Störf Alþingis

Ummæli:

  1. Hlutverk

    Alþingi fer með löggjafarvald og fjárstjórnarvald ríkisins og hefur eftirlit með framkvæmdarvaldinu svo sem nánar er mælt fyrir um í stjórnarskrá þessari og öðrum lögum.

  2. Friðhelgi

    Alþingi er friðheilagt. Enginn má raska friði þess né frelsi.

  3. Starfstími

    Alþingi kemur saman eigi síðar en tveimur vikum eftir hverjar alþingiskosningar.

    Í lögum skal kveðið á um samkomudag reglulegs Alþingis og skiptingu starfstíma þess í löggjafarþing.

  4. Samkomustaður

    Alþingi kemur að jafnaði saman í Reykjavík en getur þó ákveðið að það komi saman á öðrum stað.

  5. Eiður alþingismanna

    Sérhver nýr þingmaður undirritar eiðstaf að stjórnarskránni er kosning hans hefur verið tekin gild.

  6. Sjálfstæði alþingismanna

    Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína, en ekki við nein fyrirmæli frá öðrum.

  7. Þingforseti

    Alþingi kýs sér forseta með 2/3 hlutum atkvæða í upphafi hvers kjörtímabils. Sitji forseti ekki út kjörtímabil skal sami háttur hafður á við kosningu nýs forseta.

    Forseti stýrir störfum Alþingis. Hann ber ábyrgð á rekstri þingsins og hefur æðsta vald í stjórnsýslu þess. Með forseta starfa varaforsetar sem eru staðgenglar hans og mynda ásamt honum forsætisnefnd. Um kosningu þeirra skal mælt fyrir í lögum.

    Forseti Alþingis lætur af almennum þingstörfum og hefur ekki atkvæðisrétt. Varamaður hans tekur sæti á þingi á meðan hann gegnir embættinu.

  8. Þingsköp Alþingis

    Þingsköp Alþingis skulu sett með lögum.

  9. Þingnefndir

    Alþingi kýs fastanefndir til að fjalla um þingmál og sérnefndir eftir því sem við á.

    Um störf þingnefnda skal mælt fyrir í lögum.

  10. Opnir fundir

    Fundir Alþingis eru haldnir í heyranda hljóði.

    Þingnefnd getur ákveðið að fundur hennar sé opinn almenningi.

  11. Flutningur þingmála

    Alþingsmenn hafa rétt til að flytja frumvörp til laga, tillögur til ályktana og önnur þingmál.

  12. Meðferð lagafrumvarpa

    Frumvörp alþingismanna og ríkisstjórnar eru tekin til athugunar og meðferðar í þingnefndum áður en þau eru rædd á Alþingi. Sama á við um þingmál að tillögu kjósenda.

    Mat á áhrifum lagasetningar skal fylgja frumvörpum samkvæmt nánari ákvæðum í lögum.

    Lagafrumvarp má ekki samþykkja fyrr en eftir tvær umræður á Alþingi.

    Frumvörp sem hafa ekki hlotið lokaafgreiðslu falla niður við lok kjörtímabils.

  13. Meðferð þingsályktunartillagana

    Tillögur ríkisstjórnar eru teknar til athugunar og meðferðar í þingnefndum áður en þær eru ræddar á Alþingi.

    Tillögu til þingsályktunar má ekki samþykkja fyrr en eftir tvær umræður á Alþingi. Sama á við um heimild til fullgildingar þjóðréttarsamnings sem kallar á breytingu á lögum eða er að öðrum ástæðum mikilvægur.

    Tillögur til þingsályktana sem hafa ekki hlotið lokaafgreiðslu falla niður við lok löggjafarþings.

    Tillögur um þingrof og vantraust á ríkisstjórn eða ráðherra eru ræddar og afgreiddar við eina umræðu.

    Að öðru leyti skal kveðið á um meðferð þingmála í lögum.

  14. Ályktunarbærni

    Alþingi getur því aðeins gert samþykkt um mál að meira en helmingur þingmanna sé á fundi og taki þátt í atkvæðagreiðslu.

  15. Staðfesting laga

    Er Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp undirritar forseti Alþingis það og leggur innan tveggja vikna fyrir forseta Íslands til staðfestingar, og veitir undirskrift hans því lagagildi.

    Forseti Íslands getur ákveðið innan viku frá móttöku frumvarps að synja því staðfestingar. Skal sú ákvörðun vera rökstudd og tilkynnt forseta Alþingis. Frumvarpið fær þá engu að síður lagagildi, en bera skal lögin innan þriggja mánaða undir þjóðaratkvæði til samþykktar eða synjunar. Ræður einfaldur meirihluti hvort lögin halda gildi sínu. Atkvæðagreiðsla fer þó ekki fram felli Alþingi lögin úr gildi innan fimm daga frá synjun forseta. Um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu skal að öðru leyti mælt fyrir í lögum.

    Heimild til synjunar á ekki við um fjárlög, fjáraukalög og lög um skattamálefni, lög um ríkisborgararétt og lög sem sett eru til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum.

  16. Birting laga

    Birta skal lög, stjórnvaldsfyrirmæli og þjóðréttarsamninga sem ríkið hefur fullgilt. Lögum og stjórnvaldsfyrirmælum má aldrei beita með íþyngjandi hætti fyrr en eftir birtingu þeirra. Um birtingarháttu og gildistöku fer að landslögum.

  17. Skipan skattamála

    Skattamálum skal skipað með lögum. Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum.

    Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.

    Enginn skattur verður lagður á nema heimild hafi verið fyrir honum í lögum þegar þau atvik urðu sem ráða skattskyldu.

  18. Eignir og skuldbindingar ríkisins

    Ekki má taka lán eða undirgangast ábyrgðir er skuldbinda ríkið nema með lögum.

    Stjórnvöldum er óheimilt að ábyrgjast fjárhagslegar skuldbindingar einkaaðila. Með lögum má þó kveða á um slíka ríkisábyrgð vegna almannahagsmuna.

    Ekki má selja eða láta með öðru móti af hendi fasteignir ríkisins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt heimild í lögum. Um ráðstöfun annarra eigna ríkisins fer að lögum.

  19. Frumvarp til fjárlaga

    Fyrir hvert reglulegt Alþingi skal, þegar er það er saman komið, leggja frumvarp til fjárlaga fyrir það fjárhagsár, sem í hönd fer, og skal í frumvarpinu fólgin greinargerð um tekjur ríkisins og gjöld eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.

  20. Fjáraukalög og greiðsluheimildir

    Enga greiðslu má inna af hendi nema heimild sé til þess í fjárlögum.

    Að fengnu samþykki fjárlaganefndar Alþingis getur fjármálaráðherra þó innt greiðslu af hendi án slíkrar heimildar, til að mæta greiðsluskyldu ríkisins vegna ófyrirséðra atvika eða ef almannahagsmunir krefjast þess. Leita skal heimildar fyrir slíkum greiðslum í fjáraukalögum.

  21. Upplýsingaréttur fjárlaganefndar

    Fjárlaganefnd Alþingis getur krafið stofnanir ríkisins, ríkisfyrirtæki og þá aðra, sem fá framlög úr ríkissjóði, um upplýsingar sem tengjast ráðstöfun þess fjár.

  22. Rannsóknarnefndir

    Alþingi getur skipað nefndir til að rannsaka mikilvæg mál er almenning varða.

    Nánari reglur um hlutverk, rannsóknarheimildir og skipan rannsóknarnefnda skulu settar með lögum.

  23. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd

    Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis kannar hvers kyns athafnir og ákvarðanir ráðherra eða stjórnsýslu þeirra eftir því sem hún telur efni til. Skylt er nefndinni að hefja slíka könnun að kröfu þriðjungs þingmanna.

  24. Hagsmunaskráning og vanhæfi þingmanna

    Alþingismanni er óheimilt að taka þátt í meðferð þingmáls sem varðar sérstaka og verulega hagsmuni hans eða honum nákominna. Um hæfi þingmanna skal mælt fyrir í lögum. Vanhæfi þingmanns hefur ekki áhrif á gildi settra laga.

    Í lögum skal kveðið á um skyldu þingmanna til að veita upplýsingar um fjárhagslega hagsmuni sína.

  25. Friðhelgi þingmanna

    Ekki má setja alþingismann í gæsluvarðhald eða höfða sakamál á hendur honum án samþykkis þingsins nema hann sé staðinn að glæp.

    Alþingismaður verður ekki krafinn reikningsskapar utan þings fyrir það sem hann hefur sagt í þinginu nema Alþingi leyfi.

    Alþingismanni er heimilt að afsala sér friðhelgi.

  26. Missir kjörgengis

    Glati alþingismaður kjörgengi missir hann þann rétt sem þingkosningin veitti honum. Varamaður tekur þá sæti hans á þingi.

  27. Þingrof

    Forseti Íslands getur rofið Alþingi að ósk þess. Skal þá efnt til nýrra kosninga eigi fyrr en sex vikum og eigi síðar en níu vikum frá þingrofi. Alþingismenn halda umboði sínu til kjördags.

  28. Lögrétta

    Alþingi kýs í Lögréttu fimm menn til fimm ára.

    Þingnefnd eða fimmtungur alþingismanna getur óskað eftir áliti Lögréttu um hvort frumvarp til laga samrýmist stjórnarskrá og þjóðréttarlegum skuldbindingum ríkisins. Ekki má afgreiða frumvarpið fyrr en álit Lögréttu liggur fyrir.

    Um störf Lögréttu skal mælt fyrir í lögum.

Upplýsingar

16. ráðsfundur: Kafli til kynningar

Skoða eldri útgáfur.

Ummæli

Störf Stjórnlagaráðs fara fram fyrir opnum tjöldum og við bjóðum öllum sem fylgja samskiptasáttmálanum að setja inn ummæli á vefinn.

Markmið umræðukerfisins er að bjóða upp á málefnalega og uppbyggjandi umræðu. Ærumeiðandi og óvægin ummæli í garð einstaklinga og þrálátar rangfærslur verða fjarlægð.

Samskiptasáttmáli Stjórnlagaráðs
  1. Við fögnum uppbyggilegri rökræðu en líðum ekki persónulegar árásir né misnotkun á umræðukerfinu.
  2. Við hvetjum til gagnrýnnar og upplýsandi umræðu forðumst gífuryrði og leggjum ekki öðrum orð í munn.
  3. Við notum einföld en skýr skilaboð og virðum skoðanir annarra.
  4. Allar athugasemdir sem endurspegla fordóma í garð einstaklings eða hópa verða fjarlægðar.
  5. Við áskiljum okkur rétt til að loka á notendur eftir tvær viðvaranir og þriðja brot á þessum sáttmála.

Þessi vefur er sameign okkar sem höfum áhuga á umræðu um málefni stjórnarskrár Íslands. Það er nýmæli að bjóða upp á opna umræðu af þessu tagi við mótun opinberra skjala og við vonumst til að þessi vefur verði skref í rétta átt í þróun umræðuhefðar á netinu.

Vinsamlega tilkynnið brot á sáttamálanum til umraeda@stjornlagarad.is.