Falið forsetaræði

Ingólfur Harri Hermannsson
  • Skráð: 06.07.2011 09:33

Falið forsetaræði

Samkvæmt núverandi tillögum Stjórnlagaráðs um skipun forsætisráðherra þá sýnist mér vera komið í raun forsetaræðið sem minnihluti ráðsins hefur kallað eftir.
Þó svo að Alþingi skipi forsætisráðherra þá er gert ráð fyrir því að hann geti verið skipaður með minnihluta atkvæða.

Við þekkjum öll íslenska pólitík þannig að það er ekki erfitt að sjá fyrir sér ferlið sem skapast eftir þessu kerfi.

Stærsti flokkurinn (með kannski 30-35%) býður minni flokki að hafa örlítil áhrif og kannski einn til tvo ráðherrastóla gegn stuðningi við ríkisstjórn sína. Hafni minni flokkurinn tilboðinu hefur formaður stærsta flokksins samt góða möguleika á að verða valinn forsætisráðherra með minnihluta atkvæða og þarf þá ekki að taka neitt tillit til annarra flokka.

Mér sýnist reyndar á tillögum ykkar að Alþingi verði að staðfesta ríkisstjórnina í byrjun, en ekki er gert ráð fyrir því að það þurfi að staðfesta breytingar á ríkisstjórn.

Við þetta bætist síðan að til þess að samþykkja vantraust á minnihlutaríkisstjórnina  þarf meirihlutinn að koma sér saman um forsætisráðherra sem tæki við. Það eru því gerðar meiri kröfur um vanhæfi á forsætisráðherra en til upphaflegu skipunar hans.

Samkvæmt þessu er ekki bara möguleiki, heldur töluvert líklegt, að skipaðar verði ríkisstjórnir sem ekki hafa meirihluta Alþingis á bak við sig.

Það er grundvallarkrafa þingræðis, ef kjósa á forsætisráðherra á Alþingi, að forsætisráðherrann hafi raunverulegan meirihluta á bak við sig. Sama ætti í raun að gilda um alla ráðherra í ríkisstjórn.
Möguleikinn á því að Alþingi komi sér ekki saman um meirihluta-ríkisstjórn er hverfandi en komi sá möguleiki upp að þá er margfalt betra að boða til nýrra kosninga en að afhenda stærsta flokknum völdin án stuðnings meirihluta þingsins.

Þetta kerfi dregur verulega úr vægi minni stjórnmálaflokka og óháðra þingmanna og er líklegt til þess að ýta undir tveggja flokka kerfi sem við þekkjum frá löndum sem notast við forsetaræði.

Ég skil vissulega áhuga margra ráðsmanna af þessu (falda) forsetaræði en ég sé ekki að kallað hafi verið eftir því meðal almennings né að það hafi verið vinsælt á Þjóðfundinum.

Persónulega finnst mér virkilega mikilvægt að stjórnarskráin verði endurskoðuð, en þetta atriði er eitt þeirra örfárra ákvæða sem gera mér illmögulegt að samþykkja annars mjög góðar tillögur.

Reykjavík, 6.7.2011
Ingólfur Harri Hermannsson

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.