Er þjóðinni ekki treystandi til að kjósa forsætisráðherra beinni kosningu til styrktar skiptingu valdsins ?

Margrét Hermanns Auðardóttir
  • Heimilisfang: Keilugrandi 2
  • Hagsmunaaðilar: - - -
  • Skráð: 05.07.2011 15:43

Ágætu stjórnlagaráðsfulltrúar.

Í ljósi þess að þjóðin hefur ekki búið við virka skiptingu löggjafarvalds og framkvæmdarvalds og það tíðum með afleiðandi sérhagsmunapólitík á kostnað almannahags, þá spyr ég ykkur:
Af hverju það hafi ekki komið til álita hjá Stjórnlagaráði að þjóðin kjósi forsætisráðherra beinni kosningu sem velji sér ráðherra utan þings sem beri ábyrgð gagnvart löggjafarvaldinu Alþingi?

Samanber tillögu Vilmundar heitins Gylfasonar um það sem hann bar upp á sameinuðu (deildskiptu) Alþingi 1982 í - Tillögu til þingsályktunar um gerð frumvarps til stjórnskipunarlaga um aðgreiningu löggjafarvalds og framkvæmdarvalds nr. 94., 92. mál - http://www.althingi.is/altext/105/s/pdf/0094.pdf

Í mjög svo áhugaverðri greinargerð Vilmundar við tillöguna er margt sammerkt með þeim djúpstæða stjórnskipunarvanda sem þjóðin býr enn við, sem vekur spurningu um það:
Hvort Stjórnlagaráð treysti ekki þjóðinni til að hafa bein áhrif á það hver fari fyrir framkvæmdarvaldinu í Stjórnarráðinu á hverjum tíma?

Í stað þess að alþingismenn kjósi forsætisráðherra að tillögu forseta Alþingis og þingið samþykki tilnefningu ráðherra þingkjörins forsætisráðherra í ríkisstjórn sína skv. 3. gr. í áfangaskjali 14. ráðsfundar Stjórnlagaráðs til kynningar: Ráðherrar og ríkisstjórn -http://www.stjornlagarad.is/starfid/afangaskjal/kafli/item34030/
Og viðhalda þar með þingræðinu – og lífseigu flokksræði – við val á forsætisráðherra og skipan ríkisstjórnar, þrátt fyrir hverfandi traust landsmanna á þeirri skipan fyrir áhrif banka- og efnahagshrunsins.

Að kjósa forsætisráðherra beinni kosningu útilokar ekki þá varnagla í stjórnskipaninni sem Stjórnlagaráð leggur til að þjóðkjörinn forseti hafi í áfangaskjali 14. ráðsfundar Stjórnlagaráðs til kynningar: Forseti Íslands - http://www.stjornlagarad.is/starfid/afangaskjal/kafli/item34032/
Í þeim tillögum Stjórnlagaráðs eru umtalsverðar heimildir færðar forseta sem einstaklingi samanborið við fjölskipað framkvæmdarvald.

Samt sem áður hefur skort á umræðu um kostina við þjóðkjörinn forsætisráðherra sem velur sér ráðherra utan þings til styrktar skiptingu valdsins og aðhaldsskyldum löggjafarvaldsins Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu, sem verið hefur í skötulíki í seinni tíð fyrir áhrif ríkjandi flokksræðis.

Ef mögulegt er, mætti einnig hugsa sér þegar kosið yrði um tillögur Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá yrði um 2 valkosti að ræða:

  1. Forsætisráðherra sé kosinn beinni kosningu, þjóðkjörinn ...
  2. Alþingismenn kjósi forsætisráðherra að tillögu forseta þingsins ...

Þannig stæði kjósendum opið að hafa áhrif á það hvernig aðgreiningu löggjafarvalds og framkvæmdarvalds sé hagað í nýrri stjórnarskrá til handa þjóðinni.

Með bestu kveðjum og óskum.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.