Eftirlit með starfsemi leynilögreglu

Einar Steingrímsson
  • Heimilisfang: Birkimel 10A
  • Skráð: 08.07.2011 22:42

Á Íslandi hafa yfirvöld lengi stundað ýmiss konar rannsóknir sem skerða persónufrelsi og friðhelgi einkalífs. Flestir munu sammála um að slíkt sé óhjákvæmilegt og nauðsynlegt við ýmsar aðstæður. Engu að síður er ljóst að slíkar heimildir eru stundum misnotaðar. Því meiri leynd sem hvílir yfir slíkri starfsemi, og því víðtækari heimildir sem yfirvöld hafa, því líklegra er að misnotkunin verði gróf, og fari í bága við mannréttindi sem eru í orði tryggð í stjórnarskrá. Jafnvel í löndum eins og Svíþjóð og Noregi hefur leynilögregla af ýmsu tagi orðið uppvís að alvarlegum og kerfisbundnum brotum gegn saklausu fólki, eins og kom fram í úttektum rannsóknarnefnda um þessi mál í umræddum löndum.

Nýlega hafa verið uppi áform um að auka „forvirkar rannsóknaheimildir“ lögreglu á Íslandi. Jafnvel þótt ekki verði af því er ærin ástæða til að koma á fót eftirliti með þeirri starfsemi yfirvalda sem leynt fer og sem skerðir það almenna persónufrelsi og friðhelgi einkalífs sem tryggð eru í stjórnarskrá.

Þetta mætti til dæmis gera með því að binda í stjórnarskrá að starfandi sé nefnd sem hafi það hlutverk að fylgjast með starfsemi af þessu tagi. Nefndin ætti að hafa ótakmarkaðar heimildir til að kynna sér starf lögreglu í þeim tilgangi að koma í veg fyrir misnotkun á rannsóknaheimildum hennar. Hún ætti að sjálfsögðu að vera bundin þagnarskyldu um allt sem hún kæmist að, nema hvað hún ætti að upplýsa opinberlega um öll atvik þar sem yfirvöld hefðu brotið af sér. Nefndin ætti að rannsaka kvartanir sem henni bærust, og enn fremur taka frumkvæði að rannsóknum ef tilefni gæfist til. Hún ætti hvenær sem er að geta kallað fyrir sig opinbera starfsmenn (og aðra) sem tengst gætu málum á hennar forræði, það ætti að vera skylda viðkomandi að svara spurningum nefndarinnar og gefa henni allar upplýsingar sem hún bæði um, og það ætti að varða brottrekstri úr starfi (eða eftir atvikum mildari eða harðari viðurlögum) að segja ósatt frammi fyrir nefndinni.

Reynslan af starfi umboðsmanns Alþingis er nokkuð góð, og hún hefur sýnt að það er hægt að hafa opinberan eftirlitsaðila með starfsemi yfirvalda. Því er ástæða til að ætla að sama gæti átt við um eftirlit með starfsemi „leynilögreglu“, bæði þeirri sem þegar er til staðar, og ekki síður þeirri starfsemi sem rætt er um að koma á fót með auknum rannsóknaheimildum. Slíkt eftirlit er nauðsynlegt ef við viljum tryggja að mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar verði virk, en ekki háð geðþótta yfirvalda á hverjum tíma.

Miklu skiptir að skýrt sé að hlutverk slíkrar nefndar sé að vernda réttindi almennings gegn yfirvöldum, en hún sé ekki einhvers konar „innra eftirlit“ yfirvalda sjálfra.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.