Um lýðræðislega þátttöku almennings - athugasemdir við 10. kafla

Einar Kr. Jónsson
  • Heimilisfang: Laufásvegur 18A, 101 Reykjavik
  • Skráð: 06.07.2011 21:07

Ég fagna því að gert er ráð fyrir sérstökum kafla um lýðræðislega þátttöku almennings í stjórnarskrá, en tel að breytingar verði að gera svo betur megi fara. Eftir að hafa tvívegis búið í Sviss, hef ég kynnst því af eigin raun hvernig réttur almennings þar er mun betur tryggður til að hafa bein áhrif á framgang mála en hér er lagt til.

Ég vil því gjarnan vekja athygli á athugasemdum mínum á spjallvef Stjórnlagaráðs varðandi 10. kaflann, http://www.stjornlagarad.is/starfid/afangaskjal/kafli/item34033/#ummaeli

Áður hafði ég gert efnislegar athugasemdir við fyrri drög (sjá hér að neðan). Sum efnisatriði þar eru komin inn í núverandi drög, t.d. að almenningur geti sjálfur lagt fram mál og lagafrumvörp á Alþingi, sem mér finnst skipta miklu máli, en að það sé ekki bundið við ríkisstjórn eða þingmenn eina. Ég er mjög ánægður með þessa nýbreytni í drögunum.

Núna vil ég umfram allt vekja máls á því að ný stjórnarskrá verði „dynamiskt" skjal, opið fyrir breytingum að frumkvæði almennings frá einum tíma til annars, og er ekki sáttur við að í nýju drögunum sé gert ráð fyrir því að aðeins Alþingi geti haft frumkvæði að stjórnarskrárbreytingum og þurfi samþykki tveggja þinga, jafnvel án samþykkis þjóðarinnar, og ég rökstyð frekar í athugasemdum mínum. Mér finnst þetta alltof gamaldags hugmyndafræði m.v. ákall þjóðarinnar um lýðræðislegar umbætur og m.v. það sem ég hef kynnst í Sviss, en þar hefur stjórnarskráin tekið margvíslegum breytingum frá 1848, og síðan 1891 oft að frumkvæði almennings, sem þá fékk rétt til frumkvæðis um breytingar á stjórnarskránni. Ég sé fyrir mér að núverandi tillaga óbreytt muni leiða til þess að ekki verða gerðar breytingar á stjórnarskránni næstu áratugi þrátt fyrir örar þjóðfélagsbreytingar, og sennilega ekki fyrr en eftir enn aðra efnahagslega og siðferðilega kollsteypu og „búsáhaldaþrýsting" frá þjóðinni.

Einnig er ég algjörlega mótfallinn því að sum mál megi ekki setja í þjóðaratkvæðagreiðslu, og veit að margir eru þeirrar skoðunar; þetta er líka gamaldags stjórnlyndis-hugmyndafræði frá Danmörku og öðrum Norðurlöndum, sem ég rökstyð frekar í athugasemdum mínum. Vilji menn setja skorður við tiltekin efnisatriði finnst mér rétt að taka á þeim sérstaklega, en ekki útiloka heila málaflokka.

  • Til dæmis má setja takmarkanir varðandi skattamál og fjárlög með því að tryggt sé að fjárlög séu ávallt hallalaus m.v. reglubundin útgjöld (e. „recurring expenses"), m.a. til að standa vörð um velferðarkerfið, því að mér finnst sjálfsagt að þjóðin eigi kost á að segja álit sitt á óreglubundnum útgjöldum (e. „non-curring expenses") yfir ákveðnum mörkum, sbr. í Sviss. Sömuleiðis á þjóðin að eiga rétt til að taka afstöðu til skattamála í þjóðaratkvæðagreiðslu, t.d. undir sömu formerkjum og skilyrðum um hallalaus fjárlög vegna reglubundinna útgjalda.
  • Eins varðandi lög til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum, en það kemur fram í ummælum Vilhjálms Þorsteinssonar að vafi leiki á því hvort Icesave-atkvæðagreiðslan fyrr á árinu hefði staðist nýja stjórnarskrá m.v. orðalag í núverandi drögum, þar sem vafi leiki á því hvort um þjóðréttarlega skuldbindingu var að ræða eða ekki. Af sömu ástæðum, ef þjóðin má ekki eiga rétt til að kjósa um ríkisfjármál eða nýjar fjármálaskuldbindingar, þá hefði Icesave kosning verið háð miklum stjórnarskrárlegum vafa. Ef svo er, þá er stigið skref afturábak, komið í bakið á þjóðinni, og það má ekki verða.
  • Að sama skapi er engin ástæða til að þjóðin megi ekki tjá sig um veitingu ríkisborgararéttar til tiltekinna einstaklinga, þvert á móti á þjóðin að hafa rétt til að hafa um það að segja hverjir fái ríkisborgararétt, sbr. ferlið við veitingu ríkisborgararéttar í Sviss, þetta er ekki einkamál stjórnvalda og viðkomandi umsækjanda.

Mér finnst einnig eðlilegra að miðað sé við 10% hlutfall kjósenda, sem geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsamþykkt lög eða lagt fram lagafrumvörp til samræmis við önnur lönd, en þar er þetta hlutfall enn lægra eins og í Sviss og Ítalíu. Þetta hlutfall var áður 10% í fyrri drögum Stjórnlagaráðs og mér finnst engin ástæða til að þrengja þau skilyrði, frekar að lækka þau til svo að virku lýðræði verði komið á.

Og svo eru nokkrir aðrir punktar til viðbótar, sem ég vek athygli á á spjallvefnum, svo sem um misræmi varðandi gildistöku laga eftir því hvort þingið á frumkvæði að því að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu eða almenningur, svo og varðandi tímafresti, en hvort tveggja getur verið mjög skaðlegt m.v. óbreytt drög. Sem dæmi, þá gæti Alþingi samþykkt að veita virkjanaleyfi með óafturkræfum áhrifum á lífríkið með gildistöku strax, sem þjóðin tæki ekki afstöðu til fyrr en allt að 12 mánuðum seinna; þá myndi málið snúast um áhrif þess að ógilda lögin frekar en um afleiðingar upphaflegu laganna. Einnig verður að taka af öll tvímæli um að niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslu séu bindandi, annað leiðir til óskýrra leikreglna og gæti leitt til glundroða.

Ég er að sjálfsögðu opinn fyrir skoðanaskiptum og rökum, og útiloka ekki að hafa misskilið textadrögin. En mér finnst mjög brýnt að ný stjórnarskrá svari kalli þjóðarinnar um aukið beint lýðræði, verði í fararbroddi hvað það varðar í Evrópu og byggi á reynslu þeirra þjóða sem lengst eru komnar í beinni lýðræðisþátttöku almennings, stjórnarskráin hafi skýrar leikreglur og bindi þjóðina saman, og þannig búið um hnútana að almenningur geti haft beint frumkvæði að breytingum á henni frá einum tíma til annars. Ekki má það heldur gerast að stigið sé til baka (t.d. varðandi sambærileg mál og kosningarnar um Icesave). Ekki má heldur taka af þjóðinni þann rétt sem hún upplifir að hún hafi í dag (t.d. málskotsrétt forsetans, þ.m.t. varðandi fjárlög) nema annað jafngott, tryggt, öruggt og betra komi í staðinn.

Ég fjalla ítarlegar um einstök atriði á ummælavef Stjórnlagaráðsins.

Einar Kr. Jónsson

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.