Frambjóðendatölfræði

02.11.2010 10:56

Þegar gluggað er í lista frambjóðenda til stjórnlagaþings kemur ýmislegt áhugavert í ljós, en eins og fram hefur komið eru karlar 364 og konur 159. Meðalaldur allra frambjóðenda er 47 ár og hann sá sami hjá körlum og konum. Elsti karlinn er áttræður og sá yngsti 19 ára. Elsta konan er 66 ára og sú yngsta er 22 ára. Frambjóðendur koma úr öllum starfsstéttum, en fjölmennasti hópurinn er í námi eða 45 frambjóðendur og næst fjölmennasti hópurinn stundar kennslu eða 44 og þar af eru 7 prófessorar. 32 framkvæmdastjórar eða forstjórar bjóða sig fram, 28 lögmenn/lögfræðingar, 16 viðskipta-eða hagfræðingar, 15 verkefnastjórar, 13 ráðgjafar, 12 blaða-eða fjölmiðlamenn, 11 verkfræðingar, 10 arkitektar, 10 læknar, 10 stjórnmálafræðingar, 6 bændur, 3 prestar og 5 skrá sig atvinnulausa. Að auki er fjöldi annarra starfsstétta að bjóða sig fram. Um 78% frambjóðenda búa á höfuðborgarsvæðinu og 22 prósent utan höfuðborgarsvæðisins (en um þriðjungur landsmanna býr þar og því  hallar aðeins á landsbyggðina). Þá eru sjö frambjóðendur búsettir erlendis.

 

Fara í fréttalista