eða ráðherrar sannanlega þessu trausti sem þjóðin hefur sýnt þeim á hverjum kjördegi.

Eins og í fyrra erindi mínu til Stjórnlagaráðs bendi ég á að sem hluti af lausn þessa máls má hugsa sér að stofnaður verði sjóður í vörslu Alþingis þar sem allar styrkveitingar vegna framboða eða annarra mála er varða alþingismenn, sveitarstjórnarmenn eða aðra þá sem kunna að vera kosnir til starfa samkvæmt nýrri stjórnarskrá skulu veittar og skráðar sem opinber gögn. Úr þessum sjóði skal síðan veitt með jöfnuði þannig að hvorki flokkar né einstakir aðilar í kjöri verði háðir ákveðnum umbjóðendum.

Eins má velta því fyrir sér hvort þingmenn og/eða valdhafar eigi að starfa í skjóli friðhelgi eða hve langt hún skuli ná. Að minnsta kosti skal tilgreina hvar friðhelgin nær til og hvernig skuli taka á brotum sem unnin eru gagnvart þegnunum sem kusu starfsmenn þjóðarinnar til starfa, hvort sem er til ríkis eða sveita.

Það er lífsnauðsynlegt sjálfstæði íslensku þjóðarinnar að þeir sem kjörnir eru starfi óháðir öllum öðrum en eigin samvisku og samvisku þeirra er kusu þá til starfa.


Kær kveðja með ósk um gott gengi Stjórnlagaráðs,

Finnbjörn Gíslason,
fyrrverandi frambjóðandi til stjórnlagaþings.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.