Allar nefndir leggja fram tillögur til kynningar eða afgreiðslu á 14. ráðsfundi

24.06.2011 10:49

Allar nefndir leggja fram tillögur til kynningar eða afgreiðslu á 14. ráðsfundi

Allar nefndir Stjórnlagaráðs leggja fram tillögur til kynningar eða afgreiðslu inn í  áfangaskjal um breytingar á stjórnarskránni á 14. ráðsfundi sem hófst kl. 9.30 í morgun. Fundurinn er opinn fyrir almenning og sýndur á vef ráðsins, stjornlagarad.is. Allar tillögur ráðsins birtast jafnóðum í áfangaskjali Stjórnlagaráðs og eru opnar fyrir athugasemdum.

B- nefnd Stjórnlagaráðs kynnir tillögur um málskotsrétt forseta Íslands í kafla um störf Alþingis. Settir eru fram tveir valkostir.  Í fyrri valkostinum er núverandi 26. gr. að mestu óbreytt og forseti heldur sjálfstæðum málskotsrétti. Hins vegar er að finna nákvæma útfærslu á frestum, málsmeðferð og málum sem eru undanþegin þjóðaratkvæðagreiðslu. Forseta er veittur vikufrestur til að taka afstöðu til laga en skilyrði er að forseti rökstyðji ákvörðun sína og tilkynni forseta Alþingis með formlegum hætti. Þá er málskotsrétturinn takmarkaður vegna laga um tiltekin málefni, einkum á sviði fjárstjórnar og vegna þjóðréttarskuldbindinga. Í síðari valkostinum er lögð til sambærileg skipun við samþykkt laga og ríkir í Finnlandi. Forsetinn hefur synjunarvald á lögum og getur vísað þeim til þings á grundvelli efnis þeirra, t.d. ef talið er að lögin brjóti í bága við stjórnarskrána. Þingið er því skyldað til að ræða lagafrumvarpið á ný við eina umræðu. Valkostur tvö er settur fram með tilliti til þess að samkvæmt öðrum tillögum Stjórnlagaráðs hefur þjóðinni verið veittur sjálfstæður réttur án milligöngu til að óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslu. Þriðjungur þingmanna hefur sama rétt. Því sé óþarft að stjórnarskráin mæli fyrir um þríþætt inngrip í störf Alþingis. Hægt er að gera athugasemdir við allar tillögur Stjórnlagaráðs í áfangaskjali ráðsins. Viðtal á Youtbube.com við Katrínu Fjeldsted formann nefndarinnar um tillögurnar.

 

C-nefnd Stjórnlagaráðs leggur fram til afgreiðslu kafla í áfangaskjal um kosningar til Alþingis og alþingismenn, sem lagður var fram til kynningar á 12. ráðsfundi með nokkrum orðalagsbreytingum. Einnig leggur C-nefnd fram breytingartillögur á kafla um lýðræðislega þátttöku almennings, þar er ráð fyrir að þriðjungur þings geti skotið lagafrumvörpum í þjóðaratkvæðagreiðslu og að 15% kosningabærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsamþykkt lög frá Alþingi. Einnig geti 2% kosningabærra manna lagt fram þingmál á Alþingi. 15% kosningabærra manna geti lagt fram á Alþingi frumvarp til laga en Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. Fara frumvörpin þá í þjóðaratkvæðagreiðslu og getur Alþingi ákveðið hvort þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi eða ráðgefandi. Breytingar á stjórnarskrá skulu samþykktar á Alþingi og sendar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

 

A-nefnd Stjórnlagaráðs leggur fram til afgreiðslu inn í áfangaskjal heildstæðan kafla í 32. greinum um mannréttindamál. Nokkrar tillögur taka breytingum frá því sem áður hafði verið kynnt og ein ný grein kemur fram. Í henni kemur fram að stjórnvöldum beri að tryggja síaukna vernd mannréttinda. Mannréttindi skuli tryggð með stjórnarskránni og megi aðeins skerða ef almannahagsmunir krefjist þess.

 

Fara í fréttalista