Þúsund þátttakendur á Þjóðfundi 2010

15.10.2010 16:49

Þúsund þátttakendur á Þjóðfundi 2010

Þúsundasti þátttakandinn staðfesti komu sína á Þjóðfund um stjórnarskrá Íslands kl.15:30 í dag. Þar með er fundurinn fullmannaður en vonast er til þess að ekki verði mikið um forföll. Þjóðfundurinn verður haldinn  laugardaginn 6. nóvember n.k. í Laugardalshöllinni í Reykjavík. Þátttakendur voru valdir af handahófi úr þjóðskrá þar sem gætt var að eðlilegri skiptingu þeirra eftir búsetu og kyni. Á næstu dögum munu allir þátttakendur fá sent bréf ásamt stjórnarskrá lýðveldisins. 

Jafnmargar konur eru skráðar á fundinn og karlar. Aldur gesta endurspeglar aldursdreifingu  í landinu. Elsti þátttakandi á Þjóðfundi er fæddur 1921, en 14 eru fæddir fyrir árið 1930. Yngstu gestirnir eru fæddir 1992 verða þeir 22 talsins.

Á þjóðfundinum verður kallað eftir meginsjónarmiðum um stjórnskipan landsins og stjórnarskrá og endurskoðun á henni. Fundurinn er undanfari stjórnlagaþings, en kosningar til þess fara fram 27. nóvember. Framboðsfrestur rennur út  á hádegi mánudaginn 18. október.

Stjórnlaganefnd  mun vinna úr upplýsingum sem safnast á Þjóðfundi og afhenda stjórnlagaþingi þegar það kemur saman í febrúar 2011.

 

Fara í fréttalista