Vil minna á að í stjórnarskrá er ákvæði um að eignarréttur sé friðhelgur

Sigurður Antonsson
  • Skráð: 18.07.2011 11:21

Stjórnlagaráð

Vil minna á að í stjórnarskrá er ákvæði um að eignarréttur sé friðhelgur.
Hins vegar er eins og stjórnvöld geti farið í kringum þessi ákvæði og skattlagt eignir án þess að tekjur séu af eigninni.
Sendi hjálagða grein með til að skýra málið nánar. Fáir eru til að verja eignarréttinn en ef hann er ekki verndaður munu aðrar stoðir bresta.

3.2.2011 | 20:35
Auðlegðarskattur og aðhaldið

Margar tilraunir voru gerðar af lögþingum til að koma á samblandi af eignar- og auðlegðarskatti, en þeir þóttu brjóta á eignarréttarákvæðum. Eins og hér á landi þóttu þessir skattar ósanngjarnir og ekki ná tilgangi sínum eða vera í anda stjórnarskrárinnar. Stjórnlagadómstóll í Karlsruhe gagnrýndi þýsk stjórnvöld fyrir álagningu á tekju- og eignarsköttum og lögðu til að aldrei mætti skattleggja meir en helming af tekjum manna með þessum hætti. Það var til að stjórnvöld breyttu skattastefnu sinni.

Kaliforníubúar settu í lög 1987 að aldrei mætti leggja á hærri fasteignaskatta en sem næmu meira en 1% af söluverði fasteignar. Eftir aldamót hækkuðu eignir á Vesturlöndum verulega í verði og eignaskattar urðu því meiri en margur skattgreiðandinn hafði burði til að taka á sig. Margir höfðu ekki hugsað sér að selja heimili sín eða höfðu miklar tekjur til að greiða aukna eignaskatta.

Danir aflögðu auðlegðarskatt árið 1997 og nú þykja þessir skattar börn síns tíma. Þeir eru taldir skaða efnahag landanna þar sem fjármagn leitar annað, hrekja burt fjárfesta og hvetja ekki til eignarmyndunnar. Samtök fjárfesta eða samtök sparifjáreigenda lögðu fram umsögn um auðlegðarskattinn. Þau vekja athygli á að þessi skattur er nú nær óþekktur á Vesturlöndum. Hann dragi úr sparnaði og seinki efnahagsbatanum sem menn hafa beðið eftir.

Stóreignaskattar eftirstríðsáranna 1950 0g 1957 er raunasaga skattlagningar á miðlungs eignir eftir að eignakönnun hafði verið gerð. Hún bitnaði á mörgum sjómanninum sem hafði unnið samviskusamlega á stríðsárunum við að afla gjaldeyristekna og árlega greitt tekjuskatta. Margir þeirra höfðu komið yfir sig íbúð eða húsi eða áttu einhverja peninga í banka, en þurftu nú að verjast innheimtumönnum sem sóttu hart að þeim fyrir ráðdeildina. Sérstaklega man ég eftir aflaskipstjóra í götunni minni. Hann var með stóra fjölskyldu og hafði stundað sjómennsku öll stríðsárin, átti orðið hæð og ófullgerðan kjallara í fjórbýlishúsi. Reglulega komu ábúðarfullir lögheimtumenn til að skrifa upp eignir, taka lögtak og leggja drög að uppboði, á meðan skipstjórinn var á úti á sjó. Sem barni fannst mér þessi uppákoma ógnvekjandi því fjölskyldurnar óttuðust að missa eignir sínar og voru áhyggjufullar, ekki síst börnin sem ekki skildu eignakönnun, lögtök eða uppboð. Þegar börn hans uxu úr grasi og höfðu hlotið menntun urðu þau öll opinberir starfsmenn. Ég spurði son hans hverju þetta sætti því karlinn hafði ávallt verið fylgjandi einkaframtaki, þá sagði hann mér að mamma sín hafi ávallt sagt við þau að öruggast væri starfa hjá hinu opinbera sem og þau gerðu.

Löggjafinn skapar fordæmi með vafasamri lagasetningu. Við sjáum að bæjarfélög telja að þau geti farið inn á sömu braut í álagningu gjalda. Ekki viljum við vera á lista meðal banannalýðvelda, en dropinn holar steininn. Sparnaður og ráðdeild hafa ekki valdið hruni fjármálakerfis en óígrundaðar ráðstafanir í skattamálum geta leitt til annars hruns og landflótta.

Kveðja Sigurður Antonsson

13 04 39 7999

santon@mi.is

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.