Samanburður á útgáfum: Mannréttindi

Hér er hægt að bera saman eldri útgáfur af köflum úr áfangaskjali.
Smellið á nafn fundar til að sjá kaflann eins og hann leit út í lok fundar.

16. ráðsfundur

Til kynningar

Mannréttindi

Ummæli:

  1. Mannleg reisn

    Öllum skal tryggður réttur til að lifa með reisn. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.

  2. Jafnræðisregla

    Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.

    Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

  3. Vernd réttinda

    Yfirvöldum ber á hverjum tíma að tryggja mannréttindi gegn ágangi ríkisvalds og annarra.

  4. Mannhelgi

    Öllum skal tryggð mannhelgi og vernd gegn hvers kyns ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi, innan heimilis og utan.

  5. Friðhelgi einkalífs

    Friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu skal tryggð.

    Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.

    Þrátt fyrir ákvæði fyrstu málsgreinar má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.

  6. Réttur barna

    Öllum börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.

    Það sem barni er fyrir bestu skal ávallt hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir í málum sem það varðar.

    Barni skal tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í öllum málum sem það varðar og skal tekið réttmætt tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska.

  7. Skoðana- og tjáningarfrelsi

    Öll erum við frjáls skoðana okkar og sannfæringar og eigum rétt á að tjá hugsanir okkar.

    Stjórnvöld skulu tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu. Óheftur aðgangur að netinu og upplýsingatækni skal tryggður.

    Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Þó má setja tjáningarfrelsi skorður með lögum til verndar börnum, öryggi, heilsu, réttindum eða mannorði annarra, svo sem nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.

    Hver og einn ber ábyrgð á framsetningu skoðana sinna.

  8. Upplýsingafrelsi

    Öllum er frjálst að safna og miðla upplýsingum.

    Stjórnsýsla skal vera gegnsæ og halda til haga gögnum, svo sem fundargerðum, og skrásetja og skjalfesta erindi, uppruna þeirra, ferli og afdrif. Slíkum gögnum má ekki eyða nema samkvæmt lögum.

    Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera tiltæk án undandráttar og skal með lögum tryggja aðgang almennings að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða standa straum af. Listi yfir öll mál og gögn í vörslu hins opinbera, uppruna þeirra og innihald, skal vera öllum aðgengilegur.

    Afhendingu gagna, geymslu þeirra og birtingu þeirra má aðeins setja skorður með lögum í lýðræðislegum tilgangi, svo sem vegna persónuverndar, friðhelgi einkalífs, öryggis ríkisins eða lögbundins starfs eftirlitsstofnana. Um gögn sem lögbundin leynd hvílir yfir skulu liggja fyrir upplýsingar um ástæður leyndar og takmörkun leyndartíma. Ákvarðanir um leynd skulu reglulega endurskoðaðar af óháðum aðila.

  9. Frelsi menningar og mennta

    Tryggja skal með lögum frelsi vísinda, fræða og lista.

  10. Trúfrelsi

    Öllum skal tryggður réttur til trúar og lífsskoðunar, þar með talinn rétturinn til að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trúfélaga.

    Öllum er frjálst að iðka trú, einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi. Stjórnvöldum ber að vernda öll skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög.

    Frelsi til að rækja trú eða sannfæringu skal einungis háð þeim takmörkunum, sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.

  11. Félagafrelsi

    Öllum skal tryggður réttur til að stofna félög í löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds.

    Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.

  12. Fundafrelsi

    Öllum skal tryggður réttur til að safnast saman án sérstaks leyfis, svo sem til fundahalda og mótmæla. Réttur þessi skal ekki háður öðrum takmörkunum en þeim sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.

  13. Ríkisborgararéttur

    Rétt til íslensks ríkisfangs öðlast þeir sem eiga foreldri með íslenskt ríkisfang. Ríkisborgararéttur verður að öðru leyti veittur samkvæmt lögum.

    Engan má svipta íslenskum ríkisborgararétti.

    Íslenskum ríkisborgara verður ekki meinað að koma til landsins né verður honum vísað úr landi. Með lögum skal skipað rétti útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér, svo og fyrir hvaða sakir sé hægt að vísa þeim úr landi.

  14. Dvalarréttur og ferðafrelsi

    Allir skulu ráða búsetu sinni og vera frjálsir ferða sinna með þeim takmörkunum sem eru settar með lögum.

    Engum verður meinað að hverfa úr landi nema með ákvörðun dómstóla. Stöðva má þó brottför manns úr landi með lögmætri handtöku.

    Með lögum skal kveða á um rétt flóttamanna og hælisleitenda til réttlátrar og skjótrar málsmeðferðar.

  15. Frelsisvipting

    Engan má svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum.

    Hver sá sem hefur verið sviptur frelsi á rétt á að fá að vita tafarlaust um ástæður þess.

    Hvern þann sem er handtekinn vegna gruns um refsiverða háttsemi skal án undandráttar leiða fyrir dómara. Sé hann ekki jafnskjótt látinn laus skal dómari, áður en sólarhringur er liðinn, ákveða með rökstuddum úrskurði hvort hann skuli sæta gæsluvarðhaldi. Gæsluvarðhaldi má aðeins beita fyrir sök sem fangelsisvist liggur við. Með lögum skal tryggja rétt þess sem sætir gæsluvarðhaldi til að skjóta úrskurði um það til æðra dóms. Maður skal aldrei sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn krefur.

    Hver sá sem af öðrum ástæðum en í tengslum við sakamál er sviptur frelsi á rétt á að dómstóll kveði á um lögmæti þess svo fljótt sem verða má. Reynist frelsissvipting ólögmæt skal hann þegar látinn laus.

    Hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skal hann eiga rétt til skaðabóta.

  16. Bann við afturvirkni refsingar

    Engum verður gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum þegar hún átti sér stað, eða má fullkomlega jafna til þeirrar háttsemi. Viðurlög mega ekki verða þyngri en þá voru leyfð í lögum.

  17. Bann við ómannúðlegri meðferð

    Í lögum má aldrei mæla fyrir um dauðarefsingu.

    Engan má beita pyndingum né annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

    Nauðungarvinnu skal engum gert að leysa af hendi.

  18. Bann við herskyldu

    Herskyldu má aldrei í lög leiða.

  19. Réttlát málsmeðferð

    Öllum ber réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Dómþing skal háð í heyranda hljóði nema dómari ákveði annað lögum samkvæmt til að gæta allsherjarreglu, öryggis ríkisins eða hagsmuna málsaðila og vitna.

    Hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.

  20. Heilbrigðisþjónusta

    Allir eiga rétt til að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er.

    Öllum skal með lögum tryggður réttur til aðgengilegrar, viðeigandi og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu.

  21. Menntun

    Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar.

    Öllum skal standa til boða grunnskólamenntun án endurgjalds.

    Menntun skal miða að alhliða þroska hvers og eins, gagnrýnni hugsun og vitund um lýðræðisleg réttindi og skyldur.

  22. Atvinnufrelsi

    Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þau kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum ef almannahagsmunir krefjast.

    Í lögum skal kveða á um rétt til mannsæmandi vinnuskilyrða, svo sem hvíldar, orlofs og frítíma. Öllum skal tryggður réttur til sanngjarnra launa og til að semja um starfskjör og önnur réttindi tengd vinnu.

  23. Félagsleg réttindi

    Öllum skal með lögum tryggður réttur til lífsviðurværis og félagslegs öryggis.

    Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar, svo sem vegna atvinnuleysis, barneigna, elli, fátæktar, fötlunar, veikinda, örorku eða sambærilegra aðstæðna.

  24. Eignarréttur

    Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

    Eignarrétti fylgja skyldur, svo og takmarkanir í samræmi við lög. Nýting eignarréttar skal ekki ganga gegn almannahag.

  25. Menningarverðmæti

    Dýrmætar þjóðareignir sem heyra til íslenskum menningararfi, svo sem þjóðminjar og fornhandrit, má hvorki eyðileggja né afhenda til varanlegrar eignar eða afnota, selja eða veðsetja.

  26. Náttúra Íslands og umhverfi

    Náttúra Íslands er undirstaða lífs í landinu. Öllum ber að virða hana og vernda.

    Öllum skal með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni, ómenguðu andrúmslofti og óspilltri náttúru. Í því felst að fjölbreytni lífs og lands sé viðhaldið og náttúruminjar, ósnortin víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Fyrri spjöll skulu bætt eftir föngum.

    Nýtingu náttúrugæða skal haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur.

    Með lögum skal tryggja rétt almennings til að fara um landið í lögmætum tilgangi með virðingu fyrir náttúru og umhverfi.

  27. Náttúruauðlindir

    Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið þær, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja.

    Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu, vatns- og virkjunarréttindi og jarðhita- og námaréttindi. Með lögum má kveða á um þjóðareign á auðlindum undir tiltekinni dýpt frá yfirborði jarðar.

    Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbæra þróun og almannahag að leiðarljósi.

    Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar þeirra, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

  28. Upplýsingar um umhverfi og málsaðild

    Stjórnvöldum ber að upplýsa almenning um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það. Stjórnvöld og aðrir skulu upplýsa um aðsteðjandi náttúruvá, svo sem umhverfismengun.

    Með lögum skal tryggja almenningi aðgang að undirbúningi ákvarðana sem hafa áhrif á umhverfi og náttúru, svo og heimild til að leita til hlutlausra úrskurðaraðila.

    Við töku ákvarðana um náttúru Íslands og umhverfi skulu stjórnvöld byggja á meginreglum umhverfisréttar.

  29. Dýravernd

    Með lögum skal kveðið á um vernd dýra gegn illri meðferð og dýrategunda gegn útrýmingu.

  30. Skyldur samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum

    Öllum handhöfum ríkisvalds ber að virða mannréttindareglur sem bindandi eru fyrir ríkið að þjóðarétti og tryggja framkvæmd þeirra og virkni eftir því sem samræmist hlutverki þeirra að lögum og valdmörkum.

    Alþingi er heimilt að lögfesta alþjóðlega mannréttindasáttmála og umhverfissamninga og ganga þeir þá framar almennum lögum.

Skýringar frá nefnd

 

  1. Mannleg reisn
    Ákvæðið var fellt út úr mannréttindakaflanum á 15. ráðsfundi, með það fyrir augunum að færa inntak þess í gildakafla fremst í áfangaskjalinu. A-nefnd telur að betur fari á upphaflegri staðsetningu, en gerir orðalagsbreytingu í samræmi við breytingartillögu Vilhjálms Þorsteinssonar.Byggist m.a. á samningi um réttindi fatlaðs fólks (UN Convention on the Rights of People with Disabilities).Er ætlað að tryggja einstaklingum möguleika til fullrar þátttöku og virkrar aðildar í samfélaginu.
  2. Jafnræðisregla
    Er 65. grein núgildandi stjórnarskrár.„Manngreinarálit" var sett inn til samræmis við 26. grein alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (e. discrimination), en hefur verið breytt í „án mismununar," sem þykir vera betri þýðing á hugtakinu. Atriðum raðað í stafrófsröð á eftir orðinu „kynferði". Við bætist „aldurs," „búsetu," „fötlunar" og „kynhneigðar" skv. tillögu í skýrslu stjórnlaganefndar. „Aldur" og „búseta" voru í hornklofa í skýrslu stjórnlaganefndar, hér eru orðin sett inn til umræðu. Við bætist „arfgerð," m.a. vegna erindis til nefndarinnar. Við bætist „stjórnmálatengsla" til að bregðast við stöðu í þjóðfélaginu. „Þjóðernisuppruni" verður „uppruni". „Kynþáttur" var felldur út um tíma, en bætt aftur inn, eftir ábendingar frá sérfræðingum um að varasamt geti verið að fella hugtakið brott. Tungumáli bætt inn í upptalninguna, m.a. vegna þess að mögulegt er að kveðið sé á um íslensku sem þjóðtungu annars staðar í áfangaskjalinu.
  3. Vernd réttinda
    Nýtt ákvæði, lagt fram til kynningar.Ætlað að tryggja svokölluð lárétt áhrif mannréttinda - þ.e. ekki einungis á milli stjórnvalda og borgaranna, heldur einnig á milli lögaðila og borgara.
  4. Mannhelgi
    Ný grein.Undirstrikað hversu mikið samfélagsmein ofbeldi er.Var kynnt sem hluti af grein um friðhelgi einkalífs á ráðsfundi 6. maí, er nú sjálfstæð grein.
  5. Friðhelgi einkalífs
    Er 71. grein núgildandi stjórnarskrár, efnislega óbreytt.Málsgrein um mannhelgi, sem var kynnt sem hluti þessarar greinar á ráðsfundi 6. maí, gerð að sjálfstæðri grein.
  6. Réttur barna
    Er 3. mgr. 76. greinar núgildandi stjórnarskrár.Gert að sjálfstæðri grein skv. tillögu í skýrslu stjórnlaganefndar.Færir stjórnarskrá til samræmis við 3. og 12. greinar samnings um réttindi barnsins.Efnisbreytingar frá því sem kynnt var á ráðsfundi 6. maí, til að bregðast við innsendu erindi Unicef.Orðalagi hefur verið breytt eftir ábendingar Hrefnu Friðriksdóttur, dósents í sifja- og erfðarétti hjá Háskóla Íslands.Vísan til „ráðstafana yfirvalda" felld brott, enda skuli ávallt hafa það sem barni er fyrir bestu í huga, ekki aðeins þegar þær eru teknar af yfirvöldum.Vísan til hagsmuna barns felld brott og orðalagið „sem barni er fyrir bestu" sett inn, talið vera lykilatriði í þróun mannréttinda barna.
  7. Skoðana- og tjáningarfrelsi
    Er 73. grein núgildandi stjórnarskrár.Texti einfaldaður án efnislegra breytinga.„Öryggi" ætlað að ná til ríkis og almennings.Skoða þarf hvort orðin „siðgæði" og „allsherjarregla" séu nauðsynleg.Bætt við skyldu stjórnvalda til að tryggja almenningi grundvöll til lýðræðislegra skoðanaskipta. Sú viðbót stendur í samhengi við greinar um upplýsingafrelsi og frelsi fjölmiðla, sem koma næstar á eftir tjáningarfrelsisákvæðinu.Skerðingarheimild milduð og færð aftast í ákvæðið.2. mgr. skipt upp, til að skylda hins opinbera að tryggja að ákveðnar grundvallaraðstæður til upplýstrar umræðu sé skýrari.
  8. Upplýsingafrelsi
    Nýtt ákvæði. Ætlað að tryggja borgurunum möguleikann á að sjá hvernig mál þróast og hljóta úrvinnslu hjá hinu opinbera - tryggja virkt aðhald almennings.Byggist á skýrslu stjórnlaganefndar, valkostur 2 á s. 88. Einnig á innsendum erindum.Hert á frumkvæðisskyldu ríkisins við söfnun, birtingu og miðlun upplýsinga.Byggist að hluta á stjórnarskrám Svíþjóðar og Finnlands.Dæmi um lista yfir gögn opinberra aðila má sjá í Noregi: http://www.oep.noOrðalag ákvæðisins gert skýrara, í samræmi við umræður á ráðsfundi og innkomnar athugasemdir.Bætt við persónuvernd, sem heimild til skerðingar á aðgengi að upplýsingum.Síðasti málsliður kveður á um að óháður aðili - t.a.m. sérstaklega skipuð nefnd - endurskoði ákvarðanir stjórnvalda um það hvaða gögnum skuli hvíla leynd yfir.Til skoðunar að tryggja stjórnvöldum ákveðinn tímafrest til að gera viðeigandi ráðstafanir, svo hægt sé að uppfylla kröfur ákvæðisins.
  9. Frelsi menningar og mennta
    Ný grein.
  10. Trúfrelsi
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 18. grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og 9. grein mannréttindasáttmála Evrópu, sem Ísland er þegar aðili að.Vernd trú- og lífsskoðunarfélaga miði að umburðarlyndi og virðingu í samfélaginu.Með lífsskoðunarfélagi er átt við félag sem löggjafinn hefur viðurkennt á einhvern hátt, byggist á frjálsri aðild félaga og hefur eftirfarandi að markmiðum sínum og starfsvettvangi:Siðferði og siðfræði: Umræða um siðferðisgildi og hvernig best er að leysa siðferðileg álitamál.Fjölskyldan og félagslegar athafnir: Framkvæmd félagslegra athafna fjölskyldunnar (ferming, gifting, nafngjöf og útför) á tímamótum samkvæmt lífssýn félaga.Skilið betur á milli réttarins til að hafa trú og til að iðka hana, eftir ábendingar um að skerðingarheimild fyrri útgáfu ákvæðisins hefði verið of óljós.
  11. Félagafrelsi
    Er 1. og 2. mgr. 74. greinar núgildandi stjórnarskrár.Félagafrelsi gert að sjálfstæðri grein í kjölfar umræðna á ráðsfundi 6. maí.Orðalagi í upphafi greinarinnar breytt, til að það nái betur til beggja kynja.Felld brott heimild um bann við starfsemi félaga, sem bent hefur verið á að hafi aldrei verið nýtt.Rætt var hvort mætti fella brott heimild til að skylda fólk til aðildar að félögum, en talið að slík breyting gæti haft víðtæk og ófyrirséð áhrif á ýmis félög sem þjóni almannahag - t.d. húsfélög og mögulega sjúkrasjóði stéttarfélaga. Þó þarf að gæta þess að þessi heimild sé ekki nýtt til að skylda fólk til aðildar að félögum nema skýra nauðsyn beri til.
  12. Fundafrelsi
    Er 3. mgr. 74. greinar núgildandi stjórnarskrár.Fundafrelsi gert að sjálfstæðri grein í kjölfar umræðna á ráðsfundi 6. maí.Fellt brott, í samræmi við umræður við áfangaskjal: „Banna má mannfundi undir berum himni ef uggvænt þykir að af þeim leiði óspektir."Orðalagi í upphafi greinarinnar breytt, til að það nái betur til beggja kynja.Rétturinn til fundahalda og mótmæla sérstaklega tiltekinn, sem þykir ná betur yfir inntak greinarinnar. Svipuð ákvæði eru t.a.m. í 13. grein finnsku stjórnarskrárinnar:„Everyone has the right to arrange meetings and demonstrations without a permit, as well as the right to participate in them."Réttur lögreglu til að vera við almennar samkomur felldur brott. Í staðinn er löggjafanum veitt heimild til að setja almennar og lýðræðislegar leikreglur.Orðalagi skerðingarheimildar breytt, til að leggja áherslu á að skerðingar á fundafrelsi skuli heyra til undantekninga.
  13. Ríkisborgararéttur
    Er hluti 66. greinar núgildandi stjórnarskrár.Í samræmi við núverandi löggjöf er felld brott setningin „Með lögum má þó ákveða að maður missi þann rétt ef hann öðlast með samþykki sínu ríkisfang í öðru ríki."Bætt við skilgreiningu á veitingu ríkisborgararéttar, í samræmi við umræður á ráðsfundi 6.maí og við áfangaskjal. Sú tillaga er sett fram til að fá fram frekari umræðu, sem nefndin getur tekið tillit til á síðari stigum.Greininni er skipt upp, þar sem A-nefnd telur ákvæði um ríkisborgararétt og ákvæði um ferðafrelsi vera of eðlisólík til að standa saman í grein.
  14. Dvalarréttur og ferðafrelsi
    Er hluti 66. greinar núgildandi stjórnarskrár.Greininni er skipt upp, þar sem A-nefnd telur ákvæði um ríkisborgararétt og ákvæði um ferðafrelsi vera of eðlisólík til að standa saman í grein.Bætt við rétti flóttamanna og hælisleitenda til réttlátrar og skjótrar málsmeðferðar. Fyrirsögn ákvæðisins breytt til samræmis við það.Byggt á Flóttamannasamningi SÞ og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum sem banna brottvísun til heimalands eða annars ríkis ef lífi eða mannhelgi er í hættu.Fyrirmyndir sóttar í finnsku og þýsku stjórnarskrárnar, sem byggja á Flóttamannasamningnum.
  15. Frelsisvipting
    Er 67. grein núgildandi stjórnarskrár.Varðhald fellt út, þar sem það hefur verið aflagt sem refsiúrræði.Heimild dómara til að láta menn lausa gegn tryggingu felld út í kjölfar umræðna á ráðsfundi 6. maí. Heimildin þyki bjóða upp á misskilning um réttarstöðu og mismunun á grundvelli efnahags - en henni hefur aldrei verið beitt.Bætt við innskoti um sakamál eftir ábendingu frá Ragnhildi Helgadóttur, sem segir: „Þess ber sérstaklega að geta að 4. mgr. greinarinnar fjallar um þá sem eru sviptir frelsi af öðrum ástæðum en þeim sem tengjast sakamálum. Þetta er því sett inn til að hnykkja á þeim punkti, ekki efnisbreyting heldur Skýring."
  16. Bann við afturvirkni refsingar
    Er 1. mgr. 69. greinar núgildandi stjórnarskrár.Texti einfaldaður án efnislegrar breytingar.Fullkomin lögjöfnun var um tíma felld út úr greininni, en bætt aftur í hana eftir fjölda ábendinga frá sérfræðingum um að varasamt væri að fella hana brott Bætt við kröfu um að refsing sé tilgreind „samkvæmt lögum," til að tryggja réttlátan ramma utan um framkvæmd lögjöfnunar.
  17. Bann við ómannúðlegri meðferð
    Er 68. grein og 2. mgr. 69. greinar núgildandi stjórnarskrár.Bann við herskyldu fært úr þessari grein í kjölfar umræðu á ráðsfundi 6. maí.
  18. Bann við herskyldu
    Ný grein.Bætt er við banni við herskyldu, m.a. til að bregðast við kröfu þjóðfundar og innsendum erindum.Bann við herskyldu gert að sjálfstæðri grein í kjölfar umræðu á ráðsfundi 6. maí.
  19. Réttlát málsmeðferð
    Er 70. grein núgildandi stjórnarskrár.Texti einfaldaður án efnislegrar breytingar.„Öryggi" nær til ríkis og almennings.Skoða þarf hvort orðin „velsæmi" og „allsherjarregla" séu nauðsynleg.Allsherjarreglu bætt aftur í greinina, eftir ábendingar um að hugtakið hafi víðtæka skírskotun í núverandi stjórnarskrá, lögum og dómaframkvæmd - auk þess að vera notað í mannréttindasáttmála Evrópu.
  20. Heilbrigðisþjónusta
    Litið hefur verið á að 1. mgr. 76. greinar í núgildandi stjórnarskrá hafi tryggt fólki réttinn til heilbrigðisþjónustu.Brugðist við kröfu þjóðfundar:Skýrsla stjórnlaganefndar, s. 83: „Þá koma fram viðhorf um verndun velferðarkerfisins, jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu óháð tekjum og búsetu [...]".Færir stjórnarskrá til samræmis við 12. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:„Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til þess að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er."Rétturinn til heilsu settur í forgrunn, til samræmis við ábendingar frá sérfræðingum, sem telja greinina svo breytta vera í fullu samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.
  21. Menntun
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 13. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:„skuli barnafræðsla vera skyldubundin og öllum tiltæk án endurgjalds."Skyldu til að veita menntun án endurgjalds á ekki að skilja sem bann við einkaskólum.
  22. Atvinnufrelsi
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 6. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:„Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt manna til vinnu, sem felur í sér rétt sérhvers manns til þess að hafa tækifæri til þess að afla sér lífsviðurværis með vinnu sem hann velur sér eða tekur að sér af frjálsum vilja, og munu ríkin gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja þennan rétt."Færir stjórnarskrá til samræmis við 7. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:„Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til þess að njóta sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða sem tryggja sérstaklega [...] sanngjarnt kaup og jafnt endurgjald fyrir jafnverðmæta vinnu án nokkurrar aðgreiningar."Sambærilegt ákvæði er í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er þegar aðili að.Færir stjórnarskrá til samræmis við 23. grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er þegar aðili að:„Allir eiga rétt til atvinnu að frjálsu vali, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða og til verndar gegn atvinnuleysi."Vernd gegn atvinnuleysi er í sömu grein, en er ekki sett í áfangaskjalið að sinni: „Allir eiga rétt til atvinnu að frjálsu vali, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða og til verndar gegn atvinnuleysi."
  23. Félagsleg réttindi
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 25. grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er þegar aðili að:„Allir eiga rétt á lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra."Færir stjórnarskrá til samræmis við 9. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:„Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til félagslegs öryggis, þar á meðal til almannatrygginga"Færir stjórnarskrá til samræmis við Félagsmálasáttmála Evrópu, sem Ísland er þegar aðili að.Barneignum bætt inn í upptalningu um félagslega aðstoð, m.a. vegna fæðingarorlofs.
  24. Eignarréttur
    Litið til 14. gr. þýsku stjórnarskrárinnar, sem tengir saman eignarétt og skyldur sem honum fylgja.Þess eru mörg dæmi að eignarétti fylgi skyldur, svo sem á grundvelli byggingar- og skipulagslaga, vatnalaga og nábýlisréttar. Það er ekki verið að breyta inntaki eignaréttar frá því sem nú er heldur endurspegla núverandi réttarástand.Orðalagi breytt, þar sem fyrra orðalag gaf til kynna að allar skyldur sem eignarrétti fylgja verði að vera lögbundnar.Dregið úr mismunun á grundvelli þjóðernis, með því að fella brott sérstaka heimild til að takmarka eignarhald erlendra aðila. Ný 2. mgr. tryggir stjórnvöldum áfram þann möguleika að takmarka eignarhald.
  25. Menningarverðmæti
    Byggir m.a. á 1. grein þjóðminjalaga nr. 107/2001.Menningarverðmætum veitt sambærileg vernd þeirri sem veitt er náttúruauðlindum í tillögum nefndarinnar.Nánar þarf að skoða hvernig greinin snerti handritagjöf Dana.
  26. Náttúra Íslands og umhverfi
    Umhverfisvernd bætt við í samræmi við tillögur stjórnlaganefndar.Breytt upptalning á þeim meginþáttum náttúru og umhverfis sem sérstök ástæða þykir til að standa vörð um, í samræmi við ýmsar ábendingar.Hnykkt á rétti almennings til að njóta náttúru landsins, svokölluðum almannarétti.Gagnrýnt var að óljóst væri hvaða lagaáhrif friðhelgi náttúrunnar hefði í för með sér. Hefur orðalagi 1. mgr. því verið breytt, þannig að sambærileg merking komist til skila á skýrari hátt.Þar sem sumar auðlindir skerðast við notkun er orðinu „ekki" breytt í „sem minnst", og á þannig að vísa til sjálfbærnissjónarmiða.
  27. Náttúruauðlindir
    Brugðist við kröfu þjóðfundar:Skýrsla stjórnlaganefndar, s. 75: „Það viðhorf var áberandi á þjóðfundi að mæla bæri fyrir um auðlindir þjóðarinnar í stjórnarskrá. Náttúruauðlindir hvort heldur í lofti, láði eða legi, skuli skilgreina sem „eign þjóðarinnar". Reglur um nýtingu auðlinda verði skýrar og horfi til komandi kynslóða og arður af nýtingu auðlinda renni að meginhluta til þjóðarinnar."Færir stjórnarskrá til samræmis við 2. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:„Allar þjóðir mega, í sínu eigin markmiði, ráðstafa óhindrað náttúruauðæfum og auðlindum sínum brjóti það ekki í bága við neinar skuldbindingar sem leiðir af alþjóðlegri efnahagssamvinnu, byggðri á grundvallarreglunni um gagnkvæman ábata, og þjóðarétti. Aldrei má svipta þjóð ráðum sínum til lífsviðurværis."Hnykkt á því að ekki sé gengið á einkaeignarrétt í upphafsmálsgrein, með því að nefna sérstaklega auðlindir sem ekki eru í einkaeign.Tekið fram að ábyrgð á vernd auðlinda sé ekki aðeins stjórnvalda, heldur einnig þeirra sem kunna að nýta viðkomandi auðlind.Dýptarákvæði bætt við upptalningu í 2. mgr., í samræmi við breytingartillögu Andrésar Magnússonar.3. mgr. breytt í samræmi við breytingartillögu Ara Teitssonar og Ómars Ragnarssonar, sem bentu á að „sjálfbærni" væri ekki jafnskýrt orðalag og „sjálfbær þróun."Til skoðunar: Bæta við vatnasvæðum.
  28. Upplýsingar um umhverfi og málsaðild
    Ákvæði bætt inn í mannréttindakaflann í samræmi við tillögu stjórnlaganefndar.Gengið lengra en stjórnlaganefnd leggur til, að því leyti að lögð er frumkvæðisskylda á hið opinbera.Skýrar mælt um alla þætti þessarar greinar en var í fyrri útgáfum.Meginreglur umhverfisréttar.Upplýsingaskylda stjórnvalda.Actio popularis - sbr. Árósasamninginn. Almenningi veitt aðild að málum en þarf ekki að vera beinn hagsmunaaðili.o Höfundar skýrslu sem skrifuð var fyrir framkvæmdastjóra Evrópusambandsins í umhverfismálum um aðgang almennings í ESB-ríkjum að réttlátri málsmeðferð og virkum úrræðum telja að actio popularis eða sambærileg skipan efli verulega almannarétt í umhverfismálum samkvæmt Árósasamningnum. Sjá http://ec.europa.eu/environment/aarhus/study_access.htm.Aðildarákvæði 2. mgr. víkkað út, þannig að ekki sé einungis hægt að leita til dómstóla, heldur t.d. úrskurðarnefnda eftir tilvikum.3. mgr. breytt, þannig að ekki sé einungis um lögbundnar meginreglur umhverfisréttar að ræða, enda séu þær fæstar bundnar í lög.
  29. Dýravernd
    Nýtt ákvæði þar sem brugðist er við innsendum erindum og athugasemdum á heimasíðu Stjórnlagaráðs.
  30. Skyldur samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum
    Nýtt ákvæði í samræmi við tillögur stjórnlaganefndar.Þarf að skoða í samhengi við ákvörðun nefndar C um fullgildingarákvæði í utanríkismálakafla stjórnarskrárinnar.Texti í fyrri málsgrein færður nær því sem lagt er til í skýrslu stjórnlaganefndar.Síðari málsgrein þrengd, til samræmis við ábendingar sérfræðinga um mögulega óljósa réttarstöðu og hættuna við framsal á valdi stjórnarskrárgjafans.Bent var á að í fyrri útgáfu hafi vald til stjórnarskrárbreytinga í raun verið framselt að hluta frá stjórnarskrárgjafanum. Breytingin miðar að því að gera löggjafanum kleift að veita alþjóðlegum mannréttindasáttmálum stöðu ofar almennum lögum, án þess þó að gera þá jafnháttsetta stjórnarskránni. Fyrirmynd að þessu má finna í norsku stjórnarskránni.Alþjóðlegum umhverfissamningum veitt sama staða og mannréttindasáttmálum.

 

15. ráðsfundur

Til kynningar

Mannréttindi

Ummæli:

  1. Jafnræðisregla

    Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án mismununar, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.

    Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

  2. Vernd réttinda

    Stjórnvöldum ber að tryggja síaukna vernd mannréttinda. Öllum skulu jafnframt tryggð mannréttindi gagnvart lögaðilum, hagsmunahópum og einstaklingum.

    Mannréttindi tryggð með stjórnarskrá þessari má því aðeins skerða, að almannahagsmunir krefjist þess, enda sé gætt meðalhófs og ekki vegið að kjarna þeirra réttinda sem um ræðir.

  3. Mannhelgi

    Öllum skal tryggð mannhelgi og vernd gegn hvers kyns ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi, innan heimilis og utan.

  4. Friðhelgi einkalífs

    Friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu skal tryggð.

    Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.

    Þrátt fyrir ákvæði fyrstu málsgreinar má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.

  5. Réttur barna

    Börn eiga rétt á að njóta bernsku sinnar. Þeim skal tryggð í lögum sú vernd, virðing og umönnun sem velferð þeirra krefst. Ráðstafanir yfirvalda í málefnum barns skulu þjóna hagsmunum þess.

    Barni skal tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar og vilja í öllum málum sem það varðar og skal tekið réttmætt tillit til barnsins í samræmi við aldur þess og þroska.

  6. Tjáningarfrelsi

    Öll erum við frjáls skoðana okkar og sannfæringar og eigum rétt á að tjá hugsanir okkar.

    Stjórnvöld skulu tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu, svo sem óheftan aðgang að netinu og upplýsingatækni.

    Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Þó má setja tjáningarfrelsi skorður með lögum til verndar börnum, öryggi, heilsu, réttindum eða mannorði annarra, svo sem nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.

    Hver og einn ber ábyrgð á framsetningu skoðana sinna.

  7. Upplýsingafrelsi

    Öllum er frjálst að safna og miðla upplýsingum.

    Stjórnsýsla skal vera gegnsæ og halda til haga gögnum, svo sem fundargerðum, og skrásetja og skjalfesta erindi, uppruna þeirra, ferli og afdrif. Slíkum gögnum má ekki eyða nema samkvæmt lögum.

    Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera tiltæk án undandráttar og skal með lögum tryggja aðgang almennings að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða standa straum af. Listi yfir öll mál og gögn í vörslu hins opinbera, uppruna þeirra og innihald, skal vera öllum aðgengilegur.

    Afhendingu gagna, geymslu þeirra og birtingu þeirra má aðeins setja skorður með lögum í lýðræðislegum tilgangi, svo sem vegna friðhelgi einkalífs, öryggis ríkisins eða lögbundins starfs eftirlitsstofnana. Um gögn sem lögbundin leynd hvílir yfir skulu liggja fyrir upplýsingar um ástæður leyndar og takmörkun leyndartíma.

  8. Frelsi fjölmiðla

    Frelsi fjölmiðla, ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra og gegnsætt eignarhald skal tryggja með lögum.

    Vernd blaðamanna, heimildarmanna og uppljóstrara skal tryggja í lögum. Óheimilt er að rjúfa nafnleynd án samþykkis þess sem veitir upplýsingar nema við meðferð sakamáls og samkvæmt dómsúrskurði.

  9. Frelsi menningar og mennta

    Tryggja skal með lögum frelsi vísinda, fræða og lista.

  10. Trúfrelsi

    Öllum skal tryggður réttur til trúar og lífsskoðunar, þar með talinn rétturinn til að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trúfélaga.

    Öllum er frjálst að iðka trú, einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi. Stjórnvöldum ber að vernda öll skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög.

    Frelsi til að rækja trú eða sannfæringu skal einungis háð þeim takmörkunum, sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.

  11. Þjóðkirkja

    Leið A - Tímabundið ákvæði:

    Evangelíska lúterska kirkjan er þjóðkirkja á Íslandi.

    Endurskoða skal stöðu evangelísku lútersku kirkjunnar sem þjóðkirkju og skal þeirri endurskoðun ljúka innan fimm ára frá gildistöku stjórnarskrár þessarar með bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

    Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar ræður hvort grein þessi fellur brott í heild sinni eða fyrsta málsgrein stendur ein eftir.

    Leið B - Valkostir:

    Valkostur 1:
    Evangelíska lúterska kirkjan er þjóðkirkja á Íslandi.

    Valkostur 2:
    [Ákvæðið falli brott.]

  12. Félagafrelsi

    Öllum skal tryggður réttur til að stofna félög í löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds.

    Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.

  13. Fundafrelsi

    Öllum skal tryggður réttur til að safnast saman án sérstaks leyfis, svo sem til fundarhalda og mótmæla. Með lögum má þó takmarka þennan rétt, enda teljist takmarkanirnar nauðsynlegar í lýðræðislegu þjóðfélagi.

  14. Ríkisborgararéttur

    Rétt til íslensks ríkisfangs öðlast þeir sem eiga foreldri með íslenskt ríkisfang. Ríkisborgararéttur verður að öðru leyti veittur samkvæmt lögum.

    Engan má svipta íslenskum ríkisborgararétti.

    Íslenskum ríkisborgara verður ekki meinað að koma til landsins né verður honum vísað úr landi. Með lögum skal skipað rétti útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér, svo og fyrir hvaða sakir sé hægt að vísa þeim úr landi.

  15. Ferðafrelsi

    Allir skulu ráða búsetu sinni og vera frjálsir ferða sinna með þeim takmörkunum sem eru settar með lögum.

    Engum verður meinað að hverfa úr landi nema með ákvörðun dómstóla. Stöðva má þó brottför manns úr landi með lögmætri handtöku.

  16. Frelsisvipting

    Engan má svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum.

    Hver sá sem hefur verið sviptur frelsi á rétt á að fá að vita tafarlaust um ástæður þess.

    Hvern þann sem er handtekinn vegna gruns um refsiverða háttsemi skal án undandráttar leiða fyrir dómara. Sé hann ekki jafnskjótt látinn laus skal dómari, áður en sólarhringur er liðinn, ákveða með rökstuddum úrskurði hvort hann skuli sæta gæsluvarðhaldi. Gæsluvarðhaldi má aðeins beita fyrir sök sem fangelsisvist liggur við. Með lögum skal tryggja rétt þess sem sætir gæsluvarðhaldi til að skjóta úrskurði um það til æðra dóms. Maður skal aldrei sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn krefur.

    Hver sá sem af öðrum ástæðum en í tengslum við sakamál er sviptur frelsi á rétt á að dómstóll kveði á um lögmæti þess svo fljótt sem verða má. Reynist frelsissvipting ólögmæt skal hann þegar látinn laus.

    Hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skal hann eiga rétt til skaðabóta.

  17. Bann við afturvirkni refsingar

    Engum verður gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð þegar hún átti sér stað, eða má fullkomlega jafna til þeirrar háttsemi. Viðurlög mega ekki verða þyngri en þá voru leyfð í lögum.

  18. Bann við ómannúðlegri meðferð

    Í lögum má aldrei mæla fyrir um dauðarefsingu.

    Engan má beita pyndingum né annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

    Nauðungarvinnu skal engum gert að leysa af hendi.

  19. Bann við herskyldu

    Herskyldu má aldrei í lög leiða.

  20. Réttlát málsmeðferð

    Öllum ber réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Dómþing skal háð í heyranda hljóði nema dómari ákveði annað lögum samkvæmt til að gæta allsherjarreglu, öryggis ríkisins eða hagsmuna málsaðila og vitna.

    Hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.

  21. Heilbrigðisþjónusta

    Allir eiga rétt til að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er.

    Öllum skal með lögum tryggður réttur til aðgengilegrar, viðeigandi og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu.

  22. Menntun

    Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar.

    Öllum skal standa til boða grunnskólamenntun án endurgjalds.

    Menntun skal miða að alhliða þroska hvers og eins, gagnrýnni hugsun og vitund um lýðræðisleg réttindi og skyldur.

  23. Atvinnufrelsi

    Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þau kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum ef almannahagsmunir krefjast.

    Í lögum skal kveða á um rétt til mannsæmandi vinnuskilyrða, svo sem hvíldar, orlofs og frítíma. Öllum skal tryggður réttur til sanngjarnra launa og til að semja um starfskjör og önnur réttindi tengd vinnu.

  24. Félagsleg réttindi

    Öllum skal með lögum tryggður réttur til lífsviðurværis og félagslegs öryggis.

    Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar, svo sem vegna atvinnuleysis, barneigna, elli, fátæktar, fötlunar, veikinda, örorku eða sambærilegra aðstæðna.

  25. Eignarréttur

    Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

    Eignarrétti fylgja skyldur, svo og takmarkanir í samræmi við lög. Nýting eignarréttar skal ekki ganga gegn almannahag.

  26. Menningarleg verðmæti

    Dýrmætar þjóðareignir sem heyra til íslenskum menningararfi, svo sem þjóðminjar og fornhandrit, má hvorki eyðileggja né afhenda til varanlegrar eignar eða afnota, selja eða veðsetja.

  27. Náttúra Íslands og umhverfi

    Náttúra Íslands er friðhelg. Hverjum og einum ber að virða hana og vernda.

    Öllum skal með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni, ómenguðu andrúmslofti og óspilltri náttúru. Í því felst að fjölbreytni lífs og lands sé viðhaldið og náttúruminjar, ósnortin víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Fyrri spjöll skulu bætt eftir föngum.

    Nýtingu náttúrugæða skal haga þannig að þau skerðist ekki til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur.

    Með lögum skal tryggja rétt almennings til að fara um landið í lögmætum tilgangi með virðingu fyrir náttúru og umhverfi.

  28. Náttúruauðlindir

    Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið þær, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja.

    Til auðlinda í þjóðareign teljast náttúrugæði, svo sem nytjastofnar, aðrar auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu, vatns- og virkjunarréttindi og jarðhita- og námaréttindi.

    Við nýtingu auðlindanna skal hafa sjálfbærni að leiðarljósi.

    Stjórnvöld bera, ásamt þeim sem nýta auðlindirnar, ábyrgð á vernd þeirra. Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar þeirra, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

  29. Upplýsingar um umhverfi

    Stjórnvöldum ber að upplýsa almenning um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það. Stjórnvöld og aðrir skulu upplýsa um aðsteðjandi náttúruvá, svo sem umhverfismengun.

    Með lögum skal tryggja almenningi aðgang undirbúningi ákvarðana sem hafa áhrif á umhverfi og náttúru, svo og aðild að tengdum dómsmálum.

    Við töku ákvarðana um náttúru Íslands og umhverfi skulu stjórnvöld byggja á lögbundnum meginreglum umhverfisréttar.

  30. Dýravernd

    Með lögum skal kveðið á um vernd dýra gegn illri meðferð og dýrategunda gegn útrýmingu.

    Við nýtingu dýrastofna og annars lífríkis skal gæta virðingar fyrir öllum lifandi verum.

  31. Skyldur samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum

    Öllum handhöfum ríkisvalds ber að virða mannréttindareglur sem bindandi eru fyrir ríkið að þjóðarétti og tryggja framkvæmd þeirra og virkni eftir því sem samræmist hlutverki þeirra að lögum og valdmörkum.

    Alþingi er heimilt að lögfesta alþjóðlega mannréttindasáttmála og ganga þeir þá framar almennum lögum.

Skýringar frá nefnd

  1. Jafnræðisregla
    Er 65. grein núgildandi stjórnarskrár.
    „Manngreinarálit" var sett inn til samræmis við 26. grein alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (e. discrimination), en hefur verið breytt í „án mismununar," sem þykir vera betri þýðing á hugtakinu.
    Atriðum raðað í stafrófsröð á eftir orðinu „kynferði".
    Við bætist „aldurs," „búsetu," „fötlunar" og „kynhneigðar" skv. tillögu í skýrslu stjórnlaganefndar. „Aldur" og „búseta" voru í hornklofa í skýrslu stjórnlaganefndar, hér eru orðin sett inn til umræðu.
    Við bætist „arfgerð," m.a. vegna erindis til nefndarinnar.
    Við bætist „stjórnmálatengsla" til að bregðast við stöðu í þjóðfélaginu.
    „Þjóðernisuppruni" verður „uppruni".
    „Kynþáttur" var felldur út um tíma, en bætt aftur inn, eftir ábendingar frá sérfræðingum um að varasamt geti verið að fella hugtakið brott.
    Tungumáli bætt inn í upptalninguna, m.a. vegna þess að mögulegt er að kveðið sé á um íslensku sem þjóðtungu annars staðar í áfangaskjalinu.
  2. Vernd réttinda
    Nýtt ákvæði, lagt fram til kynningar.
    Nokkurs konar regnhlífarákvæði, til að undirstrika þau meginsjónarmið sem liggja mannréttindakaflanum til grundvallar.
    Ætlað að tryggja svokölluð lárétt áhrif mannréttinda - þ.e. ekki einungis á milli stjórnvalda og borgaranna, heldur einnig á milli lögaðila og borgara.
  3. Mannhelgi
    Ný grein.
    Undirstrikað hversu mikið samfélagsmein ofbeldi er.
    Var kynnt sem hluti af grein um friðhelgi einkalífs á ráðsfundi 6. maí, er nú sjálfstæð grein.
  4. Friðhelgi einkalífs
    Er 71. grein núgildandi stjórnarskrár, efnislega óbreytt.
    Málsgrein um mannhelgi, sem var kynnt sem hluti þessarar greinar á ráðsfundi 6. maí, gerð að sjálfstæðri grein.
  5. Réttur barna
    Er 3. mgr. 76. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Gert að sjálfstæðri grein skv. tillögu í skýrslu stjórnlaganefndar.
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 3. og 12. greinar samnings um réttindi barnsins.
    Efnisbreytingar frá því sem kynnt var á ráðsfundi 6. maí, til að bregðast við innsendu erindi Unicef.
    Bætt við upphafsmálslið, með markmiðslýsingu fyrir greinina.
  6. Tjáningarfrelsi
    Er 73. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Texti einfaldaður án efnislegra breytinga.
    „Öryggi" ætlað að ná til ríkis og almennings.
    Skoða þarf hvort orðin „siðgæði" og „allsherjarregla" séu nauðsynleg Bætt við skyldu stjórnvalda til að tryggja almenningi grundvöll til lýðræðislegra skoðanaskipta. Sú viðbót stendur í samhengi við greinar um upplýsingafrelsi og frelsi fjölmiðla, sem koma næstar á eftir tjáningarfrelsisákvæðinu.
    Skerðingarheimild milduð og færð aftast í ákvæðið.
  7. Upplýsingafrelsi
    Nýtt ákvæði. Ætlað að tryggja borgurunum möguleikann á að sjá hvernig mál þróast og hljóta úrvinnslu hjá hinu opinbera - tryggja virkt aðhald almennings.
    Byggist á skýrslu stjórnlaganefndar, valkostur 2 á s. 88. Einnig á innsendum erindum.
    Hert á frumkvæðisskyldu ríkisins við söfnun, birtingu og miðlun upplýsinga.
    Byggist að hluta á stjórnarskrám Svíþjóðar og Finnlands.
    Dæmi um lista yfir gögn opinberra aðila má sjá í Noregi: http://www.oep.no
    Orðalag ákvæðisins gert skýrara, í samræmi við umræður á ráðsfundi og innkomnar athugasemdir.
    Til skoðunar að tryggja stjórnvöldum ákveðinn tímafrest til að gera viðeigandi ráðstafanir, svo hægt sé að uppfylla kröfur ákvæðisins.
  8. Frelsi fjölmiðla
    Nýtt ákvæði.
    Staðsetning til umræðu.
    Til athugunar að færa hluta 1. mgr. í annan kafla, þar sem væri hægt að taka almennt á gagnsæju eignarhaldi fyrirtækja.
    Vörn nafnleyndar byggist á valkosti 2 á s. 88 í skýrslu stjórnlaganefndar.
    Aflétting nafnleyndar geti verið með leyfi bæði heimildarmanns og blaðamanns, ef nauðsyn krefur.
    Skilgreining úr lögum nr. 38/2011 um fjölmiðla:
    „Fjölmiðill er hvers konar miðill sem með reglubundnum hætti miðlar til almennings efni er lýtur ritstjórn. Til fjölmiðla teljast m.a. dagblöð og tímarit, ásamt fylgiritum þeirra, netmiðlar, hljóð- og myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar."
  9. Frelsi menningar og mennta
    Fært úr menntagrein og gert að sjálfstæðri grein.
    Fyrirsögn greinarinnar er breytt, til að endurspegla betur innihald hennar.
  10. Trúfrelsi
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 18. grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna og 9. grein mannréttindasáttmála Evrópu, sem Ísland er þegar aðili að.
    Vernd trú- og lífsskoðunarfélaga miði að umburðarlyndi og virðingu í samfélaginu.
    Með lífsskoðunarfélagi er átt við félag sem löggjafinn hefur viðurkennt á einhvern hátt, byggist á frjálsri aðild félaga og hefur eftirfarandi að markmiðum sínum og starfsvettvangi:
    Siðferði og siðfræði: Umræða um siðferðisgildi og hvernig best er að leysa siðferðileg álitamál.
    Fjölskyldan og félagslegar athafnir: Framkvæmd félagslegra athafna fjölskyldunnar (ferming, gifting, nafngjöf og útför) á tímamótum samkvæmt lífssýn félaga.
    Skilið betur á milli réttarins til að hafa trú og til að iðka hana, eftir ábendingar um að skerðingarheimild fyrri útgáfu ákvæðisins hefði verið of óljós.
  11. Þjóðkirkja
    Valkostur settur fram með það í huga að þjóðin greiði sérstaklega atkvæði um þessa grein þegar tillögur Stjórnlagaráðs eru lagðar fyrir hana.
    Á ráðsfundi var rætt um nauðsyn þess að Stjórnlagaráð legði fram tillögur sínar án valkosta. Því leggur A-nefnd til nýtt ákvæði, þar sem hugmyndir stjórnlaganefndar um bráðabirgðaákvæði eru nýttar. Skoða þarf hvort ákvæðið eigi að standa í mannréttindakaflanum, eins og nú er, eða aftast í áfangaskjalinu, líkt og stjórnlaganefnd leggur til í skýrslu sinni.
    A-nefnd leggur til að Stjórnlagaráð kjósi á milli tillögu nefndarinnar frá 11. ráðsfundi og þeirrar tillögu sem nú er lögð fram.
  12. Félagafrelsi
    Er 1. og 2. mgr. 74. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Félagafrelsi gert að sjálfstæðri grein í kjölfar umræðna á ráðsfundi 6. maí.
    Orðalagi í upphafi greinarinnar breytt, til að það nái betur til beggja kynja.
    Felld brott heimild um bann við starfsemi félaga, sem bent hefur verið á að hafi aldrei verið nýtt.
    Rætt var hvort mætti fella brott heimild til að skylda fólk til aðildar að félögum, en talið að slík breyting gæti haft víðtæk og ófyrirséð áhrif á ýmis félög sem þjóni almannahag - t.d. húsfélög og mögulega sjúkrasjóði stéttarfélaga. Þó þarf að gæta þess að þessi heimild sé ekki nýtt til að skylda fólk til aðildar að félögum nema skýra nauðsyn beri til.
  13. Fundafrelsi
    Er 3. mgr. 74. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Fundafrelsi gert að sjálfstæðri grein í kjölfar umræðna á ráðsfundi 6. maí.
    Fellt brott, í samræmi við umræður við áfangaskjal: „Banna má mannfundi undir berum himni ef uggvænt þykir að af þeim leiði óspektir."
    Orðalagi í upphafi greinarinnar breytt, til að það nái betur til beggja kynja.
    Rétturinn til fundahalda og mótmæla sérstaklega tiltekinn, sem þykir ná betur yfir inntak greinarinnar. Svipuð ákvæði eru t.a.m. í 13. grein finnsku stjórnarskrárinnar:
    „Everyone has the right to arrange meetings and demonstrations without a permit, as well as the right to participate in them."
    Réttur lögreglu til að vera við almennar samkomur felldur brott. Í staðinn er löggjafanum veitt heimild til að setja almennar og lýðræðislegar leikreglur.
  14. Ríkisborgararéttur
    Er hluti 66. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Í samræmi við núverandi löggjöf er felld brott setningin „Með lögum má þó ákveða að maður missi þann rétt ef hann öðlast með samþykki sínu ríkisfang í öðru ríki."
    Bætt við skilgreiningu á veitingu ríkisborgararéttar, í samræmi við umræður á ráðsfundi 6. maí og við áfangaskjal.
    Sú tillaga er sett fram til að fá fram frekari umræðu, sem nefndin getur tekið tillit til á síðari stigum.
    Greininni er skipt upp, þar sem A-nefnd telur ákvæði um ríkisborgararétt og ákvæði um ferðafrelsi vera of eðlisólík til að standa saman í grein.
  15. Ferðafrelsi
    Er hluti 66. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Greininni er skipt upp, þar sem A-nefnd telur ákvæði um ríkisborgararétt og ákvæði um ferðafrelsi vera of eðlisólík til að standa saman í grein.
  16. Frelsissvipting
    Er 67. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Varðhald fellt út, þar sem það hefur verið aflagt sem refsiúrræði.
    Heimild dómara til að láta menn lausa gegn tryggingu felld út í kjölfar umræðna á ráðsfundi 6. maí. Heimildin þyki bjóða upp á misskilning um réttarstöðu og mismunun á grundvelli efnahags - en henni hefur aldrei verið beitt.
    Bætt við innskoti um sakamál eftir ábendingu frá Ragnhildi Helgadóttur, sem segir: „Þess ber sérstaklega að geta að 4. mgr. greinarinnar fjallar um þá sem eru sviptir frelsi af öðrum ástæðum en þeim sem tengjast sakamálum.
    Þetta er því sett inn til að hnykkja á þeim punkti, ekki efnisbreyting heldur skýring."
  17. Bann við afturvirkni refsingar
    Er 1. mgr. 69. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Texti einfaldaður án efnislegrar breytingar.
    Fullkomin lögjöfnun var um tíma felld út úr greininni, en bætt aftur í hana eftir fjölda ábendinga frá sérfræðingum um að varasamt væri að fella hana brott.
  18. Bann við ómannúðlegri meðferð
    Er 68. grein og 2. mgr. 69. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Bann við herskyldu fært úr þessari grein í kjölfar umræðu á ráðsfundi 6. maí.
  19. Bann við herskyldu
    Ný grein.
    Bætt er við banni við herskyldu, m.a. til að bregðast við kröfu þjóðfundar og innsendum erindum.
    Bann við herskyldu gert að sjálfstæðri grein í kjölfar umræðu á ráðsfundi 6. maí.
  20. Réttlát málsmeðferð
    Er 70. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Texti einfaldaður án efnislegrar breytingar.
    „Öryggi" nær til ríkis og almennings.
    Skoða þarf hvort orðin „velsæmi" og „allsherjarregla" séu nauðsynleg.
    Allsherjarreglu bætt aftur í greinina, eftir ábendingar um að hugtakið hafi víðtæka skírskotun í núverandi stjórnarskrá, lögum og dómaframkvæmd - auk þess að vera notað í mannréttindasáttmála Evrópu.
  21. Heilbrigðisþjónusta
    Litið hefur verið á að 1. mgr. 76. greinar í núgildandi stjórnarskrá hafi tryggt fólki réttinn til heilbrigðisþjónustu.
    Brugðist við kröfu þjóðfundar:
    Skýrsla stjórnlaganefndar, s. 83: „Þá koma fram viðhorf um verndun velferðarkerfisins, jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu óháð tekjum og búsetu [...]".
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 12. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til þess að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er."
    Rétturinn til heilsu settur í forgrunn, til samræmis við ábendingar frá sérfræðingum, sem telja greinina svo breytta vera í fullu samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.
  22. Menntun
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 13. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „skuli barnafræðsla vera skyldubundin og öllum tiltæk án endurgjalds."
    Skyldu til að veita menntun án endurgjalds á ekki að skilja sem bann við einkaskólum.
  23. Atvinnufrelsi
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 6. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt manna til vinnu, sem felur í sér rétt sérhvers manns til þess að hafa tækifæri til þess að afla sér lífsviðurværis með vinnu sem hann velur sér eða tekur að sér af frjálsum vilja, og munu ríkin gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja þennan rétt."
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 7. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til þess að njóta sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða sem tryggja sérstaklega [...] sanngjarnt kaup og jafnt endurgjald fyrir jafnverðmæta vinnu án nokkurrar aðgreiningar."
    Sambærilegt ákvæði er í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er þegar aðili að.
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 23. grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Allir eiga rétt til atvinnu að frjálsu vali, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða og til verndar gegn atvinnuleysi."
    Vernd gegn atvinnuleysi er í sömu grein, en er ekki sett í áfangaskjalið að sinni: „Allir eiga rétt til atvinnu að frjálsu vali, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða og til verndar gegn atvinnuleysi."
  24. Félagsleg réttindi
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 25. grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Allir eiga rétt á lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra."
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 9. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til félagslegs öryggis, þar á meðal til almannatrygginga"
    Færir stjórnarskrá til samræmis við Félagsmálasáttmála Evrópu , sem Ísland er þegar aðili að.
    Barneignum bætt inn í upptalningu um félagslega aðstoð, m.a. vegna fæðingarorlofs
  25. Eignarréttur
    Litið til 14. gr. þýsku stjórnarskrárinnar, sem tengir saman eignarétt og skyldur sem honum fylgja.
    Þess eru mörg dæmi að eignarétti fylgi skyldur, svo sem á grundvelli byggingar- og skipulagslaga, vatnalaga og nábýlisréttar. Það er ekki verið að breyta inntaki eignaréttar frá því sem nú er heldur endurspegla núverandi réttarástand.
    Dregið úr mismunun á grundvelli þjóðernis, með því að fella brott sérstaka heimild til að takmarka eignarhald erlendra aðila. Ný 2. mgr. tryggir stjórnvöldum áfram þann möguleika að takmarka eignarhald.
    Orðalagi breytt, þar sem fyrra orðalag gaf til kynna að allar skyldur sem eignarrétti fylgja verði að vera lögbundnar.
  26. Menningarleg verðmæti
    Byggir m.a. á 1. grein þjóðminjalaga nr. 107/2001.
    Menningarverðmætum veitt sambærileg vernd þeirri sem veitt er náttúruauðlindum í tillögum nefndarinnar. Nánar þarf að skoða hvernig greinin snerti handritagjöf Dana.
  27. Náttúra Íslands
    Umhverfisvernd bætt við í samræmi við tillögur stjórnlaganefndar.
    Greinum víxlað: Náttúruauðlindir stóðu upphaflega á undan náttúrugrein.
    Breytt upptalning á þeim meginþáttum náttúru og umhverfis sem sérstök ástæða þykir til að standa vörð um, í samræmi við ýmsar ábendingar.
    Hnykkt á rétti almennings til að njóta náttúru landsins, svokölluðum almannarétti.
  28. Náttúruauðlindir
    Brugðist við kröfu þjóðfundar:
    Skýrsla stjórnlaganefndar, s. 75: „Það viðhorf var áberandi á þjóðfundi að mæla bæri fyrir um auðlindir þjóðarinnar í stjórnarskrá. Náttúruauðlindir hvort heldur í lofti, láði eða legi, skuli skilgreina sem „eign þjóðarinnar". Reglur um nýtingu auðlinda verði skýrar og horfi til komandi kynslóða og arður af nýtingu auðlinda renni að meginhluta til þjóðarinnar."
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 2. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Allar þjóðir mega, í sínu eigin markmiði, ráðstafa óhindrað náttúruauðæfum og auðlindum sínum brjóti það ekki í bága við neinar skuldbindingar sem leiðir af alþjóðlegri efnahagssamvinnu, byggðri á grundvallarreglunni um gagnkvæman ábata, og þjóðarétti. Aldrei má svipta þjóð ráðum sínum til lífsviðurværis."
    Greinum víxlað: Náttúruauðlindir stóðu upphaflega á undan náttúrugrein.
    Hnykkt á því að ekki sé gengið á einkaeignarrétt í upphafsmálsgrein, með því að nefna sérstaklega auðlindir sem ekki eru í einkaeign.
    Tekið fram að ábyrgð á vernd auðlinda sé ekki aðeins stjórnvalda, heldur einnig þeirra sem kunna að nýta viðkomandi auðlind.
  29. Upplýsingar um umhverfi
    Ákvæði bætt inn í mannréttindakaflann í samræmi við tillögu stjórnlaganefndar.
    Gengið lengra en stjórnlaganefnd leggur til, að því leyti að lögð er frumkvæðisskylda á hið opinbera.
    Tekið tillit til innsendra erinda.
    Þarf að skoða í samhengi við ákvörðun nefndar B um almenna samráðsskyldu stjórnvalda, að sænskri fyrirmynd.
    Skýrar mælt um alla þætti þessarar greinar en var í fyrri útgáfum.
    Meginreglur umhverfisréttar.
    Upplýsingaskylda stjórnvalda.
    Actio popularis - sbr. Árósasamninginn. Almenningi veitt aðild að málum en þarf ekki að vera beinn hagsmunaaðili.
    Höfundar skýrslu sem skrifuð var fyrir framkvæmdastjóra Evrópusambandsins í umhverfismálum um aðgang almennings í ESB-ríkjum að réttlátri málsmeðferð og virkum úrræðum telja að actio popularis eða sambærileg skipan efli verulega almannarétt í umhverfismálum samkvæmt Árósasamningnum. Sjá http://ec.europa.eu/environment/aarhus/study_access.htm.
  30. Dýravernd
    Nýtt ákvæði þar sem brugðist er við innsendum erindum og athugasemdum á heimasíðu Stjórnlagaráðs.
  31. Skyldur samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum
    Nýtt ákvæði í samræmi við tillögur stjórnlaganefndar.
    Þarf að skoða í samhengi við ákvörðun nefndar C um fullgildingarákvæði í utanríkismálakafla stjórnarskrárinnar.
    Texti í fyrri málsgrein færður nær því sem lagt er til í skýrslu stjórnlaganefndar.
    Síðari málsgrein þrengd, til samræmis við ábendingar sérfræðinga um mögulega óljósa réttarstöðu og hættuna við framsal á valdi stjórnarskrárgjafans.
    Bent var á að í fyrri útgáfu hafi vald til stjórnarskrárbreytinga í raun verið framselt að hluta frá stjórnarskrárgjafanum. Breytingin miðar að því að gera löggjafanum kleift að veita alþjóðlegum mannréttindasáttmálum stöðu ofar almennum lögum, án þess þó að gera þá jafnháttsetta stjórnarskránni. Fyrirmynd að þessu má finna í norskustjórnarskránni.

 

14. ráðsfundur

Til kynningar

Mannréttindi

Ummæli:

  1. Mannleg reisn

    Öllum skal tryggður réttur til lífs og til að lifa með mannlegri reisn í réttlátu samfélagi. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.

  2. Jafnræðisregla

    Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án nokkurs manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, kynþáttar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, tungumáls, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.

    Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

  3. Vernd réttinda

    Stjórnvöldum ber að tryggja síaukna vernd mannréttinda. Öllum skulu jafnframt tryggð mannréttindi gagnvart lögaðilum, hagsmunahópum og einstaklingum.

    Mannréttindi tryggð með stjórnarskrá þessari má því aðeins skerða, að almannahagsmunir krefjist þess, enda sé gætt meðalhófs og ekki vegið að kjarna þeirra réttinda sem um ræðir.

  4. Mannhelgi

    Öll skulum við njóta mannhelgi og verndar gegn hvers kyns ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi, innan heimilis og utan.

  5. Friðhelgi einkalífs

    Öll skulum við njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.

    Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.

    Þrátt fyrir ákvæði fyrstu málsgreinar má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.

  6. Réttur barna

    Börn eiga rétt á að njóta bernsku sinnar. Þeim skal tryggð í lögum sú vernd, virðing og umönnun sem velferð þeirra krefst. Ráðstafanir yfirvalda í málefnum barns skulu þjóna hagsmunum þess.

    Barni skal tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar og vilja í öllum málum sem það varðar og skal tekið réttmætt tillit til barnsins í samræmi við aldur þess og þroska.

  7. Tjáningarfrelsi

    Öll erum við frjáls skoðana okkar og sannfæringar og eigum rétt á að tjá hugsanir okkar.

    Stjórnvöld skulu tryggja aðstæður til opinnar og upplýstrar umræðu, svo sem óheftan aðgang að netinu og upplýsingatækni.

    Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Þó má setja tjáningarfrelsi skorður með lögum til verndar börnum, öryggi, heilsu, réttindum eða mannorði annarra, svo sem nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.

    Hver og einn ber ábyrgð á framsetningu skoðana sinna.

  8. Upplýsingafrelsi

    Öllum er frjálst að safna og miðla upplýsingum.

    Stjórnsýsla skal vera gegnsæ og halda til haga gögnum, svo sem fundargerðum, og skrásetja og skjalfesta erindi, uppruna þeirra, ferli og afdrif. Slíkum gögnum má ekki eyða nema samkvæmt lögum.

    Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera tiltæk án undandráttar og skal með lögum tryggja aðgang almennings að öllum gögnum sem opinberir aðilar safna eða standa straum af. Listi yfir öll mál og gögn í vörslu hins opinbera, uppruna þeirra og innihald, skal vera öllum aðgengilegur.

    Afhendingu gagna, geymslu þeirra og birtingu þeirra má aðeins setja skorður með lögum í lýðræðislegum tilgangi, svo sem vegna friðhelgi einkalífs, öryggis ríkisins eða lögbundins starfs eftirlitsstofnana. Um gögn sem lögbundin leynd hvílir yfir skulu liggja fyrir upplýsingar um ástæður leyndar og takmörkun leyndartíma.

  9. Frelsi fjölmiðla

    Frelsi fjölmiðla, ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra og gegnsætt eignarhald skal tryggja með lögum.

    Vernd blaðamanna, heimildarmanna og uppljóstrara skal tryggja í lögum. Óheimilt er að rjúfa nafnleynd án samþykkis þess sem veitir upplýsingar nema við meðferð sakamáls og samkvæmt dómsúrskurði.

  10. Frelsi menningar og mennta

    Tryggja skal með lögum frelsi vísinda, fræða og lista.

  11. Trúfrelsi

    Öll eigum við rétt til trúar og lífsskoðunar. Í því felst rétturinn til að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trúfélaga.

    Öllum er frjálst að iðka trú, einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi. Stjórnvöldum ber að vernda öll skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög.

    Frelsi til að rækja trú eða sannfæringu skal einungis háð þeim takmörkunum, sem lög mæla fyrir um og nauðsyn ber til í lýðræðislegu þjóðfélagi.

  12. Þjóðkirkja

    Leið A - Tímabundið ákvæði:

    Evangelíska lúterska kirkjan er þjóðkirkja á Íslandi.

    Endurskoða skal stöðu evangelísku lútersku kirkjunnar sem þjóðkirkju og skal þeirri endurskoðun ljúka innan fimm ára frá gildistöku stjórnarskrár þessarar með bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

    Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar ræður hvort grein þessi fellur brott í heild sinni eða fyrsta málsgrein stendur ein eftir.

    Leið B - Valkostir:

    Valkostur 1:
    Evangelíska lúterska kirkjan er þjóðkirkja á Íslandi.

    Valkostur 2:
    [Ákvæðið falli brott.]

  13. Félagafrelsi

    Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi.

    Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.

  14. Fundafrelsi

    Rétt eiga menn á að safnast saman vopnlausir. Lögreglunni er heimilt að vera við almennar samkomur.

  15. Ríkisborgararéttur

    Rétt til íslensks ríkisfangs öðlast þeir sem eiga foreldri með íslenskt ríkisfang. Ríkisborgararéttur verður að öðru leyti veittur samkvæmt lögum.

    Engan má svipta íslenskum ríkisborgararétti.

    Íslenskum ríkisborgara verður ekki meinað að koma til landsins né verður honum vísað úr landi. Með lögum skal skipað rétti útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér, svo og fyrir hvaða sakir sé hægt að vísa þeim úr landi.

  16. Ferðafrelsi

    Allir skulu ráða búsetu sinni og vera frjálsir ferða sinna með þeim takmörkunum sem eru settar með lögum.

    Engum verður meinað að hverfa úr landi nema með ákvörðun dómstóla. Stöðva má þó brottför manns úr landi með lögmætri handtöku.

  17. Frelsisvipting

    Engan má svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum.

    Hver sá sem hefur verið sviptur frelsi á rétt á að fá að vita tafarlaust um ástæður þess.

    Hvern þann sem er handtekinn vegna gruns um refsiverða háttsemi skal án undandráttar leiða fyrir dómara. Sé hann ekki jafnskjótt látinn laus skal dómari, áður en sólarhringur er liðinn, ákveða með rökstuddum úrskurði hvort hann skuli sæta gæsluvarðhaldi. Gæsluvarðhaldi má aðeins beita fyrir sök sem fangelsisvist liggur við. Með lögum skal tryggja rétt þess sem sætir gæsluvarðhaldi til að skjóta úrskurði um það til æðra dóms. Maður skal aldrei sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn krefur.

    Hver sá sem er af öðrum ástæðum sviptur frelsi á rétt á að dómstóll kveði á um lögmæti þess svo fljótt sem verða má. Reynist frelsissvipting ólögmæt skal hann þegar látinn laus.

    Hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skal hann eiga rétt til skaðabóta.

  18. Bann við afturvirkni refsingar

    Engum verður gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð þegar hún átti sér stað. Viðurlög mega ekki verða þyngri en þá voru leyfð í lögum.

  19. Bann við ómannúðlegri meðferð

    Í lögum má aldrei mæla fyrir um dauðarefsingu.

    Engan má beita pyndingum né annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

    Nauðungarvinnu skal engum gert að leysa af hendi.

  20. Bann við herskyldu

    Herskyldu má aldrei í lög leiða.

  21. Réttlát málsmeðferð

    Öllum ber réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Dómþing skal háð í heyranda hljóði nema dómari ákveði annað lögum samkvæmt til að gæta öryggis eða réttinda málsaðila.

    Hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.

  22. Heilbrigðisþjónusta

    Allir eiga rétt til að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er.

    Öllum skal með lögum tryggður réttur til aðgengilegrar, viðeigandi og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu.

  23. Menntun

    Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar.

    Öllum skal standa til boða grunnskólamenntun án endurgjalds.

    Menntun skal miða að alhliða þroska hvers og eins, gagnrýnni hugsun og vitund um lýðræðisleg réttindi og skyldur.

  24. Atvinnufrelsi

    Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem við kjósum. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum ef almannahagsmunir krefjast.

    Í lögum skal kveða á um rétt til mannsæmandi vinnuskilyrða, svo sem hvíldar, orlofs og frítíma. Öllum skal tryggður réttur til sanngjarnra launa og til að semja um starfskjör og önnur réttindi tengd vinnu.

  25. Félagsleg réttindi

    Öllum skal með lögum tryggður réttur til lífsviðurværis og félagslegs öryggis.

    Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar, svo sem vegna atvinnuleysis, barneigna, elli, fátæktar, fötlunar, veikinda, örorku eða sambærilegra aðstæðna.

  26. Eignarréttur

    Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

    Eignarrétti fylgja skyldur, svo og takmarkanir í samræmi við lög. Nýting eignarréttar skal ekki ganga gegn almannahag.

  27. Menningarleg verðmæti

    Dýrmætar þjóðareignir sem heyra til íslenskum menningararfi, svo sem þjóðminjar og fornhandrit, má hvorki eyðileggja né afhenda til varanlegrar eignar eða afnota, selja eða veðsetja.

  28. Náttúruauðlindir

    Náttúruauðlindir Íslands eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Þær ber að nýta á sjálfbæran hátt til hagsbóta öllum landsmönnum. Enginn getur fengið þær til varanlegrar eignar eða afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja.

    Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds vernda auðlindirnar og geta veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar þeirra gegn fullu gjaldi og til hóflegs tíma í senn. Slík leyfi leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

    Auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu eru þjóðareign. Til auðlinda í þjóðareign teljast jafnframt náttúrugæði, sem ekki eru í einkaeigu, svo sem nytjastofnar, landsvæði, vatns- og virkjunarréttindi og jarðhita- og námaréttindi.

  29. Náttúra Íslands

    Náttúra Íslands er friðhelg. Hverjum og einum ber að virða hana og vernda.

    Nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar skal haga svo að þær skerðist ekki til langframa og réttur komandi kynslóða sé virtur.

    Öllum skal með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni og óspilltri náttúru til lands, lofts og sjávar þar sem líffræðilegri fjölbreytni er viðhaldið og fyrri spjöll bætt eftir föngum.

    Almenningi er frjálst að fara um landið eins og lög leyfa.

  30. Upplýsingaskylda og samráð

    Stjórnvöldum ber að upplýsa almenning um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það.

    Með lögum skal tryggja almenningi rétt til þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem hafa áhrif á umhverfið.

    Réttur almennings til aðildar að dómsmálum varðandi mikilvægar ákvarðanir um sameiginlegar auðlindir og umhverfi Íslands skal tryggður með lögum.

  31. Dýravernd

    Með lögum skal kveðið á um vernd dýra gegn illri meðferð og dýrategunda gegn útrýmingu.

    Við nýtingu dýrastofna og annars lífríkis skal gæta virðingar fyrir öllum lifandi verum.

  32. Skyldur samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum

    Öllum handhöfum ríkisvalds ber að virða mannréttindareglur sem bindandi eru fyrir ríkið að þjóðarétti og tryggja framkvæmd þeirra og virkni eftir því sem samræmist hlutverki þeirra að lögum og valdmörkum.

    Löggjafanum er heimilt að veita alþjóðlegum mannréttindasáttmálum og reglum stjórnarskrárvernd, með fullgildingu og samþykki aukins meirihluta.

12. ráðsfundur

13. ráðsfundur

Til kynningar

Mannréttindi

Ummæli:

  1. Öllum skal tryggður réttur til lífs og til að lifa með mannlegri reisn í réttlátu samfélagi. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.

  2. Jafnræðisregla

    Öll erum við jöfn fyrir lögum og skulum njóta mannréttinda án nokkurs manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.

    Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

  3. Allir skulu njóta mannhelgi og verndar gegn hvers kyns ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi, innan heimilis og utan.

  4. Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.

    Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.

  5. Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst og skulu ráðstafanir yfirvalda í málum sem varða börn taka mið af því sem þeim er fyrir bestu.

    Barni skal tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í öllum málum sem það varðar og skal tekið réttmætt tillit til skoðana í samræmi við aldur þess og þroska.

  6. Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.

    Hver maður á rétt á að tjá hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.

    Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum til verndar öryggi, heilsu, réttindum eða mannorði annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

  7. Upplýsingafrelsi

    Öllum er frjálst að safna og miðla upplýsingum.

    Stjórnsýsla skal vera gegnsæ, halda til haga fundargerðum sínum og gögnum, auk þess að skrásetja og skjalfesta öll erindi sem henni berast, uppruna þeirra, ferli og afdrif. Slíkum gögnum má ekki eyða.

    Listi yfir öll mál og gögn í vörslu hins opinbera, uppruna þeirra og innihald, skal vera öllum aðgengilegur.

    Upplýsingar og gögn í fórum stjórnvalda skulu vera öllum tiltæk án undandráttar, nema brýnar og rökstuddar ástæður knýi á um leynd þeirra samkvæmt lögum, svo sem við á um sjúkraskýrslur.

    Afhendingu gagna og birtingu þeirra má aðeins setja skorður með lögum, svo sem vegna friðhelgi einkalífs, öryggis ríkisins eða lögbundins starfs eftirlitsstofnana. Um gögn sem lögbundin leynd hvílir yfir skulu liggja fyrir upplýsingar um ástæður leyndar og takmörkun leyndartíma.

  8. Frelsi fjölmiðla

    Frelsi fjölmiðla, ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra og gegnsætt eignarhald skal tryggja með lögum.

    Vernd blaðamanna, heimildarmanna og uppljóstrara skal tryggja í lögum. Óheimilt er að rjúfa nafnleynd án samþykkis þess sem veitir upplýsingar nema við meðferð sakamáls og samkvæmt dómsúrskurði.

  9. Fræðafrelsi

    Tryggja skal með lögum frelsi vísinda, fræða, lista og menntunar.

  10. Trúfrelsi

    Sérhver maður á rétt á að vera frjáls hugsana sinna, sannfæringar og lífsskoðunar. Felur sá réttur í sér frelsi hvers og eins til að iðka trú sína, einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi.

    Öllum er frjálst að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trúfélaga.

    Stjórnvöldum ber að vernda öll skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög.

  11. Þjóðkirkja

    Valkostur 1:
    Evangelíska lúterska kirkjan er þjóðkirkja á Íslandi.

    Valkostur 2:
    [Ákvæðið falli brott.]

  12. Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi.

    Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.

  13. Rétt eiga menn á að safnast saman vopnlausir. Lögreglunni er heimilt að vera við almennar samkomur.

  14. Rétt til íslensks ríkisfangs öðlast þeir sem eiga foreldri með íslenskt ríkisfang. Ríkisborgararéttur verður að öðru leyti veittur samkvæmt lögum. Engan má svipta íslenskum ríkisborgararétti.

    Íslenskum ríkisborgara verður ekki meinað að koma til landsins né verður honum vísað úr landi. Með lögum skal skipað rétti útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér, svo og fyrir hverjar sakir sé hægt að vísa þeim úr landi.

    Engum verður meinað að hverfa úr landi nema með ákvörðun dómstóla. Stöðva má þó brottför manns úr landi með lögmætri handtöku.

    Allir, sem dveljast löglega í landinu, skulu ráða búsetu sinni og vera frjálsir ferða sinna með þeim takmörkunum sem eru settar með lögum.

  15. Engan má svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum.

    Hver sá sem hefur verið sviptur frelsi á rétt á að fá að vita tafarlaust um ástæður þess.

    Hvern þann sem er handtekinn vegna gruns um refsiverða háttsemi skal án undandráttar leiða fyrir dómara. Sé hann ekki jafnskjótt látinn laus skal dómari, áður en sólarhringur er liðinn, ákveða með rökstuddum úrskurði hvort hann skuli sæta gæsluvarðhaldi. Gæsluvarðhaldi má aðeins beita fyrir sök sem fangelsisvist liggur við. Með lögum skal tryggja rétt þess sem sætir gæsluvarðhaldi til að skjóta úrskurði um það til æðra dóms. Maður skal aldrei sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn krefur.

    Hver sá sem er af öðrum ástæðum sviptur frelsi á rétt á að dómstóll kveði á um lögmæti þess svo fljótt sem verða má. Reynist frelsissvipting ólögmæt skal hann þegar látinn laus.

    Hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skal hann eiga rétt til skaðabóta.

  16. Engum verður gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð þegar hún átti sér stað. Viðurlög mega ekki verða þyngri en þá voru leyfð í lögum.

  17. Í lögum má aldrei mæla fyrir um dauðarefsingu.

    Engan má beita pyndingum né annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

    Nauðungarvinnu skal engum gert að leysa af hendi.

  18. Herskyldu má aldrei í lög leiða.

  19. Öllum ber réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Dómþing skal háð í heyranda hljóði nema dómari ákveði annað lögum samkvæmt til að gæta öryggis eða réttinda málsaðila.

    Hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.

  20. Heilbrigðisþjónusta

    Öllum skal tryggður með lögum réttur til heilbrigðisþjónustu sem miðar að líkamlegri og andlegri heilsu að hæsta marki sem unnt er.

  21. Menntun

    Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar.

    Öllum skal standa til boða grunnskólamenntun án endurgjalds.

    Menntun skal miða að fullum þroska hvers og eins, gagnrýnni hugsun og vitund um réttindi og skyldur.

  22. Atvinna

    Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum ef almannahagsmunir krefjast.

    Í lögum skal kveða á um rétt til mannsæmandi vinnuskilyrða, sanngjarnra launa og til að semja um starfskjör og önnur réttindi tengd vinnu.

  23. Félagslegt öryggi

    Öllum skal tryggður réttur til lífsviðurværis og félagslegs öryggis.

    Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til félagslegrar aðstoðar og almannatrygginga, svo sem vegna atvinnuleysis, elli, fátæktar, fötlunar, veikinda, örorku eða sambærilegra aðstæðna.

  24. Eignarréttur

    Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

    Eignarrétti fylgja lögbundnar takmarkanir og skyldur. Nýting eignarréttar skal ekki ganga gegn almannahag.

  25. Menningarleg verðmæti

    Þjóðareignir sem heyra til íslenskum menningararfi, svo sem þjóðminjar og fornhandrit, má hvorki eyðileggja né afhenda til varanlegrar eignar eða afnota, selja eða veðsetja.

  26. Náttúruauðlindir

    Náttúruauðlindir Íslands eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Þær ber að nýta á sjálfbæran hátt til hagsbóta öllum landsmönnum. Enginn getur fengið þær til varanlegrar eignar eða afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja.

    Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds vernda auðlindirnar og geta veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar þeirra gegn fullu gjaldi og til hóflegs tíma í senn. Slík leyfi leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

    Auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu eru þjóðareign. Til auðlinda í þjóðareign teljast jafnframt náttúrugæði, sem ekki eru í einkaeigu, svo sem nytjastofnar, landsvæði, vatns- og virkjunarréttindi og jarðhita- og námaréttindi.

  27. Náttúra Íslands

    Náttúra Íslands er friðhelg. Hverjum og einum ber að virða hana og vernda.

    Nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar skal haga svo að þær skerðist ekki til langframa og réttur komandi kynslóða sé virtur.

    Öllum skal með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni og óspilltri náttúru til lands, lofts og sjávar þar sem líffræðilegri fjölbreytni er viðhaldið og fyrri spjöll bætt eftir föngum.

    Almenningi er frjálst að fara um landið eins og lög leyfa.

  28. Upplýsingaskylda og samráð

    Stjórnvöldum ber að upplýsa almenning um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það.

    Með lögum skal tryggja almenningi rétt til þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem hafa áhrif á umhverfið.

    Réttur almennings til aðildar að dómsmálum varðandi mikilvægar ákvarðanir um sameiginlegar auðlindir og umhverfi Íslands skal tryggður með lögum.

  29. Dýravernd

    Með lögum skal kveðið á um vernd dýra gegn illri meðferð og dýrategunda gegn útrýmingu.

    Við nýtingu dýrastofna og annars lífríkis skal gæta virðingar fyrir öllum lifandi verum.

  30. Skyldur samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum

    Öllum handhöfum ríkisvalds ber að virða mannréttindareglur sem bindandi eru fyrir ríkið að þjóðarétti og tryggja með lögum að eftir þeim sé farið.

    Reglur um mannréttindi njóta stjórnarskrárverndar þegar þær skuldbinda ríkið samkvæmt staðfestum milliríkjasamningi.

Skýringar frá nefnd

  1. Ný grein.
    Byggist m.a. á samningi um réttindi fatlaðs fólks (UN Convention on the Rights of People with Disabilities).
    Er ætlað að tryggja einstaklingum möguleika til fullrar þátttöku og virkrar aðildar í samfélaginu.
    Réttur til lífs skv. 2. grein mannréttindasáttmála Evrópu.
  2. Nefnd A vill skoða að hve miklu leyti hægt er að hverfa frá málfræðilegu karlkyni í texta stjórnarskrárinnar. Hér er lögð til breyting á jafnræðisreglu mannréttindakaflans, sem gæti orðið leiðarljós í frekari orðalagsbreytingum - annaðhvort í mannréttindakaflanum einum, eða í áfangaskjalinu öllu.
  3. Er 65. grein núgildandi stjórnarskrár.
    „Manngreinarálit“ er sett inn til samræmis við 26. grein alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (e. discrimination).
    Atriðum raðað í stafrófsröð á eftir orðinu „kynferði“.
    Við bætist „aldurs,“ „búsetu,“ „fötlunar“ og „kynhneigðar“ skv. tillögu í skýrslu stjórnlaganefndar. „Aldur“ og „búseta“ voru í hornklofa í skýrslu stjórnlaganefndar, hér eru orðin sett inn til umræðu.
    Við bætist „arfgerð,“ m.a. vegna erindis til nefndarinnar.
    Við bætist „stjórnmálatengsla“ til að bregðast við stöðu í þjóðfélaginu.
    „Þjóðernisuppruni“ verður „uppruni“.
    „Kynþáttur“ fellur út, enda hugtakið ekki notað lengur meðal fræðimanna.
  4. Ný grein.
    Undirstrikað hversu mikið samfélagsmein ofbeldi er.
    Var kynnt sem hluti af grein um friðhelgi einkalífs á ráðsfundi 6. maí, er nú sjálfstæð grein.
  5. Er 71. grein núgildandi stjórnarskrár, efnislega óbreytt.
    Málsgrein um mannhelgi, sem var kynnt sem hluti þessarar greinar á ráðsfundi 6. maí, gerð að sjálfstæðri grein.
  6. Er 73. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Texti einfaldaður án efnislegra breytinga.
    „Öryggi“ ætlað að ná til ríkis og almennings.
    Skoða þarf hvort orðin „siðgæði“ og „allsherjarregla“ séu nauðsynleg.
  7. Nýtt ákvæði. Ætlað að tryggja borgurunum möguleikann á að sjá hvernig mál þróast og hljóta úrvinnslu hjá hinu opinbera - tryggja virkt aðhald almennings.
    Byggist á skýrslu stjórnlaganefndar, valkostur 2 á s. 88. Einnig á innsendum erindum.
    Hert á frumkvæðisskyldu ríkisins við söfnun, birtingu og miðlun upplýsinga.
    Byggist að hluta á stjórnarskrám Svíþjóðar og Finnlands.
    Dæmi um lista yfir gögn opinberra aðila má sjá í Noregi: http://www.oep.no
  8. Nýtt ákvæði.
    Staðsetning til umræðu.
    Til athugunar að færa hluta 1. mgr. í annan kafla, þar sem væri hægt að taka almennt á gagnsæju eignarhaldi fyrirtækja.
    Vörn nafnleyndar byggist á valkosti 2 á s. 88 í skýrslu stjórnlaganefndar.
    Aflétting nafnleyndar geti verið með leyfi bæði heimildarmanns og blaðamanns, ef nauðsyn krefur.
    Skilgreining úr lögum nr. 38/2011 um fjölmiðla:
    „Fjölmiðill er hvers konar miðill sem með reglubundnum hætti miðlar til almennings efni er lýtur ritstjórn. Til fjölmiðla teljast m.a. dagblöð og tímarit, ásamt fylgiritum þeirra, netmiðlar, hljóð- og myndmiðlar og aðrir sambærilegir miðlar."
  9. Er 3. mgr. 76. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Gert að sjálfstæðri grein skv. tillögu í skýrslu stjórnlaganefndar.
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 3. og 12. greinar samnings um réttindi barnsins.
    Efnisbreytingar frá því sem kynnt var á ráðsfundi 6. maí, til að bregðast við innsendu erindi
    Unicef.
  10. Fræðafrelsi
    Var hluti af grein um menntun í síðustu útgáfu áfangaskjals.
    Fært úr menntagrein og gert að sjálfstæðri grein.
  11. Trúfrelsi
    Er 64. grein í núgildandi stjórnarskrá.
    Tillaga nefndar byggir á dæmi A í skýrslu stjórnlaganefndar (s. 184).
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 18. grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu
    þjóðanna og 9. grein mannréttindasáttmála Evrópu, sem Ísland er þegar aðili að:
    Vernd trú- og lífsskoðunarfélaga miði að umburðarlyndi og virðingu í samfélaginu.
    Með lífsskoðunarfélagi er átt við félag sem löggjafinn hefur viðurkennt á einhvern
    hátt, byggist á frjálsri aðild félaga og hefur eftirfarandi að markmiðum sínum og
    starfsvettvangi:
    Siðferði og siðfræði: Umræða um siðferðisgildi og hvernig best er að leysa
    siðferðileg álitamál.
    Fjölskyldan og félagslegar athafnir: Framkvæmd félagslegra athafna
    fjölskyldunnar (ferming, gifting, nafngjöf og útför) á tímamótum samkvæmt
    lífssýn félaga.
  12. Þjóðkirkja:
    Er 62. grein í núgildandi stjórnarskrá.
    Tillagan byggir á dæmi B í skýrslu stjórnlaganefndar (s. 201).
    Valkostur settur fram með það í huga að þjóðin greiði sérstaklega atkvæði um þessa
    grein þegar tillögur Stjórnlagaráðs eru lagðar fyrir hana.
  13. Er 1. og 2. mgr. 74. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Félagafrelsi gert að sjálfstæðri grein í kjölfar umræðna á ráðsfundi 6. maí.
  14. Er 3. mgr. 74. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Fundafrelsi gert að sjálfstæðri grein í kjölfar umræðna á ráðsfundi 6. maí.
    Fellt brott, í samræmi við umræður við áfangaskjal: „Banna má mannfundi undir berum himni ef uggvænt þykir að af þeim leiði óspektir.“
  15. Er 66. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Í samræmi við núverandi löggjöf er felld brott setningin „Með lögum má þó ákveða að maður missi þann rétt ef hann öðlast með samþykki sínu ríkisfang í öðru ríki.“
    Bætt við skilgreiningu á veitingu ríkisborgararéttar, í samræmi við umræður á ráðsfundi 6. maí og við áfangaskjal. Sú tillaga er sett fram til að fá fram frekari umræðu, sem nefndin getur tekið tillit til á síðari stigum.
  16. Er 67. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Varðhald fellt út, þar sem það hefur verið aflagt sem refsiúrræði.
    Heimild dómara til að láta menn lausa gegn tryggingu felld út í kjölfar umræðna á ráðsfundi 6. maí. Heimildin þyki bjóða upp á misskilning um réttarstöðu og mismunun á grundvelli efnahags – en henni hefur aldrei verið beitt.
  17. Er 1. mgr. 69. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Texti einfaldaður án efnislegrar breytingar.
    Kanna þarf hvort þörf sé á að hverfa að einhverju leyti aftur til fyrri texta, sérstaklega hvað varðar hina fullkomnu lögjöfnun sem er sterkari í þessu ákvæði en almennum lögum.
  18. Er 68. grein og 2. mgr. 69. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Bann við herskyldu fært úr þessari grein í kjölfar umræðu á ráðsfundi 6. maí.
  19. Ný grein.
    Bætt er við banni við herskyldu, m.a. til að bregðast við kröfu þjóðfundar og innsendum erindum.
    Bann við herskyldu gert að sjálfstæðri grein í kjölfar umræðu á ráðsfundi 6. maí.
  20. Er 70. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Texti einfaldaður án efnislegrar breytingar.
    „Öryggi“ nær til ríkis og almennings.
    Skoða þarf hvort orðin „velsæmi“ og „allsherjarregla“ séu nauðsynleg.
  21. Litið hefur verið á að 1. mgr. 76. greinar í núgildandi stjórnarskrá hafi tryggt fólki réttinn til heilbrigðisþjónustu.
    Brugðist við kröfu þjóðfundar:
    Skýrsla stjórnlaganefndar, s. 83: „Þá koma fram viðhorf um verndun velferðarkerfisins, jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu óháð tekjum og búsetu [...]".
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 12. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til þess að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er."
  22. Byggir á 2. mgr. 76. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 13. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „skuli barnafræðsla vera skyldubundin og öllum tiltæk án endurgjalds."
    Skyldu til að veita menntun án endurgjalds á ekki að skilja sem bann við einkaskólum.
  23. Byggir á 75. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 6. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt manna til vinnu, sem felur í sér rétt sérhvers manns til þess að hafa tækifæri til þess að afla sér lífsviðurværis með vinnu sem hann velur sér eða tekur að sér af frjálsum vilja, og munu ríkin gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja þennan rétt."
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 7. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til þess að njóta sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða sem tryggja sérstaklega [...] sanngjarnt kaup og jafnt endurgjald fyrir jafnverðmæta vinnu án nokkurrar aðgreiningar."
    Sambærilegt ákvæði er í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er þegar aðili að.
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 23. grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Allir eiga rétt til atvinnu að frjálsu vali, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða og til verndar gegn atvinnuleysi."
    Vernd gegn atvinnuleysi er í sömu grein, en er ekki sett í áfangaskjalið að sinni: „Allir eiga rétt til atvinnu að frjálsu vali, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða og til verndar gegn atvinnuleysi."
  24. Byggir á 1. mgr. 76. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 25. grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Allir eiga rétt á lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra."
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 9. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til félagslegs öryggis, þar á meðal til almannatrygginga"
    Færir stjórnarskrá til samræmis við Félagsmálasáttmála Evrópu , sem Ísland er þegar aðili að.
  25. Byggir á 72. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Litið til 14. gr. þýsku stjórnarskrárinnar, sem tengir saman eignarétt og skyldur sem honum fylgja.
    Þess eru mörg dæmi að eignarétti fylgi skyldur, svo sem á grundvelli byggingar- og skipulagslaga, vatnalaga og nábýlisréttar. Það er ekki verið að breyta inntaki eignaréttar frá því sem nú er heldur endurspegla núverandi réttarástand.
    Dregið úr mismunun á grundvelli þjóðernis, með því að fella brott sérstaka heimild til að takmarka eignarhald erlendra aðila. Ný 2. mgr. tryggir stjórnvöldum áfram þann möguleika að takmarka eignarhald.
  26. Nýtt ákvæði.
    Byggir m.a. á 1. grein þjóðminjalaga nr. 107/2001.
    Menningarverðmætum veitt sambærileg vernd þeirri sem veitt er náttúruauðlindum í tillögum nefndarinnar.
    Nánar þarf að skoða hvernig greinin snerti handritagjöf Dana.
  27. Nýtt ákvæði.
    Brugðist við kröfu þjóðfundar:
    Skýrsla stjórnlaganefndar, s. 75: „Það viðhorf var áberandi á þjóðfundi að mæla bæri fyrir um auðlindir þjóðarinnar í stjórnarskrá. Náttúruauðlindir hvort heldur í lofti, láði eða legi, skuli skilgreina sem „eign þjóðarinnar". Reglur um nýtingu auðlinda verði skýrar og horfi til komandi kynslóða og arður af nýtingu auðlinda renni að meginhluta til þjóðarinnar."
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 2. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Allar þjóðir mega, í sínu eigin markmiði, ráðstafa óhindrað náttúruauðæfum og auðlindum sínum brjóti það ekki í bága við neinar skuldbindingar sem leiðir af alþjóðlegri efnahagssamvinnu, byggðri á grundvallarreglunni um gagnkvæman ábata, og þjóðarétti. Aldrei má svipta þjóð ráðum sínum til lífsviðurværis."
  28. Nýtt ákvæði.
    Umhverfisvernd bætt við í samræmi við tillögur stjórnlaganefndar, líkt og gert er með náttúruauðlindir.
  29. Ákvæði bætt inn í mannréttindakaflann í samræmi við tillögu stjórnlaganefndar.
    Gengið lengra en stjórnlaganefnd leggur til, að því leyti að lögð er frumkvæðisskylda á hið opinbera.
    Tekið tillit til innsendra erinda.
    Þarf að skoða í samhengi við ákvörðun nefndar B um almenna samráðsskyldu stjórnvalda, að sænskri fyrirmynd.
  30. Nýtt ákvæði þar sem brugðist er við innsendum erindum og athugasemdum á heimasíðu Stjórnlagaráðs.
  31. Nýtt ákvæði í samræmi við tillögur stjórnlaganefndar.
    Þarf að skoða í samhengi við ákvörðun nefndar C um fullgildingarákvæði í utanríkismálakafla stjórnarskrárinnar.

11. ráðsfundur

Til kynningar

Mannréttindi

Ummæli:

  1. Öllum skal tryggður réttur til lífs og til að lifa með mannlegri reisn í réttlátu samfélagi. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.

  2. Allir eru jafnir fyrir lögum og skulu njóta mannréttinda án nokkurs manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.

    Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

  3. Allir skulu njóta mannhelgi og verndar gegn hvers kyns ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi, innan heimilis og utan.

  4. Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.

    Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.

  5. Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst og skulu ráðstafanir yfirvalda í málum sem varða börn taka mið af því sem þeim er fyrir bestu.

    Barni skal tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í öllum málum sem það varðar og skal tekið réttmætt tillit til skoðana í samræmi við aldur þess og þroska.

  6. Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.

    Hver maður á rétt á að tjá hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.

    Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum til verndar öryggi, heilsu, réttindum eða mannorði annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

  7. Fræðafrelsi

    Tryggja skal með lögum frelsi vísinda, fræða, lista og menntunar.

  8. Trúfrelsi

    Sérhver maður á rétt á að vera frjáls hugsana sinna, sannfæringar og lífsskoðunar. Felur sá réttur í sér frelsi hvers og eins til að iðka trú sína, einslega eða í samfélagi með öðrum, opinberlega eða á einkavettvangi.

    Öllum er frjálst að breyta um trú eða sannfæringu og standa utan trúfélaga.

    Stjórnvöldum ber að vernda öll skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög.

  9. Þjóðkirkja

    Valkostur 1:
    Evangelíska lúterska kirkjan er þjóðkirkja á Íslandi.

    Valkostur 2:
    [Ákvæðið falli brott.]

  10. Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi.

    Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.

  11. Rétt eiga menn á að safnast saman vopnlausir. Lögreglunni er heimilt að vera við almennar samkomur.

  12. Rétt til íslensks ríkisfangs öðlast þeir sem eiga foreldri með íslenskt ríkisfang. Ríkisborgararéttur verður að öðru leyti veittur samkvæmt lögum. Engan má svipta íslenskum ríkisborgararétti.

    Íslenskum ríkisborgara verður ekki meinað að koma til landsins né verður honum vísað úr landi. Með lögum skal skipað rétti útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér, svo og fyrir hverjar sakir sé hægt að vísa þeim úr landi.

    Engum verður meinað að hverfa úr landi nema með ákvörðun dómstóla. Stöðva má þó brottför manns úr landi með lögmætri handtöku.

    Allir, sem dveljast löglega í landinu, skulu ráða búsetu sinni og vera frjálsir ferða sinna með þeim takmörkunum sem eru settar með lögum.

  13. Engan má svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum.

    Hver sá sem hefur verið sviptur frelsi á rétt á að fá að vita tafarlaust um ástæður þess.

    Hvern þann sem er handtekinn vegna gruns um refsiverða háttsemi skal án undandráttar leiða fyrir dómara. Sé hann ekki jafnskjótt látinn laus skal dómari, áður en sólarhringur er liðinn, ákveða með rökstuddum úrskurði hvort hann skuli sæta gæsluvarðhaldi. Gæsluvarðhaldi má aðeins beita fyrir sök sem fangelsisvist liggur við. Með lögum skal tryggja rétt þess sem sætir gæsluvarðhaldi til að skjóta úrskurði um það til æðra dóms. Maður skal aldrei sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn krefur.

    Hver sá sem er af öðrum ástæðum sviptur frelsi á rétt á að dómstóll kveði á um lögmæti þess svo fljótt sem verða má. Reynist frelsissvipting ólögmæt skal hann þegar látinn laus.

    Hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skal hann eiga rétt til skaðabóta.

  14. Engum verður gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð þegar hún átti sér stað. Viðurlög mega ekki verða þyngri en þá voru leyfð í lögum.

  15. Í lögum má aldrei mæla fyrir um dauðarefsingu.

    Engan má beita pyndingum né annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

    Nauðungarvinnu skal engum gert að leysa af hendi.

  16. Herskyldu má aldrei í lög leiða.

  17. Öllum ber réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Dómþing skal háð í heyranda hljóði nema dómari ákveði annað lögum samkvæmt til að gæta öryggis eða réttinda málsaðila.

    Hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.

  18. Heilbrigðisþjónusta

    Öllum skal tryggður með lögum réttur til heilbrigðisþjónustu sem miðar að líkamlegri og andlegri heilsu að hæsta marki sem unnt er.

  19. Menntun

    Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar.

    Öllum skal standa til boða grunnskólamenntun án endurgjalds.

    Menntun skal miða að fullum þroska hvers og eins, gagnrýnni hugsun og vitund um réttindi og skyldur.

  20. Atvinna

    Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum ef almannahagsmunir krefjast.

    Í lögum skal kveða á um rétt til mannsæmandi vinnuskilyrða, sanngjarnra launa og til að semja um starfskjör og önnur réttindi tengd vinnu.

  21. Félagslegt öryggi

    Öllum skal tryggður réttur til lífsviðurværis og félagslegs öryggis.

    Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til félagslegrar aðstoðar og almannatrygginga, svo sem vegna atvinnuleysis, elli, fátæktar, fötlunar, veikinda, örorku eða sambærilegra aðstæðna.

  22. Eignarréttur

    Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

    Eignarrétti fylgja lögbundnar takmarkanir og skyldur. Nýting eignarréttar skal ekki ganga gegn almannahag.

  23. Menningarleg verðmæti

    Þjóðareignir sem heyra til íslenskum menningararfi, svo sem þjóðminjar og fornhandrit, má hvorki eyðileggja né afhenda til varanlegrar eignar eða afnota, selja eða veðsetja.

  24. Náttúruauðlindir

    Náttúruauðlindir Íslands eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Þær ber að nýta á sjálfbæran hátt til hagsbóta öllum landsmönnum. Enginn getur fengið þær til varanlegrar eignar eða afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja.

    Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds vernda auðlindirnar og geta veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar þeirra gegn fullu gjaldi og til hóflegs tíma í senn. Slík leyfi leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

    Auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu eru þjóðareign. Til auðlinda í þjóðareign teljast jafnframt náttúrugæði, sem ekki eru í einkaeigu, svo sem nytjastofnar, landsvæði, vatns- og virkjunarréttindi og jarðhita- og námaréttindi.

  25. Náttúra Íslands

    Náttúra Íslands er friðhelg. Hverjum og einum ber að virða hana og vernda.

    Nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar skal haga svo að þær skerðist ekki til langframa og réttur komandi kynslóða sé virtur.

    Öllum skal með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni og óspilltri náttúru til lands, lofts og sjávar þar sem líffræðilegri fjölbreytni er viðhaldið og fyrri spjöll bætt eftir föngum.

    Almenningi er frjálst að fara um landið eins og lög leyfa.

  26. Upplýsingaskylda og samráð

    Stjórnvöldum ber að upplýsa almenning um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það.

    Með lögum skal tryggja almenningi rétt til þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem hafa áhrif á umhverfið.

    Réttur almennings til aðildar að dómsmálum varðandi mikilvægar ákvarðanir um sameiginlegar auðlindir og umhverfi Íslands skal tryggður með lögum.

  27. Dýravernd

    Með lögum skal kveðið á um vernd dýra gegn illri meðferð og dýrategunda gegn útrýmingu.

    Við nýtingu dýrastofna og annars lífríkis skal gæta virðingar fyrir öllum lifandi verum.

  28. Skyldur samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum

    Öllum handhöfum ríkisvalds ber að virða mannréttindareglur sem bindandi eru fyrir ríkið að þjóðarétti og tryggja með lögum að eftir þeim sé farið.

    Reglur um mannréttindi njóta stjórnarskrárverndar þegar þær skuldbinda ríkið samkvæmt staðfestum milliríkjasamningi.

Skýringar frá nefnd

  1. Ný grein.
    Byggist m.a. á samningi um réttindi fatlaðs fólks (UN Convention on the Rights of People with Disabilities).
    Er ætlað að tryggja einstaklingum möguleika til fullrar þátttöku og virkrar aðildar í samfélaginu.
    Réttur til lífs skv. 2. grein mannréttindasáttmála Evrópu.
  2. Er 65. grein núgildandi stjórnarskrár.
    „Manngreinarálit“ er sett inn til samræmis við 26. grein alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (e. discrimination).
    Atriðum raðað í stafrófsröð á eftir orðinu „kynferði“.
    Við bætist „aldurs,“ „búsetu,“ „fötlunar“ og „kynhneigðar“ skv. tillögu í skýrslu stjórnlaganefndar. „Aldur“ og „búseta“ voru í hornklofa í skýrslu stjórnlaganefndar, hér eru orðin sett inn til umræðu.
    Við bætist „arfgerð,“ m.a. vegna erindis til nefndarinnar.
    Við bætist „stjórnmálatengsla“ til að bregðast við stöðu í þjóðfélaginu.
    „Þjóðernisuppruni“ verður „uppruni“.
    „Kynþáttur“ fellur út, enda hugtakið ekki notað lengur meðal fræðimanna.
  3. Ný grein.
    Undirstrikað hversu mikið samfélagsmein ofbeldi er.
    Var kynnt sem hluti af grein um friðhelgi einkalífs á ráðsfundi 6. maí, er nú sjálfstæð grein.
  4. Er 71. grein núgildandi stjórnarskrár, efnislega óbreytt.
    Málsgrein um mannhelgi, sem var kynnt sem hluti þessarar greinar á ráðsfundi 6. maí, gerð að sjálfstæðri grein.
  5. Er 73. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Texti einfaldaður án efnislegra breytinga.
    „Öryggi“ ætlað að ná til ríkis og almennings.
    Skoða þarf hvort orðin „siðgæði“ og „allsherjarregla“ séu nauðsynleg.
  6. Er 3. mgr. 76. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Gert að sjálfstæðri grein skv. tillögu í skýrslu stjórnlaganefndar.
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 3. og 12. greinar samnings um réttindi barnsins.
    Efnisbreytingar frá því sem kynnt var á ráðsfundi 6. maí, til að bregðast við innsendu erindi
    Unicef.
  7. Fræðafrelsi
    Var hluti af grein um menntun í síðustu útgáfu áfangaskjals.
    Fært úr menntagrein og gert að sjálfstæðri grein.
  8. Trúfrelsi
    Er 64. grein í núgildandi stjórnarskrá.
    Tillaga nefndar byggir á dæmi A í skýrslu stjórnlaganefndar (s. 184).
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 18. grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu
    þjóðanna og 9. grein mannréttindasáttmála Evrópu, sem Ísland er þegar aðili að:
    Vernd trú- og lífsskoðunarfélaga miði að umburðarlyndi og virðingu í samfélaginu.
    Með lífsskoðunarfélagi er átt við félag sem löggjafinn hefur viðurkennt á einhvern
    hátt, byggist á frjálsri aðild félaga og hefur eftirfarandi að markmiðum sínum og
    starfsvettvangi:
    Siðferði og siðfræði: Umræða um siðferðisgildi og hvernig best er að leysa
    siðferðileg álitamál.
    Fjölskyldan og félagslegar athafnir: Framkvæmd félagslegra athafna
    fjölskyldunnar (ferming, gifting, nafngjöf og útför) á tímamótum samkvæmt
    lífssýn félaga.
  9. Þjóðkirkja:
    Er 62. grein í núgildandi stjórnarskrá.
    Tillagan byggir á dæmi B í skýrslu stjórnlaganefndar (s. 201).
    Valkostur settur fram með það í huga að þjóðin greiði sérstaklega atkvæði um þessa
    grein þegar tillögur Stjórnlagaráðs eru lagðar fyrir hana.
  10. Er 1. og 2. mgr. 74. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Félagafrelsi gert að sjálfstæðri grein í kjölfar umræðna á ráðsfundi 6. maí.
  11. Er 3. mgr. 74. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Fundafrelsi gert að sjálfstæðri grein í kjölfar umræðna á ráðsfundi 6. maí.
    Fellt brott, í samræmi við umræður við áfangaskjal: „Banna má mannfundi undir berum himni ef uggvænt þykir að af þeim leiði óspektir.“
  12. Er 66. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Í samræmi við núverandi löggjöf er felld brott setningin „Með lögum má þó ákveða að maður missi þann rétt ef hann öðlast með samþykki sínu ríkisfang í öðru ríki.“
    Bætt við skilgreiningu á veitingu ríkisborgararéttar, í samræmi við umræður á ráðsfundi 6. maí og við áfangaskjal. Sú tillaga er sett fram til að fá fram frekari umræðu, sem nefndin getur tekið tillit til á síðari stigum.
  13. Er 67. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Varðhald fellt út, þar sem það hefur verið aflagt sem refsiúrræði.
    Heimild dómara til að láta menn lausa gegn tryggingu felld út í kjölfar umræðna á ráðsfundi 6. maí. Heimildin þyki bjóða upp á misskilning um réttarstöðu og mismunun á grundvelli efnahags – en henni hefur aldrei verið beitt.
  14. Er 1. mgr. 69. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Texti einfaldaður án efnislegrar breytingar.
    Kanna þarf hvort þörf sé á að hverfa að einhverju leyti aftur til fyrri texta, sérstaklega hvað varðar hina fullkomnu lögjöfnun sem er sterkari í þessu ákvæði en almennum lögum.
  15. Er 68. grein og 2. mgr. 69. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Bann við herskyldu fært úr þessari grein í kjölfar umræðu á ráðsfundi 6. maí.
  16. Ný grein.
    Bætt er við banni við herskyldu, m.a. til að bregðast við kröfu þjóðfundar og innsendum erindum.
    Bann við herskyldu gert að sjálfstæðri grein í kjölfar umræðu á ráðsfundi 6. maí.
  17. Er 70. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Texti einfaldaður án efnislegrar breytingar.
    „Öryggi“ nær til ríkis og almennings.
    Skoða þarf hvort orðin „velsæmi“ og „allsherjarregla“ séu nauðsynleg.
  18. Litið hefur verið á að 1. mgr. 76. greinar í núgildandi stjórnarskrá hafi tryggt fólki réttinn til heilbrigðisþjónustu.
    Brugðist við kröfu þjóðfundar:
    Skýrsla stjórnlaganefndar, s. 83: „Þá koma fram viðhorf um verndun velferðarkerfisins, jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu óháð tekjum og búsetu [...]".
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 12. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til þess að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er."
  19. Byggir á 2. mgr. 76. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 13. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „skuli barnafræðsla vera skyldubundin og öllum tiltæk án endurgjalds."
    Skyldu til að veita menntun án endurgjalds á ekki að skilja sem bann við einkaskólum.
  20. Byggir á 75. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 6. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt manna til vinnu, sem felur í sér rétt sérhvers manns til þess að hafa tækifæri til þess að afla sér lífsviðurværis með vinnu sem hann velur sér eða tekur að sér af frjálsum vilja, og munu ríkin gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja þennan rétt."
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 7. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til þess að njóta sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða sem tryggja sérstaklega [...] sanngjarnt kaup og jafnt endurgjald fyrir jafnverðmæta vinnu án nokkurrar aðgreiningar."
    Sambærilegt ákvæði er í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er þegar aðili að.
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 23. grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Allir eiga rétt til atvinnu að frjálsu vali, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða og til verndar gegn atvinnuleysi."
    Vernd gegn atvinnuleysi er í sömu grein, en er ekki sett í áfangaskjalið að sinni: „Allir eiga rétt til atvinnu að frjálsu vali, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða og til verndar gegn atvinnuleysi."
  21. Byggir á 1. mgr. 76. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 25. grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Allir eiga rétt á lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra."
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 9. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til félagslegs öryggis, þar á meðal til almannatrygginga"
    Færir stjórnarskrá til samræmis við Félagsmálasáttmála Evrópu , sem Ísland er þegar aðili að.
  22. Byggir á 72. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Litið til 14. gr. þýsku stjórnarskrárinnar, sem tengir saman eignarétt og skyldur sem honum fylgja.
    Þess eru mörg dæmi að eignarétti fylgi skyldur, svo sem á grundvelli byggingar- og skipulagslaga, vatnalaga og nábýlisréttar. Það er ekki verið að breyta inntaki eignaréttar frá því sem nú er heldur endurspegla núverandi réttarástand.
    Dregið úr mismunun á grundvelli þjóðernis, með því að fella brott sérstaka heimild til að takmarka eignarhald erlendra aðila. Ný 2. mgr. tryggir stjórnvöldum áfram þann möguleika að takmarka eignarhald.
  23. Nýtt ákvæði.
    Byggir m.a. á 1. grein þjóðminjalaga nr. 107/2001.
    Menningarverðmætum veitt sambærileg vernd þeirri sem veitt er náttúruauðlindum í tillögum nefndarinnar.
    Nánar þarf að skoða hvernig greinin snerti handritagjöf Dana.
  24. Nýtt ákvæði.
    Brugðist við kröfu þjóðfundar:
    Skýrsla stjórnlaganefndar, s. 75: „Það viðhorf var áberandi á þjóðfundi að mæla bæri fyrir um auðlindir þjóðarinnar í stjórnarskrá. Náttúruauðlindir hvort heldur í lofti, láði eða legi, skuli skilgreina sem „eign þjóðarinnar". Reglur um nýtingu auðlinda verði skýrar og horfi til komandi kynslóða og arður af nýtingu auðlinda renni að meginhluta til þjóðarinnar."
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 2. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Allar þjóðir mega, í sínu eigin markmiði, ráðstafa óhindrað náttúruauðæfum og auðlindum sínum brjóti það ekki í bága við neinar skuldbindingar sem leiðir af alþjóðlegri efnahagssamvinnu, byggðri á grundvallarreglunni um gagnkvæman ábata, og þjóðarétti. Aldrei má svipta þjóð ráðum sínum til lífsviðurværis."
  25. Nýtt ákvæði.
    Umhverfisvernd bætt við í samræmi við tillögur stjórnlaganefndar, líkt og gert er með náttúruauðlindir.
  26. Ákvæði bætt inn í mannréttindakaflann í samræmi við tillögu stjórnlaganefndar.
    Gengið lengra en stjórnlaganefnd leggur til, að því leyti að lögð er frumkvæðisskylda á hið opinbera.
    Tekið tillit til innsendra erinda.
    Þarf að skoða í samhengi við ákvörðun nefndar B um almenna samráðsskyldu stjórnvalda, að sænskri fyrirmynd.
  27. Nýtt ákvæði þar sem brugðist er við innsendum erindum og athugasemdum á heimasíðu Stjórnlagaráðs.
  28. Nýtt ákvæði í samræmi við tillögur stjórnlaganefndar.
    Þarf að skoða í samhengi við ákvörðun nefndar C um fullgildingarákvæði í utanríkismálakafla stjórnarskrárinnar.

10. ráðsfundur

Til kynningar

Mannréttindi

Ummæli:

  1. Öllum skal tryggður réttur til lífs og til að lifa með mannlegri reisn í réttlátu samfélagi. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.

  2. Allir eru jafnir fyrir lögum og skulu njóta mannréttinda án nokkurs manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.

    Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

  3. Allir skulu njóta mannhelgi og verndar gegn hvers kyns ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi, innan heimilis og utan.

  4. Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.

    Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.

  5. Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.

    Hver maður á rétt á að tjá hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.

    Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum til verndar öryggi, heilsu, réttindum eða mannorði annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

  6. Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst og skulu ráðstafanir yfirvalda í málum sem varða börn taka mið af því sem þeim er fyrir bestu.

    Barni skal tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í öllum málum sem það varðar og skal tekið réttmætt tillit til skoðana í samræmi við aldur þess og þroska.

  7. Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi.

    Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.

  8. Rétt eiga menn á að safnast saman vopnlausir. Lögreglunni er heimilt að vera við almennar samkomur.

  9. Rétt til íslensks ríkisfangs öðlast þeir sem eiga foreldri með íslenskt ríkisfang. Ríkisborgararéttur verður að öðru leyti veittur samkvæmt lögum. Engan má svipta íslenskum ríkisborgararétti.

    Íslenskum ríkisborgara verður ekki meinað að koma til landsins né verður honum vísað úr landi. Með lögum skal skipað rétti útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér, svo og fyrir hverjar sakir sé hægt að vísa þeim úr landi.

    Engum verður meinað að hverfa úr landi nema með ákvörðun dómstóla. Stöðva má þó brottför manns úr landi með lögmætri handtöku.

    Allir, sem dveljast löglega í landinu, skulu ráða búsetu sinni og vera frjálsir ferða sinna með þeim takmörkunum sem eru settar með lögum.

  10. Engan má svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum.

    Hver sá sem hefur verið sviptur frelsi á rétt á að fá að vita tafarlaust um ástæður þess.

    Hvern þann sem er handtekinn vegna gruns um refsiverða háttsemi skal án undandráttar leiða fyrir dómara. Sé hann ekki jafnskjótt látinn laus skal dómari, áður en sólarhringur er liðinn, ákveða með rökstuddum úrskurði hvort hann skuli sæta gæsluvarðhaldi. Gæsluvarðhaldi má aðeins beita fyrir sök sem fangelsisvist liggur við. Með lögum skal tryggja rétt þess sem sætir gæsluvarðhaldi til að skjóta úrskurði um það til æðra dóms. Maður skal aldrei sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn krefur.

    Hver sá sem er af öðrum ástæðum sviptur frelsi á rétt á að dómstóll kveði á um lögmæti þess svo fljótt sem verða má. Reynist frelsissvipting ólögmæt skal hann þegar látinn laus.

    Hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skal hann eiga rétt til skaðabóta.

  11. Engum verður gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð þegar hún átti sér stað. Viðurlög mega ekki verða þyngri en þá voru leyfð í lögum.

  12. Í lögum má aldrei mæla fyrir um dauðarefsingu.

    Engan má beita pyndingum né annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

    Nauðungarvinnu skal engum gert að leysa af hendi.

  13. Herskyldu má aldrei í lög leiða.

  14. Öllum ber réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Dómþing skal háð í heyranda hljóði nema dómari ákveði annað lögum samkvæmt til að gæta öryggis eða réttinda málsaðila.

    Hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.

  15. Heilbrigðisþjónusta

    Öllum skal tryggður með lögum réttur til heilbrigðisþjónustu sem miðar að líkamlegri og andlegri heilsu að hæsta marki sem unnt er.

  16. Menntun

    Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar.

    Öllum skal standa til boða grunnskólamenntun án endurgjalds.

    Menntun skal miða að fullum þroska hvers og eins, gagnrýnni hugsun og vitund um réttindi og skyldur.

    Tryggja skal með lögum frelsi vísinda, lista og æðri menntunar.

  17. Atvinna

    Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum ef almannahagsmunir krefjast.

    Í lögum skal kveða á um rétt til mannsæmandi vinnuskilyrða, sanngjarnra launa og til að semja um starfskjör og önnur réttindi tengd vinnu.

  18. Félagslegt öryggi

    Öllum skal tryggður réttur til lífsviðurværis og félagslegs öryggis.

    Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til félagslegrar aðstoðar og almannatrygginga, svo sem vegna atvinnuleysis, elli, fátæktar, fötlunar, veikinda, örorku eða sambærilegra aðstæðna.

  19. Eignarréttur

    Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir.

    Eignarrétti fylgja lögbundnar takmarkanir og skyldur. Nýting eignarréttar skal ekki ganga gegn almannahag.

  20. Menningarleg verðmæti

    Þjóðareignir sem heyra til íslenskum menningararfi, svo sem þjóðminjar og fornhandrit, má hvorki eyðileggja né afhenda til varanlegrar eignar eða afnota, selja eða veðsetja.

  21. Náttúruauðlindir

    Náttúruauðlindir Íslands eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Þær ber að nýta á sjálfbæran hátt til hagsbóta öllum landsmönnum. Enginn getur fengið þær til varanlegrar eignar eða afnota og því má aldrei selja þær eða veðsetja.

    Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds vernda auðlindirnar og geta veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar þeirra gegn fullu gjaldi og til hóflegs tíma í senn. Slík leyfi leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.

    Auðlindir hafs og hafsbotns innan íslenskrar lögsögu eru þjóðareign. Til auðlinda í þjóðareign teljast jafnframt náttúrugæði, sem ekki eru í einkaeigu, svo sem nytjastofnar, landsvæði, vatns- og virkjunarréttindi og jarðhita- og námaréttindi.

  22. Náttúra Íslands

    Náttúra Íslands er friðhelg. Hverjum og einum ber að virða hana og vernda.

    Nýtingu sameiginlegra auðlinda þjóðarinnar skal haga svo að þær skerðist ekki til langframa og réttur komandi kynslóða sé virtur.

    Öllum skal með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni og óspilltri náttúru til lands, lofts og sjávar þar sem líffræðilegri fjölbreytni er viðhaldið og fyrri spjöll bætt eftir föngum.

    Almenningi er frjálst að fara um landið eins og lög leyfa.

  23. Upplýsingaskylda og samráð

    Stjórnvöldum ber að upplýsa almenning um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það.

    Með lögum skal tryggja almenningi rétt til þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem hafa áhrif á umhverfið.

    Réttur almennings til aðildar að dómsmálum varðandi mikilvægar ákvarðanir um sameiginlegar auðlindir og umhverfi Íslands skal tryggður með lögum.

  24. Dýravernd

    Með lögum skal kveðið á um vernd dýra gegn illri meðferð og dýrategunda gegn útrýmingu.

    Við nýtingu dýrastofna og annars lífríkis skal gæta virðingar fyrir öllum lifandi verum.

  25. Skyldur samkvæmt alþjóðlegum mannréttindasamningum

    Öllum handhöfum ríkisvalds ber að virða mannréttindareglur sem bindandi eru fyrir ríkið að þjóðarétti og tryggja með lögum að eftir þeim sé farið.

    Reglur um mannréttindi njóta stjórnarskrárverndar þegar þær skuldbinda ríkið samkvæmt staðfestum milliríkjasamningi.

Skýringar frá nefnd

Greinar 1-14 voru lagðar fram til kynningar á 7. fundi Stjórnlagaráðs 5. maí 2011 og samþykktar inn í áfangaskjalið með áorðnum breytingum á 8. fundi 12. maí 2011. Greinar 15-20 eru hér lagðar fram til kynningar. Áður en þær verða endanlega afgreiddar inn í áfangaskjalið mun nefnd A taka tillit til athugasemda sem borist hafa við kaflann.

  1. Ný grein.
    Byggist m.a. á samningi um réttindi fatlaðs fólks (UN Convention on the Rights of People with Disabilities).
    Er ætlað að tryggja einstaklingum möguleika til fullrar þátttöku og virkrar aðildar í samfélaginu.
    Réttur til lífs skv. 2. grein mannréttindasáttmála Evrópu.
  2. Er 65. grein núgildandi stjórnarskrár.
    „Manngreinarálit“ er sett inn til samræmis við 26. grein alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (e. discrimination).
    Atriðum raðað í stafrófsröð á eftir orðinu „kynferði“.
    Við bætist „aldurs,“ „búsetu,“ „fötlunar“ og „kynhneigðar“ skv. tillögu í skýrslu stjórnlaganefndar. „Aldur“ og „búseta“ voru í hornklofa í skýrslu stjórnlaganefndar, hér eru orðin sett inn til umræðu.
    Við bætist „arfgerð,“ m.a. vegna erindis til nefndarinnar.
    Við bætist „stjórnmálatengsla“ til að bregðast við stöðu í þjóðfélaginu.
    „Þjóðernisuppruni“ verður „uppruni“.
    „Kynþáttur“ fellur út, enda hugtakið ekki notað lengur meðal fræðimanna.
  3. Ný grein.
    Undirstrikað hversu mikið samfélagsmein ofbeldi er.
    Var kynnt sem hluti af grein um friðhelgi einkalífs á ráðsfundi 6. maí, er nú sjálfstæð grein.
  4. Er 71. grein núgildandi stjórnarskrár, efnislega óbreytt.
    Málsgrein um mannhelgi, sem var kynnt sem hluti þessarar greinar á ráðsfundi 6. maí, gerð að sjálfstæðri grein.
  5. Er 73. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Texti einfaldaður án efnislegra breytinga.
    „Öryggi“ ætlað að ná til ríkis og almennings.
    Skoða þarf hvort orðin „siðgæði“ og „allsherjarregla“ séu nauðsynleg.
  6. Er 3. mgr. 76. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Gert að sjálfstæðri grein skv. tillögu í skýrslu stjórnlaganefndar.
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 3. og 12. greinar samnings um réttindi barnsins.
    Efnisbreytingar frá því sem kynnt var á ráðsfundi 6. maí, til að bregðast við innsendu erindi
    Unicef.
  7. Er 1. og 2. mgr. 74. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Félagafrelsi gert að sjálfstæðri grein í kjölfar umræðna á ráðsfundi 6. maí.
  8. Er 3. mgr. 74. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Fundafrelsi gert að sjálfstæðri grein í kjölfar umræðna á ráðsfundi 6. maí.
    Fellt brott, í samræmi við umræður við áfangaskjal: „Banna má mannfundi undir berum himni ef uggvænt þykir að af þeim leiði óspektir.“
  9. Er 66. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Í samræmi við núverandi löggjöf er felld brott setningin „Með lögum má þó ákveða að maður missi þann rétt ef hann öðlast með samþykki sínu ríkisfang í öðru ríki.“
    Bætt við skilgreiningu á veitingu ríkisborgararéttar, í samræmi við umræður á ráðsfundi 6. maí og við áfangaskjal. Sú tillaga er sett fram til að fá fram frekari umræðu, sem nefndin getur tekið tillit til á síðari stigum.
  10. Er 67. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Varðhald fellt út, þar sem það hefur verið aflagt sem refsiúrræði.
    Heimild dómara til að láta menn lausa gegn tryggingu felld út í kjölfar umræðna á ráðsfundi 6. maí. Heimildin þyki bjóða upp á misskilning um réttarstöðu og mismunun á grundvelli efnahags – en henni hefur aldrei verið beitt.
  11. Er 1. mgr. 69. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Texti einfaldaður án efnislegrar breytingar.
    Kanna þarf hvort þörf sé á að hverfa að einhverju leyti aftur til fyrri texta, sérstaklega hvað varðar hina fullkomnu lögjöfnun sem er sterkari í þessu ákvæði en almennum lögum.
  12. Er 68. grein og 2. mgr. 69. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Bann við herskyldu fært úr þessari grein í kjölfar umræðu á ráðsfundi 6. maí.
  13. Ný grein.
    Bætt er við banni við herskyldu, m.a. til að bregðast við kröfu þjóðfundar og innsendum erindum.
    Bann við herskyldu gert að sjálfstæðri grein í kjölfar umræðu á ráðsfundi 6. maí.
  14. Er 70. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Texti einfaldaður án efnislegrar breytingar.
    „Öryggi“ nær til ríkis og almennings.
    Skoða þarf hvort orðin „velsæmi“ og „allsherjarregla“ séu nauðsynleg.
  15. Litið hefur verið á að 1. mgr. 76. greinar í núgildandi stjórnarskrá hafi tryggt fólki réttinn til heilbrigðisþjónustu.
    Brugðist við kröfu þjóðfundar:
    Skýrsla stjórnlaganefndar, s. 83: „Þá koma fram viðhorf um verndun velferðarkerfisins, jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu óháð tekjum og búsetu [...]".
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 12. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til þess að njóta líkamlegrar og andlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er."
  16. Byggir á 2. mgr. 76. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 13. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „skuli barnafræðsla vera skyldubundin og öllum tiltæk án endurgjalds."
    Skyldu til að veita menntun án endurgjalds á ekki að skilja sem bann við einkaskólum.
  17. Byggir á 75. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 6. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt manna til vinnu, sem felur í sér rétt sérhvers manns til þess að hafa tækifæri til þess að afla sér lífsviðurværis með vinnu sem hann velur sér eða tekur að sér af frjálsum vilja, og munu ríkin gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja þennan rétt."
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 7. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til þess að njóta sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða sem tryggja sérstaklega [...] sanngjarnt kaup og jafnt endurgjald fyrir jafnverðmæta vinnu án nokkurrar aðgreiningar."
    Sambærilegt ákvæði er í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er þegar aðili að.
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 23. grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Allir eiga rétt til atvinnu að frjálsu vali, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða og til verndar gegn atvinnuleysi."
    Vernd gegn atvinnuleysi er í sömu grein, en er ekki sett í áfangaskjalið að sinni: „Allir eiga rétt til atvinnu að frjálsu vali, til sanngjarnra og hagstæðra vinnuskilyrða og til verndar gegn atvinnuleysi."
  18. Byggir á 1. mgr. 76. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 25. grein mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Allir eiga rétt á lífskjörum sem nauðsynleg eru til verndar heilsu og vellíðan þeirra sjálfra og fjölskyldu þeirra."
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 9. gr. alþjóðasamnings um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Ríki þau sem aðilar eru að samningi þessum viðurkenna rétt sérhvers manns til félagslegs öryggis, þar á meðal til almannatrygginga"
    Færir stjórnarskrá til samræmis við Félagsmálasáttmála Evrópu , sem Ísland er þegar aðili að.
  19. Byggir á 72. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Litið til 14. gr. þýsku stjórnarskrárinnar, sem tengir saman eignarétt og skyldur sem honum fylgja.
    Þess eru mörg dæmi að eignarétti fylgi skyldur, svo sem á grundvelli byggingar- og skipulagslaga, vatnalaga og nábýlisréttar. Það er ekki verið að breyta inntaki eignaréttar frá því sem nú er heldur endurspegla núverandi réttarástand.
    Dregið úr mismunun á grundvelli þjóðernis, með því að fella brott sérstaka heimild til að takmarka eignarhald erlendra aðila. Ný 2. mgr. tryggir stjórnvöldum áfram þann möguleika að takmarka eignarhald.
  20. Nýtt ákvæði.
    Byggir m.a. á 1. grein þjóðminjalaga nr. 107/2001.
    Menningarverðmætum veitt sambærileg vernd þeirri sem veitt er náttúruauðlindum í tillögum nefndarinnar.
    Nánar þarf að skoða hvernig greinin snerti handritagjöf Dana.
  21. Nýtt ákvæði.
    Brugðist við kröfu þjóðfundar:
    Skýrsla stjórnlaganefndar, s. 75: „Það viðhorf var áberandi á þjóðfundi að mæla bæri fyrir um auðlindir þjóðarinnar í stjórnarskrá. Náttúruauðlindir hvort heldur í lofti, láði eða legi, skuli skilgreina sem „eign þjóðarinnar". Reglur um nýtingu auðlinda verði skýrar og horfi til komandi kynslóða og arður af nýtingu auðlinda renni að meginhluta til þjóðarinnar."
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 2. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi, sem Ísland er þegar aðili að:
    „Allar þjóðir mega, í sínu eigin markmiði, ráðstafa óhindrað náttúruauðæfum og auðlindum sínum brjóti það ekki í bága við neinar skuldbindingar sem leiðir af alþjóðlegri efnahagssamvinnu, byggðri á grundvallarreglunni um gagnkvæman ábata, og þjóðarétti. Aldrei má svipta þjóð ráðum sínum til lífsviðurværis."
  22. Nýtt ákvæði.
    Umhverfisvernd bætt við í samræmi við tillögur stjórnlaganefndar, líkt og gert er með náttúruauðlindir.
  23. Ákvæði bætt inn í mannréttindakaflann í samræmi við tillögu stjórnlaganefndar.
    Gengið lengra en stjórnlaganefnd leggur til, að því leyti að lögð er frumkvæðisskylda á hið opinbera.
    Tekið tillit til innsendra erinda.
    Þarf að skoða í samhengi við ákvörðun nefndar B um almenna samráðsskyldu stjórnvalda, að sænskri fyrirmynd.
  24. Nýtt ákvæði þar sem brugðist er við innsendum erindum og athugasemdum á heimasíðu Stjórnlagaráðs.
  25. Nýtt ákvæði í samræmi við tillögur stjórnlaganefndar.
    Þarf að skoða í samhengi við ákvörðun nefndar C um fullgildingarákvæði í utanríkismálakafla stjórnarskrárinnar.

9. ráðsfundur

Mannréttindi

Ummæli:

  1. Öllum skal tryggður réttur til lífs og til að lifa með mannlegri reisn í réttlátu samfélagi. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.

  2. Allir eru jafnir fyrir lögum og skulu njóta mannréttinda án nokkurs manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.

    Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

  3. Allir skulu njóta mannhelgi og verndar gegn hvers kyns ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi, innan heimilis og utan.

  4. Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.

    Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.

  5. Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.

    Hver maður á rétt á að tjá hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.

    Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum til verndar öryggi, heilsu, réttindum eða mannorði annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

  6. Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst og skulu ráðstafanir yfirvalda í málum sem varða börn taka mið af því sem þeim er fyrir bestu.

    Barni skal tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í öllum málum sem það varðar og skal tekið réttmætt tillit til skoðana í samræmi við aldur þess og þroska.

  7. Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi.

    Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.

  8. Rétt eiga menn á að safnast saman vopnlausir. Lögreglunni er heimilt að vera við almennar samkomur.

  9. Rétt til íslensks ríkisfangs öðlast þeir sem eiga foreldri með íslenskt ríkisfang. Ríkisborgararéttur verður að öðru leyti veittur samkvæmt lögum. Engan má svipta íslenskum ríkisborgararétti.

    Íslenskum ríkisborgara verður ekki meinað að koma til landsins né verður honum vísað úr landi. Með lögum skal skipað rétti útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér, svo og fyrir hverjar sakir sé hægt að vísa þeim úr landi.

    Engum verður meinað að hverfa úr landi nema með ákvörðun dómstóla. Stöðva má þó brottför manns úr landi með lögmætri handtöku.

    Allir, sem dveljast löglega í landinu, skulu ráða búsetu sinni og vera frjálsir ferða sinna með þeim takmörkunum sem eru settar með lögum.

  10. Engan má svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum.

    Hver sá sem hefur verið sviptur frelsi á rétt á að fá að vita tafarlaust um ástæður þess.

    Hvern þann sem er handtekinn vegna gruns um refsiverða háttsemi skal án undandráttar leiða fyrir dómara. Sé hann ekki jafnskjótt látinn laus skal dómari, áður en sólarhringur er liðinn, ákveða með rökstuddum úrskurði hvort hann skuli sæta gæsluvarðhaldi. Gæsluvarðhaldi má aðeins beita fyrir sök sem fangelsisvist liggur við. Með lögum skal tryggja rétt þess sem sætir gæsluvarðhaldi til að skjóta úrskurði um það til æðra dóms. Maður skal aldrei sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn krefur.

    Hver sá sem er af öðrum ástæðum sviptur frelsi á rétt á að dómstóll kveði á um lögmæti þess svo fljótt sem verða má. Reynist frelsissvipting ólögmæt skal hann þegar látinn laus.

    Hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skal hann eiga rétt til skaðabóta.

  11. Engum verður gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð þegar hún átti sér stað. Viðurlög mega ekki verða þyngri en þá voru leyfð í lögum.

  12. Í lögum má aldrei mæla fyrir um dauðarefsingu.

    Engan má beita pyndingum né annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

    Nauðungarvinnu skal engum gert að leysa af hendi.

  13. Herskyldu má aldrei í lög leiða.

  14. Öllum ber réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Dómþing skal háð í heyranda hljóði nema dómari ákveði annað lögum samkvæmt til að gæta öryggis eða réttinda málsaðila.

    Hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.

Skýringar frá nefnd

Tillögurnar sem nú eru lagðar fram hafa tekið breytingum frá því sem kynnt var á 7. ráðsfundi, þar sem nefnd A hefur tekið tillit til eftirfarandi sjónarmiða eftir því sem við á:

  • umræður á ráðsfundi 6. maí
  • breytingartillögur fulltrúa í Stjórnlagaráði
  • innsend erindi
  • athugasemdir við áfangaskjal
  1. Ný grein.
    Byggist m.a. á samningi um réttindi fatlaðs fólks (UN Convention on the Rights of People with Disabilities).
    Er ætlað að tryggja einstaklingum möguleika til fullrar þátttöku og virkrar aðildar í samfélaginu.
    Réttur til lífs skv. 2. grein mannréttindasáttmála Evrópu.
  2. Er 65. grein núgildandi stjórnarskrár.
    „Manngreinarálit“ er sett inn til samræmis við 26. grein alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (e. discrimination).
    Atriðum raðað í stafrófsröð á eftir orðinu „kynferði“.
    Við bætist „aldurs,“ „búsetu,“ „fötlunar“ og „kynhneigðar“ skv. tillögu í skýrslu stjórnlaganefndar. „Aldur“ og „búseta“ voru í hornklofa í skýrslu stjórnlaganefndar, hér eru orðin sett inn til umræðu.
    Við bætist „arfgerð,“ m.a. vegna erindis til nefndarinnar.
    Við bætist „stjórnmálatengsla“ til að bregðast við stöðu í þjóðfélaginu.
    „Þjóðernisuppruni“ verður „uppruni“.
    „Kynþáttur“ fellur út, enda hugtakið ekki notað lengur meðal fræðimanna.
  3. Ný grein.
    Undirstrikað hversu mikið samfélagsmein ofbeldi er.
    Var kynnt sem hluti af grein um friðhelgi einkalífs á ráðsfundi 6. maí, er nú sjálfstæð grein.
  4. Er 71. grein núgildandi stjórnarskrár, efnislega óbreytt.
    Málsgrein um mannhelgi, sem var kynnt sem hluti þessarar greinar á ráðsfundi 6. maí, gerð að sjálfstæðri grein.
  5. Er 73. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Texti einfaldaður án efnislegra breytinga.
    „Öryggi“ ætlað að ná til ríkis og almennings.
    Skoða þarf hvort orðin „siðgæði“ og „allsherjarregla“ séu nauðsynleg.
  6. Er 3. mgr. 76. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Gert að sjálfstæðri grein skv. tillögu í skýrslu stjórnlaganefndar.
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 3. og 12. greinar samnings um réttindi barnsins.
    Efnisbreytingar frá því sem kynnt var á ráðsfundi 6. maí, til að bregðast við innsendu erindi
    Unicef.
  7. Er 1. og 2. mgr. 74. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Félagafrelsi gert að sjálfstæðri grein í kjölfar umræðna á ráðsfundi 6. maí.
  8. Er 3. mgr. 74. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Fundafrelsi gert að sjálfstæðri grein í kjölfar umræðna á ráðsfundi 6. maí.
    Fellt brott, í samræmi við umræður við áfangaskjal: „Banna má mannfundi undir berum himni ef uggvænt þykir að af þeim leiði óspektir.“
  9. Er 66. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Í samræmi við núverandi löggjöf er felld brott setningin „Með lögum má þó ákveða að maður missi þann rétt ef hann öðlast með samþykki sínu ríkisfang í öðru ríki.“
    Bætt við skilgreiningu á veitingu ríkisborgararéttar, í samræmi við umræður á ráðsfundi 6. maí og við áfangaskjal. Sú tillaga er sett fram til að fá fram frekari umræðu, sem nefndin getur tekið tillit til á síðari stigum.
  10. Er 67. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Varðhald fellt út, þar sem það hefur verið aflagt sem refsiúrræði.
    Heimild dómara til að láta menn lausa gegn tryggingu felld út í kjölfar umræðna á ráðsfundi 6. maí. Heimildin þyki bjóða upp á misskilning um réttarstöðu og mismunun á grundvelli efnahags – en henni hefur aldrei verið beitt.
  11. Er 1. mgr. 69. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Texti einfaldaður án efnislegrar breytingar.
    Kanna þarf hvort þörf sé á að hverfa að einhverju leyti aftur til fyrri texta, sérstaklega hvað varðar hina fullkomnu lögjöfnun sem er sterkari í þessu ákvæði en almennum lögum.
  12. Er 68. grein og 2. mgr. 69. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Bann við herskyldu fært úr þessari grein í kjölfar umræðu á ráðsfundi 6. maí.
  13. Ný grein.
    Bætt er við banni við herskyldu, m.a. til að bregðast við kröfu þjóðfundar og innsendum erindum.
    Bann við herskyldu gert að sjálfstæðri grein í kjölfar umræðu á ráðsfundi 6. maí.
  14. Er 70. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Texti einfaldaður án efnislegrar breytingar.
    „Öryggi“ nær til ríkis og almennings.
    Skoða þarf hvort orðin „velsæmi“ og „allsherjarregla“ séu nauðsynleg.

8. ráðsfundur

Samþykkt í áfangaskjal

Mannréttindi

Ummæli:

  1. Öllum skal tryggður réttur til lífs og til að lifa með mannlegri reisn í réttlátu samfélagi. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.

  2. Allir eru jafnir fyrir lögum og skulu njóta mannréttinda án nokkurs manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis, aldurs, arfgerðar, búsetu, efnahags, fötlunar, kynhneigðar, litarháttar, skoðana, stjórnmálatengsla, trúarbragða, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.

    Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.

  3. Allir skulu njóta mannhelgi og verndar gegn hvers kyns ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi, innan heimilis og utan.

  4. Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.

    Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.

    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.

  5. Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.

    Hver maður á rétt á að tjá hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.

    Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum til verndar öryggi, heilsu, réttindum eða mannorði annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

  6. Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst og skulu ráðstafanir yfirvalda í málum sem varða börn taka mið af því sem þeim er fyrir bestu.

    Barni skal tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í öllum málum sem það varðar og skal tekið réttmætt tillit til skoðana í samræmi við aldur þess og þroska.

  7. Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi.

    Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.

  8. Rétt eiga menn á að safnast saman vopnlausir. Lögreglunni er heimilt að vera við almennar samkomur.

  9. Rétt til íslensks ríkisfangs öðlast þeir sem eiga foreldri með íslenskt ríkisfang. Ríkisborgararéttur verður að öðru leyti veittur samkvæmt lögum. Engan má svipta íslenskum ríkisborgararétti.

    Íslenskum ríkisborgara verður ekki meinað að koma til landsins né verður honum vísað úr landi. Með lögum skal skipað rétti útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér, svo og fyrir hverjar sakir sé hægt að vísa þeim úr landi.

    Engum verður meinað að hverfa úr landi nema með ákvörðun dómstóla. Stöðva má þó brottför manns úr landi með lögmætri handtöku.

    Allir, sem dveljast löglega í landinu, skulu ráða búsetu sinni og vera frjálsir ferða sinna með þeim takmörkunum sem eru settar með lögum.

  10. Engan má svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum.

    Hver sá sem hefur verið sviptur frelsi á rétt á að fá að vita tafarlaust um ástæður þess.

    Hvern þann sem er handtekinn vegna gruns um refsiverða háttsemi skal án undandráttar leiða fyrir dómara. Sé hann ekki jafnskjótt látinn laus skal dómari, áður en sólarhringur er liðinn, ákveða með rökstuddum úrskurði hvort hann skuli sæta gæsluvarðhaldi. Gæsluvarðhaldi má aðeins beita fyrir sök sem fangelsisvist liggur við. Með lögum skal tryggja rétt þess sem sætir gæsluvarðhaldi til að skjóta úrskurði um það til æðra dóms. Maður skal aldrei sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn krefur.

    Hver sá sem er af öðrum ástæðum sviptur frelsi á rétt á að dómstóll kveði á um lögmæti þess svo fljótt sem verða má. Reynist frelsissvipting ólögmæt skal hann þegar látinn laus.

    Hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skal hann eiga rétt til skaðabóta.

  11. Engum verður gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð þegar hún átti sér stað. Viðurlög mega ekki verða þyngri en þá voru leyfð í lögum.

  12. Í lögum má aldrei mæla fyrir um dauðarefsingu.

    Engan má beita pyndingum né annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

    Nauðungarvinnu skal engum gert að leysa af hendi.

  13. Herskyldu má aldrei í lög leiða.

  14. Öllum ber réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Dómþing skal háð í heyranda hljóði nema dómari ákveði annað lögum samkvæmt til að gæta öryggis eða réttinda málsaðila.

    Hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.

Skýringar frá nefnd

Tillögurnar sem nú eru lagðar fram hafa tekið breytingum frá því sem kynnt var á 7. ráðsfundi, þar sem nefnd A hefur tekið tillit til eftirfarandi sjónarmiða eftir því sem við á:

  • umræður á ráðsfundi 6. maí
  • breytingartillögur fulltrúa í Stjórnlagaráði
  • innsend erindi
  • athugasemdir við áfangaskjal
  1. Ný grein.
    Byggist m.a. á samningi um réttindi fatlaðs fólks (UN Convention on the Rights of People with Disabilities).
    Er ætlað að tryggja einstaklingum möguleika til fullrar þátttöku og virkrar aðildar í samfélaginu.
    Réttur til lífs skv. 2. grein mannréttindasáttmála Evrópu.
  2. Er 65. grein núgildandi stjórnarskrár.
    „Manngreinarálit“ er sett inn til samræmis við 26. grein alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (e. discrimination).
    Atriðum raðað í stafrófsröð á eftir orðinu „kynferði“.
    Við bætist „aldurs,“ „búsetu,“ „fötlunar“ og „kynhneigðar“ skv. tillögu í skýrslu stjórnlaganefndar. „Aldur“ og „búseta“ voru í hornklofa í skýrslu stjórnlaganefndar, hér eru orðin sett inn til umræðu.
    Við bætist „arfgerð,“ m.a. vegna erindis til nefndarinnar.
    Við bætist „stjórnmálatengsla“ til að bregðast við stöðu í þjóðfélaginu.
    „Þjóðernisuppruni“ verður „uppruni“.
    „Kynþáttur“ fellur út, enda hugtakið ekki notað lengur meðal fræðimanna.
  3. Ný grein.
    Undirstrikað hversu mikið samfélagsmein ofbeldi er.
    Var kynnt sem hluti af grein um friðhelgi einkalífs á ráðsfundi 6. maí, er nú sjálfstæð grein.
  4. Er 71. grein núgildandi stjórnarskrár, efnislega óbreytt.
    Málsgrein um mannhelgi, sem var kynnt sem hluti þessarar greinar á ráðsfundi 6. maí, gerð að sjálfstæðri grein.
  5. Er 73. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Texti einfaldaður án efnislegra breytinga.
    „Öryggi“ ætlað að ná til ríkis og almennings.
    Skoða þarf hvort orðin „siðgæði“ og „allsherjarregla“ séu nauðsynleg.
  6. Er 3. mgr. 76. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Gert að sjálfstæðri grein skv. tillögu í skýrslu stjórnlaganefndar.
    Færir stjórnarskrá til samræmis við 3. og 12. greinar samnings um réttindi barnsins.
    Efnisbreytingar frá því sem kynnt var á ráðsfundi 6. maí, til að bregðast við innsendu erindi
    Unicef.
  7. Er 1. og 2. mgr. 74. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Félagafrelsi gert að sjálfstæðri grein í kjölfar umræðna á ráðsfundi 6. maí.
  8. Er 3. mgr. 74. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Fundafrelsi gert að sjálfstæðri grein í kjölfar umræðna á ráðsfundi 6. maí.
    Fellt brott, í samræmi við umræður við áfangaskjal: „Banna má mannfundi undir berum himni ef uggvænt þykir að af þeim leiði óspektir.“
  9. Er 66. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Í samræmi við núverandi löggjöf er felld brott setningin „Með lögum má þó ákveða að maður missi þann rétt ef hann öðlast með samþykki sínu ríkisfang í öðru ríki.“
    Bætt við skilgreiningu á veitingu ríkisborgararéttar, í samræmi við umræður á ráðsfundi 6. maí og við áfangaskjal. Sú tillaga er sett fram til að fá fram frekari umræðu, sem nefndin getur tekið tillit til á síðari stigum.
  10. Er 67. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Varðhald fellt út, þar sem það hefur verið aflagt sem refsiúrræði.
    Heimild dómara til að láta menn lausa gegn tryggingu felld út í kjölfar umræðna á ráðsfundi 6. maí. Heimildin þyki bjóða upp á misskilning um réttarstöðu og mismunun á grundvelli efnahags – en henni hefur aldrei verið beitt.
  11. Er 1. mgr. 69. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Texti einfaldaður án efnislegrar breytingar.
    Kanna þarf hvort þörf sé á að hverfa að einhverju leyti aftur til fyrri texta, sérstaklega hvað varðar hina fullkomnu lögjöfnun sem er sterkari í þessu ákvæði en almennum lögum.
  12. Er 68. grein og 2. mgr. 69. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Bann við herskyldu fært úr þessari grein í kjölfar umræðu á ráðsfundi 6. maí.
  13. Ný grein.
    Bætt er við banni við herskyldu, m.a. til að bregðast við kröfu þjóðfundar og innsendum erindum.
    Bann við herskyldu gert að sjálfstæðri grein í kjölfar umræðu á ráðsfundi 6. maí.
  14. Er 70. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Texti einfaldaður án efnislegrar breytingar.
    „Öryggi“ nær til ríkis og almennings.
    Skoða þarf hvort orðin „velsæmi“ og „allsherjarregla“ séu nauðsynleg.

7. ráðsfundur

Til kynningar

Mannréttindi

Ummæli:

  1. Allir eru jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án manngreinarálits, svo sem vegna kynferðis, [aldurs,] arfgerðar, [búsetu,] efnahags, fötlunar, kynhneigðar, litarháttar, skoðana, [stjórnmála,] trúarbragða, uppruna, ætternis og stöðu að öðru leyti.

    Konur og karlar njóta jafns réttar í hvívetna.

  2. Öllum skulu tryggð tækifæri til að lifa með mannlegri reisn í samfélaginu. Margbreytileiki mannlífsins skal virtur í hvívetna.

  3. Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar.

    Hver maður á rétt á að tjá hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.

    Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum til verndar öryggi, heilsu, réttindum eða mannorði annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.

  4. Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu.

    Allir skulu njóta mannhelgi og verndar gegn hvers kyns ofbeldi, svo sem kynferðisofbeldi, hvort heldur innan heimilis eða utan.

    Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns.

    Þrátt fyrir ákvæði þessarar greinar má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.

  5. Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst, þar á meðal réttur til fjölskyldulífs.

    Börn eiga rétt til samráðs um ákvarðanir um eigin málefni í samræmi við aldur þeirra og þroska.

  6. Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi.

    Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra.

    Rétt eiga menn á að safnast saman vopnlausir. Lögreglunni er heimilt að vera við almennar samkomur. Banna má mannfundi undir berum himni ef uggvænt þykir að af þeim leiði óspektir.

  7. Engan má svipta íslenskum ríkisborgararétti. Útlendingi verður aðeins veittur íslenskur ríkisborgararéttur samkvæmt lögum.

    Íslenskum ríkisborgara verður ekki meinað að koma til landsins né verður honum vísað úr landi. Með lögum skal skipað rétti útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér, svo og fyrir hverjar sakir sé hægt að vísa þeim úr landi.

    Engum verður meinað að hverfa úr landi nema með ákvörðun dómstóla. Stöðva má þó brottför manns úr landi með lögmætri handtöku.

    Allir, sem dveljast löglega í landinu, skulu ráða búsetu sinni og vera frjálsir ferða sinna með þeim takmörkunum sem eru settar með lögum.

  8. Engan má svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum.

    Hver sá sem hefur verið sviptur frelsi á rétt á að fá að vita tafarlaust um ástæður þess.

    Hvern þann sem er handtekinn vegna gruns um refsiverða háttsemi skal án undandráttar leiða fyrir dómara. Sé hann ekki jafnskjótt látinn laus skal dómari, áður en sólarhringur er liðinn, ákveða með rökstuddum úrskurði hvort hann skuli sæta gæsluvarðhaldi. Gæsluvarðhaldi má aðeins beita fyrir sök sem  fangelsisvist liggur við. Með lögum skal tryggja rétt þess sem sætir gæsluvarðhaldi til að skjóta úrskurði um það til æðra dóms. Maður skal aldrei sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn krefur[, en telji dómari fært að láta hann lausan gegn tryggingu skal ákveða í dómsúrskurði hver hún eigi að vera].

    Hver sá sem er af öðrum ástæðum sviptur frelsi á rétt á að dómstóll kveði á um lögmæti þess svo fljótt sem verða má. Reynist frelsissvipting ólögmæt skal hann þegar látinn laus.

    Hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skal hann eiga rétt til skaðabóta.

  9. Engum verður gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð þegar hún átti sér stað. Viðurlög mega ekki verða þyngri en leyfð voru þá í lögum.

  10. Í lögum má aldrei mæla fyrir um dauðarefsingu.

    Engan má beita pyndingum né annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu.

    Nauðungarvinnu skal engum gert að leysa af hendi.

    Herskyldu má aldrei í lög leiða.

  11. Öllum ber réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Dómþing skal háð í heyranda hljóði nema dómari ákveði annað lögum samkvæmt til að gæta öryggis eða réttinda málsaðila.

    Hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.

 

Skýringar frá nefnd

Nefnd A leggur hér til ellefu fyrstu greinar nýs mannréttindakafla. Nefndin hefur ekki fjallað um öll ákvæði kaflans, þannig að enn vantar viss ákvæði – t.a.m. ákvæði um eignarrétt. Slíkt ber ekki að skilja sem að ákveðið hafi verið að fella ákvæðin úr gildi.

Lagt er til að vægi mannréttinda sé aukið til muna, með því að færa aftasta kafla stjórnarskrárinnar fremst í áfangaskjalið.

Með þessu telur nefnd A komið til móts við skýra kröfu þjóðfundar og að betur endurspeglist sú frumskylda ríkisvaldsins að verja þá einstaklinga sem í landinu búa gegn hvers kyns misrétti. Uppröðun og efnislegt innihald kaflans mun taka breytingum á síðari stigum.

Skýringar við greinar:

  1. Er 65. grein núgildandi stjórnarskrár.
    „Allir skulu jafnir fyrir lögum“ verður að „Allir eru jafnir fyrir lögum“, enda á þetta ekki að vera
    fjarlægt markmið löggjafans, heldur staðreynd á hverjum tíma.
    „Manngreinarálit“ er sett inn til samræmis við 26. grein alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi (e. discrimination).
    Atriðum raðað í stafrófsröð á eftir orðinu „kynferði“.
    „Kynþáttur“ fellur út, enda hugtakið ekki notað lengur meðal fræðimanna.
    „Þjóðernisuppruni“ verður „uppruni“.
    Við bætist „fötlun“ og „kynhneigð,“ skv. tillögu í skýrslu stjórnlaganefndar.
    Við bætist „arfgerð,“ m.a. vegna erindis til nefndarinnar.
    Til skoðunar er að bæta við „aldri“ og „búsetu,“ skv. tillögu í skýrslu stjórnlaganefndar.
    Til skoðunar er að bæta við „stjórnmálum“.
    Núgildandi stjórnarskrá fjallar um skoðanir og trúarbrögð, þar eð mismunun vegna trúar viðgengst víða um lönd. Mismunun á grundvelli stjórnmála tíðkast enn á Íslandi.
  2. Ný grein.
    Byggir m.a. á samningi um réttindi fatlaðs fólks (UN Convention on the Rights of People with
    Disabilities).
    Er ætlað að tryggja einstaklingum möguleika til fullrar þátttöku og virkrar aðildar í samfélaginu.
    Til skoðunar að inntak greinar eigi frekar heima í aðfaraorðum stjórnarskrárinnar.
    Til skoðunar að bæta við rétti til lífs.
    Orðalag þarf að slípa til.
  3. Er 73. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Texti einfaldaður án efnislegrar breytingar.
    „Öryggi“ nær til ríkis og almennings.
  4. Bætt er við vernd gegn ofbeldi og kynferðislegt ofbeldi sérstaklega tiltekið. Með þessu er undirstrikað um hversu mikið samfélagsmein er að ræða og að frelsi undan ofbeldi teljist hluti af friðhelgi einkalífsins.
    Til skoðunar er að sameina nokkur textabrot sem snúa að mannhelgi í sérstaka grein.
  5. Er 3. mgr. 76. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Í skýrslu stjórnlaganefndar er lagt til að í stjórnarskrá sé sérstök grein um málefni barna.
    Færir stjórnarskrá til samræmis við samning SÞ um réttindi barnsins.
    Skoða þarf hverja þessi grein snertir sérstaklega, þ.e. hvort ábyrgðin liggi eingöngu hjá ríkinu, eða
    jafnframt hjá einstaklingum.
  6. Er 74. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Flutt óbreytt í áfangaskjalið sem stendur, þótt nefndin telji ástæðu til lagfæringa.
    Til skoðunar að tala um „ofbeldi“ í staðinn fyrir „óspektir“ og slípa orðalag að öðru leyti.
    Til skoðunar er að skipta greininni í tvennt; gera sjálfstæðar greinar um félagafrelsi annars vegar og fundafrelsi hins vegar.
  7. Er 66. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Í samræmi við núverandi löggjöf er felld brott setningin „Með lögum má þó ákveða að maður missi þann rétt ef hann öðlast með samþykki sínu ríkisfang í öðru ríki.“
    Til skoðunar er að tiltaka sérstaklega hvernig fólk verði ríkisborgarar, en núgildandi grein fjallar ekki um það.
  8. Er 67. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Breytt lítillega, til að bregðast við því að varðhald hefur verið fellt út sem refsiúrræði.
    Til skoðunar er að fella brott heimild dómara til að láta menn lausa gegn tryggingu, en sú heimild hefur sjaldan eða aldrei verið nýtt. Rætt hefur verið hvort önnur úrræði, svo sem farbann, nægi.
  9. Er 1. mgr. 69. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Texti einfaldaður án efnislegrar breytingar.
  10. Er 68. grein og 2. mgr. 69. greinar núgildandi stjórnarskrár.
    Bætt er við banni við herskyldu, m.a. til að bregðast við kröfu þjóðfundar og innsendum erindum.
  11. Er 70. grein núgildandi stjórnarskrár.
    Texti einfaldaður án efnislegrar breytingar.
    „Öryggi“ nær til ríkis og almennings.

4. ráðsfundur - Núgildandi

Mannréttindi

Ummæli:

65. gr. [Allir skulu vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti. Konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna.]1) 1)L. 97/1995, 3. gr.

66. gr. [Engan má svipta íslenskum ríkisborgararétti. Með lögum má þó ákveða að maður missi þann rétt ef hann öðlast með samþykki sínu ríkisfang í öðru ríki. Útlendingi verður aðeins veittur íslenskur ríkisborgararéttur samkvæmt lögum. Íslenskum ríkisborgara verður ekki meinað að koma til landsins né verður honum vísað úr landi. Með lögum skal skipað rétti útlendinga til að koma til landsins og dveljast hér, svo og fyrir hverjar sakir sé hægt að vísa þeim úr landi. Engum verður meinað að hverfa úr landi nema með ákvörðun dómara. Stöðva má þó brottför manns úr landi með lögmætri handtöku. Allir, sem dveljast löglega í landinu, skulu ráða búsetu sinni og vera frjálsir ferða sinna með þeim takmörkunum sem eru settar með lögum.]1) 1)L. 97/1995, 4. gr.

67. gr. [Engan má svipta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum. Hver sá sem hefur verið sviptur frelsi á rétt á að fá að vita tafarlaust um ástæður þess. Hvern þann sem er handtekinn vegna gruns um refsiverða háttsemi skal án undandráttar leiða fyrir dómara. Sé hann ekki jafnskjótt látinn laus skal dómari, áður en sólarhringur er liðinn, ákveða með rökstuddum úrskurði hvort hann skuli sæta gæsluvarðhaldi. Gæsluvarðhaldi má aðeins beita fyrir sök sem þyngri refsing liggur við en fésekt eða varðhald. Með lögum skal tryggja rétt þess sem sætir gæsluvarðhaldi til að skjóta úrskurði um það til æðra dóms. Maður skal aldrei sæta gæsluvarðhaldi lengur en nauðsyn krefur, en telji dómari fært að láta hann lausan gegn tryggingu skal ákveða í dómsúrskurði hver hún eigi að vera. Hver sá sem er af öðrum ástæðum sviptur frelsi á rétt á að dómstóll kveði á um lögmæti þess svo fljótt sem verða má. Reynist frelsissvipting ólögmæt skal hann þegar látinn laus. Hafi maður verið sviptur frelsi að ósekju skal hann eiga rétt til skaðabóta.]1) 1)L. 97/1995, 5. gr.

68. gr. [Engan má beita pyndingum né annarri ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu. Nauðungarvinnu skal engum gert að leysa af hendi.]1) 1)L. 97/1995, 6. gr.

69. gr. [Engum verður gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað eða má fullkomlega jafna til slíkrar háttsemi. Viðurlög mega ekki verða þyngri en heimiluð voru í lögum þá er háttsemin átti sér stað. Í lögum má aldrei mæla fyrir um dauðarefsingu.]1) 1)L. 97/1995, 7. gr.

70. gr. [Öllum ber réttur til að fá úrlausn um réttindi sín og skyldur eða um ákæru á hendur sér um refsiverða háttsemi með réttlátri málsmeðferð innan hæfilegs tíma fyrir óháðum og óhlutdrægum dómstóli. Dómþing skal háð í heyranda hljóði nema dómari ákveði annað lögum samkvæmt til að gæta velsæmis, allsherjarreglu, öryggis ríkisins eða hagsmuna málsaðila. Hver sá sem er borinn sökum um refsiverða háttsemi skal talinn saklaus þar til sekt hans hefur verið sönnuð.]1) 1)L. 97/1995, 8. gr.

71. gr. [Allir skulu njóta friðhelgi einkalífs, heimilis og fjölskyldu. Ekki má gera líkamsrannsókn eða leit á manni, leit í húsakynnum hans eða munum, nema samkvæmt dómsúrskurði eða sérstakri lagaheimild. Það sama á við um rannsókn á skjölum og póstsendingum, símtölum og öðrum fjarskiptum, svo og hvers konar sambærilega skerðingu á einkalífi manns. Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. má með sérstakri lagaheimild takmarka á annan hátt friðhelgi einkalífs, heimilis eða fjölskyldu ef brýna nauðsyn ber til vegna réttinda annarra.]1) 1)L. 97/1995, 9. gr.

72. gr. [Eignarrétturinn er friðhelgur. Engan má skylda til að láta af hendi eign sína nema almenningsþörf krefji. Þarf til þess lagafyrirmæli og komi fullt verð fyrir. Með lögum má takmarka rétt erlendra aðila til að eiga fasteignaréttindi eða hlut í atvinnufyrirtæki hér á landi.]1) 1)L. 97/1995, 10. gr.

73. gr. [Allir eru frjálsir skoðana sinna og sannfæringar. Hver maður á rétt á að láta í ljós hugsanir sínar, en ábyrgjast verður hann þær fyrir dómi. Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða. Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.]1) 1)L. 97/1995, 11. gr.

74. gr. [Rétt eiga menn á að stofna félög í sérhverjum löglegum tilgangi, þar með talin stjórnmálafélög og stéttarfélög, án þess að sækja um leyfi til þess. Félag má ekki leysa upp með ráðstöfun stjórnvalds. Banna má þó um sinn starfsemi félags sem er talið hafa ólöglegan tilgang, en höfða verður þá án ástæðulausrar tafar mál gegn því til að fá því slitið með dómi. Engan má skylda til aðildar að félagi. Með lögum má þó kveða á um slíka skyldu ef það er nauðsynlegt til að félag geti sinnt lögmæltu hlutverki vegna almannahagsmuna eða réttinda annarra. Rétt eiga menn á að safnast saman vopnlausir. Lögreglunni er heimilt að vera við almennar samkomur. Banna má mannfundi undir berum himni ef uggvænt þykir að af þeim leiði óspektir.]1) 1)L. 97/1995, 12. gr.

75. gr. [Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Þessu frelsi má þó setja skorður með lögum, enda krefjist almannahagsmunir þess. Í lögum skal kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu.]1) 1)L. 97/1995, 13. gr.

76. gr. [Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika. Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Börnum skal tryggð í lögum sú vernd og umönnun sem velferð þeirra krefst.]1) 1)L. 97/1995, 14. gr.