Helstu hugtök um stjórnarskrá og stjórnskipun

Alþingi er heiti á stofnun þjóðkjörinna fulltrúa á Íslandi sem fer með löggjafarvald  ásamt forseta Íslands samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar. Alþingsmenn eru kosnir í almennum kosningum.  Starfsemi Alþingis er  ekki einskorðuð við löggjafarstarf. Það fer einnig með fjárstjórnarvald og hefur eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Á grundvelli þingræðisreglunnar ræður Alþingi hverjir skipa ríkisstjórn. Því er það í raun Alþingi sem markar stjórnarstefnu og stjórnarframkvæmdir í aðaldráttum á hverjum tíma. Því má segja að Alþingi fari með veigamesta þátt ríkisvaldsins og sé valdamesta stofnun þjóðfélagsins samkvæmt núverandi stjórnskipan.

Dómsvald: Samkvæmt 2. gr. stjóprnarskrár fara dómendur með einn þriggja þátta ríkisvaldsins, þ.e. dómsvaldið. Hugtakið er hvergi skilgreint í stjórnarskránni sjálfri en samkvæmt hefðbundnum skilningi felur dómsvald í sér heimild til að skera úr tilteknu réttarágreiningsefni og kveða á um, hvað sé rétt og lögum samkvæmt í tilteknu máli.

Endurskoðunarvald dómstóla: Vald dómstóla til að úrskurða um hvort lög eru í samræmi við stjórnarskrá. Reglan er ekki bundin í stjórnarskrá heldur byggir á þeirri stjórnskipunarvenju þ.e. langri og sögulegri réttarvenju, að dómstólar landsins séu taldir hæfir til að fjalla um þessi atriði eins iog tíðkast einnig annars staðar á Norðurlöndum. Í sumum löndum er sérstökum stjórnlagadómstól falið að úrskurða hvort lög eru sett með stjórnskipulegum hætti, sem og hvort efni þeirra samræmist stjórnarskrá, t.a.m. í Þýskalandi.

Framkvæmdarvald: Framkvæmdarvald er einn þriggja þátta ríkisvalds samkvæmt 2. gr. stjórnarskrárinnar. Forseti og ráðherrar eru æðstu handhafar framkvæmdarvaldsins. Orðið vísar til ákveðinnar starfsemi, þ.e. þáttar í opinberri stjórnsýslu, og ber framkvæmdarvaldshöfum að framfylgja lögum frá Alþingi. Öll stjórnsýsla telst meira og minna til framkvæmdarvalds, sem og starfsemi sveitarstjórna.

Framsal ríkisvalds: Um miðja síðustu öld tóku ríki að sameina ríki krafta sína, í þeirri viðleitni að ná fram ýmis konar markmiðum. Þjóðréttarsamningar voru samþykktir í auknu mæli og settar á fót alþjóðastofnanir þar sem hefðbundin milliríkjasamvinna fór fram. Þróunin var í þá áttina að yfirþjóðlegum alþjóðastofnunum var falin meðferð tiltekinna valdheimilda sem áður hafði verið í höndum innlendra handhafa ríkisvalds. Framsal ríkisvalds til slíkra alþjóðastofnana hefur oftar en ekki átt sér stað með vísan til heimildar í framsalsákvæði í stjórnarskrám viðkomandi ríkja. Í slíkum ákvæðum er kveðið á um með skýrum hætti hver skilyrði framsals ríkisvalds eru í viðkomandi stjórnskipun.

Heimild til framsals ríkisvalds eins og þá sem hér um ræðir er ekki að finna í íslensku stjórnarskránni nr. 33/1944. Einungis eitt ákvæða hennar lýtur að samskiptum við erlend ríki, þ.e. 21. gr. hennar, sem fjallar um samningsgerð við erlend ríki. Þrátt fyrir þessa þögn hennar er talið að í gildi sé óskráð meginregla sem heimilar framsal ríkisvalds að fullnægðum tilteknum skilyrðum. Var hún til að mynda talin fullnægjandi heimild fyrir aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (EES) og Schengen-samstarfinu.

Kosningarréttur: er eitt af grundvallaratriðum lýðræðislegra stjórnarhátta. Yfirleitt er hann bundinn skilyrðum, en þróun í þingstjórnarlöndum hefur verið að draga úr takmörkunum kosningarréttar. Skilyrði kosningarréttar eru nú  18 ára aldur, íslenskur ríkisborgararéttur og lögheimili hér á landi með nokkrum undantekningum.

Löggjafarvald: Alþingi fer með löggjafarvald skv. 2. gr. stjórnarskrárinnar, ásamt forseta Íslands. Með löggjöf er lagður grundvöllur að annarri starfsemi ríkisins, svo sem stjórnsýslu og dómgæslu. Lagasetning er því undirstaða annarra þátta ríkisvaldsins. 

Lýðræði: er víðfemt hugtak. Í grundvallaratriðum felur það í sér að valdið er komið frá þjóðinni. Eitt stærsta einkenni lýðræðisríkja er að borgarar kjósa æðstu valdhafa, þ.e. þá sem fara með löggjafarvald og æðsta framkvæmdarvald að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, svo sem um aldur og búsetu.

Lýðveldi: er ein tegund stjórnarforms. Í lýðveldi kjósa borgarar æðsta mann ríkisins, þjóðhöfðingjann, í beinum eða óbeinum kosningum. Í lýðveldi fer kjörið þjóðþing með löggjafarvald eða er a.m.k. aðalhandhafi þess. Samkvæmt 1. gr. stjórnarskrárinnar er stjórnarform íslenska ríksins lýðveldi.

Mannréttindi: Markmið mannréttinda er að tryggja einstaklingnum ákveðna velsæld og viðunandi lífsskilyrði hverju sinni. Þannig kann inntak mannréttinda að breytast með breyttum þjóðfélagsháttum og viðhorfum, þar af leiðandi hvað telst viðunandi í samfélaginu hverju sinni. Í íslenskum rétti eru mannréttindi nú skilgreind sem tiltekin grundvallarréttindi hverrar manneskju, óháð þjóðerni, kyni, trú og skoðunum. Samkvæmt framangreindu nær réttarvernd mannréttinda til allra einstaklinga samfélagsins og  afmarkast jafnframt  af jafnræði borgaranna.

Náttúruauðlind: Enginn algild skilgreining liggur fyrir á hugtakinu náttúruauðlind eða öðrum umhverfisgæðum, en í víðasta skilningi falla allir þættir náttúrunnar, jörð, (jarðvarmi, orka,) lífríki, vatn, loft og sólarljós undir hugtakið náttúruauðlind. Náttúra eða náttúrugæði verða náttúruauðlind þegar náttúran eða -gæðin verða hluti af efnahagsstarfssemi. – þegar má hafa tekjur af náttúrunni  eða annan ávinning, beint eða óbeint, nú eða í framtíð.

Jafnræðisregla: Í öllum vestrænum samfélögum eru jafnræðisreglur í hávegum hafðar, enda er jafnrétti bæði samofið hugmyndum manna um réttlæti og innbyggt í lýðræðishugsjón. Gjalda verður varhug við notkun hugtaksins, enda eru jafnræði og jafnrétti gildishlaðin og gildismat manna oft persónubundið. Þetta á sérstaklega við um lagareglur og beitingu þeirra enda verður þá aðferðarfræði hluti af inntaki hugtaksins. Jafnræðisreglan í 65. gr stjórnarskrárinnar (sem mælir fyrir um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til þátta sem þar eru taldir upp), var sett í stjórnarskrána árið 1995. Mikilvægi reglunnar felst aðallega í almennu banni við mismunun sem ávallt ber að hafa að leiðarljósi. Reglan er stefnuyfirlýsing sem varast ber að taka of bókstaflega án tillits til aðstæðna sem geta réttlætt eðlileg frávik. Í sumum tilvikum getur t.d. verið réttlætanlegt að gera ákveðnum hópum í samfélaginu hærra undir höfði, svo sem  að hátekjufólk greiði hærri skatta en lágtekjufólk. Þó þurfa alltaf að liggja málefnaleg sjónarmið til grundvallar.

Ráðherrar: Æðstu handhafar framkvæmdarvalds. Þeir fara með yfirstjórn hvers konar opinberrar sýslu og raunverulegir handhafar þess valds sem forseta er falið í stjórnarskránni.

Réttarríki: Hugtakið réttarríki er veigamesta  pólitískt hugtak sem við eigum til að lýsa stjórnarháttum og réttarástandi í þjóðríki. Það er gjarnan notað þegar rætt er um efnahags- og lýðræðisþróun ríkja. Í aðstoð vestrænna ríkja til þróunarlanda hefur lengi vegið þungt að stuðla að samfélagi sem lýtur skilyrðum réttarríkisins, enda telja margir það vera megingrundvöll þess að lýðræði og mannfrelsi séu virt. Í réttarríki eru gerðar ákveðnar kröfur til laga. Tilgangur þess að áskilja þessar kröfur til laga er að tryggja þegnum frelsi og sjálfstæði, svo að þeir séu ekki háðir geðþótta yfirvalda. Lög í anda réttarríkis (eða lögstjórn) eru meðal forsendna þess að réttlæti og sanngirni fái notið sín. Þessar kröfur eru að lög séu framvirk, skýr, að þau séu birt og löggjöf í innbyrðis samræmi. Þá þurfa lög að vera stöðug til að menn geti kynnt sér efni þeirra og almenn, það er að þau taki til allra sem eins stendur á um. Í  lögum mega ekki heldur vera mótsagnir. Ef þessum formkröfum er fullnægt telst ríki réttarríki og þar megi að finna hið eiginlega réttlæti.

Ríki er mannlegt samfélag er hefur varanleg yfirráð yfir tilteknu landsvæði, býr við lögbundið skipulag og lýtur stjórn er sækir vald sitt til þegnanna  sjálfra en ekki til annarra ríkja, enda fari  stjórn þess með æðsta vald, óháð valdhöfum annarra ríkja  nema annað leiði af reglum þjóðarréttar.

Ríkisstjórn er ekki nefnd berum orðum í stjórnarskrá, heldur talað um ráðherra þegar störfum framkvæmdarvalds er lýst. Skilgreina má ríkisstjórn svo, að hún fari með yfirstjórn ríkisins og framkvæmdarsýslu og tryggi að lögum sé framfylgt. Ríkisstjórn fer með stefnumótun innan þess ramma sem löggjafinn setur og vinnur að framgangi pólitískra  markmiða sinna.

Sjálfbær þróun: er víðfemt hugtak og erfitt að skilgreina inntak þess að lögum. Kjarni sjálfbærrar þróunar má segja að felist í því  að leitast við að mæta þörfum og væntingum nútíðar án þess að stefna í hættu  hagsmunum framtíðar.  Þá felst í hugtakinu krafa um að sérhver kynslóð beri ábyrgð á því gagnvart framtíðarkynslóðum að umhverfi og náttúruauðlindum verði ekki spillt. Sjálfbær þróun er því nátengd vernd og nýtingu náttúruauðlinda.

Sjálfsákvörðunarréttur þjóðar felur í sér að allt þjóðfélagsvald á rætur sínar hjá þjóðinni og ríkisvaldið á upptök sín hjá henni. Því getur engin stofnun og enginn einstaklingur farið með vald, nema beinlínis sé frá þjóðinni komið.

Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1944. Hún er æðst réttarheimilda og  nokkurs konar stjórnarsáttmáli þjóðarinnar. Stjórnarskráin skilgreinir valdhafa og hlutverk hvers og eins, það er löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdarvalds. Þá eru mannréttindi einnig tryggð í stjórnarskránni. Stjórnarskrá er grundvöllur stjórnskipunar og öðrum lögum æðri. Af þeim sökum skal hún sett með öðrum og vandaðri hætti en venjuleg lög.

Þingræði: Í þingræðishugtakinu felst sú regla að þeir einir geta setið í ríkisstjórn sem meirihluti þjóðþings vill styðja eða a.m.k þola í embætti. Það þýðir að ríkisstjórn er skylt að segja af sér ef þjóðþingið lýsir yfir vantrausti á hana. Ríkisstjórnin situr því í skjóli og umboði hins þjóðkjörna þings.

Þrískipting ríkisvalds er skipan sem byggist á þremur megin valdþáttum, löggjafarvaldi, framkvæmdarvaldi og dómsvaldi. Samkvæmt því á hver valdhafi fyrir sig að tempra eða takmarka vald hins, annars er hætt við ofríki og þar með á að vera mögulegt að sporna við misnotkun valdsins. Þrískipting ríkisvalds á því tryggja að enginn valdhafa verði svo sterkur að hann geti svipt borgarana frelsi að eigin geðþótta. Við skoðun 2. gr. stjórnarskrárinnar má sjá að íslensk stjórnskipan gerir ráð fyrir byggir skiptingu valdsins á milli löggjafar-, framkvæmdar- og dómsvalds.

Til baka í gagnasafn